27.04.1946
Sameinað þing: 43. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 282 í D-deild Alþingistíðinda. (4249)

228. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Fjmrh. (Pétur Magnússon) :

Það er mér ekkert undrunarefni, þótt mönnum þeim, sem mestu réðu um stjórnarstefnuna á landi hér á árunum 1934–1939, hrjósi hugur við þeim atburðum, er orðið hafa hin þrjú síðustu misseri. Meiri straumhvörf hafa aldrei orðið í íslenzkum stjórnmálum. Ólíkari ráðum hefur aldrei verið beitt til þess að tryggja efnahagsafkomu þjóðarinnar en á þessum tveim tímabilum. Öll viðhorf stjórnarinnar, bæði inn á við og út á við, hafa verið gerólík. Þegar stjórn Hermanns Jónassonar tók við völdum 1934, átti hún vissulega við ýmis erfið viðfangsefni að glíma. Atvinnu- og viðskiptakreppa hafði þá nýlega gengið yfir heiminn og þjóð vor ekki farið varhluta af henni, fremur en aðrar þjóðir. Atvinnuvegirnir til lands og sjávar höfðu hrörnað og gjaldeyrisskortur var farinn að gera vart við sig. Atvinnurekstur hafði gengið saman og atvinnuleysi farið vaxandi ár frá ári. Það þurfti því sterkra átaka við, ef vel átti að fara. Og stjórnin fann ráðið. Hún ætlaði að bæta allar meinsemdir með því að hindra innflutning til landsins. Það gekk jafnvel svo langt, að reynt var að telja þjóðinni trú um, að innflutningur nýrra atvinnutækja væri glæpsamlegur. Þeir, sem reyndust sekir um slíkt athæfi, nefndust einu nafni braskarar og þeir voru taldir öllu neðar í mannfélagsstiganum en t. d. smáþjófar. Jafnvel árið 1939, eftir að byrjað var að gera ráðstafanir vegna yfirvofandi styrjaldar, kom Eysteinn Jónsson í veg fyrir, að flutningaskip væri keypt til landsins. Og ef ég man rétt, þá gekk ekki alveg tregðulaust tveim árum síðar að fá leyfi til að reisa nýja og fullkomna síldarverksmiðju hér á Norðurlandi. Bæði þessi tæki átti þó að kaupa fyrir erlent lánsfé, svo að augnablikserfiðleikar með útvegun gjaldeyris gátu ekki ráðið úrslitum. Eina atvinnuaukning, sem náð fann fyrir augum landsstjórnarinnar á þessum árum, var ýmiss konar smáiðnaður. Fór þó það orð af, að hann væri fremur studdur til flokksframdráttar en til þjóðþrifa. Var sá orðrómur tæpast úr lausu lofti gripinn, því að óvéfengjanlegt er það og öllum hér í Reykjavík var það kunnugt, að fjölmargir framsóknarmenn lifðu þá góðu lífi á því einu að útvega innflutningsleyfi fyrir þessi fyrirtæki. En þrátt fyrir þessi ströngu innflutningshöft fór nú svo, að gjaldeyrisástandið fór síversnandi ár frá ári. Fyrst var reynt að bæta úr með lántökum, en þeir möguleikar hurfu fljótlega. Gjaldeyrir landsmanna féll í verði, svo að íslenzkir seðlar voru seldir jafnvel fyrir hálfvirði til erlendra peningamangara. Samhliða þessu dróst atvinnan saman og atvinnuleysingjum fjölgaði. Var lífinu haldið í þeim með síhækkandi atvinnuleysisstyrkjum, og haustið 1938 var svo komið, að ríkið hafði ekki gjaldeyri til að greiða umsamdar afborganir og vexti af erlendum lánum sínum og gat hvergi fengið ný lán til þess. Landsbankanum tókst að vísu að fá bráðabirgðalausn á málinu, en ekki var það dyggð ríkisstj. Þá fyrst, eftir að raunveruleg ríkisgjaldþrot höfðu orðið, gafst ríkisstj. upp og flýði á náðir höfuðandstæðings síns, Sjálfstfl. Góðu heilli var sú aðstoð í té látin. Ég hygg ekki ofmælt, þótt sagt sé, að þetta valdatímabil Framsfl. sé mesta niðurlægingartímabil í sögu þjóðarinnar, síðan hún slapp undan erlendri áþján og verzlunaránauð. Höfuðorsök þessarar niðurlægingar var fádæma skilningsleysi og skammsýni valdhafanna, algerður þekkingarskortur á skilyrðum fyrir heilbrigðri þróun atvinnulífs og viðskiptalífs og algert ofmat á gildi verzlunar- og innflutningshafta. Fyrir þennan vesaldóm stj. hefur þjóðin orðið að þola vanvirðu og miklar þrautir. Ættu allir góðir menn, hvar í flokki sem þeir standa, að vinna að því sameiginlega, að slík reynsla þurfi eigi að endurtaka sig.

Þegar núverandi stjórn tók við völdum fyrir röskum þrem misserum, var viðhorfið að því leyti allt öðruvísi en 1934, að miklar erlendar innstæður höfðu safnazt fyrir á styrjaldarárunum. En að því leyti var það svipað, að höfuðframleiðslutækin, skipastóllinn, hafði gengið úr sér. Bæði hafði skipunum fækkað, af ýmsum ástæðum, og þau, sem til voru, elzt og gengið úr sér. Allverulegur hluti verkafólks starfaði í þágu setuliðsins, og þótt öðrum atvinnutækjum, sérstaklega frystihúsum, hefði fjölgað nokkuð á styrjaldarárunum, var fyrirsjáanlegt, að jafnskjótt og setuliðsvinnan þyrri, mundi atvinnuleysi skella yfir að nýju. Stjórnin átti nú um tvo kosti að velja. Annan þann að feta í fótspor fyrirrennaranna frá 1934, hefta innflutning, láta allt reka á reiðanum, bíða atvinnuleysisins og nota erlendu innistæðurnar til atvinnuleysisstyrkja. Sjálfsagt hefðu þær enzt nokkur ár til þess. Með því móti gat stjórnin og að sjálfsögðu líka staðið prýðilega að vígi til að kaupa sér fylgi, með því að úthluta gjaldeyrinum aðeins til vina og velunnara. En stj. valdi nú ekki þennan kost. „Sporin hræða.“ Hún vildi láta vítin verða sér til varnaðar. Hún valdi hinn kostinn, sem fyrir hendi var. Hún hófst þegar í stað handa áður en atvinnuleysið var skollið á um útvegun nýrra atvinnutækja. Hún taldi, að hinum erlendu innstæðum væri á engan hátt eins vel varið og til að afla þjóðinni nýrra og fullkominna atvinnutækja, sem aftur eiga að verða uppspretta nýs gjaldeyris, og ef allt fer með felldu, að koma í veg fyrir sams konar niðurlægingarástand og ríkti á valdatíma Framsfl. Þessa stefnu valdi stj. í öndverðu og henni hefur hún dyggilega fylgt. Hefur hæstv. forsrh. gert allýtarlega grein fyrir, hvað gert hefur verið í þessum efnum, og mun ég því eigi endurtaka það. Nú hafa forustumennirnir frá 1934 farið fram á það við þingið, að það lýsti vantrausti á stjórninni fyrir að hafa ekki fetað í fótspor þeirra. Hvað sem um þá till. annars má segja, þá ættu allir að geta verið sammála um eitt: kjarklausir eru mennirnir ekki. Sumir mundu jafnvel segja, að það gengi blygðunarleysi næst að gera sér leik að, því að minna á þá fortíð, sem þeir hafa í þessum efnum.

Þessar almennu hugleiðingar mínar hafa orðið þetta langar af því, að ég tel þær fjalla um höfuðádeiluefnið. Átökin eru fyrst og fremst um það, hvort stefna skuli að samdrætti eða þenslu í atvinnulífinu. Hitt eru allt aukaatriði. En áður en ég skilst við þessa hlið málsins, get ég ekki komizt hjá að minna á það, sem ég hef raunar gert áður, að hér er ekki aðeins um að ræða fjárhagsafkomu þjóðarinnar, heldur og pólitískt sjálfstæði hennar. Öllum má vera það ljóst, að þegar þjóðin tók öll mál í sínar hendur, þá batt hún sér og þunga bagga fjárhagslega. Reynslan hefur þegar sýnt, og mun þó koma betur í ljós síðar, að utanríkisþjónustan kostar mikið fé, og það þótt sparlega væri á haldið. Undir þeim kostnaði verður framleiðsla landsmanna að standa. Ef hann á að skiptast á fá og tiltölulega afkastalítil atvinnutæki, er vonlaust, að undir honum verði risið. En þess fleiri og stórvirkari, sem atvinnutækin eru, og þess þróttmeiri, sem utanríkisverzlunin er, þess meiri von er um, að bjartsýni og stórhugur þjóðarinnar verði henni ekki til skammar. Þessu má sízt af öllu gleyma.

Skal ég þá næst drepa nokkuð á þær ádeilur, er fram hafa komið í umræðunum og varða þau ráðuneyti, er ég veiti forstöðu.

Hv. þm. Str. vék nokkuð að viðskiptamálunum. Átaldi hann ríkisstj. fyrir að hún hefði vanrækt að gera viðskiptasamninga við aðrar þjóðir, og tilgreindi þar sérstaklega Svíþjóð. Taldi hann, að vanrækt hefði verið að senda þangað mann til samninga, og afleiðing þess væri sú, að nú væri hér timburskortur. Út af þessu vil ég láta þess getið, að ríkisstj. telur, að rétt sé og skylt að fela sendiherrum og sendifulltrúum landsins að annast samningagerðir erlendis, eftir því sem við verður komið. Þrátt fyrir það verður oft ekki hjá því komizt að láta þeim aðstoð í té, því að naumast verður þess krafizt, að sendifulltrúarnir hafi jafnan þá sérþekkingu, sem nauðsynleg er, til þess að ganga frá verzlunar- og viðskiptasamningum.

Um verzlunarsamningana við Svíþjóð er það að segja, að nálægt tveim mánuðum áður en samningarnir runnu út, var sendifulltrúanum í Svíþjóð falið að hefja umleitanir um framlengingu á samningnum frá 1945, með tilteknum breytingum, sem stj. óskaði, að gerðar yrðu á honum. Fyrst í stað virtist allt ætla að ganga vel, en þegar á átti að herða, vildu Svíarnir þá aldrei taka afstöðu til málsins. Í þessu þófi stóð fram eftir marzmánuði, en þá gáfu Svíarnir vilyrði um svör innan fárra daga. Þá tók stj. ákvörðun um að senda formann viðskiptaráðs til aðstoðar við endanlega samningagerð, og fór hann til Stokkhólms seint í marzmánuði. En því miður leiddi reynslan í ljós, að hann kom of fljótt, en ekki of seint. Svíarnir gátu enn þá ekki ákvarðað sig, að því er virðist vegna samninga við aðrar þjóðir. Nú loks virðist vera að koma skriður á málið, hvernig sem úrslitin verða. Stj. hefur verið það vel ljóst, hversu bagalegt það er að þurfa að stöðva timburinnflutning frá Svíþjóð, og hún hefur vissulega gert allt, sem í hennar valdi stóð, til að koma í veg fyrir þá stöðvun. En það er ekki á hennar valdi að kúga aðrar þjóðir til að selja hingað vörur, hvorki timbur né annað, og ætti hver skynbær maður að geta skilið það. Þessi ákæra þm. Str. er því ekki annað en munnfleipur. Að öðru leyti skal ég vísa til þeirrar greinargerðar, sem hæstv. forsrh. gaf hér í gær um viðskiptasamningana.

Þá drap hv. þm. Str. nokkuð á gjaldeyrismálin. Taldi hann, að dollarainnstæðunni hefði verið varið til innkaupa á alls konar óþarfa og glysvarningi, en hins vegar héldist einstökum mönnum og fyrirtækjum uppi að geyma stórar fjárhæðir í dollurum erlendis. Allt er þetta uppspuni frá rótum. Síðan gengið var frá samningum við Bretland 1945, get ég fullyrt, að engin leyfi hafa verið veitt í dollurum fyrir öðru en nauðsynjavörum. Um það hefur verið fullt samkomulag milli ráðuneytisins og viðskiptaráðs. Þá má geta þess, að gjaldeyriseftirlitið hefur verið skerpt, eftir till. þeirra manna, er dómbærastir allra ættu að vera um það mál, og er gjaldeyriseftirlitið nú undir yfirumsjón Landsbankans. Þykist hv. þm. Str. hafa einhver rök fyrir, að gjaldeyri hafi verið skotið undan, skora ég á hann að gera gjaldeyriseftirlitinu aðvart um það. Að öðrum kosti verður að líta á þessar aðdróttanir hans sem uppspuna sjálfs hans.

Að gefnu tilefni þykir mér rétt í þessu sambandi að minnast á gagnrýni, sem fram hefur komið út af því, að stj. hefur leyft yfirfærslu á innstæðum eða skuldum við erlenda ríkisborgara. Er þar aðallega um að ræða arfa og eignir kvenna, sem gifzt hafa erlendum mönnum, og munu nema samtals um 100 þús. dollurum. Þetta var gert að yfirlögðu ráði og í fullu samráði við utanrrn., sem taldi, að oss mundi eigi stætt á að neita að greiða erlendar skuldir, ef fé væri fyrir hendi. Á valdatíma framsóknarmanna var það að vísu svo, að menn voru almennt neyddir til að svíkja erlendar skuldbindingar sínar. Ég hef jafnan talið, að getuleysið hafi þar eitt um ráðið, en ekki hitt, að Framsfl. telji, að sú eigi að vera reglan að svíkjast um að greiða erlendar skuldbindingar. Frá þjóðhagslegu sjónarmiði er og í hæsta máta hæpið að gera sér leik að að safna erlendum innstæðum. Þær verða ávaxtaðar hér, hlaða utan á sig, og þegar að skuldadögunum kemur — og einhvern tíma koma þeir —, verða fjárhæðirnar hærri, sem yfirfæra þarf. Við höfum að því keppt á undanförnum árum að greiða upp erlend lán ríkissjóðs, bæjarfélaga og annarra innlendra stofnana. Þetta hefur án efa verið rétt hagfræði. En því skyldum vér þá ekki alveg á sama hátt reyna að losna við þær erlendu skuldbindingar, sem frá öðru stafa en beinum lántökum? Á það má og minna, að ef vér greiðum ekki arfa og erlendar innstæður vegna hjúskapar, þá getum vér ekki búizt við öðru en erlendar þjóðir mæli oss í sama mæli. Mun því áhallinn, þegar til lengdar lætur, varla verða mikill.

Áður en ég skilst við þessa hlið málsins, gjaldeyrismálin, get ég ekki stillt mig um, út af umtali og blaðaskrifum, sem orðið hafa í sambandi við innflutninga á notuðum bátum og brigzlum um slæma meðferð á erlendum gjaldeyri í sambandi við það, að lesa upp lítinn kafla úr skýrslu, sem ég hef nýlega fengið frá nýbyggingarráðinu. Þar segir svo :

„Til fróðleiks skal hér nefnt dæmi um, hve miklum erlendum gjaldeyri hefur verið varið til kaupa á tveim slíkum bátum (þ. e. a. s. notuðum bátum frá Svíþjóð) og hve mikils gjaldeyris slíkir bátar hafa aflað á yfirstandandi vertíð.

Báðir þessir bátar byrjuðu veiðar um og eftir miðjan janúar. Aflamagn hvors um sig mun vera um og yfir 1300 skippund, eða að verðmæti sem óunnið hráefni frá 390–400 þús. kr. á bát. Aflahlutur háseta á þessum bátum mun vera yfir 12 þús. kr. í þrjá og hálfan mánuð. Hafi þessi afli á hvorum bát fyrir sig t. d. verið saltaður, þá er hann ásamt lifur og hrognum að útflutningsverðmæti um 650 þús. kr. Hafi þessi fiskur verið hraðfrystur, má gera ráð fyrir, að útflutningsverðmæti aflans af einum þessum bát sé eigi undir 725 þús. kr. Þá hafa þessir tveir bátar aflað samtals miðað við hráefnisverð 780–800 þús. kr., en miðað við útflutningsverðmæti aflans fullunnins um 1.3 millj. kr. til 1 millj. og 450 þús. kr. Bátar þessir kostuðu í erlendum gjaldeyri um 300 þús. kr. íslenzkar hvor. Hafa þeir þannig hvor um sig skilað meir en tvöföldum þeim gjaldeyri, sem eyddist við innkaup þeirra til landsins.“

Þetta sýnir glöggt, á hve góðum rökum reistar eru þær ádeilur, sem fram hafa komið um slæma meðferð á gjaldeyrinum. Nú er náttúrlega þess að gæta, að útgerð bátanna kostar einhvern erlendan gjaldeyri, sem þarna er ekki reiknað með.

Mér heyrðist hv. þm. Str. í gærkvöld eitthvað vera að tala um lúxusbíla, sem stjórnin hefði keypt. Það voru einhverjar truflanir í útvarpinu hjá mér, og líklega hefur þetta verið misheyrn hjá mér. Ég held, að það geti varla verið, að hann, einmitt hann, sé að brigzla stjórninni um bílabrask. Þau þrjú misseri, sem stj. hefur verið við völd, hefur hún keypt aðeins einn notaðan fólksbíl, við mjög lágu verði, og einn lélegan setuliðsjeppa. Getur þá hv. þm. Str. borið það saman við sín eigin bílakaup í stjórnartíð hans og raunar líka síðan hann fór úr stjórninni. Hitt er annað mál, að stj. mun eigi geta komizt hjá að endurnýja að meira eða minna leyti bílakost ríkisins, því að varla getur þm. Str. búizt við, að aðstæður hafi breytzt svo hér á landi síðan á valdatímabili hans, að stj. og ýmsar ríkisstofnanir geti komizt hjá að hafa nokkurn bílakost.

Út af útflutningnum til Danmerkur, sem hv. þm. að síðustu gerði að umræðuefni, vil ég aðeins segja það, eins og ég raunar áður hef upplýst, að hann hefur verið undir ströngu eftirliti. Þær vörur, sem út hafa verið fluttar, hafa auk innlendrar framleiðslu að langmestu leyti verið enskar vörur, fluttar hingað á stríðsárunum, en reynzt óhentugar eða ónothæfar fyrir innlendan markað. Engin tolleftirgjöf hefur átt sér stað, og einskis tvímælis orkað, að þessi útflutningur hefur verið þjóðhagslega mjög hagstæður.

Læt ég svo útrætt við hv. þm. Str.

Ég kem þá næst að hv. þm. Mýr. Að svo miklu leyti sem ræða hans fjallaði um hinar „óskáldlegu staðreyndir“, gekk hún út á að sýna fram á, annars vegar hrörnun atvinnuvega landsmanna almennt og hins vegar, að landbúnaðurinn væri sérstakt olnbogabarn ríkisstj., sem hún helzt vildi koma undir græna torfu. Allt er þetta nú gamall söngur, sem bæði þm. og landsmenn kannast vel við. Um hrörnun atvinnuveganna skal ég ekki fjölyrða, enda hafa aðrir um það rætt. En ég verð að segja það, að þessi hrörnunarbarlómur er í mínum augum hálfógeðslegur. Það lýsir leiðinlega smáborgaralegum hugsunarhætti að berja sér þá mest um fátækt, er þjóðin býr við betri efnahagsafkomu og almennari velmegun en nokkru sinni fyrr. Að maður nú ekki tali um, ef bera á saman afkomu þessarar þjóðar við það, sem flestar aðrar þjóðir verða nú að búa við. En allir vita, að þjóðin býr nú við betri fjárhagsafkomu en nokkru sinni fyrr.

Um viðhorf ríkisstj. til landbúnaðarins get ég fullyrt, að allri stj. er ljóst, hver þjóðarnauðsyn það er, að blómlegur landbúnaður geti þrifizt hér. Um hitt geta svo verið skiptar skoðanir, á hvern hátt því takmarki verði náð. Er ekki tími til að ræða það hér. En viðhorf stj. til landbúnaðarins kemur væntanlega bezt fram í þeirri löggjöf, sem stj. hefur staðið að og landbúnaðinn varðar. Er þá fyrst á það að minna, að stj. hefur af alefli viljað beita sér fyrir, að landbúnaðurinn gæti tekið vinnuvélar í þjónustu sína. Fyrir milligöngu nýbyggingarráðs hefur verið útvegað til landsins margfalt meira af landbúnaðarvélum en nokkur dæmi eru til áður. Þá hafa nú nýlega, fyrir atbeina nýbyggingarráðs og stj., verið sett lög um nýbyggðir, landnám og byggingar í sveitum, er gerir ráð fyrir, að á næstu 10 árum verði varið 60–70 millj. kr. til að rækta og byggja upp sveitirnar. Fullyrði ég, að aldrei hafi fyrr verið gerð svo stórhuga tilraun til að lyfta landbúnaðinum. Það er skylt að geta þess, að enginn einstakur þm. hefur gert jafnmikið til að koma því máli fram og hv. þm. A-Húnv., sem raunar hefur verið lífið og sálin í mörgum hagsmunamálum landbúnaðarins hin síðari ár, enda hefur Framsfl. þakkað honum eins og innræti hans stendur til. — Þá skal ég nefna lög um jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir frá síðasta ári, sem heimila 3 millj. kr. framlag úr ríkissjóði til véla- og verkfærakaupa. Einnig vil ég minna á afnám 17. gr. jarðræktarlaganna, sem eftir langa baráttu við Framsfl. hefur nú fengizt framkvæmd, og þorði Framsfl. ekki að standa á máti að síðustu. Frv. þetta var flutt af hv. þm. Dal. Þá skal nefna lög um búnaðarráð, sem leggur æðsta vald í verðlagsmálum landbúnaðarins í hendur 25 bændum og öðrum fulltrúum landbúnaðarins, í stað þess að það vald var áður að meiri hluta hjá fulltrúum neytenda og einum stjórnskipuðum manni. Framsfl. hefur að vísu reynt að vekja æsing gegn stj. út af þessari löggjöf, en þó er það mörgum kunnugt, að framsóknarmenn trúðu ekki fyrr en þeir tóku á, að fulltrúar verklýðsflokkanna vildu ganga inn á slíka réttarbót til handa bændum. Framsfl. hefur í þessu máli fylgt hinni gömlu hernaðarreglu, að sókn sé sterkasta vörnin. Hann öfundast við Sjálfstfl. fyrir að hafa komið þessu máli í framkvæmd og grípur þá til þessa ráðs, að reyna að slá ryki í augu manna og láta sem verið sé að svipta bændur rétti.

Þá skulu nefnd lög um niðurgreiðslu á kjöti. Eins og öllum er kunnugt, tókst á s. l. hausti að ná samkomulagi um niðurgreiðslu á kjöti á innlendum markaði, sem vonandi verður til þess, að langsamlega meginhluti kjötframleiðslunnar selst innanlands fyrir hagstætt verð. Þessi samningur var að vísu þeim skilyrðum bundinn, að hætt yrði að greiða útflutningsuppbætur, og hefur nú verið reynt að nota það til æsinga gegn stj. Í því sambandi vil ég minna á, að fyrir rúmu ári síðan skrifaði Búnaðarfélag Íslands öllum búnaðarsamböndum landsins „að allir vissu, að engar útflutningsuppbætur yrðu framar greiddar á landbúnaðarafurðir“, og mun hv. þm. Mýr. hafa staðið undir því bréfi. En nú, þegar búið er að ákveða að nota á annan tug milljóna til að greiða niður landbúnaðarvörur á innlendum markaði, lætur þessi hv. þm. eins og hann telji þetta hið mesta gerræði. Ekki er nú samræmið gott.

Þá vil ég aðeins drepa á eitt mál, sem hv. þm. Mýr. gerði að höfuðárásarefni á stj., en það er breyting á lögum um búnaðarmálasjóð. Ég bjóst nú satt að segja við, að hv. þm. mundi byrja umræður um þetta mál á að segja fréttir frá aðalfundi Búnaðarsambands Suðurlands, sem var nú fyrir fáum dögum og hv. þm. mun hafa komið á, og skýra frá, hverjar undirtektir mál hans hefði fengið þar. En af einhverjum ástæðum sleppti hann því alveg. Eins og kunnugt er, hefur sú breyt. náð fram að ganga á fyrrnefndum lögum, að í stað þess að Búnaðarfélag Íslands ráðstafi fé því, er inn kemur í sjóðinn, skuli það renna beint til búnaðarsambandanna. Má nú náttúrlega deila um það til eilífðar, hvort heppilegra sé, að heildarsamtökin eða búnaðarsamböndin ráðstafi fénu. En um hitt verður ekki deilt, að féð á að nota til hagsbóta fyrir landbúnaðinn hvor aðferðin sem er viðhöfð. Hefur þess gætt, að búnaðarsamböndin hafa hvergi nærri notið sín vegna fjárskorts. Það sýnist dálítið hæpið að telja það beina árás á bændastéttina að reyna að bæta úr þessu. Þetta mál er annars gott dæmi þess, hvernig smáágreiningur er blásinn upp og reynt að gera úr honum stórmál. En ég ætla, að árásirnar út af þessu máli reynist álíka haldgóðar og árásirnar, sem á sínum tíma voru gerðar út af stofnun búnaðarráðs. Hver maður, sem ekki horfir gegnum lituð flokksgleraugu, hlýtur að sjá, að bæði málin eru borin fram til hagsbóta fyrir íslenzkan landbúnað, en ekki til að hnekkja honum.

Áður en ég skilst við landbúnaðarmálin get ég ekki stillt mig um að minnast aðeins á, að um síðastliðin áramót hefur íslenzkum landbúnaði í fyrsta sinni verið sá sómi sýndur að ráða í áhrifamikla stöðu í landbrn. einn af mikilhæfustu og bezt menntu frömuðum landbúnaðarins á síðustu árum. Undrast ég satt að segja, að enginn af mínum ágætu fyrirrennurum í landbrn. skuli hafa komið auga á, hverja þýðingu slík þjónusta getur haft fyrir landbúnaðinn.

Árásir hafa komið fram út af því, að frv. um breyt, á ræktunarsjóðslögunum, sem liggur fyrir þessu Alþ., muni eigi ná fram að ganga. Það mun verða svo, og skal ég taka á mig alla ábyrgð á því. Ég tel, að þetta frv. þurfi nánari athugunar við, og tel enga hættu, þótt það bíði næsta þings. Ræktunarsjóðurinn hafði um síðustu áramót um 2 millj. kr. ónotaðar af eigin fé og hefur engin jarðræktarbréf í umferð. Hann getur því að óbreyttum lögum margfaldað lánastarfsemi sína og eru engar líkur til, að hún vaxi svo ört á þessu sumri, að nokkur vandkvæði stafi af.

Þótt hér hafi aðeins verið stiklað á stóru, ætla ég, að mér hafi tekizt að sýna fram á, að landbúnaðurinn hefur ekki verið neitt olnbogabarn hjá stj. Ég veit, að bændur hafa yfirleitt þann skilning á þjóðhögum vorum, að þeim kemur ekki til hugar, að útflutningsuppbætur á landbúnaðarvörur geti haldizt. Ef svo yrði, mundu sömu kröfur koma frá sjávarútveginum, eins og reynsla þessa árs hefur sýnt. Ef ríkið á að taka ábyrgð á öllum útflutningi landsmanna, er skammt yfir í beina þjóðnýtingu.

Þá kem ég loks að hv. þm. S.-M. Lýsing sú, er hann gaf af fjárhag ríkisins, var engan veginn glæsileg. Og ef hann meinar allt, sem hann sagði um þessi efni, þá er eitt skiljanlegt, hve fast hann hefur sótt á ríkissjóð um bæði fjárframlög og ríkisábyrgðir á þessu þingi. Vonandi óskar hv. þm. þó ekki eftir ríkisgjaldþroti. Nú er að vísu sá sannleikur í ræðu hv. þm., að þetta þing hefur teflt alldjarft bæði um fjáreyðslu og ríkisábyrgðir. En þar er þó tvenns að gæta. Fyrst og fremst þeirrar miklu þenslu, sem framundan er í atvinnulífinu. Verður ekki hjá komizt að ráðast í stórfelldar framkvæmdir, til þess að framleiðslutækin komi að tilætluðum notum. Það þýðir t. d. ekki að kaupa skip, nema því aðeins að þeim sé um leið tryggð afgreiðsla. Það er gagnslaust að reisa nýjar síldarverksmiðjur nema það sé um leið tryggt, að skipin geti losað sig við síldina, og svo mætti lengi telja: En aukin framleiðsla þýðir aukna gjaldgetu. Möguleikarnir til að standa undir miklum útgjöldum eiga því að vaxa í líkum hlutföllum og framleiðslan verður aukin. Hins vegar er svo það, að stj. hefur að nokkru leyti í sinni hendi, hve ört hún lætur framkvæma margt af þessum stórfyrirtækjum, sem ráðgerð eru. Svo er það t. d. að miklu leyti um hafnir, rafmagnsveitur og margt fleira. Og vitanlega mun stj. reyna að sníða sér stakk eftir vexti, þótt fullljóst sé mér, að oft getur orðið erfitt að standa gegn straumnum. En mjög væri æskilegt að heyra, hvað það er af hinum ráðgerðu framkvæmdum, — þeim sem nokkru máli skipta, — sem hv. þm. S.-M. vili skera niður. Það gæti orðið til leiðbeiningar bæði fyrir stj. og þing.

Ádeilu hv. þm. á stj. hygg ég að öðru leyti, að bezt verði svarað með því að gefa yfirlit um afkomu ársins 1945, að svo miklu leyti sem hún er nú kunn. Hafði ég hvort sem er ætlað mér að gera það áður en þingi yrði slitið, og mundi vera búinn að því, ef þessar umr. hefðu ekki staðið fyrir dyrum.

Heildartekjur ríkissjóðs á árinu 1945 voru áætlaðar 108 millj. og 178 þús. kr. Þar er þó ekki talinn með veltuskattur, sem reyndist þrjá fyrstu ársfjórðungana tæpar 8 millj. og gjöld á útfluttan ísfisk, er urðu tæpar 2 millj. Heildartekjurnar voru því áætlaðar 118 millj. kr. og þó nokkru meira, vegna þess að hækkun á nokkrum tekjustofnum var ekki talin með í fjárl., þ. e. a. s. viðbótin ekki talin með í áætlun fjárl. — Tekjurnar reyndust hins vegar 162 millj. og 666 þús. kr. Þeir liðir, sem mest hafa farið fram úr áætlun, eru þessir: Tekju- og eignarskattur 4 millj. 243 þús., stríðsgróðaskattur 933 þús., vörumagastollur 3½ millj., verðtollur 20½ millj. rúmlega, gjald af innlendum tollvörum rúmar 800 þús., stimpilgjald 2 millj. 300 þús. og tekjur af ríkisstofnunum 13 millj. 85 þús. kr. Það er rétt að minnast á það út af ummælum, sem féllu hjá hv. þm. S.-M., að það er stöðugt verið að víta stj. fyrir það, hvað hún græði mikið á áfenginu. Ég veit ekki, hvort hv. þm. og aðrir, sem mæla á sama veg, halda að áfengissalan mundi minnka, þó að verðið væri lækkað.

Rekstrarútgjöld voru áætluð 100 millj. 212 þús. kr., auk útgjalda samkv. sérstökum lögum, sem voru 29 millj. 500 þús. og eru þá ótalin útgjöld samkv. heimildarlögum og þáltill., sem nemur samtals um 930 þús. kr. En gjöldin urðu 143 millj. 891 þús. Þeir gjaldaliðir, sem mest hafa farið fram úr áætlun, eru þessir: Til ríkisstj. 741 þús., dómgæzla og lögreglustjórn 1½ millj., kostnaður við innheimtu tolla og skatta 668 þús., heilbrigðismál 1,4 millj., vegamál 3,7 millj., samgöngur á sjó 1,8 millj., vitamál og hafnargerðir 659 þús., kirkjumál 692 þús., kennslumál 3,9 millj., landbúnaðarmál 1,3 millj. tæplega oð eftirlaun og til lífeyrissjóðs 1,2 millj. Samkv. þessu er rekstrarafgangurinn 18 millj. 775 þús. kr., eftir því sem nú verður næst komizt.

Ræðutími minn er nú á þrotum, en ég verð þó að fá að gera með örfáum orðum grein fyrir sjóðsyfirliti um áramót og skuldum ríkissjóðs á sama tíma. Sjóðsyfirlitið er á þessa leið:

Sjóðsyfirlit 1945, bráðabirgðaryfirlit.

Inn.

Út.

1. jan. Peningar í sjóði

og banka

16471000,00

Tekjur samkv.

rekstrarreikningi

162666000,00

Innb. skv.

eignahreyf ingayfirliti

2168000,00

Gjöld samkv. rekstrar-

reikningi

143891000,00

Útb. skv.

eignahreyf ingayfirliti

34434000,00

Sjóður 31. des.

2980000,00

Krónur

181305000,00

181305000,00

En við þetta er það að athuga, að enda þótt sjóðslækkun nemi nálega 13½ millj. kr., þá er ekki um raunverulegan greiðsluhalla að ræða. Skuldagreiðslur hafa sem sé numið 11,8 millj. kr. Verðbréf hafa verið keypt (hlutabréf í Útvegsbanka) fyrir 1½ milljón, útlagt hefur verið fyrir smjör 1 millj. kr., greitt vegna bátasmíða innanlands 1,6 millj., veitt bráðabirgðalán 1 millj. og lagt til hliðar í húsbyggingasjóð áfengis- og tóbaksverzlana 1,2 millj. Þessar greiðslur samtals nema því 18,1 millj.

Að lokum skal ég svo gera stuttlega grein fyrir skuldum ríkissjóðs eins og þær voru í árslok 1945, og tek ég þá til samanburðar skuldirnar í árslok 1939:

Skuldir ríkisins voru samkv. ríkisreikningi :

1939

kr.

56648457,00

1945

33330000,00

Mismunur

kr.

23318457,00

en þá er ekki talið með geymt fé, sem var í árs-

lok 1945 kr. 16,5 millj., en var sama sem ekkert

1939.

Erlendar skuldir voru samkv. ríkisreikningi:

1939.

Dönsk

lán

7,3

millj.

króna

Ensk lán

34,3

millj.

króna

Erlend

lán vegna ríkisstofnana

4,4

millj.

króna

Lausar

skuldir erlendar

3,2

millj.

króna

49,2

millj.

króna

1945 voru erlendar skuldir 9,7 millj. kr.

Þ. e. ensk lán (síldarverksmiðjur)

kr.

933000,00

Dönsk lán

5377000,00

Lausar skuldir

3400000,00

Kr.

9710000,00

Skuldlaus eign ríkisins var samkv. ríkissjóðs-

reikningi

1939

kr.

23123985

en 1944

103933688

Eignaaukning kr.

80809703

Þegar þess er nú gætt, að verðgildi peninga var 1939 næstum þrefalt meira en það er nú, samkv. verðlagsvísitölu, má hverjum manni vera ljóst, að skuldirnar eru nú alveg hverfandi borið saman við það, sem þær voru 1939. Auk þess er sá mikli munur, að skuldirnar eru nú nálega allar innanlands, en 1939 voru þær að miklum meiri hluta við önnur lönd. Þótt skuldirnar ættu því fyrir sér að vaxa nokkuð aftur, þá eiga þær þó langt í land að ná því, sem þær voru í þegar hv. þm. S.-M. lét af fjármálastjórn.

Mér endist því miður ekki tími til að svara hv. þm. S.-M. frekar, en þær staðreyndir, sem ég nú hef dregið fram, tala sínu máli. Hv. þm. S.-M. spáði ekki vel fyrir fjárhagsafkomu s. l. árs. Hún hefur orðið góð og ég vona, að spádómur hans um afkomu þessa árs verði álíka haldgóður.