27.04.1946
Sameinað þing: 41. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í D-deild Alþingistíðinda. (4142)

234. mál, fjárskipti

Jónas Jónsson:

Herra forseti. Ég vildi þakka hv. fjvn. og hæstv. landbrh. fyrir stuðning þeirra við þetta mál. Ég held, að óhætt sé að líta svo á, að þetta mál sé beint hallærismál. Ég vil aðeins benda á það, að Kristján á Halldórsstöðum átti 160 ær áður en pestin kom, en hefur nú 20, og sjá menn þá, að hér er um fullkomna eyðingu að ræða. Og ef þessi héruð leggjast í eyði, þá verður dýrt að byggja upp ný heimili fyrir fólkið, sem flosnar þaðan upp. Húnavatnssýslur, er teljast einar blómlegustu sýslur landsins, eru nú orðnar mjög fjárlitlar.

Ég hygg, að sú skoðun sé rétt, að þetta verði að teljast endanleg ákvörðun í málinu, en vil og benda á það, að bændur fara ekki fram á þetta nema út úr neyð, því að mönnum þykir svo vænt um skepnurnar sínar, að það er ekki fyrr en allt um þrýtur, að þeir grípa til þessa ráðs. Einn þeirra, sem manna mest hefur orðið fyrir barðinu á þessari veiki, er hv. 2. þm. Skagf., Jón Sigurðsson, og telur hann, að nauðsyn beri til, að fjárskiptin fari fram. Það gerir ekki fjárskiptin viðunanlegri, að bændur gera þau aldrei nema farið sé að sverfa fast að þeim.