29.04.1946
Sameinað þing: 44. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í D-deild Alþingistíðinda. (4396)

210. mál, herstöðvamálið

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð út af því, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði. Hvers vegna leggur hann ekki fram till. hér í þinginu um stefnu sína í þessu máli, sem er svo glögg, fyrst honum finnst svo ákaflega nauðsynlegt, að hæstv. Alþ. marki af sinni hendi stefnuna núna í þessu máli? Það þykir mér einkennilegt. En út af því, sem þessi hv. þm. sagði um ályktun, sem gerð hefði verið af Framsfl. í þessu efni, þá bar það, sem hann sagði, mjög með sér, að hann er í mjög miklum vanda út af þessari samþykkt, því að málstaður hans þoldi ekki, að hann segði rétt frá efni hennar. Hann sagði ósatt um þessa samþykkt. Þessi ályktun er skýr og er yfirlýsing um það, að æskilegt þyki, að við höfum samstarf við hinar engilsaxnesku þjóðir um að tryggja öryggi landsins, án þess að erlendur her sé í landinu. Þetta er hv. þm. augljóst. Það má ræða þetta mál við hv. 2. þm. Reykv. á öðrum vettvangi, en það liggur svo skýrt fyrir, að ekki er ástæða til að ræða það frekar hér.

En út af því, sem hér hefur verið rætt um framtíðina í sambandi við þetta mál og í sambandi við yfirlýsingu hæstv. forsrh., skal ég lýsa yfir, að ég tel mjög til bóta, að hann láti sendiherrum landsins í öðrum löndum í té þau tilmæli frá hendi hæstv. ríkisstj., að þeir geri ríkisstj. aðvart, ef þeir verða þess varir, að Íslendingum sé opin leið inn í bandalag hinna sameinuðu þjóða, því að það yrði að taka um það ákvörðun hér heima, og ég tel nauðsynlegt, að í því tilfelli yrði tekin ákvörðun um það. Og ég álít, að nú á þessu þingi hefði átt að taka um það ákvörðun, hvort við ættum að sækja um þetta. Þá taldi hæstv. forsrh. rétt, að þessum tilmælum fylgdu skilaboð um það, að hann teldi, að þingvilji lægi fyrir urri þetta. Ég held, að hæstv. fors.- og utanrrh., ef hann mætti heyra mál mitt, ætti ekki að láta þetta fylgja, að hann teldi þingvilja liggja fyrir um það, að Íslendingar yrðu þátttakendur í bandalagi hinna sameinuðu þjóða. Ég hef talið, að hæstv, ráðh. ætti ekki og hefði ekki heimild til að segja þetta, því að ég lít svo á, að samþykktin frá 25. febr. segi ekki nærri eins mikið um þetta atriði og hæstv. ríkisstj. virðist álíta. Ég álít því, að hæstv. utanrrh. ætti ekki að svo komnu máli að segja þetta, vegna þess að það þyrfti, áður en þetta væri hægt að réttu lagi, að fara fram formleg könnun um vilja þingsins í þessu efni til þess að hægt væri að fullyrða um þetta. Auk þess vita menn ekki um það, hvað Íslendingar mundu þurfa að taka á sig af skyldum og kvöðum að lágmarki til þess að vera þátttakendur í samstarfi hinna sameinuðu þjóða. Og ég álít, að ríkisstj. ætti að nota tímann til næsta þings til þess að athuga um þetta til hlítar, og síðan verði tekin endanleg ákvörðun, en hitt ekki rétt, að gefnar verði yfirlýsingar um þingvilja áður um þessi efni. Í þessu sambandi vil ég benda á það, að nú standa kosningar fyrir dyrum. Og það er alveg eðlilegt, að það Alþ., sem kemur saman eftir kosningarnar, geti tekið ákvörðun um þetta mikilsverða framtíðarmál, bæði hvort Íslendingar verði þátttakendur í samstarfi hinna sameinuðu þjóða og þá líka. hvað Íslendingar geta tekið á sig í því sambandi. Og ég undirstrika það, að það er vitaskuld ekki heimilt að taka á sig fyrir hönd þjóðarinnar neinar kvaðir varðandi herstöðvar eða önnur slík mál, sem heyra til samstarfi við hinar sameinuðu þjóðir, eina eða fleiri, nema um það liggi fyrir skýlaus ákvörðun Alþingis.