24.04.1946
Sameinað þing: 38. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 373 í D-deild Alþingistíðinda. (4371)

210. mál, herstöðvamálið

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég er ekki vanur að leggja mikið til málanna þegar utanríkismál eru rædd, og ætla ekki heldur að gera það nú.

Hæstv. forsrh. var að tala um, að menn hér kynnu ekki einu sinni stafrófið í þeim venjum, sem giltu þjóða milli. Og það kann vel að vera, að ég sé einn af þeim, og skal ég ekki leggja dóm á þetta mál eins og það er í eðli sínu. En það er annað, hvað sem milliríkjaviðskiptum líður og hvað sem líður þeim reglum um birtingu á því, sem fer milli ríkja, sem ég þykist bera skyn á eins og hver annar. Það er það, að eitt aðalblað hæstv. ríkisstj. hefur notað þetta mál til látlauss rógburðar um einstaklinga og flokka í þessu landi í skjóli þeirrar leyndar, sem um málið hefur verið haft. Þetta vita allir og hæstv. forsrh. eins vel og hver annar. Mér finnst því hæstv. ríkisstj. verði að gera eitt af tvennu, að minnsta kosti, að sjá um það, að slíkur rógburður hætti eða leggja skjölin á borðið. Það er sú minnsta krafa, sem hægt er að gera til hennar. Hæstv. forsrh. segir e. t. v. sem svo, að honum komi ekki það við, sem einstök blöð segja. En það er vitanlegt, að það blað, sem hér er um að ræða, stendur svo nálægt hæstv. ríkisstj., að það, sem það segir, er nokkurn veginn mælt fyrir hennar munn. Það ástand, sem í þessu máli hefur verið í vetur, er með öllu óviðunandi.

Hæstv. forsrh. var að tala um þolinmæði hv. þm. Str. í þessu máli, þar sem hann hefði ekki fyrr hreyft því en hann gerði. En nú veit hæstv. forsrh. það vel, að sá flokkur, sem við hv. þm. Str. og ég störfum í, hefur álitið það lengi vel skyldu sína að hreyfa þessu máli ekki mikið, vegna þess að hæstv. ríkisstj. óskaði að leyna því. En þegar hver fundarsamþ. kemur á eftir annarri um þetta mál úr herbúðum, sem eru mjög nærri því að vera herbúðir stjórnarinnar, þá fer það að vera skrýtið, ef það er aðeins stjórnarandstaðan, sem ekkert má um málið segja og ekki spyrja neins. En hinir mega tala um það eins og þeim sýnist og sér til framdráttar. Og ég vil mjög alvarlega taka undir það, sem hv. 2. þm. N.-M. var að minnast á, að það er einkennilegt, hvernig sumum málum hér á Alþ. er stungið undir stól. Meðal annars skeði það hér í vetur, að hæstv. dómsmrh. var með dylgjur um fyrirrennara sinn í þeirri stöðu varðandi sérstaka linkind, sem hann hefði átt að sýna sendimanni erlendrar þjóðar á fyrstu stríðsárunum, en hann hafði rekið hér njósnir. Út af þessu og ýmsu öðru, sem fram hafði komið í því máli, var lögð fram till. um sérstaka rannsókn í þessu efni. Sú till. fæst yfirleitt ekki rædd, eða ég hef ekki orðið var við það. Ég vil ekki hvetja til þess, að neinn trúnaður sé brotinn, en ég vildi mega áskilja það, að sá trúnaður sé haldinn af þeim, sem standa ríkisstj. næst. En hæstv. forsrh. veit vel, að sá trúnaður hefur ekki verið haldinn.