10.10.1945
Neðri deild: 5. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 455 í B-deild Alþingistíðinda. (445)

5. mál, verðlagning landbúnaðarafurða o.fl. (heildarlög)

Fjmrh. (Pétur Magnússon):

Þessi grg. hv. þm. Mýr. var svo hófleg, að ég sé ekki ástæðu til að svara miklu. Hann vildi hafa, að sá grundvöllur, sem 6 manna nefndar verðið var byggt á, væri enn þá fyrir hendi, þar sem sama viðskiptaástand ríkti enn þá. Hins vegar virtist mér hv. þm. fara villur vegar.

Ég veit ekki betur en við getum siglt óhindrað á hvaða lönd sem við viljum, nema hernumdu löndin. Viðskiptasamband hefur opnazt við Norðurlöndin og hefur haldizt við Bretland og Bandaríkin, sem koma aðallega til greina sem markaðslönd. Og það eru ekki líkur til, að við fáum annars staðar betri markað fyrir landbúnaðarafurðir en í þessum löndum. Það er alkunna, að heimurinn líður af matarskorti, og þau lönd, sem ekki hafa möguleika á að ná í afurðir okkar, munu því nota hvert tækifæri til þess. Mér virðist því, að nýir markaðir muni opnast, sem við reynum að nota. Og þótt hv. þm. Mýr. hreyfi þessari skoðun hér, mun hún ekki vera útbreidd.

Hann taldi eðlilegast, að gömlu verðlagsnefndirnar tækju til starfa. Og það hefði verið langhægast fyrir ríkisstj. að láta þetta þannig dankast, en ríkisstj. taldi sig hafa frekari skyldur. Og þótt þessi aðferð hefði verið notuð, hefði ánægjan ekki orðið meiri en nú, og lýsti hv. þm. því engan veginn glæsilega. Er hætt við, ef þrjár nefndir hefðu fjallað um þetta, að samræmið hefði orðið verra en nú, því að það hefðu mátt vera undarlega samstilltir menn, ef þá hefði náðst fullt samræmi. Og er hætt við, að annarra sjónarmiða hefði gætt, ef sú leið hefði verið farin. Hv. þm. Mýr. játaði, að ánægjan með tilhögunina á þessu fram til ársins 1943 væri ekki nema í meðallagi. Hann sagði og, að bændur væru bæði hryggir og reiðir yfir skipun verðlagsnefndar og vildu sjálfir fá verðlagsvaldið í hendur. En það hafa bændur fengið samkv. lögunum, því að þessir menn vinna að eða í þágu landbúnaðarins, en svo má auðvitað deila um, hvernig valið hefur tekizt. Og ég játa, að ef svo hefði staðið á, að stéttarsamtök bænda hefðu verið viðurkennd í júlí eða fyrst í ágúst í sumar, þá hefði ég fallizt á, að þau tilnefndu menn í verðlagsnefnd.

Hv. þm. Mýr. spurði, hvort verkamenn og sjómenn hefðu sætt sig við hliðstætt um 25 manna ráð. Hæstv. félmrh. ætti að svara þessu, en ekki ég. En ég er ekki viss um, að hv. þm. féllist á það, að 25 verkamenn ákvæðu kjör stéttar sinnar, en áliti, að réttur atvinnurekenda væri borinn fyrir borð. (BÁ: Það færi nú eftir því, hver væri félmrh.). Það er ekki ólíklegt, að hv. þm. hefði frekar sætt sig við þetta, ef landbrh. hefði heitið Páll, en ekki Pétur. (BÁ: Ekki Páll frá Þverá). En það eru nú fleiri Pálar til.

Og það voru engin stéttarsamtök viðurkennd, þegar ráða þurfti fram úr þessum málum, því að mér skilst, að ekki væri að fullu búið að ganga frá stofnun stéttarsamtakanna fyrr en atkvgr. hefði farið fram í búnaðarfélögunum. Ríkisstj. gat ekki beðið með að ákveða þetta. Og ef stofnun stéttarsamtakanna hefði nú farið út um þúfur? Og þá var fjarri því, að ráðrúm væri til þess að fela þeim mönnum verðlagninguna sökum of lítils tíma. Enn fremur þegar ríkisstj. stofnaði búnaðarráð, þá var fyrirsjáanlegt, að ekki yrði komizt hjá einhverjum niðurgreiðslum, en óvíst, hve miklar þær yrðu. Og hver sanngjarn maður hlýtur að viðurkenna, að ríkisstj. gat ekki farið þá leið, sem hv. þm. Mýr. benti á.

Hv. þm. vék að því, hvernig verðlagið hefði farið fram í haust, og leitaðist við að sanna, að verðlagsnefnd hefði sett verðið lægra en rétt var og þar með bakað bændastéttinni tjón. Þetta hljóðar einkennilega af vörum hv. þm., þar sem sumir flokksmenn hans segja, að verðið hafi verið of hátt. Það er sönnu nær að ætla, að verðlagsnefnd hafi teflt svo djarft sem unnt var. Hins vegar mun reynslan verða bezti dómarinn um það, hvernig tekizt hefur með verðið. En það liggur í augum uppi, að þegar verðlagsnefnd ákvað verðið, þá hafði hún hag bænda fyrir augum og setti verðið svo hátt sem unnt var, þar sem vafasamur hagnaður hefði orðið af því að fara yfir visst hámark. Og það er einkennilegt af hv. þm. að segja, að bændur eigi að hækka verðið á afurðum sínum miskunnarlaust, því að hækkað verð þýðir aukna dýrtíð, og við það mundi skapast vítahringur, þar sem afleiðing og orsök skiptast á. Því að landbúnaðarframleiðandinn er háður framboði og eftirspurn, eða svo er það a. m. k. í þjóðskipulagi okkar. En aðferð hv. þm. gæti ekki leitt til annars en gerbreytts skipulags. Það, sem gera þurfti í fyrstu, var að finna rétt hlutfall á milli kaupgjalds og verðlags og útiloka víxláhrif kaupgjalds og verðlags. Ég er sannfærður um, að ásakanir hv. þm. á verðlagsnefnd um að verðið sé of lágt, eru ekki á rökum reistar. Og ég lýsi því yfir, að ríkisstj. hefur ekkert gert til þess að hafa áhrif á störf búnaðarráðs.