15.04.1946
Neðri deild: 111. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í C-deild Alþingistíðinda. (4273)

169. mál, eftirlit með skipum

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Ég vil aðeins lýsa því yfir, að ég er, eftir atvikum, samþykkur þeim brtt., sem sjútvn. hefur borið fram við frv., og þó að þær geti ef til vill orkað tvímælis í smærri atriðum, tel ég hyggilegt, að þessar brtt. verði samþ. allar eins og þær liggja fyrir. Hins vegar vil ég vænta þess, að sjútvn. gæti, ef brtt. yrðu samþ., mælt með því, að ekki yrðu frekari breyt. á frv. gerðar. Þetta frv. hefur fengið alveg óvenjulega langa málsmeðferð og verið athuguð af flestum aðilum, sem þar koma til greina og hafa sérþekkingu á málinu, auk þeirrar n., sem hefur haft málið tvisvar sinnum á þessu þingi til ýtarlegrar meðferðar. Ég vildi þess vegna vænta þess, í fyrsta lagi, að brtt. yrði samþ., og í öðru lagi, að þeim samþ., að frv. gæti orðið afgr. Mér er kunnugt um, að mikil áherzla er lögð á það, að frv. nái fram að ganga, og síðast nú á landsþingi Slysavarnafélags Íslands var samþ. með öllum greiddum atkv., að málið fengi afgreiðslu á þessu þingi. Ég vildi því vænta þess, að hv. dm. gætu orðið við þeim tilmælum að afgr. frv. Undirbúningur málsins og meðferð öll hefur verið í mesta máta krítisk frá öllum hliðum, svo að það mætti ætla, að allt, sem máli skiptir, væri komið fram og þess vegna ekki eftir neinu að bíða með samþykkt þess.