29.10.1945
Neðri deild: 18. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í C-deild Alþingistíðinda. (4436)

43. mál, landshöfn í Þórshöfn

Flm. (Björn Kristjánsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr. á þskj. 49, um landshöfn í Þórshöfn, hef ég leyft mér að flytja í þessari hv. deild samkv. ósk hafnarnefndar Þórshafnar og hreppsnefndarinnar í Sauðaneshreppi.

Á síðari árum hafa verið afgr. frá Alþ. mörg lög um hafnargerðir, og eru í þeim öllum hliðstæð ákvæði um hlutföll kostnaðarins, þannig að bein framlög ríkissjóðs hafa verið 2/5 kostnaðar, en í hlut viðkomandi bæjar- og sveitarfélaga hafa komið 3/5 kostnaðar, og mun sá hlutinn undantekningarlítið eða undantekningarlaust hafa verið tekinn að láni með ábyrgð ríkissjóðs, en vextir og afborganir lánanna greiddar af tekjum hafnarinnar.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, er að því leyti frábrugðið eldri hafnarlögum, að hér er gert ráð fyrir, að ríkissjóður standi að öllu straum af hafnargerðinni og greiði 2/3 af kostnaðinum, þegar fé er veitt til þess í fjárlögum, en taki kostnaðarins að láni og greiði af því vexti og afborganir. Að sjálfsögðu á þá ríkið líka öll hafnarmannvirkin og gjöld þau, sem innheimtast fyrir afnot þeirra, og standa þau þannig undir vöxtum og afborgunum hafnarlána á sama hátt og ákveðið er í öðrum hafnarlögum.

Í fljótu bragði mætti svo virðast, að með samþykkt þessa frv. væri þessari höfn ívilnað umfram aðrar hafnir, þar sem viðkomandi héruð eða bæir hafa — að minnsta kosti í orði kveðnu — orðið að bera ábyrgð á greiðslu afborgana og vaxta af hafnarlánum. Í reyndinni er þó engan veginn víst, að um nokkra ívilnun verði að ræða, því að eins og áður er sagt, þá verður öllum tekjum af afnotum bryggju og annarra hafnarmannvirkja varið til þess að standa straum af vöxtum og afborgunum af lánum þeim, sem tekin verða, og ef tekjurnar hrökkva til þess, þá er síður en svo, að þessari höfn verði ívilnað, því að beint framlag til hennar úr ríkissjóði á samkv. frv. ekki að nema meira en kostnaðar, í stað 2/5 annars staðar. Að vísu verður að játa það, að fyrst í stað eru litlar líkur til, að tekjur hafnarinnar verði nægilegar miklar til að standa undir vöxtum og afborgunum af hafnarlánum, en hins vegar er það sannfæring mín, að þegar hafnarmannvirkin eru komin, þá muni hefjast í Þórshöfn stórfelld útgerð og margt aðkomufólk setjast þar að, og við það mundu tekjur af höfninni aukast í réttu hlutfalli við vaxandi atvinnulíf og fólksfjölgun. Þessar vonir byggi ég á því, að beggja megin Langaness eru ein hin beztu fiskimið hér við land og skilyrði til ræktunar svo góð, að þess munu fá eða engin dæmi í öðrum kauptúnum. Er reynsla fengin um þetta, því að ræktun á Þórshöfn er þegar orðin mjög mikil, miðað við fólksfjölda, og er þó mjög lítið komið í rækt af því landi, sem liggur að kauptúninu og vel er fallið til ræktunar. Þar sem þetta tvennt fer saman, auðug fiskimið og gnægð af fyrsta flokks ræktunarlandi, þá getur varla hjá því farið, að margir vilji festa þar bú, ef skilyrði til sjósóknar verða bætt eins og gert er ráð fyrir í þessu frv.

En þótt svo kynni að fara, að tekjur reyndust ónógar fyrir þeim gjöldum, sem þeim er ætlað að standa undir, þá er ég sannfærður um, að gagn það, sem verða mun af þessari hafnargerð fyrir íbúa kauptúnsins og sjómenn úr öðrum verstöðum, sem vissa er fyrir, að sækja mundu þaðan sjó um lengri eða skemmri tíma á hverju ári, mundi fullkomlega réttlæta, að varið væri til framkvæmdanna smávægilegum upphæðum af alþjóðarfé. Og í þessu sambandi verður einnig að hafa það hugfast, að ef byggð verður fullkomin höfn í Þórshöfn, mundi þar verða öruggt skjól fyrir skip, sem hreppa kunna óveður á leiðinni milli Seyðisfjarðar og Eyjafjarðar, og er sannarlega ekki vanþörf á því.

Eins og nú er háttað, má segja, að útgerð frá Þórshöfn sé ómöguleg nema á litlum bátum, og er sú ástæða til þess, að höfnin er of opin til þess að þar geti verið öruggt legupláss á þeim árstímum, sem vænta má allra veðra. Bátarnir mega því ekki vera stærri en svo, að hægt sé að setja þá á land á skömmum tíma og með litlum fyrirvara. En með svo litlum bátum verður ekki sóttur sjór nema á grunnmið.

Að undanteknu heiti frv. og fjárhæðum þeim, sem þar eru tilgreindar, er frv. þetta algerlega samhljóða frv. um landshöfn í Njarðvíkum, sem mþn. í sjávarútvegsmálum samdi s. 1. vetur og útbýtt var til þingmanna í handriti í lok síðasta Alþingis.

Að svo mættu óska ég þess, að frv. þessu verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. sjútvn.