24.04.1946
Sameinað þing: 38. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í D-deild Alþingistíðinda. (4203)

240. mál, svíþjóðarbátar

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Ég geri nú ráð fyrir, að þessari till, verði vísað til n., og það verður væntanlega fjvn. En ég stend aðeins upp til að benda þeirri n., sem fær málið til athugunar, á það, að það væri æskilegt, að hún aflaði sér sem fyllstra gagna í málinu áður en hún afgr. það og kveður upp dóm og setur fyrir Alþ.

Þetta mál er vægast sagt óvenjulegt og að ýmsu leyti leiðinlegt og verður að meðhöndlast með talsverðri gætni. Málinu var í stórum dráttum fullkomlega rétt lýst af hv. 7. þm. Reykv., frsm. málsins. Þessir bátar eru komnir hingað til landsins, en eru af skipaskoðun ríkisins dæmdir þann veg, að þeir fullnægi ekki settum reglum um gerð báta af þessari tegund, og þess vegna geta þeir ekki fengið haffærisskírteini sem slíkir eftir reglunni um þá gerð báta. Sumir þessir bátar voru þegar teknir til viðgerðar, og viðgerð hefur verið framkvæmd að meira eða minna leyti á sumum, aðrir aftur á móti bíða, og viðgerð á nokkrum er lítils háttar byrjuð. Síðan voru, þegar óánægja fór að koma í ljós, fengnir menn til Svíþjóðar til þess að ganga úr skugga um málið, að svo miklu leyti sem hægt var, bæði frá hálfu skipaskoðunarstjóra og eins eigendum bátanna, bæði til þess að afla fullkominna upplýsinga um bátana og leggja styrkleika þeirra undir úrskurð sérfræðinga þar og láta þá bera styrkleika þeirra saman við það, sem íslenzkar reglur mæla fyrir um þetta. Ég hef fengið í hendur nokkuð af þessari álitsgerð sérfræðinganna, og þær bera það með sér, að bátarnir, a. m. k. eftir þeim upplýsingum, sem sérfræðingunum voru gefnar, uppfylla ekki þær kröfur að fullu, sem gerðar eru til slíkra skipa eftir íslenzkum reglum. Hv. 7. þm. Reykv. sagði að vísu, að þær tölur, sem þessir sérfræðingar hefðu fengið, hefðu ekki verið alls kostar réttar, og það er einmitt það leiðinlega við málið, og það eitt út af fyrir sig er alveg fyllsta ástæða til að rannsaka alveg ofan í kjölinn.

Hins vegar vil ég undirstrika það, að það er engin ástæða til að álasa skipaskoðuninni fyrir það, þó að hún geri þær kröfur til þessara skipa, að þau uppfylli þær kröfur, sem íslenzkar reglugerðir setja um skip. Skipaskoðun ríkisins er vandi á höndum, og henni er oft núið um nasir, að hún sé ekki nógu ströng í eftirliti sínu og reynist ekki eins hörð í kröfum og fyrir sé skipað, og þess vegna er það náttúrlega hennar skylda að sjá svo um, að reglum sé fylgt í hvívetna. Nú má vitanlega deila um það, hvort sum atriði í þessum reglum eru þannig, að þau megi ekki álíta með fullum rétti nokkuð ströng og sum óþarflega ströng, en það er alveg sér atriði. En á meðan þessi regla er í gildi, er það verk skipaskoðunarinnar að sjá um, að reglunni sé fylgt. En auðvitað verða þeir, sem skip eiga, að geta reitt sig á dóm skipaskoðunarinnar í hverju tilfelli og að það standi, sem hún segir hverjum um sig, Skipaskoðuninni hefur líka verið nokkur vandi á höndum, vegna þess að hún hefur ekki í þjónustu sinni nema mjög takmarkaðan hóp sérfræðinga, og verður þess vegna að leita til manna, sem ekki eru beinlínis í hennar þjónustu. Nú hefur verið flutt á Alþ. frv. til l. um eftirlit með skipum, sem bætir mjög úr í þessu efni og ég mjög eindregið vildi mælast til, að næði fram að ganga, vegna þess að þar er bætt úr brýnni þörf og þörf, sem er svo aðkallandi, að vart verður unað við það ástand, sem nú er í þessum málum hér hjá okkur. Það er ekki hægt að ætlast til þess, að menn dæmi um hluti, sem þeir hafa ekki sérþekkingu á, og varla heldur hægt að ætlast til þess, að menn geti fellt dóm viðvíkjandi öllum greinum skipabygginga, þannig að þeir væru sérfræðingar í öllum greinum þar að lútandi. Margir telja sig reyndar hafa vit á öllum atriðum, en það er ekki unnt fyrir neinn einn mann að segja neitt svo óskeikult, og þeir verða að fara að meira eða minna leyti til sérfræðinga, hverra á sínu sviði. Og ég tel, að skipaskoðun ríkisins hafi verið í þessu efni talsverður vandi á höndum, þar sem hún var sérfræðingalítil eða sérfræðingalaus, er hún átti að kveða upp dóminn, og lá þá beinast við, að hún fylgdi bókstafnum í reglugerðinni, án þess að reikna út, — sem síðar var gert, — burðarþol skipanna á þann hátt, sem sérfræðingarnir gerðu.

Það er líka nýmæli í þessari þáltill., þar sem farið er fram á, að ríkissjóður bæti fyrir brot áður en það er fullrannsakað, hvort um brot sé að ræða.

Eins og ég sagði áðan, geri ég ráð fyrir, að málið fari til n. og verði athugað þar, og vildi ég láta þessi orð fylgja málinu til n., að hún athugaði til hlítar öll skjöl, áður en hún fellir um það úrskurð. Hitt væri að mínu viti til þess að veikja um of skipaskoðun ríkisins, ef hún ætti það á hættu, að Alþ. viðurkenndi, að þessi skipaskoðun væri ekki rétt, án þess að fullrannsaka málið, og gerði ríkissjóði skylt að greiða skaðabætur. Það gæti orðið til þess, að skipaskoðunin beitti ekki eftirleiðis eins miklum strangleika, og það tel ég mjög hæpinn árangur af slíkum samþykktum Alþ., og mun það ekki tilætlun flm. Allir þeir aðilar álíta, að þarna sé rétt með mál farið af þeirra hálfu, og þess vegna verður að leysa málið að fengnum öllum þeim upplýsingum og helzt, ef hægt er, með samkomulagi.