27.04.1946
Sameinað þing: 43. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 327 í D-deild Alþingistíðinda. (4257)

228. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Eysteinn Jónsson:

Ræða hv. 6. landsk. er ágætt dæmi um flærð og tvöfeldni þeirra manna, sem standa að því að auka verðbólguna og vildu ekki úrræðin meðan þau voru framkvæmanleg. En þegar komið er í óefni, leika þeir bjargvættina í blöðum og í útvarpi. Þeir vilja allra náðarsamlegast hlaupa undir bagga, af því að þeir eru svo miklir vinir útvegsins. Þeir eru svo önnum kafnir við björgunarstarfið, að þeir gera engar ráðstafanir til að hindra það, að framleiðslukostnaður hækki, svo að allt situr í sama feninu.

Hv. 6. landsk. spyr, hver afstaða Framsfl. hafi verið þegar 15% verðhækkunin var samþ. í fyrra. Krafan var einföld, að tryggja þessa verðhækkun öllum útvegsmönnum í landinu. Hv. 6. landsk. var æfur út af þessu og barðist á móti því. Alveg sama var afstaða Framsfl. þegar um saltfisksábyrgðina var að ræða. Þá barðist hann fyrir því, að hún yrði hækkuð, þannig að allir nytu góðs af. Og stjórnarliðið sá sér ekki annað fært en að verða við þessu. — Hv. 6. landsk. sagði, að mörg sjávarútvegsþorp hefðu gott af hinum nýju lánalögum sjávarútvegsins. Það má til sanns vegar færa. En þó er ískyggilegt, hve mörgum er um megn að leggja fram 25% til að eignast atvinnutækin vegna verðbólgunnar. Út af þessu flutti ég og hv. þm. N.-Þ, frv. um eflingu Fiskimálasjóðs, þar sem gert er ráð fyrir sérstöku framlagi á staði, þar sem ekki er fjármagn heima fyrir á móti lánum. Hv. 6. landsk. beitti sér sérstaklega fyrir því að drepa þetta frv. hér á þingi. Þannig studdi hann að því að efla útgerðina á smástöðvunum. Þetta eru dæmi um vinnubrögð hans og hans flokks.

Hæstv. samgmrh. er ákaflega sakleysislegur maður, en lætur sér þó ekki alltaf fyrir brjósti brenna að hafa endaskipti á sannleikanum. Hann sagði, að Framsfl. hefði haft fyrir sið að láta stj. fyrst gera sínar till. og snúast síðan gegn öllu saman. Þetta er tilhæfulaust. Framsóknarmenn lögðu fram í þingbyrjun frumvarpabálk um helztu framfaramálin, svo að stj. var önnum kafin við að drepa þessi frv. Ætti hana því að reka minni til, að þau komu fram. Það er fullkomlega tilhæfulaust, að stjórnarandstaða Framsfl. sé neikvæð. Stjórnarandstaðan hefur einmitt verið svo óvanalega jákvæð, að aldrei eru dæmi þess áður, að stjórnarandstæðingar legðu fram till. af sinni hendi um svo að segja hvert mál. En það er þess vegna rétt, að stjórnarandstaðan er öðruvísi en áður. Þegar Sjálfstfl. var í stjórnarandstöðu, átti maður ekki slíku að venjast. Þá var einskis svifizt, jafnvel ekki að spilla fyrir lánstrausti landsins út á við, ef stjórnarandstæðingar töldu það koma sér að liði. Málþóf þeirra var svo skefjalaust, að ekki varð undan því flúið að setja sérstök þingsköp til þess að einhver takmörk gætu orðið fyrir umræðum. Sporin hræða. Slík stjórnarandstaða verður vonandi aldrei á Íslandi framar eins og Sjálfstfl. hafði í frammi á sínum tíma. Og það er sérstaklega hart að heyra þessa menn gagnrýna nú stjórnarandstæðinga fyrir ósæmilega framkomu.

Hæstv. fjmrh. var mjög reiður þegar hann talaði í kvöld, og missti stjórn á sér. Það má virða honum til vorkunnar, því að sannleikanum verður hver sárreiðastur og af því að þessi hæstv. ráðh. hefur orðið fyrir óvenjulega vondri brúkun af hendi stjórnarflokkanna. Hann endurtók ósannindi, sem nýbúið er að leiðrétta, að árin fyrir stríðið hafi verið bannað að flytja inn ný atvinnutæki. Það er búið að upplýsa eftir hagskýrslum, að tímabilið fyrir styrjöldina var mesta framfaratímabilið, sem þjóðin hafði þá lifað. Það eru ósannindi, að Framsfl. eða ég hafi lagt stein í götu þess, að skip væru flutt inn rétt fyrir stríðið. Þvert á móti. Við leituðum til stofnana, sem höfðu lánstraust erlendis, og skoruðum á þær að festa kaup á skipum, áður en það væri orðið of seint.

Þá leyfði hann sér að segja, að framsóknarmenn hafi lifað á því að útvega innflutningsleyfi. Ég skora á hann að endurtaka þetta utan þings, ella heita minni maður. Hann má reyndar ekki verða minni maður en hann er nú, en ef svo fer, má hann sjálfum sér um kenna.

Þá taldi hann nokkur afrek í landbúnaðarmálum. En hver eru þau? Að hann skipaði búnaðarráð, 25 menn úr flokki bænda til að ákveða verð á landbúnaðarafurðum. Ég hélt, að stéttarsamtökin væru búin að því. Hann viðurkenndi, að stjórnarflokkarnir hefðu fellt uppbót á landbúnaðarafurðir á sama tíma. Þriðja afrekið er svo að svipta stéttarsamtökin búnaðarmálasjóði og reyna þannig að setja þau í fjársvelti og koma þeim fyrir kattarnef þegar í byrjun. Það er kominn tími til að losna við þann ráðh., sem telur þetta til afreka, enda megnum við það í þessum kosningum, ef við stöndum saman. Hv. þm. Snæf. tók undir þetta tal ráðh., og hann mætti að sjálfsögðu fara sömu leiðina. Og sama má segja um hv. þm. A.-Húnv., sem hæstv. ráðh. sagði, að væri lífið og sálin í því, sem gert hefði verið í landbúnaðarmálunum. Hv. þm. Snæf. sagði, að bændur væru búnir að verja 12 millj. kr. í vélar og taldi til afreka ríkisstj. Það er eins og bændum hefði aldrei dottið í hug að panta vélar, ef Ólafur Thors hefði ekki myndað ráðuneyti! Þetta sýnir á svo broslegan hátt, hve gersamlega hv. þm. er fjarri því að hafa hugmynd um störf og áhugamál bænda, og er furðulegt, að heyra slíkt hjá bændafulltrúa.

Ein fjöður var enn, sem stj. vildi skreyta sig með, setning nýrra laga um nýbýli og landnám. En þá láðist að geta þess, að til voru áður lög um landnám, og mátti veita til þess 750 þús. kr. á ári. En stj. hefur á tveimur þingum fellt till. Framsfl. um að leggja ákveðið fjármagn fram samkv. gildandi lögum.

Hv. 7. landsk. þm. sagði, að sósíalistar berðust fyrir þessum málum. Þetta er táknrænt. Þeir gleyma því, þegar þeir lögðu til, að útflutningsuppbætur landbúnaðarafurða væru lagðar í nýbýlasjóð, en það er álíka og ef launauppbætur verkamanna væru lagðar í verkamannabústaði.

Þá smjattaði þessi hv. þm. á söguburði Jónasar Jónssonar um Búnaðarfélagið. Mikils þykir nú við þurfa, þegar þessir sálufélagar eru farnir að nota Jónas Jónsson sem heimildarmann. Hæstv. samgmrh. reyndi að bera í bætifláka fyrir þá fádæma óreiðu, sem átt hefur sér stað í samgöngumálunum, og gerði tilraun til að skella skuldinni yfir á aðra. En skyldi ekki ríkisstj. hafa verið auðvelt að knýja Eimskipafélagið til að halda samgöngunum innan lands í viðunandi horfi.

Ástæða er til þess að rifja upp í lokin nokkur atriði, sem dregin hafa verið fram í umr. Sóknin í rottuholurnar hefur verið látin farast fyrir, enda þeir víst of skyldir valdhöfunum, sem þar hafast við, til þess að við henni væri nokkurn tíma að búast, en skattar tíndir saman í þess stað með álögum á almenning. Lánstraust stjórnarinnar er svo þrotið, að dómi hennar eigin liðsmanna, að lögbjóða verður lánveitingar henni til handa. Sparifjáreigendum og framleiðendum er haldið í stöðugum ótta og óvissu um fjármuni sína, afkomu og framtíð, en stríðsgróðamenn og undandráttarmenn eru þeir einu, sem óhræddir eru og óhultir. Kjarabótasóknin hefur svo hörmulega farið út um þúfur, að forráðamenn í því liði, sem einu sinni var þó talið hrifið af „plötunni“, fá ekki haldið hylli sinni, nema með því að lýsa yfir með sterkustu orðum tungunnar, hve illa sé ástatt með málefni verkamanna, ýmist vegna úrræðaleysis eða beinna ráðstafana af hendi valdhafanna. Unga fólkið í landinu til sjávar og sveita á yfirleitt um það tvennt að velja að stofna heimili sín í sannnefndum rottuholum eða láta 1/3 eða helming tekna sinna í húsnæðiskostnað, og þessari kynslóð má heita algerlega varnað annars hlutskiptis en þess að gerast þjónar á annarra útvegi, nema stefnubreyting eigi sér stað og það fyrr en síðar. Bændastéttinni er með ofbeldi varnað að afla sér tekna í samræmi við aðra, en á sama tíma er gjald til milliliðanna við sölu landbúnaðarafurðanna hækkað um að minnsta kosti 3 millj. kr. á ári. Stéttarsamtök bændanna sæta hreinni ofsókn af hendi Alþingis og með sérstakri lagasetningu er komið í veg fyrir, að það fái notið þess fjár, sem eftir ósk bændastéttarinnar hafði verið innheimt af bændum sjálfum til sameiginlegra félagsþarfa. Um þetta sameinast kommúnistar, meiri hluti sjálfstæðismanna og þeir, sem lagt hafa hatur á samtökin vegna þess, að þau vildu ekki þjóna pólitískum duttlungum þeirra. Bátaútvegurinn sætir sífellt þyngri búsifjum af völdum stjórnarstefnunnar, og nú þegar komið svo vel áleiðis, að sérstakar ráðstafanir eru gerðar á Alþ. til þess að forða frá stöðvun fram yfir kosningarnar, og stefnir óðfluga að því marki, að kommúnistar geti sannað, að ekki borgi sig að gera út á Íslandi. Á sama tíma þykist stjórnarliðið ætla á næstunni að fjölga þeim um þúsundir, sem stunda sjávarútveg. Með handahófsráðum er búið að ráðstafa meginhlutanum af þeim frjálsa gjald eyri, sem þjóðin átti í stríðslok, en þjóðinni er haldið á verzlunarklafa kaupmannastéttarinnar með þvingunarráðstöfunum gegn verzlunarsamtökum almennings.

Ríkisstj. hefur alls ekki reynt að svara rökstuddum ádeilum á stjórnarstefnuna, en til þess að draga athyglina frá öllu þessu öngþveiti reynir ríkisstj. aðeins eitt úrræði, þ. e. að ausa á sjálfa sig takmarkalausu lofi, sér til svölunar. Fyrir hvað? Fyrir það, að ekki hafi þó allri þeirri geipifúlgu, sem ráðstafað hefur verið nú þegar af innistæðum, sem þjóðin átti og hafði aflað sér áður en ríkisstj. kom til valda, verið varið til einskis. Mikið var. Hæstv. ríkisstj. ferst eins og ríkum ráðleysingja, sem traðkar í fjármunum feðra sinna og miklast á meðan ekki er allt uppétið og að engu gert. Þessi till. um vantraust er flutt til þess eins, að fyrir liggi nú í þinglokin glöggt, hverjir skipi sér undir merki hæstv. ríkisstj. nú, þegar ganga skal til kosninga. Hæstv. ríkisstj. hefur haft í hótunum að halda uppteknum hætti eftir kosningarnar. Það er þó ekki á hennar valdi, hvað í því efni skeður, og ekki heldur þeirra, sem fella vantraustið — sumir með samvizkunnar mótmælum. Það er á valdi þjóðarinnar hvað verður, en gætið þess, að hvert atkvæði, sem stjórnarflokkunum verður greitt í kosningunum í vor, verður haft að skálkaskjóli fyrir framhaldi þeirra vinnubragða, sem flett hefur verið ofan af í þessum umræðum.