24.04.1946
Sameinað þing: 38. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í D-deild Alþingistíðinda. (4363)

210. mál, herstöðvamálið

Flm. (Hermann Jónasson) :

Herra forseti. Þessi þáltill., sem hér liggur fyrir, hefur nú legið fyrir þinginu alllengi, og fyrir henni hef ég gert allýtarlega grg. hér á þskj. 634, og mun ég rekja með nokkrum orðum þær ástæður, sem liggja til þess, að ég hef flutt þessa till.

Það er vitað mál, þó að frá því hafi ekki verið sagt opinberlega eða a. m. k. ekki af hlutaðeigandi stjórnarvöldum, ríkisstj. Íslands, að Bandaríki Norður-Ameríku hafa beðið hér um herstöðvar, og munu um það mál hafa farið fjarri milli Bandaríkjastjórnar og íslenzku ríkisstj. allmikil bréfaviðskipti og nótusendingar, og enn fremur er vitað, að farið hafa bréf milli sendiherra Íslands í Bandaríkjunum og íslenzku ríkisstj. um þetta sama mál.

Um þetta mál hafa verið ýmsar sögusagnir, og sú vitneskja, sem þjóðin hefur um málið, er úr íslenzkum blöðum, án þess að ríkisstj. Íslands hafi gefið út um það nokkra tilkynningu, og jafnframt hefur borizt hingað alls konar fréttaburður erlendis frá bæði í blöðum og útvarpi, jafnvel víðs vegar að. Þetta er sú vitneskja, sem almenningur í þessu landi hefur haft um þessi mál, sem er ef til vill einna stærst og þýðingarmest af þeim málum, sem nú eru á döfinni hjá íslenzku þjóðinni.

Ég tel, að það þurfi tæpast að flytja fram langt mál um þetta hér á þingi, enda er málið tekið fyrir á þeim tíma dags, að ekki eru mjög margir hv. þm. viðstaddir. Ég tel, að það þurfi ekki að flytja fram langa ræðu eða margs konar rök fyrir því, að eðlilegt sé, að íslenzka ríkisstj. birti fyrir íslenzku þjóðinni, og það þegar í stað, allt það, sem gerzt hefur í þessu máli. Það hafa verið fluttar fram núna á seinustu vikum og seinustu mánuðum af þjóðinni sjálfri víðs vegar um land, í blöðum og á fundum, kröfur og rökstuðningur fyrir því frá svo mörgum þegnum þjóðfélagsins og mörgum félagsheildum, að það ætti að vera hæstv. ríkisstj. ljóst, að það er vilji, sterkur vilji, fyrir því, að þessi plögg verði öll saman birt, og það er ekki heldur undarlegt. Það er ekki undarlegt, þó að sú krafa sé sterk hjá þjóð, sem býr við lýðræði og vill búa við lýðræði, því að ef við eigum að treysta lýðræðinu, treysta dómgreind þjóðarinnar, og það munum við vilja gera, sem hér erum staddir, þá hlýtur það að verða rökrétt afleiðing og ályktun af því trausti okkar, að þjóðin eigi fyrst og fremst að fá að vita um þau mál, sem eru vandasömust og stærst, því að ef þjóðin á ekki að fá að vita um mál eins og þetta herstöðvamál, sem er stærsta vandamál hennar í svipinn, um hvaða mál á hún þá að fá að dæma? Hvaða takmörk eru fyrir því? Ég fyrir mitt leyti er ekki í neinum vafa um, að með því einu móti verður ráðið vel og skynsamlega fram úr þessu vandamáli, að þjóðin fái allar skýringar og vitneskju um það mál og það sé tekið til íhugunar og úrlausnar í samráði við hana sjálfa, og svo bezt verður að minni hyggju ráðið farsællega fram úr þeim málum, sem eru vandasömust, að ekki liggi mikil hula yfir þeim fyrir þjóðinni eða ráðið sé fram úr þeim bak við hana, en hún sjálf fái ekki að fylgjast með. Ég er ekki að segja, að það hafi enn verið gert í þessu máli, ég segi hvorki til né frá um það, en það er ástæða til að flytja nú fram kröfu um, að þessari hulu sé nú þegar í stað af létt, ekki sízt þar sem blöð eins stjórnarflokksins hafa gefið í skyn, að í málinu hafi verið framkvæmd einhver leyniráð, sem séu mjög alvarlegs eðlis.

Ég harma mjög og þykir fyrir því, að þetta mál skuli ekki hafa verið tekið fyrir fyrr. Það var gert ráð fyrir, þegar till. var flutt, eins og grg. ber með sér, að málið yrði sent til n., en nú verð ég að bera fram þá kröfu, og þess vegna mun ég ekki, án þess að tilefni gefist sérstaklega til, lengja rökstuðning minn fyrir þessu máli öllu meir, en ég verð að gera þá kröfu og bera fram þá ósk til hæstv. forseta, að umr. um þetta mál verði nú lokið, það verði haldið áfram þessum fundi, þar til umr. er lokið, en málið ekki sent til n., því að það er vitanlega fyrirsjáanlegt, að ef þetta mál er sent til n. nú, þá er þessi fyrirtekt málsins ekki mikils virði og miklu betur heima setið, því að hún er þá ekki til neins annars en hreinnar málamyndar. Verði sá háttur tekinn að vísa málinu til n., er fyrirsjáanlegt, að ætlunin er að svæfa það, þar sem fyrirsjáanlega er svo lítið eftir af þingtímanum. Ég vil vænta þess, að umr. um málið geti nú orðið lokið í nótt og síðan svo gengið atkv. um málið, þegar fleiri hv. þm. eru viðstaddir og tækifæri til að láta vilja hv. þm. liggja ljósar fyrir en hægt er nú, þar sem svo fáir eru hér viðstaddir, og það án þess að málið gangi til n., því að það hefur verið ákveðin ein umr. um málið. Ég geri mér von um, ef hæstv. forseti svarar því ekki, að till. skuli ganga til n., að það fáist meiri hl. fyrir henni hér á þingi. Framsfl. stendur, að ég hygg, óskiptur að till. Ég geri mér von um, að Sósfl., eftir því, sem hann hefur skrifað um þetta mál, standi einnig óskiptur að því, að slík skýrsla verði gefin um málið. Það er vitað, að a. m. k. ýmsir af þm. Sjálfstfl. eru því fylgjandi, að þessi leynd sé rofin, og ég vona, að a. m. k. nokkur hluti Alþfl. sé einnig þessu máli fylgjandi.

Það er alltaf að verða ljósara með hverjum deginum, sem líður, að það er ósæmilegt og það er ekki hægt að halda þessu máli lengur leyndu fyrir þjóðinni. Og þess vegna er það, að ég vænti þess og óska eftir að fá um það alveg skýr svör frá hæstv. forsrh., hvort hann verður við þessari kröfu minni. Ég óska þess, að umr. um þetta mál verði lokið, svo að atkvgr. geti gengið um það á næsta fundi í Sþ., og síðan verði boðað hér til þess, svo að þm. geti verið viðstaddir, svo að það standi ekki í vegi fyrir því, að atkvgr. geti gengið um till.