24.04.1946
Sameinað þing: 38. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 377 í D-deild Alþingistíðinda. (4377)

210. mál, herstöðvamálið

Flm. (Hermann Jónasson) :

Þessi málsvörn hæstv. ráðh. í þýðingarmesta máli þjóðarinnar er með eindæmum. Það sýnir sig, hvernig málsvörnin er, þegar hann ræðst á Framsfl. fyrir það, að þm. hans séu ekki viðstaddir, vegna þess að þeir séu á fundi. En hæstv. ráðh. gat þess ekki, að 3 sjálfstm. eru á sama fundi, hv. þm. Borgf., 2. þm. Árn. og 2. þm. Rang. Á þessu getum við séð sannsögli hæstv ráðh. og heiðarleika, þegar hann er að verja mái. Það er skemmtilegur blær yfir þessu, þegar verið er að tala um eitt alvarlegasta mál þjóðarinnar. Og það er furðulegt, að hæstv. ráðh. skuli leyfa sér að bera annað eins á borð fyrir hv. þm. og þetta, þegar svo hver einasti hv. þm. veit það, að hér er verið að fara með ósatt mál, og það, sem hæstv. ráðh. beinir gegn andstöðuflokknum, gildir svo nákvæmlega það sama varðandi þann flokk, sem hann sjálfur ræður yfir.

Náttúrlega þarf ég ekki að ræða um það við þennan hæstv. ráðh., hvað er siðvenja milli þjóða. Hann getur ekki frætt mig um neitt í því tilliti, ekki nokkurn skapaðan hlut. Og vitanlega sýnir till. ráðherrafundarins það einnig, um að halda málinu leyndu, að hæstv. ráðh. taldi sig þurfa að gera um þetta samþykkt á ráðherrafundi, sem ekki hefði þurft við, ef það hefði verið ófrávíkjanleg regla. Og það hefur verið upplýst, og er bezt að ég upplýsi það í þriðja skipti. að við fórum fram á það strax, er þetta mál var rætt, að það yrði birt og fengið leyfi Bandaríkjastjórnar til þess að gefa út um málið opinbera tilkynningu, vitanlega til þess að skýra frá málavöxtum, þannig að báðar þjóðirnar fengju að vita allan sannleikann. Eins og hér hefur verið tekið fram, þurfti 3 daga fyrirvara til þess að mætti birta tilkynninguna samtímis í Washington og Reykjavík. Þannig er þessi fyrirsláttur, að ekkert megi birta um málið og að það væri óvild gagnvart þessari þjóð, eins og ásökunin um fjarveru þingmanna. Þetta er bezt, að sé á allra vitund, að þetta leyfi hefur verið fengið.

Hv. þm. talaði um, að það mætti nærri geta, hvernig færi, ef ætti að birta orðrétt símskeyti og bréf, sem farið hefðu milli ráðherra og sendiherra eða milli stjórna. (Forseti: Þetta átti nú að vera aths.). Já, ég skal þá, til þess að lengja ekki mál mitt, benda á, að hann virðist ekki hafa lesið grg., því að í henni er tekið fram, hvernig ég hugsa mér þessu fyrir komið. Ekki þannig að birta skeytin orðrétt, heldur að þjóðin fái að vita efnið, og til þess hefur verið fengið leyfi fyrir löngu síðan, Satt að segja er það furðulegt — þó að ég geti ekki farið langt út í það, vegna þess að ég hef aðeins leyfi til stuttrar aths. — að heyra það úr stóli forsrh., eftir að búið er að fá leyfi Bandaríkjastjórnar til þess að gefa út opinbera tilkynningu um málið, að það sé þá fjandsamleg ráðstöfun gagnvart Bandaríkjunum. Það væri tæplega hægt að hugsa sér að koma fram af meiri óvild gagnvart Bandaríkjunum en það, að eitt stjórnarblaðið tínir saman allt, sem sagt er um þetta mál verst í garð Bandaríkjanna. Það berast sífellt fréttir um fundarsamþykktir úti um allt land, þar sem menn láta í ljós andúð sína á því, að skjölunum er haldið leyndum og að ekkert er um málið birt. Og þessi skrif um Bandaríkjaþjóðina eru þess eðlis, að fyrir löngu er gengið fram af íslenzku þjóðinni og óhugsandi, að sá hæstv. forsrh., sem lætur halda uppi slíkum skrifum í skjóli leyndarinnar og sjálfs sín, skuli geta risið hér upp úr stólnum og talað um, að ekki megi birta skýrslu um það mál, sem Bandaríkin hafa leyft, því að það væri óvinátta við Bandaríkin. Meiri fjarstæða er ekki til.

Ég hef aðeins leyfi til að gera stutta aths., og ég vil að lokum segja þetta: Það hafa verið gerðar fundarsamþykktir úti um allt land þessa dagana og mikið verið um þetta skrifað í Þjóðviljann og þá kannske ekki þýðingarlausar þessar umr. um þetta mál. Hvar eru nú raddir sósíalista um þetta mál? Sjáum til, nú biður einn þeirra um orðið. Því verður veitt athygli, hvað hann segir, og það verður vissulega fróðlegt að heyra, hvort þeir eru jafnskeleggir í málinu hér í þessu húsi og þeir telja sig vera í sínu blaði og fundasamþykktum um allt land. Ef þeir líða, að málinu verði vísað til n., til þess að láta svæfa það þar, skilur þjóðin heilindi þeirra í þessu máli.