27.04.1946
Sameinað þing: 43. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í D-deild Alþingistíðinda. (4255)

228. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Mér var ekki vel ljóst, þegar þetta vantraust var borið fram, hvert tilefnið væri. Venjulega er vantraust borið fram í ákveðnum tilgangi, þ. e. a. s. til að koma þeirri ríkisstj., sem með völdin fer, frá, þannig að önnur stjórn geti tekið við, eða til að knýja fram kosningar. Það er augljóst af þeim umr., sem hér hafa farið fram, að hvorugt þetta var tilgangurinn. Kosningar fara fram nú innan tiltölulega skamms tíma, og engar líkur eru til þess, að vantraustið orki neinu um stjórnarfar landsins til þess tíma. — En fleira finnst mér undarlegt við þessar umr., sem hér hafa farið fram, heldur en þetta. Mér finnst þessar umr. að verulegu leyti snúast upp í vantraust á almannatryggingarnar og Tryggingastofnunina. Mér skilst sem ýmsir hafi haldið hér fram bæði í kvöld og gærkvöld, að hér sé um meingallaða löggjöf að ræða, þar sem lögfest séu rangindi og misrétti, og að það sé einn flokkur, Alþfl., sem skapi sér í sambandi við þessa löggjöf aðstöðu til pólitískra áhrifa á kostnað smælingja. Hitt hafa færri talað um, hvaða kosti þessi löggjöf hefur. Á það er minna minnzt. Nú skal ég játa, að það er ekkert furðulegt, þó að slíkur áburður, sem ég nefndi, væri borinn fram af stjórnarandstöðunni. Hins vegar hefði ég kosið, að meiri rök hefðu verið færð fram fyrir fullyrðingum í ádeilum út af þessari löggjöf og setningu þeirra en gert var.

Ég skal víkja nokkrum orðum að ádeilum þeim, sem hv. þm. V.-Húnv. flutti gegn tryggingalöggjöfinni, og sýna fram á, við hvað lítil rök þær styðjast.

Í fyrsta lagi sagði sá hv. þm., að mismunur væri gerður á atvinnurekendum og launþegum, þannig að biðtími atvinnurekenda sé lengri en launþega. En hann er ekki nema 3 vikum lengri. Og þetta skapast blátt áfram af þeim aðstöðumun, sem er hjá launþegum og atvinnurekendum. Launþegar flestir missa kaupgjald sitt hvern einasta dag, sem þeir eru frá vinnu vegna veikinda, og fá þeir ekki bætur, nema þeir missi af kaupi. Hins vegar er það svo um þorra atvinnurekenda, að tekjur þeirra breytast ekki fyrir því, þó að dagur og dagur falli úr um vinnu hjá þeim eða fáeinir dagar. Og hvergi sem ég þekki til — og þykist ég þekkja allvel til erlendra laga um þetta — hvergi er þar jafnlítill munur á biðtíma atvinnurekenda og launþega eins og eftir þessum l., enda væri lítt kleift að framkvæma slíka löggjöf í þessu atriði, ef hjá þessum mönnum væri biðtíminn jafnlangur.

Þá sagði hv. þm. V.-Húnv., að slysabætur séu aðeins greiddar þeim mönnum, sem taka laun, og finnst honum það misrétti. En ég vil benda á þá einföldu staðreynd, að það hefur verið viðurkennt í löggjöf hjá okkur og öðrum þjóðum um mörg ár, að greiðslu til trygginga vegna slysahættu, sem samfara er starfi, ber þeim að greiða, sem starfið reka. En atvinnurekendum er heimilt að tryggja sig á sama hátt með sömu kjörum, með því að inna af hendi sama gjald og þeir greiða fyrir sína eigin verkamenn.

Þá sagði hv. þm. V.-Húnv., að það væri misrétti, að ekki væri jafn fæðingarstyrkur til kvenna, heldur færi hann eftir því, hvor;t þær ynnu utan heimilis eða ekki. En hann gleymdi að geta þess, að í l. er tekið fram, að því aðeins fái þessar mæður fæðingarstyrk, þ. e. giftar konur, að menn þeirra geti ekki séð heimilunum farborða, þó að vinna þeirra falli niður. Og þessi styrkur kemur fyrst og fremst til greina í þeim tilfellum, þegar mæður, t. d. ógiftar, lifa af vinnu sinni.

Hv. þm. V.-Húnv. taldi, að meginástæðan til þess, að stjórnarandstaðan vildi drepa þetta mál nú, væri, að fjárhagsgrundvöllurinn væri ekki nógu traustur undir tryggingunum, málið væri ekki nægilega rannsakað og að hér væri lengra gengið í fjáreyðslu en eðlilegt væri og rétt. En einmitt þessir liðir, sem hann drap á, ef saman væru teknir í öllum tilfellum, mundu, ef aðstöðunni væri breytt eins og skilja mátti á hv. þm. V.-Húnv., að hann vildi, mundu leiða til stórfelldrar hækkunar á útgjöldum vegna tryggingalöggjafarinnar, sem ekki er hægt að segja fyrir fram, hve miklu mundi nema. Mér er því næst að halda, að þessar aðfinnslur allar viðkomandi tryggingalöggjöfinni og Tryggingastofnuninni af hálfu framsóknarmanna hafi verið fluttar meira til þess að sýnast og til þess að krydda matinn, verðbólgu- og hrunsönginn, sem þeir hafa sungið, og sé það gert til tilbreytingar frá því, sem áður hefur fram verið borið. Mig furðar því ekki svo mjög á þessu hvað snertir Framsfl., sem allur greiddi atkv. gegn tryggingalöggjöfinni nema Páll Zóphóníasson og Páll Hermannsson. Hitt má teljast furðulegra, að einn af samstarfsflokkum Alþfl. í ríkisstj., sem þykist bera hag almennings alveg sérstaklega fyrir brjósti, hefur sungið sama sönginn hér og Framsfl. — og enn þá illfyglislegri — í sambandi við setningu alþýðutryggingal., því að þau ummæli um það mál, sem þeir höfðu, hv. 4. landsk. þm. og hv. 11. landsk. þm., komu mér mjög á óvart, og voru þau sögð úr hörðustu átt og algerlega í ósamræmi við það, hvernig sá flokkur hefur að sumu leyti unnið að þessu máli hér í þinginu. Hv. 11. landsk. byrjaði ræðu sína á því að segja, að Alþfl. gumaði mjög af því, að hann hefði átt frumkvæðið að öllum félagslegum umbótum í landinu á undanförnum árum. Ég vildi óska eftir, að sá hv. þm. benti á, hvaða umbætur það eru af þessu lagi, sem Alþfl. hefur ekki átt frumkvæði að. Hann reyndi ekki að benda á þær, af því að það er ekki hægt. Þetta er staðreynd, sem ekki er hægt að berja niður með orðum einum, enda komu ekki fram hjá hv. 11. landsk. nein rök í þessu sambandi, heldur aðeins, að hann sagði, að Alþfl. hefði látið dólgslega.

Hv. 4. landsk. (StgrA) sagði, að Brynjólfur Bjarnason væri höfundur að tryggingalöggjöfinni, — hann hefði flutt svo góða þáltill. á þingi 1943 um fullkomnar ellitryggingar. Hann var í mþn., sem fjallaði um þessi mál, en inntak þeirra trygginga var eitthvað á þá leið að segja við mann, sem hefði yfir visst tekjuhámark: Nú skalt þú borga þetta eða hitt til pabba eða mömmu, svo að þau geti tórt. Þetta hámark var 3 þús. kr. — Ég hef ekki hirt um að flíka þessu, því að það .var svo fráleitt.

Svo leyfði hv. 11. landsk. þm. sér að bera fram það, sem hann veit, að eru fullkomin ósannindi, að Alþfl. hafi samið um það að lækka ekknastyrkinn til þess að hafa pólitísk yfirráð yfir Tryggingastofnuninni til hagræðis fyrir sinn flokk. Ég verð að segja, að mig furðar að heyra þetta, sérstaklega frá þessum manni, því að hann veit, að þetta er hreinn og beinn uppspuni og haugalygi frá upphafi til enda. Hann sagði, að þetta væri ekki nýtt, því að Alþfl. hefði jafnan notað þessa stofnun sér til pólitísks framdráttar, eins og mannaráðningar við stofnunina sýndu. Ég skal ekki fullyrða um það, en læt mér nægja um það að vísa til reynslu þeirra, er mál mitt heyra, er þeir hafa haft af stofnuninni þessi 8 ár, sem ég hef veitt henni forstöðu. En forstjórinn, sem var á undan mér í 3 mánuði, réð menn til starfa við tryggingarnar, og mannaráðningar hafa tiltölulega litlar orðið síðan ég tók við forstjórastarfi þar. Það, sem hv. 11. landsk. þm. sagði áðan, um að till. um lækkun ekknastyrksins og aðrar lækkanir hafi komið frá Jóni Blöndal og Brynjólfi Stefánssyni, er ekki rétt. Hvorugur þessara manna gerði till. um lækkanir. Það er aðeins, að þeir reiknuðu út, hvort ýmsar breyt., sem gera mætti á þessu, mundu vera á réttum stöðum, en höfðu engar till. að bera fram um það. En það er ekki þetta eitt, sem kommúnistafl. og blað hans hefur um tryggingarnar sagt síðan séð varð, að tryggingafrv. mundi ganga fram. Á sumardaginn fyrsta flutti Þjóðviljinn sumarboðskap með fyrirsögninni : „Sumargjöf þingmanna til ekkna og mæðra“, og með undirfyrirsögn: „Tillögur um ekknabætur og mæðralaun felldar. — Sósíalistar einir með þeim.“ Og síðan bæta þessir herrar við í Þjóðviljanum til frekari skýringar, — og sérstaklega til Alþfl. kemur þessi yfirlýsing: „Þeir seldu réttindi ekkna og mæðra fyrir völd handa Alþýðuflokknum.“ Og skýringin á því, hvernig sú verzlun hefur gengið fyrir sig, er í samræmi við það, sem hv. 4. landsk. var að fræða ykkur á áðan.

Þetta er sú lýsing, sem þessir herrar hafa borið fram um l. um almannatryggingar, og ég verð að segja, að mér finnst von, að almenningur, sem fær þessa fræðslu, álíti, að hér sé ekki um neitt smáræði að ræða, ef niður er felldur styrkur til ekkna og munaðarleysingja, en í þess stað byggt upp pólitískt starfstæki fyrir Alþfl. Hv. 4. landsk. þm. segir, að frv. hafi verið stórspillt og niður verið felldur allur styrkur til ekkna og mæðra, og þessa fullyrðingu áréttar Þjóðviljinn í morgun og bætir því við, að „ekki hefði þurft til þess að koma, ef Alþfl. hefði staðið jafnfast gegn því og Sósfl.“ Þá fræðir hann einnig lesendur sína á því, að felldur hafi verið jarðarfararstyrkur og sá vísir til atvinnuleysistrygginga, sem var í frv., en lætur vera að geta þess, að það var gert með fullu samþykki og atkv. þm. Sósfl.

Aftan við þessar ófögru lýsingar á l. um almannatryggingar og tilganginn með þeirri lagasetningu er svo hnýtt meinlausu orðaskvaldri um merkileg nýmæli í íslenzkri löggjöf o. s. frv.

Ég þykist ekki vera viðkvæmari en aðrir menn fyrir ummælum stjórnarandstæðinga í ræðu og riti, hvorki um sjálfan mig persónulega né þau mál, sem ég hef beitt mér fyrir. Ég hef oftast, ef til vill oftar en skyldi, valið þann kostað láta reynsluna skera úr og sýna og sanna, hver hefði réttara að mæla, heldur en halda uppi orðaskaki og deilum um gerða hluti. En hér er lengra gengið en svo, að ég telji fært að láta ósvarað, þótt málið sé afgr. að fullu frá Alþ. Þessi málflutningur kommúnista er svo langt fyrir neðan allt velsæmi, að þess munu fá eða engin dæmi. Ekkert er hirt um, hvað rétt er eða rangt, satt eða ósatt. Vitandi vits er sagt fullkomlega ósatt um efni frv. í þeim tilgangi einum að búa til óhróðursögur um Alþfl., og það sem verst er, með þessu er beinlínis verið að ófrægja almannatryggingarnar þegar í byrjun og vekja grunsemdir og tortryggni í garð Tryggingastofnunarinnar til þess að skapa óvild gegn henni og torvelda alla framkvæmd laganna.

Ég skal nú sýna fram á, hversu fullyrðingar og ásakanir í garð Alþfl. í sambandi við afgreiðslu tryggingafrv. eru gersamlega tilefnislausar. En því miður verður ekki hjá því komizt jafnframt að greina frá afstöðu þeirra sjálfra til frv., enda er hún því miður ljóst dæmi um vinnubrögð þeirra á allmörgum öðrum stórmálum.

Eftir að heilbr.- og félmn. beggja d. hafði sameiginlega lesið og athugað frv., óskaði ég eftir því, að nm. bæru sig saman við þingflokkana og tilkynntu n., hvaða afstöðu flokkarnir tækju til frv. Fulltrúar Framsfl. skýrðu síðan frá því, að flokkur þeirra væri ekki við því búinn að taka ákveðna afstöðu, enda kom síðar í ljós, að flokkurinn vildi ekki afgr. frv. og bar fram tili. um að vísa frv. frá með rökst. dagskrá. Tveir þm. flokksins, hv. 1. þm. N.-M. og hv. 2. þm. N.-M., greiddu þó atkv. með frv. Fulltrúar Sósfl. skýrðu svo frá, að flokkurinn væri fylgjandi frv., en mundi bera fram till. um hækkanir á öllum lífeyrissjóðsupphæðunum um 25% og breyta iðgjaldagreiðslum hinna tryggðu. Hækkun lífeyris til þeirra tryggðu hefði numið um 10 millj. kr. og lækkun iðgjalda sennilega um 3 millj. En jafnframt tóku þeir fram, að þótt þessar till. þeirra yrðu felldar, mundu þeir engu að síður fylgja frv., m. ö. o. að hér væri um hreinar yfirboðstill. að ræða, sem þeir vissu fyrir fram, að engar minnstu líkur væru til, að fengjust samþ. Sjálfstæðismenn fluttu þau skilaboð, að flokkur þeirra vildi draga svo úr fríðindum trygginganna, að heildarútgjöld til þeirra lækkuðu um 7–8 millj. kr., og lögðu fram till. um slíkar lækkanir. Enn fremur kröfðust þeir þess, að framlag og ábyrgð ríkissjóðs yrði ákveðið í l.

Málið stóð þá þannig, að Sósfl. vildi hækka útgjöldin um 10 millj. kr. og lækka iðgjöld, en Sjálfstfl. krafðist þess, að dregið yrði út útgjöldum um 7–8 millj. og framlag og ábyrgð ríkissjóðs vegna l. fastákveðin, en án stuðnings beggja þessara flokka ásamt Alþfl. var ekki unnt að tryggja, að frv. yrði samþ., þar sem ekki var annað vitað en Framsfl. yrði óskiptur á móti frv.

Ég leit svo á, að ómögulegt væri að verða við kröfu Sjálfstfl. um 7–8 millj. kr. lækkun og till. hans, ef samþ. yrðu, mundu raska svo því heildarkerfi, sem frv. gerði ráð fyrir, að ekki væri við unandi. Till. þeirra voru m. a. um að lækka ellilífeyri um helming fyrir 68–70 ára gamalmenni, fella niður barnalífeyri og fjölskyldubætur við 14 ára aldur í stað 16 og lækka barnalífeyri fyrir 11–14 ára börn um 3/8 hluta svo og að lækka lífeyri til ekkna og mæðra um helming og afnema jarðarfararstyrk og tillag til atvinnustofnunar. Ég tilkynnti Sjálfstfl., að á þetta gæti ég ekki fallizt og vísaði til yfirlýsingar hæstv. forsrh. og stj. og skilyrða Alþfl., þegar stj. tók við völdum. Að lokum féllust sjálfstæðismenn á að taka aftur till. um lækkun á framlögum til barna og gamalmenna, en gerðu það jafnframt að ófrávíkjanlegu skilyrði fyrir stuðningi við frv., að heildarútgjöld yrðu lækkuð um hér um bil 4 millj., eða rúmlega 5%, og framlög og ábyrgð ríkissjóðs fastákveðin. Alþfl. taldi ekki rétt, svo mjög sem honum var á móti skapi að fallast á þessa lækkun, að láta frv. stranda á því. Hann féllst því á fyrir sitt leyti að fella úr frv. ákvæðin um jarðarfararstyrk, ca. 600 þús. kr., og framlag til atvinnustofnunar, ca. 1200 þús. kr., sem er ætlað til öryrkja, lækkað um 50–75%, ca. 180 þús. kr., og að taka til athugunar breyt. á ákvæðunum um bætur til mæðra og ekkna með það fyrir augum, að unnt yrði að lækka þá áætlunarupphæð um 1500–1600 þús. kr., eða um rúmlega ¼ hluta í heild.

Þá var næst að leita undirtekta Sósfl., ekki um það, hvort hann vildi breyta ekkjubótum til lækkunar, það var bersýnilega tilgangslaust, því að fulltrúar hans í n. höfðu borið fram till. um stórkostlega hækkun á þeim, heldur hvort hann vildi fella jarðarfararstyrkinn og framlag til atvinnustofnunar umfram öryrkjastyrkinn og binda framlag og ábyrgð ríkissjóðs í l. svo og um það, hvort breyt. á ákvæðum um ekkna- og mæðrabætur mundu breyta afstöðu Sósfl. til frv. Svör Sósfl. voru þau, að hann væri samþykkur því að fella niður jarðarfararstyrkinn og framlag til atvinnustofnunar umfram öryrkjastyrkinn svo og að binda framlag og ábyrgð ríkissjóðs í l. miðað við 4 millj. kr. lækkun. Hins vegar gæti hann ekki fallizt á að breyta til lækkunar lífeyri ekkna og mæðra, þar sem hann bæri fram hækkunartill. við þann lið. En jafnframt tók hv. 4. landsk. það skýrt fram bæði í n. og við umr. í d., að flokkur hans mundi fylgja frv., þótt brtt. yrðu samþ., en hans till. felldar.

Í nál. heilbr.- og félmn., sem fylgdi brtt. meiri hl. n., segir svo um þetta atriði, með leyfi hæstv. forseta: „En meiri hlutinn (HG, GJ og StgrA) samþ. að mæla með þeim breyt., sem á þskj. 796 greinir. Þó hefur einn þeirra (StgrA) eigi fallizt á brtt. n. varðandi lífeyri ekkna og mæðra og mun bera fram breytingartillögur um það efni. Enn fremur áskilur hann sér rétt til að bera fram fleiri breytingartillögur.“ Undir þetta nál. skrifa Haraldur Guðmundsson, Gísli Jónsson og Steingrímur Aðalsteinsson. M. ö. o. fulltrúi Sósfl. í n. er meðflm. að öllum till. til breyt. á fjárhagsgrundvelli frv. nema þeim einum, sem ég hef nefnt, þar á meðal till. um að fastákveða tillag ríkissjóðs í l. miðað við 4 millj. kr. lækkun á útgjöldum, en samt flytur hann till. til hækkunar útgjalda um a. m. k. 10 millj. og lækkun iðgjalda á að gizka 3 millj. án þess að bera fram nokkra till. um að afla tryggingunum fjár til að mæta þessum útgjöldum. Slíkum leik vildi Alþfl. ekki taka þátt í. Honum var alvara með að koma málinu fram, ná raunverulegum árangri.

Þetta ætla ég, að skýri nokkurn veginn ljóst, hversu gersamlega tilhæfulaus er allur þvættingur Þjóðviljans og kommúnista yfirleitt um verzlun milli Sjálfstfl. og Alþfl. í sambandi við bætur til ekkna og mæðra. Frá kaflanum um fjárhagsgrundvöllinn var gengið að fullu við 2. umr. í Ed., áður en nokkuð var séð um, hvernig 1. kaflinn um stjórn og skipulag trygginganna yrði afgreiddur. Ég vil þó enn fremur minnast á yfirlýsingu hæstv. forsrh. í Nd. um þetta atriði og loks lesa niðurlag nál. á þskj. 794 til enn frekari áréttingar. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Nokkrar breytingartillögur við I. kafla laganna, sem ágreiningur er um, hafa verið lagðar fram og ræddar í nefndinni. Meiri hlutinn er þó sammála um að leggja engar breytingartillögur fram við þann kafla við 2. umræðu, en einstakir nefndarmenn geyma sér rétt til að bera fram breytingartillögur við hann fyrir 3. umræðu og láta þess getið, að afstaða þeirra til fullnaðarafgreiðslu frv. úr deildinni geti oltið á því, hverja afgreiðslu breytingartillögur þeirra fái.“

Þegar svo kemur til Nd., hefst sami leikurinn á ný. Kommúnistar bera fram hækkunartill., sem nema um 10 millj. kr., og till. um breyt. til lækkunar á iðgjöldum um ca. 3 millj. án þess að bera fram nokkra till. um aukin framlög til trygginganna til að mæta þessum 13 millj., þótt þeir sjálfir hafi samþ. að lögfesta framlag ríkissjóðs til stofnunarinnar. Til viðbótar þessu bera þeir fram till., sem hefðu, ef þær hefðu verið samþ., getað valdið ófyrirsjáanlegum útgjöldum og gert framkvæmdina stórum erfiðari. Voru þessar till. alveg sams konar og till. Framsfl., sem vildi koma málinu fyrir kattarnef. Að lokum tókst þó að fá þá til að falla frá þessum till. og afgr. málið nokkurn veginn án slysa.

Hvað er þá til í þessum fullyrðingum, að niður sé felldur styrkur til ekkna og mæðra, og að réttur þeirra hafi verið seldur á sumardaginn fyrsta? Ég skal víkja að þessu. Samkv. frv. var gert ráð fyrir, að kona, sem við fráfall eiginmanns á börn innan 15 ára aldurs, fái í ekkjulaun 6450 kr., meðan börnin eru innan 16 ára aldurs. Þessum ákvæðum var breytt, þannig, að samkv. l. eiga nú allar konur, sem verða ekkjur og hafa börn innan 16 ára á framfæri sínu, rétt til bóta í 12 mánuði eftir fráfall manns, jafnt hvar sem er á landinu, 200 kr. á mánuði fyrstu 3 mánuðina og 150 kr. næstu 9 mánuðina. Þetta eru samt sem áður 1950 kr. auk verðlagsuppbótar. Konur, sem eru ungar og fullvinnandi þegar menn þeirra falla frá, fá greiðslu í eitt ár, sem nemur um 6 þús. kr. Auk þessara bóta eiga samkv. 1. þær konur, sem verða ekkjur eftir fimmtugt, rétt til árlegra ekkjulauna þar til þær ná ellilífeyrisaldri, miðað við 1200 kr. miðað við þann aldur fullan, en lækka hlutfallslega eftir því, sem á skortir, að þær hafi þann aldur fullan. Konur, sem verða ekkjur 35 ára eða eldri og eiga ung börn, fá því umfram það, sem var í frv. upphaflega, rétt til ekkjulífeyris frá 50 ára aldri, og sama rétt fá ógiftar mæður, sem hætta að taka barnalífeyri, þegar þær eru fimmtugar, en slík ákvæði voru ekki í fyrstu í frv. Réttur ungra kvenna, sem hafa fulla vinnugetu þegar þær verða ekkjur, er rýrður, en réttur hinna, sem eru orðnar nokkuð rosknar þegar þær missa menn sína eða hætta að taka lífeyri með börnum sínum, er aukinn verulega frá því, sem var. Heildarútkoman verður sú, að áætlunarupphæðin verður samkv. lögunum 4,3 millj., en var 5,9 millj., þannig að heildarupphæðin lækkar um 1% en skiptingin milli ekknanna er með öðrum hætti og að minni hyggju að sumu leyti ekki óréttari. Ég hefði heldur kosið, ef þess hefði verið kostur, að frv. hefði verið óbreytt en að þetta hefði verið gert, en Alþfl. var knúður til að ganga inn á þetta, því að skilyrðið til, að frv. fengist samþ., var, að upphæðin yrði lækkuð í 4 millj., og það var ekki annars staðar hægt að láta þessa lækkun koma minna tilfinnanlega niður að minni hyggju.

Mér þykir leitt, að ég skuli hafa þurft að vera svo margorður um þessi atriði, og harma það, að samstarfsflokkur Alþfl. í ríkisstj. hefur kosið sér þá afstöðu til afgreiðslu trygginganna, sem raun ber vitni. Ég hef nokkrum sinnum áður haft orð á því, að ég teldi árangurinn af þessu samstarfi, sem nú er, að verulegu leyti undir því kominn, hvort nánari samvinna tekst milli verkalýðsflokkanna beggja eða með öðrum þeirra við þriðja flokkinn. Ég var að vona, að í þessu máli a. m. k. mætti lánast að fá Sósfl. til að beita sér fyrir að koma máli fram og að hann vildi sameina getu sína í því efni með Alþfl. Ég varð fyrir vonbrigðum. Ég verð að segja það eins og það er, að Sósfl. mat meira að koma með yfirboðstill., sem hann vissi, að engar líkur voru til, að hægt væri að fá samþykktar. Mér þykir þetta miður, en við því er ekkert að gera, hann hefur kosið sér þessa afstöðu.

Að lokum vil ég segja það eitt: Frv. er orðið að 1. Það er að minni hyggju mikil réttarbót fyrir allan almenning í landinu, réttarbót, sem felur í sér, að gamalmenni eiga rétt til ákveðins lífeyris í stað þess að leita eftir ölmusu til skyldra og óskyldra. Sama er um börn. Um þetta eru fastar reglur. En ekki er því að leyna, að hversu vel þessi löggjöf reynist, hlýtur verulega að fara eftir því, hvernig framkvæmdin tekst. Hún er að verulegu leyti undir því komin, með hverjum hug menn taka henni. Því harma ég, að l. skuli hafa verið svo afflutt sem gert hefur verið við þessar umr.

Ég vil að lokum beina því til almennings í þessu landi, sem við þessi l. á að búa, að hann taki upp og ræki sams konar samstarf við stjórn þessara mála og hann hefur gert undanfarin ár við Tryggingastofnunina, og ég vil vænta þess, að jafngóð samvinna verði milli stofnunarinnar og þeirra, sem við hana skipta, og verið hefur á undanförnum árum. Með þessari ósk vil ég ljúka máli mínu.