27.04.1946
Efri deild: 115. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 123 í C-deild Alþingistíðinda. (4136)

135. mál, atvinnudeild háskólans

Eiríkur Einarsson:

Ég vil taka það fram út af því, sem nú hefur verið sagt um þetta nál, að mér er kunnugt um vilja og afstöðu hv. form. n., en sú vitneskja hvetur mig ekki til þess að taka við málinu aftur. Hins vegar er það, að þótt þessi hv. þm., sem nú er veikur, segi sitt álit í síma, þá er vitanlega ekki hægt að flytja skoðun hans með þeim hætti hér inn á Alþ. Verður í því efni að hlíta nokkuð öðrum reglum en þegar boð eru send bæja á milli. En þessar kringumstæður, að form. n. er með ákveðna skoðun heima hjá sér, en getur ekki mætt, hvetja mig til að mæla með því, að málinu verði vísað til annarrar n.