07.02.1946
Sameinað þing: 25. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 406 í D-deild Alþingistíðinda. (4453)

103. mál, húsaleiga

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. Ég sé, að tíminn er það liðinn, að það má ekki setja á langar ræður, enda hafði ég engar fyrirætlanir í því efni. Ég skal taka það fram, að ég ætla ekkert að efa, að hv. þm. Str. flytji þessa till. í góðum tilgangi og þeirri trú, að hún muni leiða til þess að leysa þessi húsaleiguvandræði. En ég vil samt benda honum og þingheimi á það, að samkv. þessari till. á þskj. 179 virðist mér þetta mál vera gert að eilífðarmáli, og kemur það mjög í bága við það, sem hv. flm. tekur fram, að málið fái skjótan endi. Hér eru tekin fram sjö atriði, sem koma þarf í kring, áður en það er tekið til athugunar, hvort ekki sé fært að afnema húsaleigul. Í fyrsta lagi : „að láta rannsaka nú þegar húsnæðisskortinn í landinu og birta niðurstöður þeirrar rannsóknar.“ Hér er farið út í það að taka landið allt til rannsóknar, en við vitum, að þessi húsnæðisvandræði og sú mikla óánægja, sem stafar af húsaleigul., er aðallega hér í Reykjavík. Nú mundi það taka langan tíma, ef þetta ætti að verða gert eins og er tilgangur hv. flm. Í öðru lagi á að „hlutast til um, að byggingarefni það, er til landsins flyzt, verði notað til að byggja íbúðarhús, en eigi til bygginga, sem eru ekki aðkallandi.“ Þetta getur tafið meira fyrir, og Alþ. er þegar búið að gera ráðstafanir til að nota byggingarefnið eins og ég hef tekið fram, Alþ. er búið að samþ. að byggja hús, sem að engu leyti er til íbúðar fyrir fólk og á að kosta 10 millj. Þessari þingsamþykkt verður að breyta til þess að þetta atriði till. geti orðið framkvæmt. Það er í hæsta lagi hægt að gera ráð fyrir því að flytja inn eitthvað meira af byggingarefni en til þessara bygginga, sem eiga að kosta 20 millj. kr., og þetta þing, sem nú situr, er búið að samþ. að byggðar skuli. Í þriðja lagi á „að útvega innflutningsleyfi fyrir húsum frá Svíþjóð nógu snemma til að fullnægja húsnæðisþörfinni, að því leyti sem eigi er framkvæmanlegt með innlendu vinnuafli.“ Þetta gæti verið að væri hægt að leysa á ekki mjög löngum tíma, en sjálfsagt tekur þetta einhvern tíma. Það hefur ekki gengið vel að fá innflutning á ýmsum hlutum, það hefur orðið að bíða eftir því í marga mánuði og ár. Í fjórða lagi „að leyfa innflutning á húsum þessum með tollum, sem eigi séu hærri en nú eru á byggingarefni:“ Það er alveg rétt, sem hv. flm. tekur fram, að ef nægur vilji er fyrir hendi, er hægt að gera þessar ráðstafanir á stuttum tíma. Í fimmta lagi á „að leyfa, að sænskir sérfræðingar komi hingað til landsins til að setja húsin upp.“ Þetta gæti kannske tafizt eitthvað, — ég skal ekki spá neinu um það. (HermJ: Þetta hefur verið boðið fram). Það mætti þá ekki standa hér heil hersing af stéttasamtökum til þess að verja þeim landgöngu, en stéttasamtökin hér á landi hafa nú gert sig dálítið gild undanfarið. Í sjötta lagi „að sjá um, að kostur sé á hagkvæmum veðlánum út á hús þessi.“ Við vitum nú, að lánsstofnanir hafa ekki verið ákaflega fljótar til að lána út á vafasama hluti, en vera má, að einhver breyting sé að verða á þessu, en af fyrri raun mætti ætla, að það tæki tíma að koma þessu í kring. Í sjöunda lagi „að sjá um, að kostur sé á viðunandi lóðum undir húsin og ,taka land eignarnámi í þeim tilgangi, ef þörf krefur.“ Það er svo strjálbýlt þetta land, að ólíklegt er, að það þurfi að vera erfiðleikum bundið að fá lóðir, en auðvitað fer það eftir því, hvað menn gera sig ánægða með. En að taka eignarnámi kostar a. m. k. löggjöf, og það er hlutur, sem mundi líka tefja nokkuð fyrir. Þessi sjö atriði verða öll að komast í framkvæmd samkv. till., áður en farið er að taka til athugunar, hvort ekki sé fært, þegar framangreindar ráðstafanir hafa verið framkvæmdar, að leggja fyrir Alþ. frv. til l. um afnám húsaleigulaganna. Ég er ekkert að efast um það, að hv. flm. ætli að koma einhverjum umbótum til leiðar, en hann álítur, að það geti orðið með meiri hraða en till. sjálf sannfærir mig um. En eitt er alveg víst og það er það, að þessi síðasti fundur hér í sameinuðu þingi var samþykkur till. um sama efni og þetta. Sú till. var borin fram af hv. þm. Barð., en allshn. lagði til, að þeirri till. yrði breytt á þá leið, sem ég skal, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp: „Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta tafarlaust fara fram rannsókn á áhrifum húsaleigulaganna og endurskoðun á þeim og leggja niðurstöðurnar fyrir næsta reglulegt Alþingi.“ Ég lít svo á, að með samþykkt þessarar till. hafi Alþ. skorið úr um það, hvaða meðferð það vill, að þetta mál fái. Tel ég því hagkvæmt, að þessar till. fylgist að, því að það er ekki hægt að framkvæma þær, eftir því, sem mér sýnist, hvora út af fyrir sig, því að þær hljóða um sama efni. Ég tel sjálfsagt, að þær fylgist að, hvort sem mönnum sýnist þessi meðferð hafa verið rétt, að fela ríkisstj. þetta. Það var gert í þeim tilgangi, að það gengi fljótar fyrir sig, þar sem sagt er, að tafarlaust skuli fara fram þessi rannsókn. Hvort sem menn því eru einhuga um þetta eða ekki, er þessi vilji Alþ. kominn fram og orðinn að þál., og þess vegna þýðir ekki að fara að reyna að róta við því. En till. eru um sama efni og hljóta þess vegna að fylgjast að. Þess vegna legg ég til, að þessari till. á þskj. 179 verði einnig vísað til ríkisstj.