07.11.1945
Neðri deild: 26. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í C-deild Alþingistíðinda. (4468)

50. mál, ríkisborgararéttur

Gísli Sveinsson:

Herra forseti. Ég er ekki á móti því, að ýmsir fái ríkisborgararétt, þótt þeir hafi ekki getað uppfyllt öll skilyrði, ef öll varkárni er viðhöfð. Ég er ekki að véfengja það, að þetta fólk, sem hér er talið upp, sé þess maklegt að fá réttindi í þessu landi. Þó ber að stinga hér nokkuð við fótum, ef mikið verður um slíkar umsóknir á næstunni. En það, sem vakir fyrir mér, er í aðalatriðum það, að ég veit til þess, að í uppsiglingu eru enn fleiri umsóknir í dómsmrn., sem einnig koma til greina. Og þar á meðal eru innlendir menn, sem hafa af ástæðum ekki getað öðlazt þennan rétt fyrr. Mér hefði þótt betur við eiga, að allshn. hefði beðið nokkuð lengur fram á þingið með þessa nafnaskrá, þangað til séð hefði verið fyrir endann á umsóknunum. Vitanlega er ekkert í veginum fyrir því að allshn. taki áfram upp menn og um þá verði sett ný 1. En ég tel, að ekki hafi þurft að herða á eftir framgangi þessa máls að sinni. Ég bið svo hæstv. forseta að afsaka þessi formálsorð og vona, að hv. n. taki þetta betur til athugunar undir 3. umr. Í trausti þess segi ég já.

1. gr., svo breytt, samþ. með 22:1 atkv.

2.–3. gr. samþ. með 20 shlj. atkv.

Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Frv. vísað til 3. umr. með 23 shlj. atkv.