29.04.1946
Sameinað þing: 44. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í D-deild Alþingistíðinda. (4384)

210. mál, herstöðvamálið

Forsrh. (Ólafur Thors):

Varðandi till. þá, sem hér er á dagskrá, læt ég mér nægja að vísa til þess, er ég sagði í umr. um vantraustið s. l. föstudag. Sé ég ekki ástæðu til að bæta við það.

Út af fyrirspurn hv. 2. þm. S.-M. um það, hvort ríkisstj. hafi borizt ný skilaboð frá stjórn Bandaríkjanna, skal ég segja það, að mér hafa engin ný skilaboð borizt um þetta. Ég hef veitt þessu atriði eftirtekt í blaði hér í Reykjavík, sem birtir um þetta mál símskeyti frá London. En slík tilmæli hafa ekki borizt. Ég hef ekki fengið um það nein ný tilmæli, en hvort þau eru væntanleg, um það get ég ekki sagt. Hins vegar sýndi stjórn Bandaríkjanna stjórn Íslands svarið og þá blaðatilkynningu, sem ætti að gefa út, og þar var ekkert um það, sem þetta sérstaka símskeyti ræðir um og hv. 2. þm. S-M. talaði um áðan. Í þeirri yfirlýsingu var ekkert, sem stjórn Íslands gat ekki fallizt á eins og frá var gengið.

Varðandi þann þingvilja, sem kom fram á lokuðum fundi 15. febr. 1945, þá man ég ekki betur en að flokkar ríkisstj. hafi samþ. tilkynninguna, sem birt var. Og það er rétt, að Framsfl. hafði sérstöðu varðandi þá tilkynningu, sem stjórnarliðið stóð að, en sú sérstaða snerti þó ekki aðalefni tilkynningarinnar, en aðalefni hennar var það, að Íslendingar töldu sig hafa rétt til að vera ein hinna sameinuðu þjóða og vildu verða það og sóttu um að fá að taka þátt í San Fransiskoráðstefnunni án þess að fullnægja þeim kröfum, sem gerðar voru um það. Og þetta var tilkynnt öðrum þjóðum, bæði Bretum, Bandaríkjamönnum, Rússum og fleiri. Ef mig rekur rétt minni til, var það svo, að ef við vildum fullnægja fyrsta skilyrðinu, að segja báðum stríð á hendur, þá skyldum við öðlast rétt hinna sameinuðu þjóða, en ef við vildum það ekki, fengjum við ekki þennan rétt. Og við vildum ekki gera þetta, en heimtuðum að fá að vera á San Fransisko ráðstefnunni með sameinuðu þjóðunum. Svo er það rétt, að við höfðum þá ekki gert okkur grein fyrir því, hvaða skilyrðum það var bundið að vera meðal sámeinuðu þjóðanna. Ég hef litið þannig á, að Ísland ætti í þessum efnum ekkert vald. Ef við ættum kost á því, yrðum við að taka þeim kostum, eins og aðrar þjóðir hafa gert, allar nema Svisslendingar, sem ekki hafa óskað eftir því. Aftur á móti hafa Svíar óskað eftir því, að þeir yrðu meðal sameinuðu þjóðanna, og ég hef fengið fregnir af því, að Svíar mundu ekki bera fram slíka ósk nema þeir teldu vist, að hún næði fram að ganga. Ég veit ekki til, að í sáttmála sameinuðu þjóðanna sé ákveðið, hvernig beri að æskja upptöku í þeirra hóp. Ég hygg nú, að gangurinn hafi verið sá, að öryggisráðið, sem er skipað 11 meðlimum, ræði við hlutaðeigandi þjóð, áður en til þess kemur, og svo taki allsherjarsamband hinna sameinuðu þjóða ákvörðun um að fallast á eða fallast ekki á .till. Og eins og ég sagði, hefur ríkisstj. Íslands í sambandi við San Fransisco ráðstefnuna í fyrra skilizt, að hún óskaði eftir, að Ísland vildi verða sameinuð þjóð. Ef Íslendingar óskuðu þess ekki, þyrftu þeir að gera nýja samninga um það og tilkynna sameinuðu þjóðunum, að þeir kærðu sig ekki um það. En ég taldi það óhugsandi. Varðandi þau ákvæði, sem þessu fylgja, þá er ekki rétt að ræða þau hér. En í 43. gr. sáttmála sameinuðu þjóðanna er gert ráð fyrir, að þær þjóðir, sem öðlast upptöku þeirra á meðal, hafi skyldur til þess að láta í té í þágu heimsöryggisins ýmsa hervernd eða aðra aðstoð. En ég held, að það sé svo ráð fyrir gert, að um það komi til sérstakur samningur í hvert sinn milli öryggisráðsins og hlutaðeigandi þjóðar.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta, en vil biðja hæstv. forseta, áður en hann slítur umr., að gefa stutt fundarhlé.