22.10.1945
Neðri deild: 14. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í C-deild Alþingistíðinda. (4416)

38. mál, söluverð fasteigna í sveitum

Flm. (Bjarni Ásgeirsson) :

Herra forseti. Ég skal ekki fara langt í að rekja sögu þessa máls, en þau ákvæði, sem hér er lagt til, að felld séu úr gildi, voru á sínum tíma sett til þess að þeir, sem fengju þetta fé fyrir umbætur á jörðum sínum, gætu ekki selt það fullu verði aftur. Nú mun það hafa verið svo þegar í upphafi, að misbrestur mun hafa verið á, að þetta næði tilgangi sínum. Um þessi ákvæði stóð styr á sínum tíma, en flestir voru þá með því að gera þessa tilraun. Ég var meðal þeirra, sem vildu reyna þetta, og var þó ekki viss um, að það mundi ná tilgangi sínum, og vil ég í því sambandi lesa upp kafla úr ræðu, sem ég hélt um þetta á þinginu 1936, með leyfi hæstv. forseta (bls. 1157).

„Ég skal játa, að það er ekki nema eðlilegt, að mönnum komi til hugar, að sú skipun þurfi að verða á, að jarðræktarstyrkurinn verði ekki eign einstakra manna, er síðan geti selt hann, og hann verði þannig til að hækka jarðarverðið, heldur ætti þessi styrkur að verða til þess að bæta afkomumöguleika allra bænda, er á jörðinni búa í framtíðinni, og yrði hann því sem gjafahluti ríkisins til ábúandans á jörðinni. En ég tel mjög mikið vafamál, að þetta takist fyllilega og að þetta ákvæði nái tilgangi sínum, en það er þó tilraun í rétta átt, og mun ég fylgja því, ef brtt. n. verður samþ.

Nú er reynsla komin á þetta, og hún hefur sýnt, að þessi ákvæði eru haldlaus. Jarðir hafa gengið kaupum og sölum án þess unnt hafi verið að halda við þessi ákvæði, eða þau hafi á nokkurn hátt getað haldið verðinu niðri. Það er fram komið, sem mig og fleiri uggði, að þessi ákvæði hafa ekki náð tilgangi sínum. Þetta mál lá fyrir efri deild í fyrra og var þá vísað til búnaðarþings, en þar var samþ. ályktun þess efnis, að úr gildi skuli fella hin gömlu ákvæði, en skipuð n. til að undirbúa haldbetri till. í svipaða átt.

Nú hefur það stöðugt komið betur og betur í ljós, að landsmenn hafa fallizt á þá skoðun, að nauðsynlegt væri að koma í veg fyrir, að verð á jörðum fari upp úr öllu valdi í verðsveiflum. Þar af eru komin lögin um óðalsfrétt og erfðaábúð, sem eru stórt spor í rétta átt og koma í veg fyrir, að allar jarðir, sem þau ná til, lendi í þessu öngþveiti. Þegar þessi skoðun er orðin svo almenn sem fram kom á búnaðarþingi, mætti ætla, að takast mætti að finna ákvæði, sem leystu þetta vandamál á viðunandi átt. En þar sem það hefur sýnt sig að hin fyrri ákvæði eru haldlaus, en hafa frá öndverðu valdið deilum, þótti búnaðarþingi ekki rétt að halda við þau.

Það hefur ekki farið fram hjá mér, að í efri deild hefur komið fram frv. svipaðs efnis og þetta, og þetta er hér ekki fram komið af því, að ég sé á móti því frv., heldur af því, að ég taldi rétt, að málið kæmi fram á Alþingi í því formi, sem búnaðarþing lagði til. Hins vegar er það á valdi Alþingis, hvort það fer að öllu þá leið, sem hér er lagt til og búnaðarþing hefur markað. En ég vil taka það fram, að efnislega greinir mig ekki á við flytjendur þessa máls í efri deild. — Ég legg svo til, að þessu máli verða vísað til landbn.