07.02.1946
Sameinað þing: 25. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í D-deild Alþingistíðinda. (4290)

97. mál, afnotagjald útvarpsnotenda

Pétur Ottesen:

Herra forseti. Ég þarf reyndar ekki að fara mörgum orðum um þessa þáltill., og allra sízt ef svo fer, að henni verði vísað til fjvn., þar sem ég á sæti. Ég vil þó aðeins segja það, að ég tel ekki, að brýn ástæða sé fyrir hendi til hækkunar útvarpsnotagjaldsins, eins og gert er ráð fyrir í gildandi fjárl. Eins og kunnugt er, þá er valdið til þess að ákveða útvarpsnotagjaldið, hvort sem er til hækkunar eða lækkunar, í hendi þess ráðh., sem það mál heyrir undir. Hitt er svo aftur jafnt fyrir hendi, að Alþ. segi sinn vilja um þessa framkvæmd. Ráðh. sá, sem þetta heyrir undir, er samkv. gildandi l., ekki bundinn við vilja Alþ., þó að samþ. yrði þessi þáltill., ekki frekar en Alþ. er bundið við að hafa þann ráðh., sem ekki vill fara að vilja Alþ. Þannig stendur að þessu leyti alveg jafnt á um þetta. Hins vegar er endanlega valdið í höndum Alþ., eins og rétt er og vera ber.

Ástæðan, sem færð er fyrir því að hækka útvarpsnotagjaldið nú, er sú, að nauðsyn sé fyrir hendi á því að hefja nú þegar á þessu ári byggingu á húsi fyrir útvarpsstarfsemina. Ég vil engan veginn gera lítið úr þeirri nauðsyn, sem á því er. En það er nú svo í okkar landi, að það eru margir fleiri en útvarpið, sem verða að búa við nokkru þrengri húsakost en segja mætti, að æskilegt væri. Og ég veit ekki, þegar litið er á þetta mál í heild, hvort nauðsynin er meiri og brýnni á því að rýmka húsakost útvarpsins en að bæta úr húsnæðisþörf almennings, eins og sakir standa nú og ef við miðum við aðstæðurnar í þessu efni eins og við getum gert okkur grein fyrir, að þær muni verða á næsta ári. Ég held, þegar litið er á þetta allt, að þá mundi vera réttara að álykta svo, að ef framkvæmdir á byggingu útvarpshúss þyrftu að rekast á hitt, að bætt verði úr húsnæðisþörf almennings, þá ættum við nú, eins og sakir standa, að láta húsnæðisþörf almennings sitja í fyrirrúmi. En nú get ég búizt við, að það viðhorf geti verið á þessu og næsta ári, að það byggingarefni, sem við höfum yfir að ráða, verði ekki það mikið, að það leyfi, að þetta og önnur stórhýsi, sem ríkið hefur á prjónunum að byggja, verði byggð, svo framarlega sem á að sinna svo húsnæðisþörf almennings í landinu sem nauðsynlegt er. Hygg ég því, að af þessu geti leitt þá árekstra, að annaðhvort verði að víkja. Ég held, að ekki komi annað til greina. Í öðru lagi er alls ekki til sá kostur fagmanna í landinu, að þetta verði gert allt í einni svipan, byggt verði fyrir ríkið og fyrir almenning. Og hér kemur líka það til greina, að það er alls ekki til það vinnuafl í landinu að öðru leyti, að hægt sé að gera samtímis svo mikil stórvirki í þessu efni eins og stofnað er til með fjárveitingum á núgildandi fjárl., svo framarlega að það eigi að halda atvinnuvegum landsins fullkomlega í horfinu. Það er vitað nú, að húsbyggingar og annað taka svo mikið til sín af vinnuafli landsmanna, að þó nokkur hluti bátaflotans verður að standa á þurru landi nú um vertíðina, af því að ekki er hægt að fá fólk út á bátana. Það er nú svo, að menn vilja sitja við þann eld, sem bezt brennur, og það er ekki á eins færi að álasa öðrum fyrir það. Þetta verður okkur öllum næst að gera. Og ástæðan til þess, sem ég gat um viðkomandi bátaflotanum, er vitanlega sú, að menn telja sínum hag betur borgið með því að stunda þessa vinnu við byggingar nú en að leggja út í þá áhættu, sem því er alltaf samfara að eiga kaupgreiðslu sína undir afkomu útvegsins, því að þeir, sem að útveginum starfa, eiga það ávallt, ekki aðeins þeir, sem vinna við fiskveiðar upp á hlut, heldur líka þeir, sem í landi vinna, því að það eru aflabrögðin á hverjum tíma, sem skammta það, hve drjúg verður sú atvinna, sem menn hafa tryggt sér við útgerðina. Og þetta er ekki aðeins sagt með tilliti til þessarar byggingar fyrir útvarpið, heldur líka þeirra mörgu stóru bygginga, sem ríkið hefur nú á prjónunum að ráðast í. Og það ætti fullkomlega að taka tillit til þess að ganga ekki lengra af hálfu ríkisins í sambandi við þessar stórbyggingar en svo, að það kæmi fyrst og fremst ekki í bága við nauðsynlega lausn á því verkefni að auka húsakost almennings, og enn fremur ætti að taka það sérstaklega til greina, að þessar stórbyggingaframkvæmdir ríkisins færu ekki í bága við atvinnurekstur landsmanna, eins og byggingaframkvæmdir gera nú alveg áþreifanlega. Þessi bygging fyrir útvarpsreksturinn mun samkv. áætlun kosta um 9 millj. kr. og á að vera 38 þús. teningsmetrar að stærð. Og mér er sagt, að í þessa byggingu muni fara efni, sem nægja mundi í 142 þriggja herbergja íbúðir, og af því má sjá, hve þessi eina opinber bygging verður þung á byggingarefnisinnflutningnum, meðan á henni stendur.

Ég vil svo alls ekki gera lítið úr því, að nokkur munur sé á aðstöðu þeirra manna, sem verða að kaupa rafhlöður, með því, sem því fylgir, og hinna, sem hafa straumtæki. Ég vil ekki heldur vefengja það, að réttmætt gæti verið að gera nokkurn mun á afnotagjaldi eftir þessum aðstæðum manna, eins og hér er lagt til í þessari þáltill. Hitt er vitað, að þrásinnis hafa legið fyrir hæstv. Alþ. slíkar till., án þess að nokkur leiðrétting hafi fengizt á þessu. En þess vegna flutti ég mína brtt. við þessa þáltill., um það, að útvarpsnotagjaldið skyldi ekki verða hækkað, eða að Alþ. lýsti yfir vilja sínum í þá átt, — að ég taldi líklegra, miðað við reynsluna, að stöðvun á hækkun á þessu gjaldi fengist frekar eftir þeirri leið, sem í minni brtt. felst. Ég vil taka þetta fram í sambandi við það, sem fram kom hjá hv. þm. Dal., 1. flm. þáltill. á þskj. 164.

Ég þarf svo ekki að hafa um þetta fleiri orð að öðru leyti en því, að mér skilst, að engan veginn sé settur þrándur í götu fyrir því, að með eðlilegum hætti verði lagður grundvöllur að byggingu útvarpshúss, þegar heppilegt er að gera það, þó að þessi hækkun á afnotagjaldinu verði ekki gerð, því að eins og kunnugt er og hv. þm. Dal. hefur bent á, falla útvarpinu til árlega verulegar tekjur eftir þeim leiðum, sem hann benti á, auk þess sem því falla tekjur til af þeirri stofnun, sem hefur með höndum viðgerðir viðtækja, og auk þess er rekstrinum þannig borgið með því afnotagjaldi, sem nú er, að hann ber sig sæmilega vel. Þá er það einnig þannig, að á undanförnum árum, meðan hér var styrjaldarástand, féllu útvarpinu til nokkrar tekjur, sem lagðar voru, í sérstakan sjóð, sem átti að ganga til byggingar útvarpshúss á sínum tíma. Enn má á það benda, að nú, þegar leiðir opnast til útvegunar viðtækja, þá mun útvarpsnotendum enn fjölga frá því, sem verið hefur, og er það einnig vatn á mylnu útvarpsins og einn liðurinn í því að leggja fjárhagsgrundvöll að byggingu útvarpshúss á sínum tíma. Svo má á það benda, að það má sjálfsagt segja, að með þeirri fjárveltu, sem hér hefur verið, hafi útvarpsnotendur vel getað borgað hærra afnotagjald en þeir hafa gert, en ég býst við, að það líti flestir svo á, að við séum komnir á það stig nú, að ekki sé varlegt að bæta mjög miklum gjöldum á framleiðslu landsmanna frá því, sem gert hefur verið, heldur verði að fara að líta til framtíðarinnar og hækka ekki sífellt meir og meir opinber gjöld eins og gert hefur verið fram að þessu. Þetta er vitanlega ekki nema einn liður í því, en það getur vel rekið að því, að það verði að líta á ekki einn eða tvo af þessum gjaldaliðum, heldur á þá alla og svo það, hver upphæð það er, sem leggst, þegar allt kemur saman, á einstaklinga þjóðfélagsins og á þjóðfélagið í heild.

Ég skal svo ekki láta fleiri orð fylgja þessari till. Eins og ég gat um í upphafi, þá eru líkur til, að hún fari til fjvn., og gefst mér þá einnig tækifæri til að taka málið til athugunar.