29.10.1945
Neðri deild: 18. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í C-deild Alþingistíðinda. (4437)

43. mál, landshöfn í Þórshöfn

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Á þessu þingi hefur verið gerð nokkur tilraun til að skipa hafnarmálum í samræmt form. og hefur frv. um það verið borið fram í Ed., heildarfrv. um hafnargerðir og lendingarbætur. Ég tel ástæðu til að geta um það með þessu frv., því að hér er farið inn á nýjar brautir, og gæti þetta skapað hættulegt fordæmi, ef þetta yrði samþ., þar sem sveitarfélagið er leyst af skyldum sínum, og er trúlegt, að aðrir kæmu á eftir. Ég er ekki með þessu að mæla gegn frv. eða taka endanlega afstöðu til þess, en vildi aðeins benda á þetta, og það verður að gefa vel gaum að þessu, áður en lengra er farið. Þess vegna vil ég biðja þá n., sem um þetta fjallar, að hrapa ekki að neinu, en hafa samvinnu við alla þá, sem hlut eiga að máli. Ég vildi með þessu fyrirbyggja, að farið yrði inn á nýjar brautir að óathuguðu máli. — Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða þetta meir að sinni, en mun ræða það frekar við 2. umr.