27.04.1946
Sameinað þing: 41. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í D-deild Alþingistíðinda. (4141)

234. mál, fjárskipti

Fjmrh. (Pétur Magnússon) :

Herra forseti. Það orkar ekki tvímælis, að það er rétt hjá hv. þm. N-Þ., að ríkisstj. hefur heimild til þess í l. að verja fé eins og í þáltill. þessari felst, og að því leyti er ekki þörf að flytja gagntill. Hins vegar var það svo, þegar fjárskiptamálið var til úrlausnar í vor, að ég vildi ekki, að byrjað væri á aðgerðum og taka á mig ábyrgð fyrir þessu, úr því að þing sat.

Forseti hefur nú mælzt til þess, að hér yrði ekki farið út í almennar umr. um málið, en ég sé mér ekki annað fært en fara nokkuð út í almennar hugleiðingar um það, úr því að umr. um það eru byrjaðar.

Ég held, að mér sé óhætt að segja það, að síðan byrjað var að ræða um þetta mál, hafi verið uppi í því 2–3 stefnur. Sumir hafa viljað niðurskurð og reyna þannig að útrýma sýkinni. Aðrir hafa viljað koma upp ónæmari stofni en nú er, og hafa menn talið, að á nokkrum tíma mætti finna stofn, er ekki væri næmari fyrir sýkinni en svo, að hægt væri að reka sauðfjárrækt hér á landi áfram. En aðrir hafa þá talið rétt að flytja inn fé til blöndunar og koma á þann hátt upp ónæmari stofni. Síðan ég hef kynnt mér málið, hef ég trúað því, að bezt væri að reyna að koma upp stofni með erlendri kynblöndun, og a. m. k. sums staðar hafa kynblendingar reynzt hraustari. Í samræmi við þetta var á fyrri hluta þessa þings borin fram till. um að flytja inn enska hrúta til kynblöndunar, sem síðar yrðu svo notaðir til tæknifrjóvgunar. Sauðfjárræktarráðunauturinn var þessu fylgjandi, en Sigurður Hlíðar, yfirdýralæknir, var því mótfallinn. Ég sé satt að segja ekki, að eins og nú er komið sé neinu að tapa. Það varð svo ofan á, að tilraun yrði gerð með tæknifrjóvgun, en hún mistókst.

Þessi stefna hefur sem sagt ekki haft byr á Alþ., og því verið farin sú leið, sem hér um ræðir, því að ástandið er óviðunandi. Undanfarin 5 ár hafa farið fram niðurskurðir milli Skjálfandafljóts og Jökulsár. Ég var settur í þann vanda í fyrrahaust að heimila niðurskurð í Bárðardal og Mývatnssveit. Í upphafi var sauðfjársjúkdómanefnd þessu mótfallin, en það, sem gerði, að ég samþ. niðurskurð, var það, að ég vildi ekki, að Mývatnssveit, ein fegursta og merkilegasta sveit landsins, færi í auðn, en til eyðingar sveitarinnar horfði, ef ekkert hefði verið aðhafzt. Og ég varð að bjarga því.

En með þessu var þó ekki mörkuð nein stefna í málunum almennt, heldur var í þessu tilfelli um það að ræða að bjarga heilli sveit. Það mátti réttlæta, niðurskurðinn með því, að í því fælist trygging fyrir því, að sjúkdómurinn dreifðist ekki út á Tjörnes, þar sem áður hafði verið skorið niður. Og þess ber að minnast, að þessar sveitir höfðu aðallega lifað á sauðfjárrækt. Hins vegar tel ég, að með þessum niðurskurði horfi mjög á annan veg. Í sumum þeim sveitum, sem um ræðir, mundu menn ekki komast hjá sauðfjárrækt, en aðrar gætu aftur á móti lifað á mjólkurframleiðslu. Naumast er hægt að rökstyðja niðurskurð hér með því, að verið væri að bjarga öðrum sveitum frá hættunni.

Mér virðist því, að ef hér yrði heimilaður niðurskurður, þá væri í rauninni þar með mörkuð stefna í þessum málum, og ef till. verður samþ., að þá muni Alþ. vera fylgjandi niðurskurði. Helztu rök munu þá vera, að niðurskurður sé lausnin út úr núverandi vandræðum. Í framtíðinni mun svo ekki verða hægt að neita um niðururskurð annars staðar.

Ég verð að segja það, að úr því að Alþ. hefur ekki fallizt á að reyna kynblöndun, þá er ekki um aðra leið að ræða en þessa. Ég hef að vísu ekki mikla trú á því, að hægt sé að útrýma veikinni með þessu, þar sem sjúkdómurinn gæti jafnt fyrir því breiðzt út, enda hefur það komið fyrir í Rangárvallasýslu, þó að þar séu mjög sterkar varnir. Sé nú hins vegar svo, að Alþ. aðhyllist það að skipta landinu niður í skákir og skera niður, þá tel ég, að Alþ. verði að taka allt málið til almennrar athugunar. Ég tel, að líka verði að athuga um breyt. á l. um bætur fyrir niðurskurð. Einnig tel ég, að leggja verði niður bætur til þess að ala upp fé á sýktum svæðum, því að þar er byggt upp með annarri hendinni, sem rifið er niður með hinni. Þessi þál. till. er fram komin í samráði við mig. Ég tel, að hér sé verið að velja um stefnur í þessu máli, og ég vil, að þm. geri sér það ljóst, að hér eru þeir í raun og veru að greiða atkv. um það, hvort yfirleitt skuli skera niður eða ekki á sýktum svæðum.