24.04.1946
Sameinað þing: 38. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í D-deild Alþingistíðinda. (4161)

238. mál, togarakaup bæjar- og hreppsfélaga

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. þm. Barð. bar fram áðan í ræðu sinni lítið smekklega aths., eins og honum er lagið, — við nefndarálitið á þskj. 960. Þessi hv. þm. vill halda því fram, að það sé alrangt, sem þar segir, að verð togaranna sé hátt.

Það hefur nú komið í ljós áður, að verð togaranna er hærra en svo, að t. d. Englendingar vildu kaupa skip með svo háu verði, og enginn sjómaður mun leggja sama dóm á þetta og hv. þm. Barð. En það er nú vani þessa hv. þm. að kasta fram dómum án raka, og þessi hv. þm. hefur lagt hér fram brtt., sem prentaðar eru á þskj. 972, en hefur ekki getað gert þær þannig úr garði, að þær séu hæfar til þess að leggja þær fram hér. Með þeirri till. er veitt frekari heimild til þess að ganga í ábyrgð en áður. Samkv. till. hv. þm. Barð., að slepptu niðurlagi, gæti heimildin farið í 9 millj., eða þrisvar sinnum upphæð sjálfrar till. Það er fráleitt að samþykkja slíkt. Læt ég útrætt um það að sinni.