12.10.1945
Neðri deild: 7. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í C-deild Alþingistíðinda. (4303)

18. mál, sala á hálfum Þjóðólfshaga og Kotvelli

Flm. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir og flutt er af okkur þm. Rang., þarf ekki skýringar við nema að litlu leyti. Þess vegna mun ég ekki halda langa framsöguræðu.

Það, sem hér er um að ræða, er það, að ríkisstj. er gefin heimild með l. til að selja tvær jarðir austur í Rangárvallasýslu. Bændurnir, sem búa á þeim, hafa búið þar góðu búi um 30 ára skeið, eins og tekið er fram í grg., og langar þá nú til að eignast þessar jarðir. Þessu frv. fylgja engin vottorð um hæfni þessara bænda, en að sjálfsögðu munu þau verða látin í té af hreppstjóra og hreppsnefnd, ef þess er óskað. En slíkt mun oft eiga sér stað, er um slík mál sem þetta er að ræða.

En svo vildi ég minnast á það, að mér finnst það nokkuð þunglamalegt, að í hvert skipti, sem bændur vilja kaupa jarðir sínar, skuli þurfa að setja l. um það. Það væri mjög freistandi að flytja frv. til l. um breyt. á 1. um sölu ríkisjarða, þannig að ríkisstj. væri gefin heimild í eitt skipti fyrir öll til að selja jarðir þeim bændum, sem hún teldi, að verðskulduðu það. En út í það ætla ég ekki að fara nánar í þetta skipti. Það er mjög athyglisvert, hvort ekki ætti að fara út á þá braut. Vænti ég svo, að málinu verði vísað til 2. umr. og landbn.