08.03.1946
Sameinað þing: 32. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í D-deild Alþingistíðinda. (4319)

97. mál, afnotagjald útvarpsnotenda

Menntmrh. (Brynjólfur Bjarnason):

Ég staðfesti, að hv. þm. Barð. (GJ) hefur það rétt eftir mér, að ef till. hv. meiri hl. fjvn. hefði verið samþ., um að leggja til hliðar fé í því skyni að byggja útvarpshöll, þá mundi ég ekki hækka útvarpsgjöldin, en það er öllum vitanlegt, að þessi tvö atriði, hækkun útvarpsgjalda og hitt, hvort halda skuli áfram að byggja útvarpshöll, verða ekki sundurskilin. Hins vegar er það atriði, hvort byggja eigi útvarpshöll, mál, sem ég tel ekki þörf á að ræða, því að ríkisstj. hefur þegar ákveðið það og hv. Alþ. einnig með því að veita til þeirra framkvæmda 1080000 kr. af fjárl., og til hvers er verið að veita þessa fjárhæð til byggingar útvarpshallar nema ætlunin sé, að hún verði reist? Þetta var gert í samræmi við ákvörðun ríkisstj. og gegn þeirri till., sem borin var fram af hv. fjvn. og felld. Það segir sig því sjálft, að ef sú till., sem hér liggur fyrir, verður samþ., þá ber hv. Alþ. skylda til að sjá á annan hátt fyrir þessu fé, annaðhvort, eins og hv. þm. Barð. (GJ) hefur tekið fram, með samþykkt sérstakrar þáltill. eða þá á næstu fjárl. Ég vil því endurtaka það, að hafi ég tryggingu fyrir því, að fyrir fénu verði séð á annan hátt, þá mun ég glaður framkvæma það, sem í þessari þáltill. felst, ef hún nær samþykki hv. Alþ., en annars er það ekki hægt.