27.04.1946
Sameinað þing: 41. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í D-deild Alþingistíðinda. (4140)

234. mál, fjárskipti

Frsm. meiri hl. (Björn Kristjánsson):

Herra forseti. Aðeins stutt aths. út af ræðu hv. þm. Barð. Í fyrsta lagi virðist þessi heimild um almenn fjárskipti óþörf, þar eð í l. frá 1941 hefur ráðh. þessa heimild. En í þessu einstaka tilfelli hefði hann kannske viljað hafa þingvilja bak við sig. Í l. segir svo, með leyfi hæstv. forseta : „Nú hefur landbrh. ákveðið, að útrýming og fjárskipti skuli fram fara í einstöku héraði, samkvæmt ósk lögmæts meiri hluta fjáreigenda á því svæði og sauðfjársjúkdómanefnd telur öruggt, að hægt verði að útvega hæfilega margt af ósýktu fé, til fjárskiptanna, og skal hún þá tilkynna framkvæmdastjóra fjárskiptanna, hvenær þau skuli fara fram. Sauðfjársjúkdómanefnd undirbýr útrýmingu og fjárskipti í samráði við framkvæmdastjóra fjárskiptanna í hlutaðeigandi héraði.“

Það virðist auðsætt af þessu, að ráðh. hafi þessa heimild. Ég vil og segja það út af því, sem hv. þm. Barð. sagði um að heimila aðeins 240 þús. kr. til þess á þessu ári, að það er sama og að eyðileggja málið. Þetta 240 þús. kr. framlag næmi aðeins kostnaðinum við flutning fjárins, og engar sveitir legðu út í þessar aðgerðir nema bætur fengjust í staðinn. Ég vil segja það, að þessi till. hv. form. fjvn., um að veita almenna heimild til fjárskipta, er hvorki viðkunnanleg né þörf, því ég sé ekki betur en ráðh. hafi hana fyrir.

Viðvíkjandi þeim ummælum hv. þm. Barð., þar sem hann vitnar í visst atriði í umsögn sauðfjársjúkdómanefndar, að hætta sé á, að fé fari á milli, þá tel ég, að það auki einmitt nauðsynina. Austan Héraðsvatna og í Saurbæjarhreppi er ósýkt svæði, og hættan er meiri þegar sýkt svæði er í námunda.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta, en meiri hl. n. leggur til, að till. verði samþ. óbreytt.