29.04.1946
Sameinað þing: 44. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í D-deild Alþingistíðinda. (4392)

210. mál, herstöðvamálið

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja umr., en ég vil taka það fram, sem ég tel, að þjóðin þurfi að átta sig á.

1) Bandaríkjunum hefur verið neitað um herstöðvar á Íslandi. Bandaríkin láta slíkar kröfur niður falla í bili, en við getum verið við því búnir, að slík tilmæli verði endurtekin, og Alþ. og ríkisstj. verða að gera sér ljóst að standa vel á verði og svara ákveðið, svo að slík leiga verði ekki gerð.

Hugsanleg eru tilmæli um leigu til skamms tíma. Þá ber okkur að standa saman um að neita þeim, og er vonandi, að þing og stjórn beri gæfu til þess að neita þeim, þótt tilgangurinn virðist máske ekki í svip svo skýr.

3) Hér er enn þá her í okkar landi og hefur sá her dvalið hér lengur en samningar segja til um. Ég held þess vegna, að það væri æskilegt að fara fram á það og það án tafar, að sá her fari héðan strax. Þetta má ekki draga.

Í fjórða lagi er uppistaðan í málflutningi eins þingflokks, sem vill að sérstakir samningar verði gerðir við einstök stórveldi. Ég álít, að það þurfi að koma fram hjá Alþ., að við séum ekki viðbúnir að leigja sérstökum stórveldum landið okkar, en þetta kom fram í tillögu í miðstjórn Framsfl., þar sem mælzt var til þess, að sérstakir samningar væru gerðir við engilsaxnesku þjóðirnar um varnir Íslands, og er ekki hægt að skilja þetta öðruvísi en að slíkt þýði, að hér hafi stórveldi herstöðvar til umráða. Þetta er líka hættulegt.

Athuga þarf svo í fimmta lagi þann möguleika að ganga í samband sameinuðu þjóðanna. Ég skil ekki þeirra lög, en það yrði að ganga svo frá þeim hnútum varðandi þá samninga, ef til kæmi, að það sé ljóst, að við viljum engar erlendar herstöðvar hér á landi.