24.04.1946
Sameinað þing: 38. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 370 í D-deild Alþingistíðinda. (4368)

210. mál, herstöðvamálið

Flm. (Hermann Jónasson) :

Herra forseti. Það er nú það fyrsta, að hæstv. forseti sagði, að það hefðu ekki verið haldnir nema 3 fundir í Sþ. síðan þetta mál var tekið á dagskrá fyrst, og því hefði ekki verið hægt að afgr. það. Það leikur hins vegar orð á því, að hæstv. forseti Sþ. hafi ógjarna viljað halda fund, til þess að þurfa ekki að taka málið fyrir fyrr en svo seint, að ekki yrði hægt að afgr. það á þessu þingi, því að stjórnarfl. er ákaflega illa við já eða nei við þeirri spurningu, hvort eigi að birta þessi skjöl, og þess vegna eigi að komast hjá því og þess vegna hafi ekki verið haldnir fundir.

Viðvíkjandi því, hvort eigi að birta þessi skjöl eða ekki, hélt ég, að hæstv. forsrh. vissi, að slík skjöl hafa ekki sjaldan verið birt og prentaðar heilar bækur með skjölum þessum. Það hélt ég líka, að hver hv. þm. vissi.

Þá er eitt atriði í þessu máli til viðbótar, sem sýnir, hvílíkan skrípaleik er verið að leika. Hvers vegna lætur hæstv. forsrh. ákveða á ráðherrafundi, að ekki skuli birta skjölin eins og ráðh. Alþfl. hefur sagt, að sé búið, og Sósfl.? Ef það er brot á öllu velsæmi að birta skjöl í þessu máli; hvers vegna þarf hæstv. forsrh. að fá fundarsamþ. hjá ráðh. til þess að þetta skuli ekki birt? Hefði ekki hæstv. forsrh. getað sagt sem svo við sína ráðh.: Þetta er svo föst venja, að leynd í þessu máli er sjálfsögð? Nei, það liggur fyrir í tveimur stjórnarblöðum, að reglan, sem hæstv. forsrh. er nú að halda fram að gildi almennt um velsæmi og viðskipti milli þjóða, var ekki sterkari í huga hans og hann ekki vissari í henni fyrir sjálfum sér en svo, að hann kallar saman ráðherrafund, þar sem samþ. er af öllum ráðh., að þessum skjölum skuli haldið leyndum fyrir þjóðinni. Sósíalistar segja ýmist, að þeir hafi greitt atkv. með málinu eða ekki og að þeir hafi borið fram till. um það að birta þessi skjöl. Hins vegar bendir þá forsrh. þessum óstýrilátu ráðh. á það, að það sé ekki í samræmi við allt velsæmi í viðskiptum milli þjóða. Og hvers vegna gera þessir menn í Sósfl. kröfur í dagblöðum sínum og fá samþ. af mörgum tugum félaga og félagasamtaka, að þessi skjöl skuli birt? Hæstv. forsrh. taldi þetta í það minnsta fyrir sjálfum sér svo fastar reglur, að ekki mætti birta þessi skjöl, að hann taldi sig þurfa sérstaka ráðherrasamþ. fyrir því, að þessi skjöl skyldu ekki birt, eftir því sem bæði Alþýðublaðið og Þjóðviljinn lýsa yfir.

En hins vegar, ef kæmu einhverjar óskir fram um það frá stjórn Bandaríkjanna að halda þessu máli leyndu fyrir Íslendingum, sem ég trúi ekki að komi fram, þá er sjálfsagt fyrir ríkisstj. Bandaríkjanna að færa fram rök fyrir þeirri beiðni, og það er Alþ. að taka afstöðu til þess, hvort ástæða er til að, verða við þeirri beiðni. Ég held, að það sé óhætt að fullyrða það, að það séu fá dæmi til þess í lýðræðislandi, að ríkisstj. standi í kvótaviðskiptum við erlenda ríkisstj. um eitt mesta vandamál þjóðarinnar, eins og þetta er, og það á meðan Alþ. á setu, og ekki einu sinni alþm. fái að vita um þessi kvótaviðskipti, sem farið hefur verið fram á, milli íslenzku ríkisstj. og þeirrar erlendu ríkisstj. meðan Alþ. situr. Mér þætti ákaflega fróðlegt, ef hæstv. ríkisstj. gæti nefnt einhver dæmi þess, að ríkisstj. einnar þjóðar, er þingið situr, eigi bréfaviðskipti við sendiherra sína, þar sem hún gefur þeim ráðin um það, hvernig þeir eigi að haga sér í málinu, og sjálft þingið fái ekki að vita um það, meðan það situr, og að það eigi að senda þm. heim, án þess að þeir fái að vita um þessi bréfaviðskipti og kvóta-viðskipti. Okkur þm. hefur ekki einu sinni verið boðið að fá að sjá það á lokuðum fundi. (GJ: Það er ekki von, hv. þm. Str. segir frá öllu, sem skeður á lokuðum fundum, hann kann ekki mannasiði). Ég held nú, að hv. þm. Barð. ætti fyrst að læra að tala, áður en hann fer að setja ofan í við aðra fyrir það, að þeir kunni ekki mannasiði. Og sannleikurinn er sá, að það er búið að kenna þessum hv. þm. það mikið, að hann er farinn að hafa dálítinn grun um það í hugskoti sínu, að hann er maðurinn, sem sízt kann mannasiði hér á þessari samkundu. Og það er eins og einn hv. þm. sagði, að það væri búið að þjarma svo að þessum hv. þm. Barð., að hann væri búinn að fá það mikla minnimáttarkennd, að það væri farið að grána á honum hárið vegna þess, hversu búið væri að fara með hann hér á Alþ., og jafnvel hefði fjvn. orðið að gjalda þess að hafa hann fyrir formann.

Við skulum nú snúa okkur að því, að þessi aðferð á þingi einnar þjóðar er á þann veg, að ég hefði gaman af að sjá þessa sömu hv. þm., sem sitja hér á þessari samkomu, rétta upp höndina með því að leyna þessu máli fyrir þjóðinni, áður en þeir fara héðan til þess að tala um þjóðmálin við þjóð sína. Það eru fulltrúar í lagi, sem segja, þegar þeir koma út til þjóðarinnar einmitt til þess að tala við hana um þjóðmálin, sem segja þá við hana: Við vitum ekki, hvernig málið stendur, því að það var bannað að birta skjölin, sem fóru á milli ríkisstj. og sendiherrans í Washington, ég greiddi atkv. með því, að þessu yrði haldið leyndu, áður en ég fór heim af Alþ.

Ég vildi gjarna sjá framan í andlitin á hv. þm. sem láta bjóða sér þetta. (Félmrh.: Er ekki bezt að hafa nafnakall um þetta?). Jú, en það kemur ekki til þess, að það verði nafnakall um þetta, því að hæstv. dómsmrh. veit vel, að það er orðið að samkomulagi um það í ríkisstj. að taka málið fyrir og vísa því til n. til þess að það komi ekki fyrir á Alþ., og þess vegna er ráðh. svona borubrattur, að hann býst ekki við að þurfa að greiða atkv. með eða móti málinu.

Nei, sannleikurinn er sá, að það er þýðingarlaust fyrir hæstv. forsrh. að bera það fyrir, að það séu reglurnar, sem valdi því, að ekki megi birta skjölin, sem fara á milli þessara tveggja þjóða. Ef sú beiðni kemur frá Bandaríkjum Norður-Ameríku að birta ekki þessi skjöl, þá er það Alþ., en ekki ríkisstj. að ákveða það og taka afstöðu til þess máls. Og ef það hefði verið siður, hefði heldur ekki þurft neina ráðherrasamþykkt um það, að þessu skyldi haldið leyndu.

Ég endurtek það, sem mér þykir mestu máli skipta, að málinu verði ekki vísað til n., heldur greidd atkv. um málið þegar í stað að lokinni þessari umr., því að það að vísa málinu til n. er nákvæmlega það sama og þm. segðu: Málinu skal haldið leyndu. Því að það kemur aldrei frá þeirri n. á meðan þetta þing situr.