11.02.1946
Sameinað þing: 26. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í D-deild Alþingistíðinda. (4347)

161. mál, samgöngubætur í Barðastrandarsýslu

Flm. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Ég flyt hér á þskj. 394 þáltill. um það að fela ríkisstj. að skipa þriggja manna nefnd til þess að athuga, á hvern hátt skjótast verði bætt úr samgönguþörf í Barðastrandarsýslu, til þess að tryggja kauptúnunum þar nægilega mjólk og bændum örugga afurðasölu. Barðastrandarsýsla er nú nærri því eina sýslan, sem ekki hefur nema að mjög litlu leyti samband við aðalvegakerfi landsins, og eini vegurinn, sem setur hana í samband við Vesturlandsveg, er ruddur, en ekki byggður sem bæði vetrar- og sumarvegur, og verður hann því að nokkurs konar árfarvegi vor og haust, þó að þetta sé aðalsamgönguæðin við Vestfirði. Þó að hægt sé að skríða þetta á sumrin, eru flestir hreppar sýslunnar þannig, að ekki er hægt að skríða til þeirra á neinn hátt. Vestan Þorskafjarðar er blómleg sveit, Gufudalssveit, og er mikill áhugi ríkjandi hjá bændum þar að komast í vegasamband, því að fyrir þá er aðeins um tvennt að velja: Annaðhvort fá þangað nothæfan veg eða leggja býli sín í eyði. Í Vestur-Barðastrandarsýslu er Patreksfjörður, kauptún með 800 íbúa. Þar er ástandið þannig í mjólkurmálunum, að hver íbúi fær þar nú að meðaltali 1 lítra mjólkur á mánuði, — einn og hálfan lítra mjólkur á mánuði. Mér þætti skrýtið, ef önnur pláss sættu sig við þetta, t. d. vildi ég spyrja, hvort Reykjavík mundi sætta sig við það. Um 25 km frá Patreksfirði liggur svo Rauðisandur, sveit þar sem hægt væri að hafa um 1000 kýr. En þangað er ógerningur að koma vélum nema á klakk eða kviktrjám, eins og til forna. Nú hafa verið gerðar till. hér á Alþ. um að fá fé til vega á þessum slóðum. Á annan veg, líka um 25 km frá Patreksfirði, liggur svo Barðaströndin, og er áætlað að gera veg þaðan til Patreksfjarðar og tengja hann svo við aðalvegakerfi landsins með flóabát. En ef ekki verða hraðari framkvæmdir en nú eru og hafa verið, mun þetta taka 10–20 ár. Hér er því um að ræða, hvort skipuð verði mþn. til þess að gera till. til úrbóta í þessu efni, eða leggja þessar sveitir í eyði.

Víðar er eins háttað, að það hafa ekki verið gerðir þarna almennilegir vegir. Vestar hefur verið ruddur vegur, sem aðeins er hægt að skríða yfir á sumrum, en verður að árfarvegi í rigningum, og er hann á milli Tálknafjarðar og Bíldudals. Á Bíldudal er nú að rísa upp þorp, sem sífellt fer vaxandi, en hann á ekki einn km. vegar, hvorki til né frá, en þó þarf hann að sækja nauðsynjar sínar í sveitirnar í kring. Við svona ástand verður ekki unað. Það verður að gera upp við sig, hvort á að leggja þessar sveitir í eyði eða ekki. Ég vil í þessu sambandi benda á það, að 1942 hefur Barðastrandarsýsla verið hæsta sýslan að greiða til ríkissjóðs, að undantekinni Eyjafjarðarsýslu, þegar Akureyri er dregin frá, og Gullbringu- og Kjósarsýslu, þegar Keflavík og Hafnarfjörður eru dregin frá. En svo fær þessi sýsla ekkert í staðinn. Hlutverk n. verður m. a. að athuga, hversu mikið tapast úr ríkissjóði, ef atvinnuvegirnir þar lamast vegna mjólkurleysis.

Engin sýsla er svo gersamlega afskorin sem Barðastrandarsýsla, miðað við það atvinnulíf, sem þar er. Ég hef rætt um þetta við vegamálastjóra og ráðherra, og tjáði vegamálastjóri mér; að rannsókn þessi gæti farið fram í sinni skrifstofu. Kostnaðurinn við þetta yrði þá fyrst og fremst ferðakostnaður manns, sem tekinn yrði að vestan.

Ég vil því mælast til, að þessi till. verði samþ. og að málið sé rannsakað og fái fljóta afgreiðslu. Ég legg svo til, að till. verði send til allshn.