28.03.1946
Sameinað þing: 35. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 364 í D-deild Alþingistíðinda. (4353)

161. mál, samgöngubætur í Barðastrandarsýslu

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég held, að sú vanræksla, sem hv. 2. þm. N.-M. vill gefa mér að sök, að ég hafi ekki komið því til vegar, að bændum yrði ekki greidd uppbót á mjólkurverð, verði ekki þyngri synd en það, að þessi hv. þm. hélt slíkri greiðslu fyrir bændum, til þess að geta haldið Alþfl.-mönnum í vistinni í stjórnmálasamvinnunni, — eins og upplýstist í hv. Ed. fyrir nokkrum dögum.

Og viðvíkjandi starfsemi á vegum vegamálastjóra vil ég taka fram, að hann hefur látið gera drög að þessum mælingum. Ég var með honum, þegar hann fór um þessa umræddu staði í Barðastrandarsýslu. Hann hefur athugað, hvernig leggja ætti þarna vegi. Og ég hef hans orð fyrir því, að það sé hægt að láta vinna þetta verk, sem í þáltill. er farið fram á, að nefnd inni af höndum, mjög kostnaðarlítið hér í Reykjavík. Og þess vegna þarf hv. þm. N.-M. ekki að vera hræddur við kostnaðinn, sem af þessu mundi leiða.