26.04.1946
Sameinað þing: 40. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 227 í D-deild Alþingistíðinda. (4237)

228. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Forsrh. (Ólafur Thors):

Þegar ég frétti, að búið væri að bera fram vantraust á stjórnina, gizkaði ég strax upp á, að flm. mundu vera þeir hv. þm. Str. og hv. 2. þm. S.-M., annar eða báðir. Ég reyndist getspakur og sannspár. Það eru þeir Hermann Jónasson og Eysteinn Jónsson, sem vantraustið flytja. Þarna er þeim lifandi lýst. Frá því í maímánuði og þangað til í byrjun okt. 1944 voru þeir að semja við okkur um stjórnarmyndun. Þeir féllust þá á allt, sem máli skipti í þeim samningi, sem stjórnarflokkarnir að lokum gerðu með sér. Að vísu sannaðist síðar, að þeir óskuðu, að stjórnarmyndunin tækist ekki, og ætluðu sér að halda við glundroðanum, en láta síðan kjósa til Alþingis vorið 1945 og kenna Sjálfstfl. óreiðuna. En hitt er jafnvíst, að þeir voru staðráðnir í að verða ráðherrar í nýju stj., ef ekki tækist að hindra stjórnarmyndun. Sem kunnugt er, tefldu þeir taflinu svo klaufalega, að þeir urðu utangátta. Og nú eru þeir að bisa við að bera fram vantraust á stj. fyrir að hafa framkvæmt þann málefnasamning, sem þeir sjálfir aðhylltust og þóttust hafa ríkan áhuga fyrir fram á haust 1944. Jæja, ekki er þeim það of gott. Betra er illt en ekkert að aðhafast, og eitthvað verða þeir að dunda við, meðan við hinir neytum allra krafta til að sækja fram að settu marki með fullum hraða.

Annars er þessi vantrauststill. hálfspaugileg. Hvað getur eiginlega vakað fyrir flm.? Ekki getur það verið tilgangurinn að sanna þjóðinni, að frá því að það rann upp fyrir þessum herrum, að stjórn yrði mynduð og þeir yrðu sjálfir utan við, hafa þeir ekki á heilum sér tekið og ekkert til sparað að ófrægja stjórnina, alveg eins og allir líka vita, að þessir menn eru og verða yfirleitt móti sérhverri stj., sem þeir eiga ekki sæti í sjálfir. Slíkt er skiljanlegt um menn, sem telja sér orðið „áskapað að vera ráðherrar á Íslandi“. — Ekki vakti það heldur fyrir flm. með vantraustinu að fella stjórnina. Þeir eru varla svo illa haldnir, að þeir viti ekki enn, og allir aðrir, að það er alveg vonlaust. Tæplega var heldur vantraustið flutt í því skyni að sanna einlægni Framsfl. fyrir að flýta störfum þessa þings, sem þeir eru þráfaldlega að stagast á, að sé orðið allt of langt. Nei, auðsætt er, að ekkert af þessu gat vakað fyrir flm. En hvað var það þá, sem fyrir þeim vakti? Þannig er nú spurt. Ég skal svara. Ég ljóstra upp leyndarmálinu. Sannleikurinn er sá, að flm. vita sjálfir ekki nokkurn skapaðan hlut, hvað fyrir þeim vakir. Þeir vita bara, að þeir eru óróir, kvíðnir fyrir kosningunum, vanstilltir og reikulir í ráði. Vantraustið er ekkert annað en fálm út í loftið, hold af þeirra holdi, alveg sams konar hringsól og pólitík Framsfl. hefur verið á síðari árum, allt frá því að aðrir flokkar hættu að styðja þá árið 1942 og létu þá fara að reyna að staulast út í lífið á eigin fótum, eina, óstudda og forustulausa með ráðherrapest.

Fyrir þá, sem lesa Tímann, getur varla verið mikil nýbreytni í ræðum eins og þeim, sem verið var að flytja. En kannske við hinir, sem sjaldnar náum til þess lesendahóps, getum borið eitthvað á borð, sem þeim er meira nýmeti. Mætti þá svo fara, að vantraustið yrði ekki alveg jafnþýðingarlaust og mennirnir, sem flytja það, eru nú orðnir.

Ég hygg, að ræðum hv. þm., er voru að ljúka máli sínu, og raunar allri ádeilu stjórnarandstöðunnar sé bezt svarað með því að rekja í örfáum aðaldráttum það, sem stjórnarflokkarnir hafa gert. Menn geta þá borið það saman við það, sem var, og hitt, sem orðið hefði, ef stjórnarmyndun hefði mistekizt 1944, og síðan kveðið upp dóma sína. Skal það nú stuttlega gert. Áður ætla ég þó rétt að víkja sérstaklega að örfáum atriðum úr ræðum þeim, er nú hafa verið fluttar.

Hermann Jónasson tók upp á því að lýsa stefnu Framsfl. í nýsköpuninni. Þetta var ekki hyggilegt. Stefna Framsfl. í nýsköpun er nefnilega engin eða öllu heldur eitthvað handa öllum. Framsfl. er í þessu sem öðru tilbúinn til þess, sem með þarf, til þess að tryggja honum völdin. Ég hef lagt mig fram um að finna út, hver sé nýsköpunarstefna Framsfl. Ég hef komizt að þeirri niðurstöðu, að sé hún yfirleitt til, þá hljóði hún þannig: Meðan skip eru fáanleg, eiga Íslendingar ekki að kaupa nein skip! Síðar, þegar skip verða ekki fáanleg, eiga Íslendingar að kaupa mörg skip! Meðan Íslendingar eiga nóg fé, eiga þeir engin skip að kaupa! Síðar, þegar búið er að eyða öllu í herkostnað út af þeim kaupdeilum, sem Framsókn vill stofna til, eiga Íslendingar að kaupa stóran skipaflota.

Hv. þm. Mýr. skal ég litlu svara. Það, sem hann sagði um landbúnaðarmál, verður athugað af öðrum. Allt hitt var fremur meinlaust og bar vott um, að hv. þm. hafði veika sannfæringu fyrir ádeilu sinni. Enda mun það svo. Hann talaði fyrir hönd þess eina, flokks, sem hann taldi ógallaðan.

Hv. þm. Str. átaldi stj. fyrir sleifarlag á þingstörfum. Bar hann jafnframt hæstv. forsetum þingsins, að þeir misbeittu valdi sínu. Áburður á forsetana er tilefnislaus og því vítaverður. En starfstími þingsins fullyrði ég, að er hinn stytzti fram að þessu í hlutfalli við afköstin. Skal ég síðar víkja betur að því og færa á það óyggjandi sannanir.

Þá vítti þessi hv. þm. stj. fyrir skipun nýrra nefnda. Öðrum fórst, en honum ekki. Sjálfur hefur hann legið undir rökstuddu ámæli fyrir freklega ásælni í ríkissjóðinn til beinagjafa til fylgifiskanna. En auk þess er það, sem úr sker, að alveg eins og athafnasamur bóndi þarf fleiri hjú en sá, sem lítið hefst að, þannig þarf sú stj., er nú fer með völd, vegna mikilvirkra framkvæmda á flestum sviðum, fleiri aðstoðarmenn en kyrrstöðustjórnir.

Hv. þm. Str. ræddi allmikið um hið svonefnda herstöðvamál og réðst með miklum þjósti að ríkisstj. og þá auðvitað einkum mér sjálfum fyrir alla meðferð málsins. Mál þetta var rætt nokkuð í sameinuðu þingi í fyrrakvöld. Var þá til umr. till. til þál. um herstöðvamálið, sem þessi hv. þm. flytur á þskj. 634. Í þeim umr. kom skýrt fram, að hv. flm. hafði enga grein gert sér fyrir efni sinnar eigin till. og skildi því auðvitað ekki, hversu alvarlega afleiðingu það mundi hafa, ef hún yrði samþ. og framkvæmd. Í þeim umr. skýrði ég málið fyrir honum. Hefur hann að vísu nokkuð af því lært, en þó eigi látið sér segjast sem skyldi. Verð ég því enn að reifa málið. Skal ég, til að stytta mál mitt og fá myndina sem heilsteyptasta, ræða í senn ummæli Hermanns Jónassonar og Eysteins Jónssonar við umræðurnar í fyrrakvöld og ummæli hv. þm. Str. hér í kvöld. Í nefndri till. hv. þm. segir svo :

„Skal ríkisstjórnin jafnframt leggja fyrir Alþingi öll símskeyti og bréf, sem farið hafa milli hennar og fulltrúa erlendra ríkja um mál þetta, og einnig þau símskeyti og bréf um sama mál, sem farið hafa milli hennar og fulltrúa Íslands erlendis.“

Í ræðu þeirri, er hv. flm. flutti, var hann að vísu lagður á flótta frá till. þessari. Lét hann nú sem það væri aðalatriði að birta efnisskýrslu um málið, en ekki sjálf skjölin, en á þessu tvennu er einmitt höfuðmunur, eins og ég síðar vík að. Er það að vísu gott, að mér hefur tekizt að glæða skilning hv. flm. á þessu, en viðfelldnara hefði verið og stórmannlegra að játa það, enda er honum engrar undankomu auðið, þótt einhver hafi orðað till., sem eigi lætur nægilega vel að orða ljóst hugsun sína, því að í grg., sem hv. þm. vafalaust sjálfur hefur samið, eru tekin af öll tvímæli um, að hann krefst ekki efnisyfirlýsingar, heldur birtingar skjala. Þar segir orðrétt:

„Í þingsályktunartillögunni er gert ráð fyrir því, að öll símskeyti og bréf varðandi herstöðvamálið verði birt. Ég fæ ekki séð, að það feli í sér neina hættu.“

Ég tel mjög líklegt og fyllilega skiljanlegt, að allur þorri manna geri sér óljósa grein fyrir því, hver munur er á efnisskýrslu um málið og birtingu allra skjala, er um það fjalla. En það er næsta ótrúlegt, að maður, sem verið hefur forsrh. í mörg ár, hafi ekki svo mikið sem hugmynd um það. En sannleikurinn er sá, að í slíkum málum á hver aðili sem er skýlausa kröfu á því að birta efnishlið málsins, ef hann óskar þess. Sjálfsögð kurteisi er þó talin að tilkynna gagnaðila það og reyna að hafa um það fullt samkomulag. Hitt, að ætla sér að birta öll skjöl málsins án þess svo mikið sem að leita samkomulags hins aðilans, hvað þá tryggja það, er talið svo fjarri sanni í viðskiptum milli vinveittra þjóða, að Íslendingum er til lítils heiðurs, að fyrrv. forsrh. hefur lagt fram um það till. á Alþ., enda þótt aðrir muni hafa vit fyrir honum og afstýra ósómanum.

Þetta er nú önnur hliðin á till. hv. þm. Str. Hin er litlu skárri. Hún mælir svo fyrir, að birt skuli „öll símskeyti og bréf“, sem farið hafa milli stjórnar Íslands og fulltrúa hennar erlendis um þetta viðkvæma og vandmeðfarna utanríkismál. Um þessa till. er óþarft að fjölyrða. Um hana geta menn dæmt, hvort sem þeir vita nokkurn hlut um sæmilegar umgengnisvenjur við aðrar þjóðir eða ekki. Hér nægir brjóstvitið eitt. Það, sem hv. þm. Str. leggur til, er að tekinn verði upp sá háttur að birta opinberlega orðrétt bréf og símskeyti, til þess þannig að ljóstra upp þeim mestu trúnaðar- og leyndarmálum, sem trúnaðarmenn ríkisins afla og senda ríkisstj. sinni og þá auðvitað í fyllsta trúnaði.

Þessar skýrslur eru auðvitað um allt það, er slík mál snertir, allt, sem aðrir hafa um það sagt, og þá einnig oft í trúnaði, og jafnframt hugleiðingar og leiðbeiningar sendiherranna sem staðkunnugra manna. Það er ekkert gaman fyrir sendiherrana að fá þannig lagaðar trúnaðarskýrslur á prent. Og málið, eitt vandmeðfarnasta utanríkismál, sem að höndum hefur borið, er svo sem ekki illa valið til þess að innleiða þessa gullvægu og gáfulegu reglu. Það verður ekki amalegt að vera sendiherra Íslands upp á slík býti og ekki heldur áhættusamt fyrir útlendinga að segja fulltrúum Íslands eitthvað í trúnaði. Nei, þessi till. Hermanns Jónassonar, ef samþykkt yrði, er till. um það að aðvara sérhvern útlending um að gefa nokkrum Íslending upplýsingar, sem Íslandi mætti að liði verða, ef honum stendur ekki á sama, þótt slík upplýsing verði sett á prent, og það með, hvaðan hún er fengin. Og það er till. um það, að takist fulltrúa Íslands að krækja í gagnlega upplýsingu, þá skuli hann a. m. k. hugsa sig vel um, áður en hann láti stjórn sína vita um hana, þar eð hann með því eigi á hættu að eyðileggja jafnt sjálfan sig sem þann, er upplýsinguna gaf. Þetta er því í rauninni till. um að eyðileggja að verulegu leyti utanríkisþjónustu Íslands. Hún leggur til, að móðguð sé ein mesta og voldugasta vinaþjóð Íslands og á henni þverbrotnar velsæmisvenjur, og hún leggur til, að eyðilögð sé utanríkisþjónusta Íslands að verulegu leyti. Þannig er þessi till. Hermanns Jónassonar. Það má langt leita í þingsögunni að nokkru sambærilegu. Ég held, að ef hv. þm. Str. verður að einhverju getið eftir 10 ár, verði það ekki sízt vegna till. þessarar.

Rökin sem færð eru fyrir þessari till., eru að sönnu miklu skynsamlegri en till. sjálf, en þó dálítið skopleg. Því er lýst með heilagri vandlætingu, hversu svívirðilega þjóðin sé leikin, er stj. leyfi sér að leyna hana algerlega þessu mikilvægasta máli hennar. Varla muni þess nokkur dæmi í víðri veröld, að nokkur ríkisstj. hegði sér svo siðlaust og ósæmilega: Smádylgjum er svo lætt milli línanna til bragðbætis. Þessi leynd sé svik við þjóðina og nærri verst fyrir það, að búið sé að ræða málið svo til þrautar í blöðum og á mannfundum, að hvert mannsbarn í landinu þekki kjarna þess. Þykir mér ekki taka því að eyða tíma í að skopast að því, hvernig hvað rekst á annars horn. En spyrja mætti:

1. Hvernig er hægt að leyna því, sem allir vita?

2. Ef leyndin er svik og siðleysi, hvernig stendur þá á því, að jafnheiðvirður maður og hv. þm. Str. skuli ekki hafa borið fram þessa ágætu till. fyrr en liðnir eru nær 7 mánuðir frá því að hann fékk að vita um málið. Voldugur stjórnmálaleiðtogi, sem liggur í missiri í dvala og sefur á svikunum, á á hættu að vera ekki tekinn alvarlega, þótt eitthvað umli í honum í svefnrofunum rétt fyrir kosningar.

Ég læt þá útrætt um þessa leiðinlegu yfirsjón þm. Str. og vík að hinu, sem er með öllu óskylt till. hv. þm. Str. um að birta skjöl og skeyti málsins, þ. e. a. s., að ríkisstj. gefi þjóðinni skýrslu um aðalefni málsins. Sem kunnugt er, hafa nú verið hafnar almennar umr. um málið. Óskirnar um skýrslu frá ríkisstj. hafa orðið æ háværari og almennari. Tel ég því rétt, einnig með hliðsjón af, að þingi er að ljúka, en kosningar framundan, og eftir að hafa borið mig saman við stjórn Bandaríkjanna, — að fullnægt sé þeim óskum með því að gefa Alþ. skýrslu um málið í fyrsta skipti á opnum fundi að áheyrandi mörgum þúsundum eða tugþúsundum landsmanna. Skýrslan hljóðar svo:

„Hinn 1. okt. síðastl. barst ríkisstjórn Íslands erindi frá ríkisstjórn Bandaríkjanna, þar sem fyrirspurn er gerð um það, hvort ríkisstjórn Íslands mundi vera fús til að hefja umræður við fulltrúa ríkisstjórnar Bandaríkjanna um leigu til langs tíma á bækistöðvum á þrem tilgreindum stöðum hér á landi.

Ríkisstjórn Bandaríkjanna ítrekaði jafnframt tilboð sitt til ríkisstjórnar Íslands um, að hún mundi eindregið styðja umsókn frá Íslandi um að verða ein hinna sameinuðu þjóða, en tilboð þetta var fyrst gert meðan San Fransisco ráðstefnan stóð yfir og síðan í september 1945. Í þessum tillögum Bandaríkjanna er gert ráð fyrir, að ef og þegar Ísland verður meðlimur í bandalagi hinna sameinuðu þjóða, gætu þær bækistöðvar, sem Bandaríkin kynnu að öðlast á Íslandi, orðið heimilaðar öryggisráðinu til efnda á þeim skuldbindingum, sem Ísland mundi takast á hendur samkvæmt sáttmála hinna sameinuðu þjóða.

Ríkisstjórn Bandaríkjanna fullvissaði Ísland enn fremur um, að Bandaríkin mundu taka að sér allan kostnað af byggingum og rekstri bækistöðvanna, og að þeirra réttinda, sem Bandaríkin kynnu að öðlast, mundi verða neytt með fullri virðingu fyrir sjálfstæði og fullveldi lýðveldisins Íslands og án afskipta af innanríkismálum íslenzku þjóðarinnar.

Eftir að þar til kjörin nefnd umboðsmanna allra þingflokka hafði rætt málið ýtarlega, ákvað ríkisstjórnin hinn 6. nóv. að afhenda sendiherra Bandaríkjanna erindi, þar sem segir:

„Hinn 25. febr. síðastl. lýstu allir flokkar Alþingis yfir því, að þeir óskuðu þess, að Íslendingar yrðu þá þegar viðurkenndir sem ein hinna sameinuðu þjóða.

Enda þótt Ísland hafi enn eigi öðlazt þessa viðurkenningu, þykir mega treysta því, að mjög bráðlega komi að því, að svo verði, og er ríkisstjórn Íslands þakklát ríkisstjórn Bandaríkjanna fyrir það fyrirheit, er hún hefur gefið um að stuðla að því.

Íslendingum er ljóst, að ein afleiðing þess, að þeir verði viðurkenndir sem ein hinna sameinuðu þjóða, er sú, að þeir takist á hendur þær kvaðir um þátttöku í ráðstöfunum til tryggingar heimsfriðnum, sem sáttmáli hinna sameinuðu þjóða gerir ráð fyrir.

Með tilvísun til þessa er ríkisstjórn Íslands reiðubúin að ræða skipun þessara mála við ríkisstjórn Bandaríkjanna.“

Þessu fylgdi munnleg yfirlýsing um, að slíkar viðræður gætu ekki hafizt á þeim grundvelli, er Bandaríkin hefðu óskað í erindi sínu dags. 1. okt., enda vildi Ísland ekki fyrirfram gefa nein vilyrði um lausn málsins.

Hinn 12. nóv. skýrði ríkisstjórn Íslands að gefnu tilefni ríkisstjórn Bandaríkjanna frá því, að hún hefði ekki heimild til að ræða málið á öðrum grundvelli en um ræðir í ofannefndu erindi ríkisstjórnar Íslands, dags. 6. nóv., og þeim munnlegu ummælum, er því fylgdu, svo sem að framan greinir.

Um miðjan nóvember fól ríkisstjórn Íslands sendiherra Íslands í Washington að eiga viðræður við ríkisstjórn Bandaríkjanna um málaleitun þeirra. Leiddu þær viðræður til þess, að sendiherra símaði ríkisstjórn Íslands hinn 8. des., að ríkisstjórn Bandaríkjanna hefði fallizt á að stöðva málið, að minnsta kosti í bili.

Síðan hefur ekkert gerzt í málinu.“

Um meðferð málsins þykir rétt að taka þetta fram:

Ríkisstjórn Íslands skýrði Alþingi þegar í stað hinn 2. okt. frá framangreindri málaleitun Bandaríkjanna og mæltist jafnframt til þess, að hver þingflokkur tilnefndi þrjá fulltrúa, er ásamt ríkisstjórninni athuguðu, hvernig svara bæri henni. Var það tafarlaust gert, og var málið rætt á mjög mörgum fundum, er allir þessir menn áttu með sér fram undir miðjan nóvember.

Hinn 16. okt. gerði ríkisstjórn Íslands tillögu til ríkisstjórnar Bandaríkjanna um að gefa út blaðatilkynningu um aðalefni þess, er fram hafði farið í málinu fram til þess tíma, en það er föst venja, að ekkert sé birt í slíkum málaleitunum ríkisstjórna á milli, nema með vitund beggja aðila.

Hinn 22. okt. lagði ríkisstjórn Bandaríkjanna til, að nokkrar breytingar yrðu gerðar á þessum tillögum. Ríkisstjórn Íslands féllst strax á þá uppástungu, en þó varð eigi af blaðatilkynningu, með því að ný sjónarmið og viðhorf opnuðust, er stöðugt voru rædd af fulltrúum allra þingflokkanna.

Hinn 3. des. samþykkti ríkisstjórn Íslands einróma að gera á ný tillögu til ríkisstjórnar Bandaríkjanna um blaðatilkynningu um efnishlið málsins, en áður en ríkisstjórn Bandaríkjanna svaraði þeirri tillögu, barst ríkisstjórn Íslands tilkynning frá sendiherra Íslands í Washington um, að hann byggist fljótlega við svari á framangreindri málaleitun, er ríkisstjórn Íslands hafði falið honum að bera fram við ríkisstjórn

Bandaríkjanna. Mæltist sendiherra jafnframt til, að engar tilkynningar yrðu gefnar út á meðan og ekki án þess að ríkisstjórn Bandaríkjanna fengi 3 daga fyrirvara. Samþykkti þá ríkisstjórn Íslands að fresta blaðatilkynningu þar til öðruvísi yrði ákveðið. Síðan hefur því oftar en einu sinni verið hreyft innan ríkisstjórnarinnar, að nauðsyn bæri til að gefa út blaðatilkynningu, samanber einnig áður framkomnar yfirlýsingar ráðherra Sósfl. Tillaga um þetta hefur þó aldrei verið borin upp til atkv. innan ríkisstj., sbr. yfirlýsingu ráðherra Alþfl., vegna þess að eftir að utanríkisráðherra hafði borizt tilkynning sendiherra Íslands í Washington um, að ríkisstjórn Bandaríkjanna hefði fallizt á, að málið yrði stöðvað, að minnsta kosti í bili, taldi hann ekki rétt að hefja umræður um það af hálfu stjórnar Íslands, meðan ekkert sérstakt bæri að höndum.

Ég hygg, að það, sem ég hef sagt, nægi til að afsanna flestar þær staðhæfingar og dylgjur, sem fram komu í ræðu hv. þm. Str.

Hrokinn og sjálfstraustið eru ekki mitt meðfæri, enda mér óviðkomandi. Skýrsla sú, er ég nú hef gefið, sýnir m. a., að tvisvar áður hefur ríkisstj. verið komin á fremsta hlunn með að gefa út skýrslu um efnishlið málsins. Í fyrra skiptið var stjórn Bandaríkjanna búin að samþykkja það. Í síðara skiptið reyndi ekki á það, því að stjórn Íslands hætti við birtingu í bili, áður en til þess kæmi, að Bandaríkin svöruðu. Þá ber og skýrslan með sér, að fram að þessu hefur öll stj. verið sammála um hvert spor, sem stigið hefur verið í málinu. Það eina, sem á milli hefur borið og þó aldrei dregið til átaka um, er, að eftir að sendiherra Íslands taldi, að takast mætti að stöðva málið, áleit ég farsælast fyrir okkur Íslendinga að eiga ekkert frumkvæði að því að hefja umræður um málið fyrr en nauðsyn krefði. Beitti ég mér því gegn því, að við bærum fram till. um að birta efnishlið málsins meðan ekkert sérstakt bæri að höndum. Tek ég á mig alla ábyrgð á, að það hefur eigi verið gert fyrr en nú. Þarf ég engu að leyna um, hvað réð gerðum mínum. Voldug vinaþjóð hafði borið fram óskir við stjórn Íslands. Íslendingar áttu henni margt gott upp að unna og höfðu af henni þegið margvíslega beina og óbeina aðstoð á styrjaldarárunum. Og enn var þess að minnast, sem Íslendingar aldrei gleyma, að Bandaríkjamenn viðurkenndu allra þjóða fyrstir skýlausan rétt okkar til að endurreisa lýðveldið og studdu okkur betur og drengilegar í lokaþætti sjálfstæðisbaráttunnar en nokkur önnur þjóð. Bandaríkin voru því alls góðs makleg. En þegar þau beiddust þess, sem Íslendingar engum vilja í té láta, var ekki hægt að segja já. Í slíku máli verða íslenzkir hagsmunir einir að ráða. Stjórn Íslands taldi sér því ekki fært að verða við óskum Bandaríkjanna, frambornum í nótu þeirra, dags. 1. okt. Þetta var óumflýjanlegt. Nú ályktaði ég á þá leið, að ef Bandaríkin talfærðu ekki að fyrra bragði, að birt skyldi efnishlið málsins, mundu þau fremur kjósa, að málið lægi í þagnargildi. Fannst mér útlátalítið að eiga engan þátt í, að annað yrði, og að sjálfsögðu vildi ég geðjast Bandaríkjunum, ef ég gat það, Íslendingum að meinfangalausu. Taldi ég mig og því betur geta þagað fyrir það, að hvert mannsbarn á Íslandi vissi, hvað það var, sem Bandaríkin höfðu farið fram á. Þetta var það, sem ráðið hefur gerðum mínum. — Hitt liggur svo í hlutarins eðli, að fyrir stj. sjálfa hefur það auðvitað allt frá því er málið hófst verið langæskilegast að reka það sem allra mest fyrir opnum tjöldum. Hún hafði engu að leyna. Leyndin gat því ekki stafað af umhyggju fyrir stj., heldur af hinu, að eðli málsins samkvæmt verða ríkisstjórnir allra landa á öllum tímum að skoða það sem skyldu sína að viðhafa hverju sinni þá málsmeðferð í skiptum við önnur ríki, sem bezt hentar hagsmunum þeirrar þjóðar, sem ríkisstj. er málsvari fyrir, hvort sem það hentar augnablikshagsmunum stj. betur eða verr. Stj. á það svo undir drenglyndi stjórnarandstöðunnar, hvort hún reynir að þyrla upp moldviðri um utanríkismálin í því skyni að freista þess að ná flokkslegum ávinningi á kostnað þjóðarhagsmuna, og þá að sjálfsögðu að lokum undir dómgreind þjóðarinnar, hvort slík bolabrögð reynast til hags eða tjóns þeim, sem þeim beitir.

Ég skal að þessu sinni ljúka þessum aths. um herstöðvamálið með því að segja það, sem ég veit, að þjóðin trúir, að ég hef frá öndverðu leitazt við að halda þannig á málinu, sem bezt henti hagsmunum Íslands.

Ríkisstjórn Íslands taldi sér ekki fært að verða við ósk Bandaríkjanna, en lýsti hins vegar yfir, að hún væri reiðubúin að ræða við stjórn Bandaríkjanna um, að Íslendingar verði ein hinna sameinuðu þjóða, og þær kvaðir, er þeir þá takast á hendur um þátttöku í þeim ráðstöfunum til tryggingar heimsfriðnum, sem United Nations Charter gerir ráð fyrir. En það ætti að vera sérhverjum Íslending ljóst, að enda þótt Ísland þannig ekki hafi séð sér fært að verða við óskum Bandaríkjanna, er vinátta Bandaríkjanna Íslandi ómetanleg. Stöðvamálið hefur af Íslands hálfu verið rætt og rekið út frá báðum þessum sjónarmiðum.

Sá hluti ræðu hv. þm. Str., er um utanríkismál fjallaði, sýndi mjög greinilega, að hann telur sjálfan sig allra manna færastan um að segja Íslendingum fyrir verkum um alla meðferð utanríkismála. Skal ég láta það óátalið. En rétt er að minna á, að þetta er ekki í fyrsta skipti, sem stjórn Íslands ræðir mikilvægt mál við stjórn Bandaríkjanna, — mál, sem Bandaríkin, töldu eigi aðeins íslenzkt mál, heldur og eins og á stóð mál margra þjóða annars vegar, en Íslands hins vegar. Þær umræður stóðu lengi sumars 1942 og snerust um sjálfstæðismál Íslendinga. Hv. þm. Str. taldi þá, sem nú, illa og óviturlega á málum Íslands haldið. Taldi hann þá, að valdhafarnir hefðu með framkomu sinni „glatað virðingu umheimsins fyrir Íslandi“, — „sett smánarblett á þjóðina“, eins og hann komst að orði, og margt annað svipað lét hann um mælt. Endirinn varð sá, að stjórn Íslands tókst að fá öllu því framgengt, er Íslandi var fyrir beztu, og lauk málinu með því, að stjórn Íslands tryggði fyrirfram viðurkenningu voldugasta lýðríkis veraldar, Bandaríkjanna, á lögmæti endurreisnar hins forna íslenzka lýðveldis.

Mér sýnist margt benda til, að hv. þm. Str. hafi ekkert farið fram í hyggilegri meðferð utanríkismála frá því 1942, enda enga æfingu haft í þeim efnum.

Skal ég þá víkja að því, er ég hvarf frá. Hv. þm. Str. sagði, að efndir stj. stæðu í öfugu hlutfalli við loforðin. Ég skal svara til saka. Ég skal auðvelda háttvirtum áheyrendum úrskurðina um það, hvort stj. verðskuldi lof eða last. Ég skal kæfa ofsa hv. þm. Str. og óhróður í köldum staðreyndum, með því einfaldlega að rifja upp gerðir stj.

Hinn 10. des. s. l. flutti ég ræðu hér á Alþ. við framhald 1. umr. fjárl. Var þeim umræðum útvarpað, en flestar aðalræðurnar birtust síðan í blöðunum. Ég gerði þá allýtarlega grein fyrir störfum stj. fram til þess tíma. Treysti ég því, að flestir þeir, er áhuga hafa á stjórnmálum, hafi kynnt sér þá skýrslu, og læt ég því að þessu sinni nægja að stikla á stærstu atriðunum, enda ekki annars kostur, jafntakmarkaður sem tími minn er.

Svo sem kunnugt er, tók núv. ríkisstj. við völdum í október 1944. Hafði þá um nær tveggja ára bil ríkt alger glundroði í stjórnmálum þjóðarinnar, enda hafði Alþ. brugðizt þeirri höfuðskyldu að mynda þingræðisstjórn. Var í slíkt óefni komið, að allir flokkar þingsins töldu með öllu óþolandi. Höfðu þeir þá setið marga mánuði við samningaborðið í því skyni að firra Alþ. þeirri smán að búa við óþingræðislega utanþingsstjórn og þjóðina þeim voða, er af þessu hlaut að leiða. Gekk, sem kunnugt er, stirðlega að koma stjórninni á laggirnar, en tókst þó, eftir að Framsfl. hafði skorizt úr leik og skotið sér undan skyldunni, þegar þörfin var mest. Hvað sem menn að öðru leyti segja um stjórnina, störf hennar og stefnu, kemst enginn hjá að viðurkenna, að hin fyrsta gangan var góð, þar eð sjálf stjórnarmyndunin firrti Alþingi smán og þjóðina yfirvofandi hættu.

Stefna stj. er margrædd og öllum kunn. Höfuðatriðið er að freista þess að tryggja öllum Íslendingum atvinnu við sem arðvænlegastan atvinnurekstur. Er sama að segja um stefnuna sem stjórnarmyndunina, að enginn getur mælt því gegn, að um lofsverðan tilgang er að ræða, sem sanngjarnir menn hljóta að óska, að megi sem bezt lánast að framkvæma. Eftir stendur þá það eitt, hvernig framkvæmdirnar hafi farið úr hendi. Hefur stj. leitazt við að standa við loforð sín? Hefur stj. lánazt að komast áleiðis í áttina að settu marki?

Aðkoma stj. var örðug. Hún tók við á miðju þingi. Hennar biðu mörg vandleyst verkefni, sem enga bið þoldu. Eitt fyrsta verkefnið var að sjá ríkissj. fyrir 20 millj. kr. nýjum tekjum. Það tókst, þrátt fyrir grundvallarágreining milli stjórnarflokkanna. Eftir það tók stj. röggsama forustu um alla löggjöfina. Hún beitti sér fyrir miklum stuðningi við höfuðatvinnuvegi landsmanna og miklum fjárveitingum þeim til handa. Hún tryggði stórstígari framkvæmdir í samgöngumálunum en nokkur dæmi voru til áður, og henni tókst að ná samkomulagi um margvíslega merka löggjöf, er um langan aldur mun bera vitni þeim skilningi, velvilja, stórhug og bjartsýni, er verið hefur höfuðeinkenni stjórnarsamstarfsins frá öndverðu og fram á þennan dag. Voru meðal þeirra lagasetninga lögin um nýbyggingarráð, en sú lagasetning hefur orðið grundvöllur margs hins mikilvægasta, er síðar hefur gerzt á sviði löggjafar þjóðarinnar.

Að afloknu vorþinginu stefndi stjórnin ótrauð áfram að settu marki. Varð hún í því skyni að gefa út ýmis brbl. Eru þeirra merkust lögin um búnaðarráð og verðlag landbúnaðarafurða og lögin um togarakaup ríkisins. Hefur Alþ. nú fallizt á þessar aðgerðir ríkisstj., og verður eigi um deilt, að vel var á haldið, er annars vegar tókst að tryggja hagsmuni bænda, en spara þó ríkissj. 10–15 millj. kr. útgjöld, en hins vegar að tryggja Íslendingum 30 nýtízku togara. Var það happ, að eigi skyldi hikað í því máli, og er nú öllum ljóst orðið, að án röggsamrar forustu nýbyggingarráðs og ríkisstj. hefðu Íslendingar ekki getað tryggt sér þessi mikilvirkustu framleiðslutæki, sem þjóðin þekkir, fyrr en eftir árslok 1948. Er og ekki ósennilegt, að þau verði þá dýrari, en jafnframt ef til vill hjá liðinn sá tími, er mestar líkur eru á hagnaði af rekstri togaranna. Svo sem kunnugt er, munu hin fyrstu skipa þessara afhent Íslendingum í haust, en hin síðustu næsta haust.

Á þessu þingi hefur stj. og flokkar hennar lagt fram og fengið lögfest fleiri og merkari þjóðnytjamál en nokkur dæmi eru til. Má þar m. a. nefna:

1. Frv. um raforkuveitu ríkisins, er hnígur að því, að þessi eftirsóttu lífsþægindi verði látin öllum landsmönnum í té, eftir því sem frekast er hægt á sæmilega fjárhagslegum grundvelli.

2. Frv. um nýbyggðir og landnám, er tryggir sveitunum a. m. k. 6 millj. kr. ríkisframlag á ári í 10 ár, til ræktunar og húsabygginga.

3. 100 millj. kr. lánveitingu til nýbyggingar á sviði sjávarútvegsins, með 2½% vaxtakjörum, í stað þeirra 6–8%, sem útvegurinn lengst af hefur orðið að greiða.

4. Frv. um alhliða aðstoð til húsbygginga í kaupstöðum og kauptúnum, er fela í sér fullkomnari úrbætur á aðkallandi þörf á þessu sviði en áður hefur verið stungið upp á á Alþingi.

5. Ný allsherjar skólalöggjöf, er endurskapar allt skólakerfi landsins.

6. Ný tryggingalöggjöf, sem setur Ísland á bekk með þeim mannúðar- og menningarþjóðum, er hæst gnæfa í þessum efnum. Er með löggjöf þessari flestum þeim, er verst eru settir í lífsbaráttunni, veitt trygging gegn skorti. Eiga þannig gamalmenni kröfu á ellilífeyri, er nemur í Reykjavík tæpum 300 kr. fyrir einhleypa, en yfir 450 kr. fyrir hjón, er búa saman. En allt er tryggingakerfið svo fullkomið, að segja má, að lagður sé grundvöllur að tryggingu gegn sjúkdómum, slysum, örorku og elli frá vöggu til grafar. Eru að vísu enn nokkrar eyður, sem í þyrfti að fylla. Verður það vafalaust gert þegar reynslan hefur sýnt, að auðnast megi að standa undir útgjaldahlið málsins. Er hér um að ræða löggjöf, sem vekur fögnuð allra þeirra, er um fleira hugsa en eigin hag. Skal fúslega játað, að nokkurs uggs gegnir um gjaldgetu hins opinbera í sambandi við kvaðir og skyldur þessarar löggjafar. En slíkt er ekki nýtt fyrirbrigði, og munu, allir góðgjarnir menn af heilum hug óska þess, að gæfa fylgi þessari löggjöf úr hlaði, og vona, að henni hlekkist ekki á, heldur megi hún vaxa og dafna, þar til hún nær að fullu þeim fagra tilgangi að sjá þeim borgið, sem útundan hafa orðið í kapphlaupinu um gæði lífsins. En þetta er frá mínu sjónarmiði höfuðtilgangur laganna.— Verður þessi merka löggjöf áreiðanlega skýrð við þessar umr. af þeim, er til þess eru færari en ég, og skal ég því eigi orðlengja um hana.

Ég hef nú nefnt sex lagabálka, er hver fyrir sig er svo merkur, að nægja mundi til þess að auka virðingu þess Alþ., er lögin setti. Er því eigi ofmælt, að þess Alþingis, sem nú er að ljúka, muni lengi minnzt með ágætum, er sama þingið hefur sett öll þessi sex lög. Hefur þingið þó margt fleira stórra mála og merkra lögfest. Nefni ég þar til m. a.:

1. Lög um 10 millj. kr. framlag til landshafnar í Njarðvíkum og Keflavík. Er hér verið að bæta úr bráðri og vaxandi þörf bátaútvegsins, en sem kunnugt er, leita bátar hvaðanæva af landinu til veiða í Faxaflóa á vetrarvertíð.

2. Almenn hafnarlög, er fela í sér mörg stórmerk nýmæli, er m. a. greiða fyrir byggingu hafna og hafnarmannvirkja um land allt. Er það augljóslega mikið þarfamál, enda frumskilyrði þess, að vel nýtist hinn mikli nýi skipastóll, sem nú er óðum að koma til landsins.

3. Nýr og fullkominn vegur austur yfir fjall. Er ætlað, að hann kosti 22 millj. kr. og verði lagður á 7 árum. Hefur það mál verið á döfinni í áratugi, en aldrei náðst um það samkomulag fyrr en nú. Er hér um stórfenglegustu samgöngubætur að ræða, er dæmi eru til hér á landi, og sýnir eitt m. a. þann stórhug. er ræður ákvörðunum núverandi valdhafa.

4. Löggjöf um nýtízku hótel í Reykjavík. Er ætlað, að það kosti 15 millj. kr., og leggi ríkið fram þriðja hluta, en Reykjavíkurbær og Eimskipafélag Íslands sinn þriðja hluta hvort. Eru allir, sem til þekkja, sammála um, að óumflýjanleg nauðsyn kalli á byggingu þessa hótels, og er þó þörf landsmanna fyrir nýjar hótelbyggingar engan veginn leyst fyrir það.

5. Bygging þriggja nýrra strandferðaskipa, sem kosta munu 7 millj. kr. Er þar leitazt við að bæta úr þeim vandræðum, er um langt skeið hafa þjakað alla þá, er komast þurfa ferða sinna eða flytja vörur sínar hafna á milli á Íslandi.

6. Lög um að reisa fyrirmyndarbæ á Skagaströnd. Er þar um tilraun að ræða, er síðar mun þykja merkileg og sýnir ef til vill betur en flest annað viðleitni valdhafanna til að láta gott af sér leiða og hikleysi við forustu á þeim sviðum, sem líklegt þykir, að gagn megi af hljótast, en ekki eru viðfangsefni einstaklinga.

7. Lög, er heimila ríkinu að reisa tunnuverksmiðju.

8. Lög, er heimila ríkinu að reisa niðursuðuverksmiðju. Er hér um nýmæli að ræða, sem vænzt er, að leiði til gagns og reynist arðvænleg, bæði beint og óbeint.

9. Lög um 34 millj. kr. ríkisábyrgð til viðbótar virkjun á Soginu í því skyni að fullnægja rafmagnsþörf Reykjavíkur, Reykjanesskagans og Suðurlandsundirlendisins.

Samfara þessu hefur svo Alþ. með setningu fjárl. veitt meira fé til verklegra framkvæmda og eflingar atvinnulífsins en dæmi eru til.

Marga fleiri merka löggjöf mætti minnast á, en þess gerist ekki þörf. Ég ætla, að nóg sé talið, til þess að sýna og sanna, að svo mikilvirkt hefur þetta Alþingi verið, svo stórhuga er nú löggjafinn, að ekkert þing hefur verið háð á Íslandi, er í þessum efnum verður á nokkurn hátt borið saman við þetta þing. Hafa stjórnarflokkarnir að sjálfsögðu haft alla forustu, en Framsfl. mörgu eða flestu sýnt andúð.

Ég hef nú minnzt nokkuð á lagasetninguna frá því að núverandi stjórnarflokkar tóku forustuna í sínar hendur. — Á sviði framkvæmdanna hafa tökin einnig verið föst, enda full nauðsyn, jafnmörg og örðug viðfangsefni, sem að hafa steðjað.

Þegar stjórnin tók við völdum, haustið 1944, var allt í óvissu um afurðasöluna. Samningar við Breta féllu niður þá um áramót, og vildu Bretar ekki endurnýja þá. Af því leiddi, að auk þess sem fullkomin óvissa ríkti um verðlag, þurfti stj. að sjá fyrir skipakosti til útflutnings alls ísfisks frá landinu. Spáðu andstæðingarnir þá miklu verðfalli og jafnvel hruni. Skal sú saga ekki rakin, en aðeins minnzt á, að í stað verðfallsins tókst stj. að hækka verð á nýjum fiski til útflutnings um 15%. Fór hún í þeim efnum eftir tili. forustumanna Suðurnesjabúa í útvegsmálum, en öll hafði stj. verið sammála um nauðsyn þess að bæta hag útvegsins. Lánuðust allar þær ráðstafanir furðu vel, og eru misfellur þær, er á urðu, smámunir hjá því, er fékkst í aðrá hönd vegna þessara aðgerða ríkisvaldsins. Náði stj. síðar samningum við Breta, er voru svo milljónatugum skipti hagkvæmari en þeir, er gilt höfðu, og spáðu þó stjórnarandstæðingar verðfalli, en ekki verðhækkun. Er engum vafa undirorpið, að myndun nýrrar stjórnar, er átti líf sitt undir því að bæta kjör almennings í landinu, átti sinn þátt í, að svo giftusamlega tókst til.

Og enn á ný tókst stj. um síðustu áramót að gera ráðstafanir til stórbættrar afkomu sjómanna og útvegsmanna, er hún samkv. till. umboðsmanna útvegsins tók á ríkissjóð ábyrgð á nokkrum hluta útflutningsvörunnar. Eru nú horfur á, að eigi hljótist skaði af fyrir ríkissjóð, og jafnvel mögulegt, að enn sé í vændum hækkandi verðlag á frystum fiski, ef atbeini ríkisins kemur til, þótt eigi sé ætlað, að því fylgi áhætta fyrir ríkissjóð. Hefur ríkisstj. nýverið náð frjálsu samkomulagi við hraðfrystihúsin, sem tryggir sjómönnum og útvegsmönnum uppbætur á innlagðan fisk, ef verðið hækkar að mun frá því, er í öndverðu var ætlað. Hefur það samkomulag nú verið lögfest. Þannig hafa afskipti ríkisvaldsins af þessum málum, bæði haustið 1944 og nú, orðið til að stórbæta hag útvegsins í heild.

Þá hefur ríkisstj. átt í stöðugum samningum við önnur ríki í því skyni að tryggja verzlun og viðskipti og greiða fyrir sölu útflutningsafurða landsmanna við sem arðvænlegustu veiði. Hefur þannig verið samið við Breta, Svía, Finna og Tékka. Er nú verið að semja við Rússa og Frakka, en undirbúningur samninga við Belgi, Hollendinga, Ítali og Svisslendinga. Þá. er og ólokið samningum við Dani vegna niðurfellingar sambandslagasáttmálans og stofnunar lýðveldis á Íslandi. Er hér í mörgum efnum lagt inn á nýjar brautir í því skyni að afla nýrra markaða og tryggja hina eldri, enda sýnt, að eigi nægir að afla nýrra tækja nema jafnframt sé unnið að því að greiða á alla lund fyrir sölu afurðanna. Geta menn nú borið þessar staðreyndir saman við fullyrðingar Hermanns Jónassonar um, að ekkert hafi verið aðhafzt í þessum efnum, og haft það til vitnis um málflutning þessa hv. þm. Er þess enginn kostur að rekja hér þessa þýðingarmiklu samninga, en rétt þykir að geta þess, að líkur eru fyrir stórhækkandi verði á síld og síldarafurðum, einkum síldarlýsi, svo að ætla má, að síldarmálið verði um 30 kr. á næsta sumri í stað 18.00 í fyrra.

Allt eru þetta mikilsverð mál, er krefjast mikillar athugunar og aðgæzlu, og hefur ríkisstj. þurft að leggja mikla vinnu í skynsamlega lausn allra þessara milliríkjasamninga.

Óteljandi önnur viðfangsefni hefur orðið við að fást, þar á meðal og eitt hið mikilvægasta það að tryggja vinnufrið í landinu. Hefur það tekizt með tiltölulega fáum og smáum undantekningum, og logaði þó allt í deilum og verkföllum, þegar stj. tók við völdum. Verður ávinningur þess fyrir þjóðarbúið seint ofmetinn.

Vinnst hér ekki tími til að greina frekar en orðið er frá samstarfinu, en allir, sem eitthvað skyn bera á þá hluti, geta gert sér í hugarlund, að í samstarfi flokka, er hafa mjög ólík viðhorf til stjórnmálanna, liggur mikil vinna að baki öllum þeim örlagaríku ákvörðunum, er stjórnarflokkarnir hafa tekið á sviði löggjafar og framkvæmda. Að tekizt hefur að lokum að ná svo víðtæku samkomulagi sem raun ber vitni um, sannar, að gengið er að verki með festu, krafti og lagni, og að í herbúðum stjórnarliða ríkir sterkur og almennur áhugi fyrir því, að hinar stórhuga fyrirætlanir og framkvæmdir stjórnarflokkanna kafni ekki í innbyrðis ágreiningi, heldur nái þær fram að ganga, þjóðinni til farsældar og blessunar um langan aldur.

Ég hef þá stuttlega drepið á árangur samstarfs stjórnarflokkanna. Þjóðin verður nú að dæma um, hvort henni líkar betur eða miður. Við þann dóm er hollt að hafa til hliðsjónar það, sem var, og ekki sízt það, sem verið hefði, ef sú stefna, sem Frmsfl. nú boðar, hefði ráðið. Kjarni hennar er sá, að fyrst verði að lækka allt kaupgjald í landinu, síðan að ráðast í framkvæmdir. Að sönnu aðhylltust framsóknarmenn kauphækkanir meðan þeir ætluðu að taka þátt í stj., ef þeim tækist ekki að viðhalda glundroðanum, en eftir að þeir urðu utangátta, linnir ekki óhróðrinum um fjárglæfra ríkisstj., er hún beitir sér fyrir kaupum á nýjum tækjum án þess að sjá um kauplækkanir. Er þó öllum ljóst, að eigi gat nokkur maður ákveðið það haustið 1944, hvert kaupgjaldið þyrfti að verða, til þess að tryggja arðvænlegan rekstur hinna nýju tækja, þegar þau koma í notkun á árinu 1946 eða 1947. Hitt er jafnljóst, að meðan útvegurinn er rekinn með sæmilegum árangri, sættir verkalýðurinn sig ekki við kauplækkanir. Það var því hvorki á valdi Framsfl. né annarra að knýja kauplækkanir fram. Nægir það eitt til að sanna, að þessi meginkrafa Framsfl. er þegar af þeirri ástæðu dauðadæmd. En auk þess er hún jafnósanngjörn sem hún er óviturleg. Afleiðingin gat aldrei orðið önnur en verkföll og ófriður, er leitt gat til óbærilegs tjóns fyrir þjóðarbúið, en lyktar með réttlátum sigri verkalýðsins. Þetta er rétt, að þjóðin hafi í huga, þegar hún kveður upp dóm sinn við kosningarnar. Annars vegar styrjöld, sem hlaut að enda með ósigri kauplækkunarkröfunnar, en áður hefði þó leitt til, að þeir fjármunir, sem nú er varið til nýsköpunar, hefðu eyðzt í herkosanað. Hins vegar þær framfarir á sviði löggjafar og framkvæmda, er ég hef lýst. Það er að sönnu rétt, að Framsfl. hefur ekki barizt gegn hverju einasta þörfu máli. Til þess virðist hann hafa haft vilja, en brostið kjark, vegna kosninganna, sem fyrir dyrum eru. Þetta er þó ekki aðalatriðið, heldur hitt, að Framsfl. hefur barizt eins og hýena gegn því samstarfi, sem öll sú löggjöf og allar þær framkvæmdir, sem ég lýsti, hafa sprottið af.

Valið er á milli stjórnarflokkanna, sem biðja þjóðina þess að verða dæmdir af verkum sínum, og Framsfl., sem með hnúum og hnefum hefur fjandskapazt gegn stjórnarsamstarfinu frá því að stj. tók við völdum og fram á þennan dag. Það er fyrir hina neikvæðu baráttu gegn hinni alhliða, stórhuga og víðsýnu viðreisnarstefnu stjórnarflokkanna í andlegum og veraldlegum efnum, baráttu Framsfl. gegn hinum stórfelldu hagsmunamálum bænda, sjómanna, útvegsmanna og yfirleitt alls almennings í landinu, sem hin dauða hönd Framsfl. biður nú þjóðina um nýjan styrk, svo að henni megi framvegis takast að kyrkja í fæðingu slík þarfamál sem þau, sem stjórnarflokkarnir hafa borið og vilja bera fram til sigurs.

Háttvirtu alþingismenn og aðrir hlustendur! Ykkar er nú að kveða upp dóminn, ýmist á Alþingi eða við alþingiskosningarnar í sumar. Þeir, sem kosið hafa innbyrðisstyrjöld á sviði athafnalífsins og athafnaleysi í stjórnmálalífinu, samþykkja vantraust á stjórnarflokkana á Alþingi og við kosningarnar. Hinir fella vantraustið á Alþingi og Framsfl. við kosningarnar. Sú fylking verður mikil og þéttskipuð. Í henni verða allir þeir, sem fagna því, að þjóðinni hefur verið forðað frá vinnudeilum og í stað þess tryggður friður til að vinna að framleiðslunni og öðrum þjóðnytjastörfum. Þar verða og allir þeir, sem viðurkenna, að vel og viturlega voru leyst vandamál bænda. Þar verða sjómenn og útvegsmenn og allir aðrir, er bera hag útvegsins fyrir brjósti, til þess með þeim hætti að styðja þá stjórn, sem hafði hrakspár hrunstefnumanna að engu, fyrirskipaði allmikla verðhækkun á innlendum markaði á framleiðsluvöru útvegsins, en tók síðan upp djarfa og sigursæla baráttu fyrir afurðaverðinu á erlendum markaði með margflóknum milliríkjasamningum og einbeittri sókn inn á nýja markaði. Í þeirri fylkingu verða og allir, er fagna því, að 30 nýir togarar og yfir 100 stórir vélbátar eru væntanlegir til landsins. Enn fremur allir þeir, sem gleðjast yfir því, að nýjar verksmiðjur og óteljandi nýjar landbúnaðarvélar eru nú teknar í þjónustu þjóðarinnar, og með öllu þessu er stigið langstærsta sporið, er Íslendingar hafa nokkru sinni stigið, til þess að fylgja fordæmi þeirra þjóða, er komizt hafa til auðs og velmegunar, einmitt með því að taka vélaaflið í sína þjónustu. Þarna munu og sjást þeir, er telja sér til hagsbóta, að raforkan verði leidd inn á sem flest heimili í landinu. Þeir, er þakka aðstoð við húsbyggingar í kaupstöðum og kauptúnum. Þeir, sem telja sér til framdráttar, að ríkið veiti 6 millj. kr. árlega í 10 ár til aukinnar ræktunar og byggingar í sveitum landsins. Þeir, sem vilja heldur greiða 2½% vexti en 8% af lánum til nýsköpunar útvegsins. Þar verða allir þeir, sem fagna því að verða tryggðir fyrir skorti frá vöggu til grafar. Þeir, sem láta sig það skipta, að bætt verði menntun unglinga í landinu. Þeir, sem telja sér til hagsbóta, að ríkið skapi örugga samgönguleið austur yfir fjall og verji til þess 22 millj. kr. Þeir, sem telja nauðsyn á hafnarbótum og nýrri landshöfn. Þeir, sem telja, að bæta þurfi samgöngur á sjó við strendur landsins. Þeir, sem telja þörf fyrir gistihús í Rvík. Þeir, sem vilja forgöngu ríkisins til fyrirmyndar framkvæmda, sem einstaklingurinn ræður ekki við. Og yfirleitt allir þeir, sem beint eða óbeint hafa hagnazt á því framtaki, sem stjórnarflokkarnir hafa sýnt og munu sýna, meðan þeir starfa saman.

Ég held, að ekki sé fýsilegt fyrir svokallaða framsóknarmenn að sækja fram gegn þessari fylkingu.

Ég ætla að bíða rólegur dóms þjóðarinnar. Ég kvíði honum ekki. Hann verður ekki nema á einn veg. Þjóðin hefur raunar þegar kveðið upp sinn dóm. Hún hefur kveðið niður návæl forkólfa Framsfl. Hún hefur neitað að láta það á sig fá, þótt tveir nafnkunnir menn lentu utan við ráðherrastólana. Hún hefur lagt blessun yfir stefnu stjórnarinnar og störf. Hún hefur nú þegar ráðstafað nær 240 af þeim 300 millj., er ákveðið var að verja til kaupa á nýjum tækjum. Þessi dómur er skýr og tvímælalaus. Þessi dómur er ekki stéttadómur. Hann er kveðinn upp af mönnum úr öllum stéttum, dreifðum um allt land. Rödd bænda kveður hátt við. Þeir ákæra forustu Framsfl. fyrir að hafa brugðizt, þegar mest á reið. Þeir telja meiru skipta, að bændur fái sinn skerf nú, þegar þjóðin í fyrsta sinn ræður yfir verulegum fjármunum og hefur staðráðið að verja þeim til eflingar atvinnulífinu, en hitt, hvort Hermann Jónasson og Eysteinn Jónsson eru ráðherrar. Þess vegna hafa þeir nú heimtað og tryggt sér vélar í þágu landbúnaðarins fyrir tvo til þrjá milljónatugi. Og þess vegna hafa þeir nú unnvörpum snúið bakinu við forustu Framsfl.

Ég tel mig nú hafa gert hreint fyrir dyrum ríkisstj. Ég ætla mig hafa sannað, að hún verðskuldar beinan stuðning allra annarra en þeirra, sem alls ekki geta fellt sig við samstarf við einn eða fleiri af stjórnarflokkunum. Sem kunnugt er hafa framsóknarmenn almennt ekki verið í þeim flokki. Vænti ég því, að ekki aðeins sjálfstæðismenn, sósíalistar og Alþýðuflokksmenn, heldur og framsóknarmenn víða um landið aðhyllist stefnu stjórnarinnar við Alþingiskosningarnar, hvort sem þingflokkurinn telur sér skylt eða ekki að geðjast foringjunum með því að greiða vantraustinu atkvæði.