27.04.1946
Sameinað þing: 43. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 298 í D-deild Alþingistíðinda. (4252)

228. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Steingrímur Aðalsteinsson:

Flm. þeirrar vantrauststill. á hæstv. ríkisstj., sem hér er til umr., hefur að vonum veitzt örðugt að finna henni nokkur frambærileg rök. Hins vegar hefur verið auðvelt fyrir hæstv. ráðherra að þylja hér langa lista yfir hinar umfangsmiklu athafnir á sviði atvinnu-, menningar- og félagsmála, sem hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar hafa haft með höndum, frá því er stjórnarsamstarfið var hafið haustið 1944, því að þær athafnir eru stórfelldari og víðtækari en nokkurn tíma áður hafa átt sér stað í sögu íslenzku þjóðarinnar, — og enda efamál, hvort nokkur þjóð hefur á jafnskömmum tíma gert hlutfallslega stærra átak til endursköpunar atvinnulífi sínu og til að undirbyggja fjárhagslega velmegun fólksins.

Það getur því tæplega talizt lítillæti hjá ræðumönnum Alþfl., hv. 4. þm. Reykv., Stefáni Jóh. Stefánssyni, og hæstv. félmrh., Finni Jónssyni, sem töluðu hér fyrir Alþfl. í gærkvöld og gáfu honum einum dýrðina, — ekki aðeins af nýsköpunarstarfi núverandi ríkisstj., heldur einnig að hafa átt frumkvæði að öllum félagslegum og atvinnulegum umbótum í þessu landi s. l. 30 ár! Þó að ég vilji ekki rýra sjálfstraust þessara mikilhæfu foringja hins volduga Alþfl., get ég ekki stillt mig um að minna á það, að Alþfl. hefur áður tekið þátt í ríkisstjórnum, þar sem „afrekin“ hafa verið allmikið á annan veg en núverandi ríkisstj. Alþfl. tók þátt í kreppustjórn Framsóknar, þegar mönnum var refsað fyrir það að kaupa fiskiskip til landsins og ekki var hægt að fá flutt inn í landið nokkur framleiðslutæki né efnivörur til framleiðslunnar, nema framsóknarmaður fengi að vera með í fyrirtækinu! Alþfl. tók þátt í „þjóðstjórn“ Frams.- og Sjálfstfl. 1939, sem hóf feril sinn með tveimur stórfelldum gengislækkunum sama árið — og lauk ævi sinni með gerðardómslögunum og eiðrofsmálaferlunum. Svo á það að vera þessi flokkur, sem hafi átt frumkvæðið að myndun núverandi ríkisstj. og hafi markað hina djörfu og framsæknu stjórnarstefnu! Vera má, að einhverjir hrekklausir útnesjamenn trúi þessu. En það gera a. m. k. ekki þeir, sem vita, hvernig Alþfl. var afkróaður og knúinn til þátttöku í stjórnarmynduninni, gegn harðvítugri baráttu hv. 4. þm. Reykv. (StJSt) ásamt ca. helmingi forustuliðs flokksins. Og allra sízt verður því trúað, að þessir menn hafi átt frumkvæði að því; að 300 millj. af erlendum innstæðum þjóðarinnar skyldi varið til þess eingöngu að kaupa og koma upp nýjum, stórvirkum framleiðslutækjum í landinu, — mennirnir, sem létu aðlmálgagn flokks síns hrópa ókvæðisorð að hv. 2. þm. Reykv., Einari Olgeirssyni, þegar hann kvað upp úr með þessa hugmynd sína í útvarpsræðu héðan frá Alþ. haustið 1944. En lofum foringjum Alþfl. að hafa ánægjuna af sjálfum sér. Það eru hvort sem er ekki svo margir, sem hrópa þeim hallelúja.

Hins vegar kvaðst hv. 4. þm. Reykv. vera óánægður með framkomu „kommúnista“, — m. a. í „viðkvæmum utanríkismálum“, þar sem ólukku kommarnir hefðu ekki sýnt Bandaríkjum Norður-Ameríku nægilega blíðu. Já, nokkuð er það, að hv. þm. Str., Hermann Jónasson, sem óþarft er að væna um, að beri okkur sósíalista oflofi, gat þess í ræðu sinni í gærkvöld, að sósíalistar hefðu hindrað það í ríkisstj., að teknar væru upp viðræður við stj. Bandaríkjanna um leigu á herstöðvum hér til langs tíma, með því að hóta að slíta þá stjórnarsamstarfinu. Ef það er þessi framkoma Sósfl. í „viðkvæmum utanríkismálum“, sem hv. 4. þm. Reykv. er svo óánægður með, verður skiljanlegt, hvers vegna hann og aðrir þm. flokks hans, að frátöldum hv. 5. landsk., Barða Guðmundssyni, hafa skotið sér undan að svara bréflegum fyrirspurnum stúdenta um afstöðu þm. til afsals landsréttinda í hendur erlendu herveldi.

Ræðumenn Alþfl. hafa gert mikið að því í þessum umr. að tileinka sínum flokki sérstaklega þær umbætur á alþýðutryggingunum, sem lögfestar hafa verið á þessu þingi. Sannleikurinn um þetta efni er sá, að á þingi 1943 flutti núverandi hæstv. menntmrh., Brynjólfur Bjarnason, frv. um gagngerar endurbætur á alþýðutryggingalögunum. Eftir mikið þóf fengust þá fram verulegar endurbætur á sjúkra- og slysatryggingunum. En forstjóri trygginganna, hv. 3. landsk., Haraldur Guðmundsson, stóð þá meðal annars gegn því, að fullar ellitryggingar væru þá þegar látnar koma til framkvæmda. Varð þá að sámkomulagi að skipa mþn. í málið, og er það sú n., sem ásamt sérfræðingum hefur undirbúið og samið frv. það um almannatryggingar, sem nú hefur verið afgr. á þessu þingi. Frumvarpið er því m. a. árangur af till. Brynjólfs Bjarnasonar í tryggingamálunum frá 1943, enda átti hann sæti í mþn., unz hann varð ráðherra.

Í ræðu sinni í gærkvöld hafði hæstv. dómsmrh., Finnur Jónsson, sérstaklega orð á því í sambandi við tryggingamálin, að Alþfl. hefði alla jafna háð harða baráttu fyrir því að bæta kjör ekkna og munaðarleysingja. Já, maður skyldi halda, að þetta væri ekki fjarri sanni um verklýðsflokk, eins og Alþfl. telur sig vera. En í sambandi við afgreiðslu alþýðutrygginganna á þessu þingi hefur gerzt nokkuð, sem vitnar harkalega gegn þessum ummælum hæstv. dómsmrh. — Samkv. tryggingalögunum, eins og þau nú hafa verið afgreidd, skal greiða fastan, árlegan lífeyri til fólks, sem náð hefur 67 ára aldri. Enn fremur til öryrkja, þótt yngri séu. Ef ellilífeyris- eða örorkulífeyrisþegar og ekkjur hafa á framfæri börn innan 16 ára aldurs, skal greiða með þeim árlegan barnalífeyri. Í frv. var einnig ákvæði um það, að ekkjur, sem hefðu barn eða börn á framfæri, skyldu eiga rétt á að fá greiddan árlegan lífeyri, sem næmi hálfri ellilífeyrisupphæðinni. — Þetta var eitt hið merkasta nýmæli frv., bæði fyrir þá sök, að það miðaði beinlínis að því að bæta kjör þeirra ekkna, sem eru að brjótast áfram með uppeldi barna sinna, þegar fyrirvinna heimilisins er fallin frá, — og þó jafnvel engu síður fyrir hitt, að með þessu ákvæði hefði verið viðurkennt af löggjafanum, að það að ala upp og fóstra nýja þjóðfélagsþegna væri þjóðfélaginu þess virði, að litur skyldi sýndur á að launa það af opinberu fé. — Nú skyldi maður ætla, skv. áðurnefndum ummælum hæstv. dómsmrh., Finns Jónssonar, að Alþfl. hefði í meðferð málsins lagt alveg sérstaka áherzlu á þetta atriði trygginganna. En hvað skeður? Það, sem lýst hefur verið áður hér í umræðunum, að Alþfl. semur við Sjálfstfl. um 4 millj. kr. niðurskurð á útgjöldum trygginganna. Og fyrsta lífeyrisgreiðslan, sem Alþfl. telur, að hægt sé að spara, eru ekknabæturnar, sem með þessum samningi Alþfl. og Sjálfstfl. eru felldar niður sem árlegur lífeyrir til ekknanna. Og af hverju féllst Alþfl. á þetta? Af því, að því er bezt verður séð, að í frv. voru einnig önnur ákvæði, sem Alþfl. hafði enn meiri áhuga á en ekkjubótum. Það var ákvæðið um það, að Tryggingastofnunin, undir yfirstjórn Alþfl., skyldi hafa óbundnar hendur um það að setja upp stjórnarkerfi og skrifstofustarfsemi úti um allt land. Skv. fenginni reynslu af starfsmannavali trygginganna hér í Rvík hefðu þessar skrifstofur orðið pólitískt útibú Alþfl. á viðkomandi stöðum, kostaðar af opinberu fé og iðgjöldum hinna tryggðu, — og trúnaðarmenn stofnunarinnar pólitískir erindrekar Alþfl. Með samningum sínum við Sjálfstfl. átti Alþfl. að fá þessa pólitísku aðstöðu, fyrir niðurskurðinn á hlunnindum til hinna tryggðu. Og flokkurinn, sem hæstv. dómsmrh., Finnur Jónsson, segir, að háð hafi hina hörðu baráttu fyrir því að bæta kjör ekkna og munaðarleysingja, hikar ekki við að fella niður ekkjubæturnar, — að hætta við að viðurkenna rétt þeirra til mæðralauna, — að fórna hagsmunum þeirra fyrir pólitíska valdaaðstöðu Alþfl. Það breytir engu um afstöðu Alþfl. í þessu efni, þótt svo færi að lokum, að hann tapaði einnig að verulegu leyti þessari valdaaðstöðu, a. m. k. um sinn.

Út af staðhæfingum ræðumanna Alþfl. um það, að Sósfl. hafi fallizt á þessa samninga við Sjálfstfl. um niðurskurð trygginganna, skal tekið skýrt fram, að það er gersamlega rangt. Sósfl. flutti þvert á móti till. um aukin hlunnindi hinna tryggðu og þar með aukin útgjöld trygginganna, og flokkurinn stóð fast á þessum till. sínum frá því fyrsta til hins síðasta, þótt þær því miður næðu ekki fram að ganga. Þannig lagði Sósfl. til, að allar lífeyrisgreiðslur trygginganna yrðu hækkaðar um 25%, og Sósfl, lagði alveg sérstaka áherzlu á, að ekkjubæturnar yrðu ekki felldar niður, heldur yrðu þær, eins og aðrar lífeyrisgreiðslur, hækkaðar um 25%, og sami réttur og ekkjunum yrði þannig ákveðinn skyldi einnig ná til einstæðra mæðra, sem hefðu fyrir börnum að sjá. Enn fremur lagði Sósfl. til, að Tryggingastofnunin skyldi hækka lífeyri ekkna eða einstæðra mæðra um allt að helming, ef þær ættu við sérstaklega erfiðar heimilisástæður að búa, þannig að þær gætu ekki stundað atvinnu sér til framfæris. Sömuleiðis lagði Sósfl. áherzlu á, að iðgjaldagreiðslum hinna tryggðu yrði komið fyrir með sanngjarnara hætti, þannig að þær yrðu að nokkru leyti hundraðshluti af tekjum — og hærri af tekjum yfir 25 þús. kr. Þetta náði ekki heldur fram að ganga. Hins vegar fékk Sósfl. því að lokum til leiðar komið, að sjúkratryggingin næði til smáframleiðenda með sama hætti og til launþega, en á því var nokkur munur samkv. ákvæðum frv.

Mér vinnst ekki tími til að drepa á fleiri mál. En í þingkosningum þeim, sem fram undan eru, mun Sósfl. óhræddur leggja afstöðu sína til hinna mikilvægu framfaramála, sem á döfinni eru, undir dóm kjósendanna — og þá fyrst og síðast afstöðu sína til þess máls, sem er grundvöllur alls frama íslenzku þjóðarinnar, þ. e. óskerts sjálfstæðis hennar, stjórnarfarslega og efnalega.