08.03.1946
Sameinað þing: 32. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í D-deild Alþingistíðinda. (4315)

97. mál, afnotagjald útvarpsnotenda

Menntmrh. (Brynjólfur Bjarnason):

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir, að hv. form. fjvn. hafi tekið það fram, sem ég þarf að segja í þessu máli.

Hæstv. Alþ. hefur nú samþ. fjárl., þar sem gert er ráð fyrir þessu afnotagjaldi, sem ríkisstj. hefur þegar ákveðið. Það er búið að ákveða af ríkisstj. að byggja útvarpshús, og hefur Alþ. staðfest þá ákvörðun með samþykkt fjárl. Hins vegar er enn óákveðið, hvenær þessi bygging verður reist, og var felld brtt. við fjárl., þar sem lagt var til, að féð yrði lagt til hliðar. Ef þessi till. frá hv. meiri hl. fjvn., sem hér liggur fyrir, yrði samþ., get ég ekki skilið, að hún þýði annað en það. að Alþ. ætti sjálft að leggja fram þá fjárupphæð, sem annars er gert ráð fyrir að fáist til byggingar útvarpshallar með hækkuðum útvarpsgjöldum, og mundi sú hækkun nema rösklega 1 millj. kr. á ári fyrst um sinn. Hér er um svo mikla bjartsýni og stórhug að ræða í garð útvarpsins, að ég get varla trúað því, að Alþ. beri slíkan hug til þeirrar stofnunar. Hitt er svo annað mál, að ég hlýt að fagna því, ef Alþ. vill veita þetta fé beint úr ríkissjóði, þannig að afnotagjöld þyrftu ekki að hækka.

Hvað snertir það atriði, sem um hefur verið rætt, hvort ég mundi fara hér eftir þingviljanum eða ekki, þá er það rétt, sem kemur fram í dagskrártill. hv. minni hl. n., að ég þarf vitanlega ekki að fara eftir honum, en hins vegar vil ég það gjarnan. Ég þarf aðeins að vita, hver sá þingvilji er og hvað vakir fyrir Alþ. í þessum efnum. Sé ég viss um það, að samþykkt þessarar till. þýði ekki annað en að meiri hl. fjvn. og Alþ., ef till. verður samþ., ætli sér sjálft að leggja fram féð, þá mun ég vissulega framkvæma þingviljann og lækka afnotagjöldin aftur, en fyrst þarf ég að ganga úr skugga um þetta atriði, því að annars brýtur samþykkt þessarar till. í bága við fyrri samþykktir Alþ.