24.04.1946
Sameinað þing: 38. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í D-deild Alþingistíðinda. (4372)

210. mál, herstöðvamálið

Eysteinn Jónsson:

Ég vildi fyrst lýsa ekki undrun minni, heldur að minnsta kosti vanþóknun minni á þeirri málsmeðferð, sem þetta mál fær. Það er ekkert undrunarefni, því að mönnum kemur ekkert á óvart af þessu tagi, hvorki frá hæstv. forseta né þeim, sem honum stjórna. En ég vil lýsa yfir vanþóknun minni á því, hvernig á þessu er haldið. Það er liðið nokkuð langt síðan þessi till. var lögð fram, og öllum þingheimi er það vitanlegt, að hæstv. forseti hefur skirrzt við að halda fund til þess að reyna að komast hjá því, að þessi till. yrði tekin til meðferðar fyrr en þá svo seint, að líkindi eru til, að takast mætti að koma henni fyrir kattarnef. Á þennan hátt hefur hæstv. forseti Sþ. tafið málið. (Forseti: Ég mótmæli þessum ásökunum). Ég bið hæstv. forseta að stilla skap sitt og vera ekki svona æstur. Það er ég, sem hef orðið, en ekki hann. Hann getur haft nægan tíma til að svara á eftir. En það vita allir, að þetta er rétt. En auk þess vil ég benda á það, að þegar hæstv. forseti sér fram á það, að hann getur ekki með forsetavaldi hindrað, að till. verði tekin á dagskrá, þá notar hann tækifærið, þegar margir hv. þm. eru fjarverandi, og komið er fram á nótt, til þess að taka þessa till. á dagskrá. og lætur þar ráðast af fyrirskipunum hæstv. forsrh. Og þetta er gert vegna þess, að litið er svo á, og það með réttu, bæði af hæstv. ríkisstj. og forseta, að þetta mál þoli ekki dagsljósið og því sé bezt að fjalla um það þannig, að sem minnst beri á. Þetta er með öðrum orðum eins konar myrkraverk. Eini ljósi punkturinn í þessu er þó sá, að þetta ber þó vott um, að hæstv. ríkisstj. er ekki alveg laus við blygðunartilfinningu út af því, hvernig hún hefur haldið á málinu yfirleitt

Það er öllum vitanlegt og það hefur verið rætt opinberlega, þótt það sé ekki staðfest af hæstv. ríkisstj., að erlent stórveldi hefur farið þess á leit, að samningur yrði gerður um herstöðvar hér. En þótt þessu sé til að dreifa og menn hafi almennt talað um málið og þá fyrst og fremst utan þings, þá hefur ríkisstj. aldrei gefið út neina opinberlega tilkynningu, og það er náttúrlega meira en furðulegt, að hæstv. ríkisstj. skuli ekki hafa gefið út tilkynningu um þetta mál. Og hæstv. ríkisstj. er kunnugt um, að það vekur furðu allra landsmanna, að það skuli ekki vera gert. En í staðinn, þegar þannig er ð málinu haldið, þá er það hiklaust rætt af sumum aðilum, eins og hér hefur verið drepið á. Og einn flokkurinn, sem stendur að ríkisstj., notar málið á óviðeigandi hátt til árásar á einstaka flokka og erlend ríki. Samt hefur hæstv. ríkisstj. ekki séð ástæðu til að gefa út opinbera tilkynningu. En þetta er ekki nóg, heldur er málinu líka þannig varið, að hv. þm. vita ekki, hvernig ástatt er um málið. Það er alveg gefið mál, að í máli þessu hefur gerzt talsvert meira en þm. hafa hugmynd um. Því er haldið leyndu fyrir þeim. Síðast þegar þm. fengu skýrslu um málið, þá stóð það ekki á því stigi, sem það stendur nú. Það hefur því farið eitthvað fram í málinu, sem haldið er leyndu, ekki aðeins fyrir þjóðinni, heldur líka fyrir þingmönnum. Þetta er svo sérstakt, að það er vafasamt, hvort hægt er að finna fyrir því dæmi í lýðfrjálsu landi.

Hæstv. forsrh. hefur talað nokkuð um, að það sé ekki fært að birta það, sem farið hefur á milli íslenzku stjórnarvaldanna og hins erlenda stórveldis eða íslenzku stjórnarvaldanna og umboðsmanna stjórnarinnar í öðrum löndum varðandi málið. En hæstv. forsrh. láðist að geta þess, sem ég hygg þó, að allir hv. þm. viti, að ríkisstj. hefur fengið leyfi frá stjórn Bandaríkjanna til þess að gefa út um málið opinbera tilkynningu. Þetta stendur því ekki í veginum fyrir birtingu. Það, sem stendur í veginum, er, að ríkisstj, vill ekki gefa út skýrslu um málið. En auk þess er hverju barni það ljóst, þótt hæstv forsrh. þykist ekki skilja það, að það þarf ekki leyfi Bandaríkjastjórnar til þess að skýra frá, hverju hefur verið svarað um málið. Það er broslegt að heyra hæstv. forsrh. segja, að ekki megi gefa út opinbera tilkynningu vegna þess, að það sé brot á öllu velsæmi. Það er aðeins hæstv. ríkisstj. sjálf, sem hefur ákveðið að gefa þjóðinni ekki skýrslu um málið. Og það er það, sem liggur fyrir til umr., hvort Alþ. vill una þessu eða ekki. Ef þingið vill una því, að ríkisstj. haldi þessu máli leyndu fyrir því og þjóðinni, þá fellir það þessa tili. eða samþ. að vísa henni til utanrmn., sem allir vita, að þýðir sama og að vísa málinu frá. Ef hv. þm. vilja ekki una þessu, ef þeir ætla að krefjast þess, að stjórnin gefi út opinbera skýrslu, en hún hefur það á sínu valdi, þá samþ. þeir þessa till. Í þessu máli þýða engir vafningar eins og þeir, sem hæstv. forsrh. bar fyrir sig. Málið er nefnilega ákaflega einfalt. Ég geri ráð fyrir því, að flestum sé það kunnugt eða a. m. k. renni í það grun, af hvaða ástæðum þessu máli er haldið leyndu. Ég geri ráð fyrir því, að ástæðan sé tvenns konar : Forsrh. viti ekki, í hvorn fótinn hann eigi að stíga vegna ágreinings innan ríkisstjórnarinnar. Þetta vita ýmsir okkar. Hin ástæðan er sú, að hæstv. forsrh. eða stjórnin öll fyrirverður sig fyrir það svar, sem hún hefur gefið, og telur það ekki birtingarhæft. Það getur ekki verið annað, sem leggur grundvöll undir þessa meðferð málsins, því að það þarf ekki að bera það á borð fyrir nokkurn mann, að þarna standi eitthvað í veginum af hálfu Bandaríkjastjórnar. Það getur ekkert verið í málinu þannig, að það sé óeðlilegt, að ríkisstj. skýri frá, hvernig málið er á vegi statt og hvernig því hefur verið svarað. Ef hæstv. forsrh. ætlar að halda við þessa afstöðu, þá ætti hann að sýna fram á, hvernig það gæti samrýmzt almennu velsæmi að þegja um málið. Það er endalaust hægt að vera með vafninga eins og þá, að það geti verið álitamál, hvort eigi að birta orðrétt skeytin eða ekki. Það, sem hér á að greiða atkv. um, er það, hvort ríkisstj. eigi að skýra frá málavöxtum eða ekki.

Þá var hæstv. forsrh. að víkja að því, að það væri undarlegt, að menn skyldu hafa dregið það svo lengi að flytja till. um, að birt yrði í málinu. Þetta er kannske dálítið einkennilegt þegar menn athuga, í hvers höndum málið er. En í venjulegum kringumstæðum hefði mátt búast við, að hæstv. forsrh. hefði ótilneyddur á Alþ. a. m. k. í þinglokin gefið skýrslu um málið. En þegar þessi forsrh. á í hlut, gegnir öðru máli, og má vera, að það sé af tómlæti hjá mönnum, að honum skuli vera gefinn frestur og eftir því beðið, að hann hagi sér eins og siðuðum forsrh. sæmir.