27.04.1946
Sameinað þing: 43. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í D-deild Alþingistíðinda. (4253)

228. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Hæstv. landbrh. talaði hér nokkuð áðan um afrek stjórnarinnar í landbúnaðarmálum. Hann nefndi þar m. a. lögin um búnaðarráð og búnaðarmálasjóð, sem hann taldi góð mál. Um búnaðarmálasjóðinn ætla ég að leyfa mér að vitna hér til ummæla Ólafs Jónssonar, framkvæmdastjóra Ræktunarfélags Norðurlands á Akureyri, í grein í blaðinu „Dagur“ í þessum mánuði. Ólafur Jónsson segir þar m. a. um búnaðarmálasjóðinn, með leyfi hæstv. forseta :

„— — en öll meðferð meiri hlutans á þessu máli sýnir ótrúlega rætni og siðleysi, sem hlýtur að vekja hjá mönnum þá skoðun, að meðan slíkt hugarfar sé ráðandi í þingsölunum, sé öruggast að eiga sem minnst undir stofnuninni.“

Og enn segir þessi búnaðarfrömuður í grein sinni:

„— — ef dæma skal eftir þeirri meðferð, sem búnaðarmálasjóðurinn hefur hlotið hjá stjórnarmeirihlutanum, verður siðferði hans ekki metið á marga fiska.“

Eftir ofbeldisaðgerðir stjórnarliðsins gegn bændum landsins með lögunum um búnaðarráð og búnaðarmálasjóð, þarf meira en lítið blygðunarleysi all að storka bændum með því að kasta því að þeim, að vandamál þeirra hafi verið vel og viturlega leyst, en þetta hafa báðir hv. þm. Sjálfstfl. og fleiri leyft sér að gera í þessum umræðum.

Mér fannst það vanta tilfinnanlega í ræðu hv. 7. landsk. þm., Ásmundar Sigurðssonar, sem talaði hér áðan, að hann lýsti fyrir verkamönnum þessa lands þeirri sælu, sem þeir mættu vænta; þegar núverandi stjórnarflokkar eru búnir að færa þeim gjafir, líkar þeim, sem bændastéttin hefur fengið með lögunum um búnaðarráð og búnaðarmálasjóð. En í sambandi við búnaðarráðslögin tel ég ástæðu til að bera fram nokkrar spurningar til hæstv. landbrh. og hv. 7. landsk. þm., Ásmundar Sigurðssonar, sem er einn af búnaðarráðsmönnum ríkisstj.

1. Er það satt, sem ég hef heyrt, að kjötbirgðir í landinu hafi 1. þ. m. verið 1000 tonnum meiri en á sama tíma í fyrra?

2. Er það rétt, að búnaðarráð hafi allt til þessa neitað um útflutningsleyfi fyrir freðkjöt, enda þótt sannfróðustu menn telji, að flytja þurfi út minnst 600 tonn, og þó helzt allt að 1000 tonnum, svo að unnt verði að selja nautakjöt og hefja sumarslátrun á hæfilegum tíma?

3. Hvað hyggst stj. fyrir í þessum málum? Ætlar hún að láta geyma kjötbirgðirnar, e. t. v. fram á haust, láta þær liggja undir skemmdum vegna geymslu um langan tíma og þvælast fyrir framleiðslu þessa árs?

4. Eða þorir hún ekki, eftir allt skrumið og loforðin um, að allt muni seljast upp og verðið til framleiðenda verða hærra en nokkru sinni áður, að viðurkenna þær staðreyndir, að hvorugt þetta tekst? Verulegt kjötmagn verður að flytja úr landi, og við það lækkar verðið til bænda til stórra muna, því að stjórnarflokkarnir hafa synjað þeim um útflutningsuppbætur.

Hæstv. atvmrh., Áki Jakobsson, talaði hér í gær, m. a. um heildsala. Hann sagði, að það væri óhæfa, hvernig þeir sætu á rétti annarra og rökuðu saman milljónagróða á kostnað atvinnuveganna. Hann hefur ymprað á slíku fyrr síðan hann varð ráðherra, við hátíðleg tækifæri, og fyrst í Borgarnesi haustið 1344, þar sem hann gaf fyrirheit um óvenjulegar aðgerðir gegn heildsölunum. Og í blaði hans, Þjóðviljanum, hefur nokkrum sinnum verið vikið að heildsölunum í svipuðum tón. En fáir munu taka þessi skrif Þjóðviljans og skraf hæstv. ráðh. alvarlega, því að mönnum er ljóst, að þyturinn er aðeins í nösunum. heim er engin alvara með þetta og ráðh. Sósfl. eru alveg jafnsekir hinum ráðherrunum um það ólag, sem er á verzlunarmálunum.

Það er næsta broslegt að lesa sumt af þessum skrifum Þjóðviljans um verzlunarmálin. Einu sinni í vetur var því t. d. lýst þar, hvernig heildsalarnir dragi til sín milljónatugi í verzlunargróða, og sagt, að þeir séu verðlaunaðir fyrir að auka dýrtíðina sem mest, og síðan segja loddararnir, að þessu fargi þurfi að létta af þjóðinni strax og byrja baráttuna gegn dýrtíðinni fyrir alvöru! Þetta var meðan verkfallið stóð yfir hér í Reykjavík, og glöggt mátti lesa milli línanna í Þjóðviljanum, að ef heildsalar og aðrir atvinnurekendur vilji hækka kaupið, þá megi allt kyrrt liggja, þá megi heildsalafargið fá að liggja áfram á þjóðinni — og framleiðslan fá að borga. Jafnvel Morgunblaðið getur ekki orða bundizt um þennan leikaraskap kommúnista. Þar segir svo 22. jan. í vetur, með leyfi hæstv. forseta: „og eru þó auðsæ óheilindin í árásum þeirra á heildsalana af því, að vitað er, að þeir taka fegins hendi við hverjum heildsala, jafnvel þótt af lökustu tegund sé, er vill ganga í þeirra flokk og með þeim vinna. Kommúnistar koma þeim í hvers konar trúnaðarstöður og hlaða undir þá á alla vegu.“ Þetta segir blað samstarfsflokks þeirra. Það er líka kunnugt, að nýir heildsalar í flokki kommúnista eiga auðvelt með að fá hlutdeild í innflutningnum.

Hæstv. ráðh., Áki Jakobsson, talaði um, að heildsalarnir héldu hlunnindum, sem þeir hefðu öðlazt í stjórnartíð framsóknarmanna. Hér er öllu snúið öfugt. Á þeirri tíð höfðu samvinnufélögin möguleika til þess að fá aukinn vöruinnflutning eftir því, sem þeim mönnum fjölgaði, sem vildu kaupa vörur sínar sjálfir með þátttöku í félögunum. En eftir að framsóknarmenn hættu að ráða þessum málum, var reglunum um úthlutun innflutningsleyfanna breytt svo, að mjög var þrengt að verzlunarsamtökum almennings og vaxtarmöguleikum þeirra lokað. Þannig er ástandið nú, að kaupfélögin verða af þessum sökum árlega að kaupa vörur fyrir stórfé af keppinautum sínum. Segja má, að verzlunin sé seld á leigu, eins og fyrr á tímum, þegar verzlunarhættir voru hér illræmdastir, og hæstv. fjmrh., Pétur Magnússon, sem snemma í vetur þóttist ætla að gefa verzlunina að miklu leyti frjálsa með nauðsynjavörur frá löndum, sem taka borgun í sterlingspundum, hefur enn engar ráðstafanir gert í þá átt. Hvað veldur? Sennilega er þetta að yfirlögðu ráði gert, til þess að halda verzluninni í sömu fjötrunum, svo að þeir, sem eru í náðinni hjá yfirvöldunum, þurfi ekki að óttast samkeppni frá öðrum.

Á þessu öllu bera ráðherrar Sósfl. og Alþfl. fulla ábyrgð með Sjálfstfl., þótt þeir reyni annað veifið með blekkingum að villa mönnum sýn um þetta. Hér eru samningar á bak við, milli sjálfstæðismanna og kommúnista, um það, að ekkert skuli hreyft við stríðsgróðanum, gegn því, að kommúnistar fái að auka dýrtíðina í sífellu í því skyni að íþyngja aðalatvinnuvegunum og gera þá ósjálfbjarga, en það telja þeir með réttu auðveldustu leiðina til þess að kollvarpa þjóðskipulaginu.

Hv. 11. landsk. þm., Sigurður Thoroddsen, talaði hér í gærkvöld m. a. um raforkumál. Hann hélt því fram, að frv. það, sem meiri hl. raforkumálanefndar samdi og lagði fyrir síðasta Alþ., hefði verið gallað og ekki nothæft. En hvernig var það plagg, sem hann lét frá sér í fyrrahaust og kallaði nál. frá minni hl.? Það var nú ekki svo merkilegt, að hv. þm. færist að láta mikið. Þar örlaði ekki á till. um framkvæmdir, en nóg var þar af skætingi um samnm. hans.

Með ályktun um raforkumál, sem samþ. var á sumarþinginu 1942, var sú stefna mörkuð, að ríkið kæmi upp rafveitum og að raforkan skyldi ekki seld hærra verði í sveitum en í stærstu kaupstöðunum á hverjum tíma. Í frv. því, sem meiri hl. mþn. í raforkumálum samdi og lagt var fyrir Alþ. 1944, var, í samræmi við þetta, ákvæði um sama rafmagnsverð um allt land frá væntanlegum ríkisrafveitum. En í því frv., sem ríkisstj. lagði fyrir þetta þing og nú er orðið að lögum, var hins vegar vikið frá þessari áður yfirlýstu stefnu Alþ. Gerð var tilraun til að fá þetta lagfært, en brtt. við frv. um, að verðið á raforkunni frá ríkisrafveitunum skyldi vera hið sama um land allt, voru felldar af þm. stjórnarflokkanna. Þar með hafa þeir runnið frá þeirri stefnuyfirlýsingu í málinu, sem þeir ásamt okkur framsóknarmönnum gáfu út á sumarþinginu 1942.

Hæstv. ráðherrar og hv. þm. stjórnarflokkanna, sem hér hafa talað, og þó einkum ræðumenn Alþfl., hafa rætt mjög um nýafgreidd lög frá þinginu, sem nefnast lög um almannatryggingar. Lagasetning þessi var undirbúin af mþn., og í grg., sem fylgdi frv., var því yfir lýst, að samkv. ákvæði í stjórnarmyndunarsamningi stjórnarflokkanna haustið 1944 skyldi komið á fullkomnu kerfi almannatrygginga, er nái til allrar þjóðarinnar, án tillits til stétta eða efnahags. Þetta er síðan endurtekið tvisvar í grg. En þótt því sé þannig þrisvar sinnum yfirlýst í grg. frv., að tryggingarnar eigi að ná jafnt til allra án tillits til stétta eða efnahags, þá er mjög langt frá því, að tryggingalögin, sem nú hafa verið samþ., séu þannig úr garði gerð. Með ýmsum ákvæðum l. er þvert á móti svo freklega gert upp á milli manna, og mikill hluti þjóðarinnar slíkum rangindum beittur, að óþolandi er með öllu. Skulu nefnd hér dæmi um þetta.

Samkv. lögunum er réttur manna til sjúkrabóta mjög misjafn, þótt nokkur lagfæring fengist á þeim ákvæðum frv. fyrir baráttu framsóknarmanna. Sama er að segja um slysabæturnar. Þeir, sem vinna hjá öðrum, eru slysatryggðir án þess að þurfa nokkuð að borga fyrir þá tryggingu sérstaklega, en hinir, sem starfa sjálfstætt eða hafa menn í vinnu, fá engar slysabætur, þótt þeir verði fyrir slysum, nema þeir kaupi sér slysatryggingu fyrir sérstakt gjald. Í þeim hópi eru t. d. allir bændur landsins. Þm. stjórnarflokkanna stóðu sem einn maður gegn leiðréttingu á þessu ósamræmi.

Meðan lögin eru þannig, að fjöldi manna í landinu nýtur ekki þeirra réttinda, sem þau veita öðrum, er alls ekki uppfyllt það fyrirheit, sem stjórnarflokkarnir gáfu við stjórnarmyndunina á „plötunni“ og nefnt er þrisvar í grg. tryggingafrv., að hér skyldu sett lög um tryggingar fyrir alla, án tillits til stétta eða efnahags. Þetta loforð „plötunnar“ er eitt af mörgum, sem ekki hefur verið efnt. Og meðan tryggingalögin eru svo sem nú eru, er það vitanlega fullkomið rangnefni að nefna þau lög um almannatryggingar.

Hér verður nefnt eitt dæmi um það misrétti, sem stjórnarflokkarnir hafa lögfest í tryggingalögunum. Samkv. 34. gr. laganna á að greiða konum fæðingarstyrk, þegar þær eignast börn. En þannig eru ákvæði gr., að konur, sem vinna utan heimila sinna, geta fengið allt að kr. 500,00 við hverja barnsfæðingu, en hinar, sem starfa heima, fá aðeins 200 kr. Framsóknarmenn reyndu að fá þessu breytt, þannig að öllum konum yrði greitt jafnmikið við barnsfæðingar, kr. 300,00, hvort sem þær vinna utan heimilis eða ekki. En þm. felldu þessa brtt. framsóknarmanna og bera sameiginlega ábyrgð á ranglætinu, sem þarna er í lög tekið. — Það lítur út fyrir, að þm. stjórnarflokkanna telji það heppilegra, að konur vinni utan heimila sinna og feli barnaheimilum eða öðrum forsjá barna sinna á meðan, heldur en að þær helgi heimilunum og barnauppeldinu krafta sína. Annars færu þeir tæplega að verðlauna sérstaklega þær mæður, sem vinna utan heimila sinna, með því að veita þeim hærri fæðingarstyrki en öðrum. Hitt er áreiðanlega álit margra, að þjóðfélaginu sé hollast, að konurnar verji kröftum sínum fyrst og fremst til þess að annast uppeldi barna sinna og í þágu heimilanna, eins og þær hafa gert á liðnum öldum. Þess vegna mun þeim ójöfnuði, sem stjórnarflokkarnir á þingi hafa hér sýnt öllum þeim konum, sem starfa að þessum þýðingarmestu viðfangsefnum í þjóðfélaginu, uppeldi barnanna og verndun heimilanna, verða kröftuglega mótmælt um land allt.

Framsóknarmenn viðurkenna, að tryggingarnar séu merkilegt mál, en þeir vildu fresta afgreiðslu þess í þetta sinn, vegna þess að þeir töldu óhjákvæmilegt að athuga betur fjárhagsgrundvöll málsins, kynna þjóðinni það og sníða af því þá mörgu vankanta, sem á því eru.

Mikið af tali hæstv. ráðh. og annarra ræðumanna stjórnarflokkanna nú í umr. snerist um nýsköpunina, sem svo er nefnd. Hæstv. forsrh. taldi fyrstur fram alla dýrðina. Ræðumenn beggja hinna stjórnarflokkanna hafa tekið þetta samvizkusamlega upp eftir honum. Innihaldið í ræðum hv. Alþýðuflokksmanna um nýsköpunina var það, að allt þetta væri nú bara framhald af því, sem Alþfl. hefði unnið að í 30 ár, oftast í samstarfi við Framsfl., en Alþfl. hefði nú tekizt að beita hæstv. forsrh. (ÓTh) fyrir vagn sinn, með því að styðja hann til forsætisráðherradóms. En hv. ræðumenn kommúnista komu líka með sína skýringu á undrunum og stórmerkjunum, og hún var sú, að ræða, sem hv. 2. þm. Reykv. (EOl) hefði flutt á Alþ. í sept. 1944, hefði í raun og veru skapað þetta allt saman. Mikið væri þjóðin nú sjálfsagt illa á vegi stödd, ef ræðan hefði aldrei verið flutt.

En hver er rétta skýringin á því, að landsmenn eru nú að kaupa ný framleiðslutæki og hafa meiri fjárráð til þess en áður? Hún er sú, að áður en hæstv. núv. ráðh. settust í valdastólana, var þjóðin búin að safna nokkrum hundruðum millj. kr. í erlendum gjaldeyri vegna styrjaldarinnar. En það er ekki ófróðlegt, þegar hæstv. ráðh. eru að grobba af þessu og eigna sér allt þetta fé og þá hluti, sem fyrir það eru keyptir, að athuga framkomu þeirra sumra á þeim tíma, sem þessir fjármunir voru að safnast saman.

Á fyrstu árum stríðsins kölluðu kommúnistar þá menn landráðamenn, sem gerðu þá viðskiptasamninga og beittu sér fyrir þeirri viðskiptastefnu, sem færði Íslendingum það mikla fjármagn, sem þeir kommúnistar guma nú mest af, að verið sé að verja til nýsköpunar, Í ársbyrjun 1941 sagði Þjóðviljinn, að setuliðsvinnan væri glæpsamleg ráðstöfun á íslenzku vinnuafli, og þá krafðist hann þess, að íslenzk skip væru látin hætta algerlega að flytja fisk til Bretlands. En á þessu tvennu, setuliðsvinnunni og fisksölunni til Breta, byggðist fjársöfnun Íslendinga fyrst og fremst. Þessi fjársöfnun átti sér því stað vegna þess, að kommúnistar fengu þá engu ráðið í málum þjóðarinnar og ráð þeirra voru einskis metin af öllum. En auðvitað snerust þeir eins og vindhani á burst jafnskjótt sem úti var um vinskap Stalins og Hitlers, svo sem kunnugt er.

En það er ástæða til að athuga lítið eitt þessa upptalningu hæstv. forsrh. og annarra ræðumanna stjórnarflokkanna á því, sem þeir telja sin verk. Eru það þá fyrst þau afrek þessa þings, sem þeir hafa talið fram. Um raforkumálið hef ég áður getið. Framsóknarmenn studdu það, en reyndu að fá á því leiðréttingar. Lögin um landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum eru að verulegu leyti byggð á eldri löggjöf og till., sem framsóknarmenn hafa gert um þessi mál. Framsóknarmenn á þingi beittu sér fyrir framgangi málsins, og stjórnarflokkarnir sáu sér ekki annað fært en að vera með málinu. Við framsóknarmenn reyndum að fá lagfæringar á málinu, t. d. með því að koma þar inn heimild til að veita nokkra endurbyggingarstyrki, eins og gert hefur verið á undanförnum árum, en þá till. felldi stjórnarliðið. Stjórnarflokkarnir settu inn í þessi l. ákvæði, sem eru hliðstæð ákvæðum 17. gr. jarðræktarl. og annarra laga, sem voru felld úr gildi fyrr á þessu þingi. Stjórnarliðið hindrar það, að frv. framsóknarmanna um breyt. á Ræktunarsjóðslögunum og jarðræktarlögunum nái fram að ganga, og sitt eigið Ræktunarsjóðsfrv. eru þeir nú að láta daga uppi. Þetta er í þriðja sinn, sem þeir hindra framgang jarðræktarlfrv.

Stjfrv. um aðstoð við húsabyggingar í kaupstöðum og kauptúnum var að verulegu leyti byggt á áður fram komnu frv. framsóknarmanna, enda stutt af þeim, en stjórnarliðið felldi brtt. framsóknarmanna, sem stefndu að því að gera byggingarnar ódýrari og viðráðanlegri öllum almenningi en þær eru nú. Skólalöggjöfin er byggð á undirbúningsstarfi mþn., sem skipuð var á sínum tíma eftir till. framsóknarmanna. Því miður tókst kommúnistum að koma sínu marki á þessa löggjöf að nokkru leyti, og mjög til skemmda á málunum, m. a. með því að kúga nokkra þm. Sjálfstfl. til þess að ganga á móti till., sem þeir höfðu áður samþ., um einstök atriði. — Um hafnarlögin var enginn ágreiningur milli flokka, ekki heldur um Skagastrandarmálið. Um tunnuverksmiðjuna og niðursuðuverksmiðjuna var ekki annar ágreiningur en sá, að framsóknarmenn vildu fela síldarútvegsnefnd og síldarverksmiðjustjórn yfirstjórn þeirra, í stað þess að stofna þarna til margra óþarfra embætta, en það mátti stjórnarliðið ekki heyra nefnt, heldur stofnaði það embættin. — Framsóknarmenn fylgdu frv. um Austurveg.

Hæstv. forsrh. og fleiri tala mjög um, að svo og svo mörgum millj. kr. af ríkisfé eigi að verja á komandi árum í þetta eða hitt, samkv. nýjum lögum. En hvort þetta verður framkvæmanlegt eða ekki, fer vitanlega eftir því, hvort upp verður tekin ný stefna í fjármálum, eins og hæstv. fjmrh. viðurkenndi fyrir einu ári, að þyrfti að gera. Verði það ekki gert, verða mörg nýju lögin aðeins pappírsgögn, óframkvæmanleg og engum að notum.

En hvað er að segja um framkvæmdirnar, sem hæstv. ráðh. hrósa sér af ? Stj. þaut til og gerði samninga um smíði á 30 togurum, í fumi og fyrirhyggjuleysi, og upplýst hefur verið, að hún kaupir þessi skip miklu hærra verði en útgerðarmönnum í Bretlandi dettur í hug að borga fyrir, togara. Það á eftir að upplýsast, hvað stj. hefur eytt mörgum milljónum eða milljónatugum af fé þjóðarinnar að óþörfu, með því að kaupa þessi skip fyrir hærra verð en þurft hefði að borga, ef skynsamlega hefði verið að unnið. Stj. hélt því fram í hausa, að þessa samninga hefði þurft að gera strax, því að öðrum kosti hefðu Íslendingar engin skip getað fengið á næstu árum. Þá strax var dregið í efa, að þetta væri rétt, og nú er það afsannað með ummælum hæstv. atvmrh., Áka Jakobssonar, sem m. a. hældi sér af því í gærkvöld, að hann hefði nýlega fengið tilboð um kaup á 10 dieseltogurum. En meðal annarra orða: Hvers vegna er hæstv. stj. nú að afla tilboða í dieseltogara, fyrst hún taldi sjálfsagt fyrir hálfu ári síðan að kaupa 30 gufutogara? Hefur hún síðan komizt að þeirri niðurstöðu, að það sé rétt, sem ýmsir fróðir menn á þessu sviði hafa sagt, að heppilegra hefði verið að kaupa dieseltogara í stað þeirra, sem stj. samdi um smíði á á síðastliðnu ári? Er það máske þannig, að þessir 30 margnefndu stjórnartogarar séu orðnir úreltir áður en smíði þeirra er hálfnuð?

Þá eru það bátarnir. Hæstv. stj. er nú að láta smíða báta, sem verða helmingi dýrari en innfluttir nýir bátar. Þannig er þetta, þrátt fyrir dugnað íslenzkra skipasmiða. Verðbólgustefna stj. er búin að leika þá svo grátt, eins og framleiðendurna, að framleiðsla þeirra er ekki samkeppnisfær við annarra þjóða iðnað, hvað verð snertir. Og það er til marks um ráðleysi stj. í þessu máli, að hún hefur fengið útlendinga til að vinna að skipasmíðum hér í Landssmiðjunni í Reykjavík, en vegna dýrtíðarinnar hér verður vinna þeirra helmingi dýrari en verða mundi, ef þeir ynnu í heimalandi sínu. Þann mismun verður ríkissjóður eða útvegsmenn að bera. Fyrst stj. fær útlendinga til að vinna að þessu, á vitanlega að láta þá vinna að smíðunum heima hjá sér, þar sem iðnaður þeirra er helmingi ódýrari en hér. Það er ekki að furða, þótt hæstv. atvmrh. sé upp með sér af þessari ráðsmennsku.

Aðalefnið í ræðu hæstv. ráðh. og stuðningsmanna þeirra hér er grobb yfir þeim framkvæmdum, sem nú er unnið að fyrir það fé, sem þjóðin eignaðist áður en þeir komust til valda. Það er gamla sagan, að „sér eignar smalinn féð, þótt enga eigi hann kindina“. En slíkir smalar sem þessir mundu reknir úr vist hjá hverjum bónda, því að þeir eru alltaf að týna af fénu. Með ýmsum óviturlegum ráðstöfunum og sérstaklega með viðhaldi dýrtíðarinnar hefur stj. gert allar framkvæmdir dýrari en þurfti að vera og sóað þannig fjármunum í ríkum mæli. En allt þetta á að dylja fyrir þjóðinni með þrírödduðum lofsöng þriggja flokka um afrek stjórnarinnar. Allt, sem gert er í landinu, á að vera hennar verk. Þegar bóndi kaupir nýja vél, þá er það tíundað af ráðherrunum sem nýsköpun stj., og þegar einstakir útgerðarmenn kaupa sjálfir fiskibáta í Danmörku, fyrir helmingi lægra verð en er á stjórnarbátunum, þá telur hæstv. atvmrh. það með í framkvæmdum stj. Með svona umsigslætti og sjálfshóli á að reyna að þagga niður alla réttmæta gagnrýni. Jafnframt leyfir hæstv. atvmrh. sér, fylgdarmaður hans, 11. landsk., og fleiri að halda því fram, að á næstu árum fyrir stríðið hafi ekkert verið gert til að afla nýrra framleiðslutækja. Þessar fullyrðingar stangast algerlega við skýrslur hagstofunnar, sem sýna, að á þeim árum var meira flutt inn af vélum og efni til nýrra framleiðslufyrirtækja en nokkurn tíma áður, þrátt fyrir markaðstöp og aðra erfiðleika. Hitt er vel skiljanlegt, að eftir að þjóðin hefur eignazt nokkur hundruð millj. kr. nú á stríðsárunum, hefur hún meiri möguleika en áður til að afla sér nýrra framleiðslutækja, og hún vill nota sér þessa möguleika. Þetta er ekki verk ríkisstj., síður en svo, því að með viðhaldi dýrtíðarinnar leggur hún stóra steina í götu þeirra, sem eru að brjótast í að afla sér nýrra tækja, þótt stj. hafi ekki enn tekizt að drepa allan kjark úr mönnum til framkvæmda og henni endist vonandi ekki aldur til þess.

Vafalaust halda stjórnarflokkarnir áfram skrumi sínu fram til kosninga. Hæstv. forsrh. og hans menn halda áfram að dásama stjórnarmyndunarsáttmálann, „plötuna“ svonefndu, ráðherrar Alþfl. þau viturlegu skilyrði, sem þeir hafi þrengt upp á hina flokkana, þegar stj. var mynduð, og ráðherrar sósíalista ræðuna í sept. 1944. En vel má búast við, að stuðningsmenn hæstv. stj. verði ekki á eitt sáttir um það, hvert af þessu þrennu sé nú mikilfenglegast, platan, skilyrðin eða ræðan. En allt þetta tal hæstv. ráðh. er þekkt fyrirbrigði í þjóðlífinu. Raupsamir menn hafa verið til á öllum öldum. Frá einum af þessum andlegu frændum hæstv. ráðherra er sagt í Njálu. Sá hét Björn, og bjó í Mörk. En af frásögninni er ljóst, að hann hefur að sumu leyti verið hæstv. ráðh. miklu fremri. Hann hefur verið miklu meiri búmaður og kunnað betur með fjármuni að fara. Hins vegar virðast hæstv. ráðherrar honum jafnsnjallir í sjálfshólinu. „Svá mun þér reynast, at ek mun ekki vera hjátækur í vitsmunum, eigi síður en í harðræðunum“, mælti Björn til Kára. Menn hafa vafalaust fundið skyldleikann, þegar hæstv. forsrh. var í gærkvöld að tala um viðreisnarstarf ríkisstj. í andlegum og veraldlegum efnum. „Ek mun bera mér vitni um það hver garpur ek em“, mælti Björn öðru sinni. Hæstv. ráðh. hafa líka óspart borið sjálfum sér vitni. Þessi fáu orð Bjarnar í Mörk eru í raun og veru alveg eins innihaldsrík og allar ræður hæstv. ráðh. til samans í þessum umræðum. Björn er bara svona miklu fáorðari og gagnorðari. En þegar íslenzka þjóðin athugar í ró og næði allan fagurgala hæstv. stj. um lagasetningu, sem aðrir hafa að eins miklu leyti að unnið, og um nýjar framkvæmdir fyrir peninga, sem aðrir hafa aflað, þá býst ég við, að margir taki sér í munn orð hinnar ágætu og raunsæju húsmóður í Mörk, er hún mælti, þegar Björn bóndi hennar raupaði sem ákaflegast :

„Troll hafi þitt hól ok skrum.“