25.10.1945
Neðri deild: 16. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 146 í C-deild Alþingistíðinda. (4433)

41. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Flm. (Páll Þorsteinsson) :

Herra forseti. Með frv. þessu er farið fram á, að sú skipun, sem gilt hefur undanfarin ár um innheimtu á bifreiðaskatti, skuli haldast óbreytt um næstu tvö ár, og enn fremur, að ákveðið sé, að þegar lokið er smíði brúar á Jökulsá á Fjöllum, skuli gera brú á Jökulsá í Lóni fyrir framlag brúasjóðs.

Þegar sett voru 1. um framlag til brúasjóðs. var þegar ákveðið, að fyrst skyldi gera brú á Jökulsá á Fjöllum fyrir framlag þess fjár, sem fengist í sjóðinn. Nú mun liggja fyrir, að ákveðið er að gera þá brú á næsta sumri. Og ætla má, að fé það, sem safnazt hefur þegar í brúasjóð, nægi til þeirra framkvæmda. Þess vegna er tímabært að undirbúa nú nýjar framkvæmdir með sama hætti.

Um Jökulsá í Lóni þarf ekki að fara mörgum orðum sérstaklega. Vegamálastjórnin hefur undanfarið athugað brúarstæðið á ánni, og er það ákveðið, að því er ég bezt veit. Jökulsá í Lóni er eitt mesta vatnsfall hér á landi. Klýfur hún eina sveit landsins og er mjög mikill farartálmi á leiðinni milli Hornafjarðar og Austurlands. En öllum hv. alþm. er ljóst, að mjög mikið nauðsynjamál er að tengja saman þessi tvö héruð með öruggum akvegi, enda hefur hæstv. Alþ. sýnt viðhorf sitt til þessa máls með allríflegu framlagi í þá akbraut. En sá akvegur kemur aldrei að fullu gagni fyrr en gerð hefur verið brú á Jökulsá í Lóni, sem er langstærsta vatnsfall á þessari leið.

Þar sem Jökulsá rennur þarna víðast á eyrum, verður ekki komizt hjá því, að þetta mannvirki verði nokkuð dýrt, og hefur hæstv. Alþ. þess vegna hikað við það undanfarin ár að taka upp á árlegar tillögur sínar um brúargerðir fjárveitingu til þessarar brúar. En hér virðist önnur opin leið til þess að koma þessu verki í framkvæmd, sem sé að ákveða nú, eins og ég legg til, að fé úr brúasjóði skuli varið til þessa mannvirkis.

Það þarf ekki að lýsa því fyrir hv. þm., hversu stórvatn eins og Jökulsá í Lóni er mjög til trafala þeim, sem búa þarna næstir og þurfa að sækja yfir ána aðdrætti til heimila sinna allan tíma ársins. Það mun hverjum hv. þm. ljóst. Ég sé því ekki ástæðu til, þar sem málið liggur svona ljóst fyrir, að fara um það fleiri orðum og get að öðru leyti vísað til þeirrar grg., sem frv. þessu fylgir.

Með tilliti til þess, að hér er ekki farið fram á neina nýja skattlagningu eða skattauka, heldur er hér um að ræða ákvörðun um einstaka brú, leyfi ég mér að leggja til, að þessu frv. verði, að lokinni þessari umr., vísað til samgmn.