08.03.1946
Sameinað þing: 32. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í D-deild Alþingistíðinda. (4318)

97. mál, afnotagjald útvarpsnotenda

Frsm. minni hl. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Ég vil gjarnan taka það fram hér, að mér finnst hv. frsm. meiri hl. n. blanda hér saman tveim alveg óskyldum málum. Það er út af fyrir sig sitt hvort atriðið, hvort eigi að hækka útvarpsgjöld eða byggja útvarpshöll, og hæstv. ráðh. hefur líka blandað þessu tvennu saman. Við höfum samþ. með fjárl. að verja á aðra millj. kr. til þess að byggja hluta af útvarpshöll, og hæstv. ríkisstj. eða ráðh. hefur áreiðanlega enga heimild til þess að verja meira fé á þessu ári í þessu skyni, nema til komi frekara samþykki frá Alþ. Það er því rangt hjá hv. frsm. meiri hl. n., að við samþykkjum byggingu útvarpshallar, þótt þessi rökst. dagskrá verði samþ. Hún er ekkert annað en bein afleiðing af því, sem hv. Alþ. gerði með því að samþ. að verja af fjárl. 1080000 kr. af áætluðum tekjuafgangi ríkisútvarpsins til þess að byggja fyrir hluta af útvarpshöll. Ef þáltill. verður samþ. og hæstv. ráðh. framfylgir þeirri viljayfirlýsingu, sem kann við það að koma fram, þá er Alþ. að breyta sinni fyrri ákvörðun og verður að uppfylla þessi ákvæði fjárl. að leggja til hliðar 1080000 kr. til byggingar útvarpshallar. Hins vegar er ég sammála hv. frsm. meiri hl. n. um að vera á móti þessari byggingu og að hækka afnotagjöld útvarpsins í þessu skyni.

Hv. þm. Dal. viðurkenndi í sinni ræðu, að ég hefði lög að mæla í þessu máli, svo að ekki er ástæða til að ræða frekar við hann út af hans ræðu. — Ég vil svo spyrja hæstv. ráðh. að því, hvort hann viðurkenni ekki, að hann hafi lýst yfir við fjvn. eða mig sem form. hennar, að hann teldi sig fyrst og fremst hafa heimild til að nota þetta fé og ef hann fengi hana ekki hjá Alþ., þá mundi hann láta fara fram hækkun á afnotagjöldum. Þegar ráðh. fær svo samþ. á þingi, gegn vilja fjvn., að fá 1080000 kr., þá hefur hann gert þessar ráðstafanir um hækkun afnotagjalda alveg gagnstætt því, sem mér skildist hann ætla að gera eftir yfirlýsingu sinni, ef þetta hefði verið fellt. Ég heyrði ekki yfirlýsingu hæstv. ráðh. áðan, en mér skildist, að hann mundi lækka afnotagjöldin eða stöðva hækkun á þeim, ef hann fengi tryggingu fyrir því að fá fé á annan hátt. Nú veit hæstv. ráðh., að það er ekki hægt að tryggja það nema með nýrri þáltill., því að það er búið að ganga frá fjárl.