23.04.1946
Sameinað þing: 37. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í D-deild Alþingistíðinda. (4171)

244. mál, endurgreiðsla á verðtolli

Flm. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Þeim, sem áttu sæti í fjhn. Nd., þegar þessi till. var samin, þótti sýnt, að ekki væru líkur til, að frv. um breyt. á tollskrá og frv. hv. þm. Borgf. um breyt. á tollskrá mundu ná fram að ganga á yfirstandandi Alþingi. Hins vegar fannst okkur, að mjög eðlilegt væri að taka eitt atriði til úrlausnar á yfirstandandi Alþingi, en það var að heimila ríkisstj. að endurgreiða eigendum hraðfrystihúsa 22% af 30% verðtolli þeim, sem þeir hafa greitt frá 1. jan. 1945 og greiða framvegis af cellophanpappír til fiskumbúða. Cellophanpappír er notaður í innri umbúðir um hraðfrystan fisk, sem fluttur er til Bandaríkjanna, og þótti okkur ekki fært að skylda eigendur hraðfrystihúsa til að greiða af honum 30% verðtoll, svo sem verið hefur.

Ég vænti þess, að till. nái fram að ganga, og legg til, að henni verði að lokinni þessari umr. vísað til síðari umr. og fjvn.