24.04.1946
Sameinað þing: 38. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 373 í D-deild Alþingistíðinda. (4370)

210. mál, herstöðvamálið

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það er tvennt, sem ég vil taka fram í þessu máli. Annað er það, ef ég man rétt (Forsrh.: Sem sjaldan kemur fyrir), að hæstv. forsrh. lýsti yfir á lokuðum fundi, að Bandaríkin hefðu ekkert á móti því, að þau gögn væru birt, sem fyrir lægju í málinu, en óskaði eftir 3 daga fresti áður og að þau yrðu birt samtímis hér og í Washington. (Forsrh.: Hvað gerðist fleira á þessum fundi?) Hæstv. forseti sagði, að það væri ekki að svæfa málið að vísa því til n. Það er rétt, almennt séð. En þó fer það eftir því, hvað ríka einræðiskennd form. n. hefur. Hæstv. forseti Sþ. hefur á þessu þingi sofið á 4 málum allt þingið og ekki skilað nál. Hv. form. allshn. hefur sofið á 2 málum og ekki skilað nál., og svona gæti ég talið áfram. Hvað þetta snertir, fer það eftir því, hver form. n. er. Ef form. langar ekki til, að Alþ. fjalli um málið, sem þeir eru á móti, þá stinga þeir því rólegir undir stól. Þetta leyfist óátalið meðan hæstv. forseti hefur stungið 4 málum undir stól og ekki fengizt til að ræða þau. Þess vegna veit ég ekki, hvað verður um þetta mál, ef það fer til utanrmn. Ég þekki ekki svo hugarfar form. n., að ég viti, hvað mikla einræðiskennd hann hefur. En það mætti segja mér, að hann væri álíka talhlýðinn og hæstv. forseti, sem hætti við atkvgr. þegar ríkisstj. bað um það og hefur ekki enn látið þá atkvgr. fara fram. Ætli hv. form. utanrmn. sé ekki álíka þægur við hæstv. forsrh. og hæstv. forseti, ef hann hefur ekki næga einræðiskennd til að setjast á málið sjálfur.