27.04.1946
Efri deild: 116. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í C-deild Alþingistíðinda. (4195)

135. mál, atvinnudeild háskólans

Menntmrh. (Brynjólfur Bjarnason) :

Það er því meiri ástæða til að fella þessa dagskrártillögu, eftir að hafa heyrt ræðu hv. 6. þm. Reykv., þar sem hann segir, að dagskráin sé vantraust á forseta fyrir að fara að þingsköpum. Þess hefur verið óskað, að málið fengi afgreiðslu á þinginu, og ég veit ekki betur en það sé eitt af þeim málum, sem samkomulag var gert um.

Hvað varðar það, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði um Keldur, vil ég taka það fram, að ég taldi 15. gr. svo nauðsynlega, svo og frv. í heild, að vitanlega gat ég ekki fallizt á, að taka það ákvæði út úr því. Ég hélt, að frv. næði fram að ganga, og ég hélt, að um þetta hefði verið samið, svo að sú hætta, sem stafar af því að samþ. ekki frv., er því á ábyrgð hv. 6. þm. Reykv. Hitt er svo annað mál, að ef deildin fellir frv. og stofnar þannig þessu máli í hættu, mun ríkisstj. reyna að afstýra því.