28.03.1946
Sameinað þing: 35. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í D-deild Alþingistíðinda. (4351)

161. mál, samgöngubætur í Barðastrandarsýslu

Frsm. minni hl. (Páll Zóphóníasson) :

Hv. þm. Barð. fer fram á það í þessari till., að skipuð sé sérstök mþn., sem væntanlega ferðaðist um Barðastrandarsýslu og athugaði þar vegastæði og gerði till. um, hvernig vegirnir yrðu um sýsluna. Þetta hefur verið gert hér áður, þegar leysa þurfti samgöngumál milli Suðurlandsundirlendisins og Reykjavíkur, þá hafa verið skipaðar milliþinganefndir sérfræðinga í málið. Þær n. hafa verið settar bæði vegna þess, að töluvert mikill ágreiningur hefur verið um leiðir, sem stungið hefur verið upp á að farnar yrðu til að leysa samgönguvandræðin milli þessara staða. Og þörfin fyrir að leysa þessa samgönguerfiðleika hefur verið sérstaklega mikil, þar sem eftir þeim vegi hefur þurft að flytja á dag á s. l. ári milli 30–50 tonn til þess að fullnægja þörf manna, sem búa beggja megin heiðarinnar. Slík þörf er ekki fyrir hendi í Barðastrandarsýslu, og þar er ekki mikill ágreiningur um leiðir til að leysa samgöngumálin. Þótt flutningaþörfin sé þar mikil, eins og víða annars staðar á landinu, þá er samt ekkert sérstakt varðandi þá sýslu. Hvaða veg sem þar væri um að ræða, væru flutningarnir eftir honum miklu minni en eftir fjölmörgum öðrum vegum á landi hér. Þess vegna er engin ástæða til að skipa sérstaka n. til þessa. Það mætti alveg eins skipa sérstaka n. til að athuga vegasamband Austurlands og í nokkrum sýslum norðanlands, þar sem samgöngur eru litlu betur komnar en í Barðastrandarsýslu og sums staðar ekkert betur.

Það er leitt, að hæstv. ríkisstj. skuli ekki hafa séð sér fært að ýta á eftir vegamálastjóra, að hann léti gera línurit yfir vegi, þar sem gefnar eru ýtarlegar upplýsingar og greint frá, hvernig vegakerfinu væri háttað um landið, eins og ríkisstj. var falið að gera á fyrra þingi. Ég vildi heyra, hvað dregur þá framkvæmd. Hvers vegna hefur ríkisstj. ekki orðið við þeim óskum? Allar upplýsingar, sem þarf til að gera þetta línurit, eru fyrir hendi, og tiltölulega lítið verk og stutt að búa línuritið til og leggja málið skýrt fyrir. Meðan þetta er ekki gert, eru þm. að deila um það, hvaða sýsla er verst sett með vegi og hvar mest þörfin er að gera þær athuganir, sem hér er farið fram á. Hins vegar er það svo, að þörfin fyrir vegi er misjafnlega mikil á hinum ýmsu stöðum á landinu. Allfjölmenn sjávarþorp hafa litla möguleika til að afla sér nægilegra landbúnaðarvara. Það eru að minnsta kosti 6 þorp, sem ekki geta framleitt nægjanlegt handa sér og eru afskorin frá upplandi, sem getur veitt þeim þessar landbúnaðarvörur. Og það teljum við sé eitt brýnasta verkefnið að athuga vegasambandið milli þessara þorpa og þess upplands, sem að þeim liggur og gæti framleitt og selt þeim landbúnaðarvörurnar. Eitt þorp, í Barðastrandarsýslu, Patreksfjörður, er í tölu þeirra þorpa, sem þörfin er brýnust í þessu efni. Þótt bændur hafi vörur, sem þessi þorp þarfnast, þá komast þær ekki þangað. Þess vegna leggjum við áherzlu á það, að vegamálastjóri láti sitja í fyrirrúmi að athuga, á hvern hátt verði bezt bætt úr þessum samgönguörðugleikum. Bíldudalur kemur þarna líka, en hann er neðar á listanum, önnur þorp koma á undan honum. Patreksfjörður er nr. eitt í þessum efnum. Skipun sérstakrar n. gæti orðið mjög kostnaðarsöm, ef n. innti verk sitt vel af hendi. Þess vegna leggjum við til, að þetta mál verði afgr. þannig, að ekki verði skipuð n., heldur vísað frá með rökst. dagskrá, en jafnframt bent á það til athugunar fyrir vegamálastjóra og ríkisstj., að það, sem sérstaklega ríði á í þessu sambandi, sé að hugsa um þá vegi, sem vantar milli þorpa, sem vantar landbúnaðarvörur, annars vegar og sveita hins vegar, sem ekki geta komið til þorpanna vörum, sem þau þarfnast. Eins og ég sagði áðan og til þess að gera hv. þm. Barð. rétt, þá tel ég Patreksfjörð þorp nr. eitt, en Bíldudalur kemur ekki næst, heldur önnur þorp. En þetta virðist hv. þm. Barð. ekki skilja. Við viljum leysa þetta mál með rökst. dagskrá og treystum ríkisstj. og vegamálastjóra til að gera það, þótt spurning sé, hverjum eigi að treysta í því sambandi, þar sem ekki er búið að framkvæma till., sem hv. þm. Barð. fékk samþ. um línurit yfir vegina, því að það er af vanrækslu og engu öðru, sem hún fæst ekki framkvæmd. Nú er hæstv. samgmrh. ekki í d., en ef hann væri hér, þá vildi ég gjarnan fá svar við því, hvernig á því stendur, að ekkert er í þessu gert. Ef til vill getur hv. þm. Barð. upplýst þetta, því að væntanlega hefur hann reynt að ýta á eftir, að hans eigin till. yrði framkvæmd. Og ég vildi ýta á eftir þessu með honum. Ég er, eins og hann, fulltrúi sýslu, sem illa er veguð, og margir íbúar hennar komast ekki frá heimilum sínum nema sundríða ár, og eru þess ekki dæmi í Barðastrandarsýslu.