10.10.1945
Neðri deild: 5. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 466 í B-deild Alþingistíðinda. (453)

5. mál, verðlagning landbúnaðarafurða o.fl. (heildarlög)

Jón Pálmason:

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 5, er í rauninni staðfesting á brbl., sem búin eru að gilda í tæpa 2 mánuði. Ég geri ráð fyrir, að allir hv. þm. hafi gert sér grein fyrir því, að þessi brbl. verði samþ. hér á Alþingi, hvort sem um þau verður talað meira eða minna, og því ekki þýðingarmikið, að hér fari fram mjög miklar umr. um þau, þó að ekkert sé við því að segja. Ég hafði ekki ætlað mér við þessa umr. að tala neitt verulega um þetta mál, meðal annars vegna þess, að þeim manni, sem hér hafði talað af hálfu stjórnarandstöðunnar, hv. þm. Mýr., hafði verið svarað af hálfu hæstv., landbrh. og virðist ekki vera mikil brú eftir af rökum hans. Varðandi það, sem hv. 2. þm. N.-M. sagði, ætlaði ég ekki heldur að taka til máls, til þess að veita honum andsvör, en þegar form. stjórnarandstöðunnar, hv. þm. S.-M., fer líka að tala um það mál af miklum hita, þótti mér rétt að segja um þetta nokkur orð.

Það, sem hér hefur skeð með þessum brbl., er, eins og menn munu hafa gert sér grein fyrir, að 4 n., sem um þessi mál hafa fjallað og skipaðar voru 20 mönnum, hafa verið afnumdar, og að í þessum n. var aðeins einn sveitabóndi. Nú sagði hv. þm. Mýr. í gær, að þessar n. hafi gefizt vel, en þó hafi verið sívaxandi óánægja með starf þeirra, og virðist niðurstaða hans vera sú, að hann sætti sig við, að þær væru afnumdar. Þetta rak sig á, því að vaxandi óánægja með störf n. gat tæplega verið, ef þær hafa gefizt vel, enda er það sannarlega satt, að þessar n. hafa ekki gefizt vel. En í stað þessara 20 manna hefur nú verið sett 5 manna nefnd, skipuð bændum einum, og þá kemur sú undarlega röksemd frá framsóknarmönnum, ef rök skyldi kalla, að það sé verið að taka valdið úr höndum bændanna, Nú er ekki svo að skilja, að þessi 5 manna verðlagsnefnd hafi verið skipuð af ríkisstj., heldur er sú aðferð viðhöfð, að landbrh. kveður 25 bændur og fulltrúa úr öllum sveitahéruðum landsins til að kjósa þessa verðlagsnefnd og undirbúa starf hennar. Það má um þetta deila, og er þó þýðingarlaust, hvort ráðh. hafi valið í þessa 25 manna n. þá hæfustu menn, sem hægt var að fá. Það er atriði, sem þýðingarlaust er að þræta um; því að menn greinir alltaf á um það, hvort þessi maður er hæfari en hinn. En með þessum hætti er það tvímælalaust, að í stað þess, að valdið yfir þessum málum var í undanfarin 11 ár í höndum 20 manna, sem voru að nokkru leyti tilnefndir af stofnunum, sem ekkert umboð hafa frá bænda hálfu, og að nokkru leyti skipaðir af ríkisstj., eru þessi mál nú fengin í hendur 5 manna n., skipaðri bændum eingöngu. Valdið yfir þessum málum er þess vegna tvímælalaust í höndum framleiðenda einna, í stað þess, að það var að vissu leyti samningavald milli framleiðenda og neytenda og að nokkru leyti í höndum stjórnskipaðs formanns þessarar n. Nú, þær ásakanir, sem hér hafa verið fluttar í garð verðlagsnefndarinnar, eru álíka ófyrirleitnar og margt annað, sem fram hefur komið af hálfu þeirra manna, sem nú eru í stjórnarandstöðu, og það versta er, að þær skuli vera frá hv. 2. þm. N.-M., einmitt þeim manni, sem alveg sérstaklega hafði stjórnað því, að rekstur landbúnaðarins hafði verið hallarekstur og miðaði að því, að fólkinu hafni verið að fækka í sveitum landsins á því tímabili. Hann ásakar þessa ágætu menn, sem eru í verðlagsnefndinni. Ásakar þá um það, að þeir hafi verið verkfæri í höndum ríkisstj. og starfi eftir hennar fyrirsögn, en það er tilhæfulaust, eins og hæstv. landbrh. hefur áður vikið að. Í öðru lagi eru hér fram komnar ásakanir af hálfu stjórnarandstöðunnar um það, að búnaðarráð hafi verið að meiri hluta til skipað stuðningsmönnum stjórnarinnar. En ég vil spyrja: Hvernig gátu þessir menn búizt við því, að landbrh. skipaði í þessa n. að meiri hluta til úr hópi sinna andstæðinga? Og ég verð að segja, að þessar ásakanir koma úr allra hörðustu átt, því að mörg rök og óhugnanleg sanna, að framsóknarmenn hafa oft og einatt á sínum valdatíma skipað n. eingöngu af sínum flokksmönnum. Þannig var það með nýbýlastjórn ríkisins. Hún var skipuð eingöngu úr hópi framsóknarmanna; og ekki aðeins stjórnin, heldur og framkvæmdastjóri hennar. Þannig var það með yfirfasteignamatsnefndina. Hún var skipuð 3 forkólfum framsóknarmanna, og þeir eru búnir að eyða á 2. millj. króna í starf, sem hægt hefði verið að vinna fyrir ¼ þeirrar upphæðar. Þegar þessir menn leyfa sér annað eins og það að koma með ásakanir á ríkisstj. fyrir það, að hún skuli hafa skipað jafnþýðingarmikla n. og búnaðarráð að meiri hluta úr þeim flokkum, sem hana styðja, þá kemur það úr allra hörðustu átt, — og það kemur úr allra hörðustu átt vegna þess, að það hefur aldrei skeð í sögunni fyrr, að 5 bændum, sem til þess hafa óskorað vald, skuli hafa verið falið að ákveða verðlag á öllum landbúnaðarafurðum. Þetta hefur aldrei skeð fyrr. Og fyrir okkur bændur er nú minni ástæða til óánægju en nokkru sinni áður.

Hér hefur verið um það rætt af hálfu þeirra, sem hafa talað, að úr því að valdið yfir þessum málum hefði verið tekið úr höndum verðlagsnefndanna, þá hefði átt að afhenda það til stéttarsambands bænda. Nú er það að athuga, eins og hæstv. landbrh. hefur tekið fram; að þetta stéttarsamband bænda var ekki til og er raunverulega ekkert stéttarsamband bænda viðurkennt að vera til enn. En það hefur verið undirbúin stofnun þess og með þeim hætti, að það er ekki eðlilegt, að það sé viðurkennt, vegna þess að það hafa verið haldnir fundir víðs vegar um landið af mönnum, sem alls ekki hafa verið til þess kosnir, og hafa þessir fundir verið kallaðir fulltrúafundir. Sjálfsagt er allt ljósast, sem manni er næst, og mér er ljóst, hvað gert hefur verið í þessu efni í minni sveit. Þar var enginn fundur boðaður og því síður haldinn. Þaðan kom maður á þennan fund, sem haldinn var í Húnavatnssýslum, og er hann kallaður fulltrúi fyrir mína sveit. Svona hefur það víðar verið. Og ef menn halda, að þetta sé til fyrirmyndar, svona starfsemi, þá má segja, að þeir eru undarlega gjarnir á að láta sér nægja fyrirkomulag, sem ekki samræmist venjum á þessu sviði.

Þm. Mýr. sagði þau undarlegu orð hér í gær, að enginn ágreiningur hafi verið um þetta á búnaðarþingi eða fundinum, sem haldinn var á Laugarvatni, að stofna stéttarsamband bænda. Mér þykja þetta undarleg orð vegna þess, að ég var staddur á búnaðarþinginu, þegar það var haldið, og vissi, að stórkostlega mikill ágreiningur var um þetta mál, hvort stofna ætti stéttarsambandið í sambandi við Búnaðarfélag Íslands. Enn fremur hefur það verið upplýst af form. þeirrar n., sem stofnaði til Laugarvatnsfundarins, í blaðagreinum og það er líka kunnugt annars staðar að, að á þeim fundi hafi verið deilt í 3 dægur um það, hvort stofna ætti samband eins og það var gert. Það er því ekki um að ræða neitt stéttarsamband bænda, sem viðurkennt er. Ég fyrir mitt leyti hef ekkert við það að athuga, að frjálst bændasamband sé stofnað, en geri mér ekki bjartar vonir um starf þess. Eftir því sem leit út, þá var með öllu óhugsandi fyrir hæstv. ríkisstj., þótt hún hafi viljað, að kasta málinu í hendur sambands, sem ekki var til.

Nú skulum við athuga, og það er ástæða til, ekki sízt fyrir okkur bændurna og bændafulltrúana, hvernig þessi mál hefðu horft við, ef stéttarsamband bænda hefði verið til, þegar þessum málum var á þessu hausti ráðið til lykta. Var það eðlilegt, að ríkisstj. segði við þetta stéttarsamband bænda eins og á stóð: Þið skuluð ákveða verð landbúnaðarvaranna? — Þetta hefði verið mjög eðlilegt og eiginlega skynsamleg krafa af hálfu okkar bændanna, ef sala á þessum vörum væri alls staðar frjáls, en ekki bundin eins og hún hefur verið og er enn. En á meðan svo stendur, að salan er háð því lögmáli að vera bundin við allan atvinnurekstur í landinu, vísitölulög, eins og nú er, og gert var ráð fyrir því, að ríkissjóður greiddi meiri eða minni upphæðir til að halda niðri verðinu, eins og gert hefur verið, þá er það tæplega hægt að segja: Þið skuluð ákveða verðið eins og ykkur sýnist. — Og ég vil spyrja: Mundu aðrir vilja samþ., að sagt væri við Alþýðusamband Íslands, svo að það sé tekið til samanburðar: Ákveðið þið allt kaupgjald í landinu. — Væri það eðlilegt? (JS: Það gerir það). Það segir einn hv. þm.: Það gerir það. — Það er ekki rétt, því að kaupgjaldið er ákveðið með samningum milli atvinnurekenda og verkamanna. Hitt er annað mál, að eins og sakir hafa staðið undanfarin ár, þegar vinna hefur aukizt í landinu, hefur vald og áhrif Alþýðusambandsins verið sterkara en atvinnurekendanna til að ákveða í þessum efnum, en hinu er ekki til að dreifa, að það sé til enn, að nein ríkisstj. og því síður Alþingi samþ. að segja við Alþýðusamband Íslands: Ákveðið þið kaupgjaldið.

Varðandi 6 manna nefndar verðið, sem mikið hefur verið um talað, þá er náttúrlega sagt, að við, sem stóðum að því að koma þeim lögum á, sem var fyrst og fremst fjhn. þessarar hv. deildar, skyldum að því vinna að komast að samkomulagi um þau lög. Við töldum þá mjög mikils virði, að okkar tillögur skyldu ná fram að ganga og verka þannig, að þær skyldu vera samkomulag um hlutfallið milli kaupgjalds og verðlags í landinu. Hitt datt okkur ekki í hug, að það gæti haldizt lengur en á meðan stríðið stæði, að ríkissjóður gæti tekið ábyrgð á, að 6 manna nefndar verðið, með þeim breytingum, sem á því hlutu að verða, yrði greitt til okkar framleiðendanna. Þetta var líka miklum meiri hl. þingfulltrúa og bænda fyllilega ljóst á síðastl. hausti, því að hafi þeim ekki verið það ljóst, þá hefði þeim ekki komið til hugar að samþ. það, að verðið skyldi haldast óbreytt, þrátt fyrir 9,4% hækkun landbúnaðarvísitölunnar. En þetta gerði bæði ég og aðrir fulltrúar sveitahéraðanna. Við álitum, að fyrir hönd bænda væri ekki hægt að komast lengra. Það tekur sig því einkennilega út, að um leið og stríðið er búið og fjárhagsástandið þannig, að síldarvertíðin hefur brugðizt og tapið er talið í tugum millj. króna, að þá skuli koma fram krafa, eins og kom fram á síðasta búnaðarþingi, um það að hækka verðlag landbúnaðarafurða um 20% og heimta, að ríkissjóður ábyrgist það. Eins og nú standa sakir mundi þetta hafa kostað ríkissjóð 40 millj. kr. Það er þægilegt að gera svona kröfur, eins og gert var í blöðum stjórnarandstöðunnar, en því miður getum við bændur ekki búizt við því, að svona kröfur séu teknar til greina, og verð ég að segja það sem stuðningsmaður stj., að svona kröfur hafa gert illt fyrir okkur bændur, en ekki gott. Því að þær eru til þess eins fallnar að skapa andstöðu gegn því, að það sé tekið á þessum málum með rósemi og stillingu og á þann hátt, sem við getum við unað. Enda er sannleikurinn sá, að ef verðið hefði nú verið hækkað um 20%, býst ég við, að niðurstaðan hefði orðið sú, að allri niðurgreiðslu hefði verið hætt. Það er líka augljóst mál, að þegar svona kröfur koma fram, þá eru þær til þess gerðar að skapa ósamlyndi, en ekki í þeim tilgangi, að nokkrum manni detti í hug, að þeim sé fullnægt, og allra óeðlilegast er, þegar þessar kröfur koma fram frá mönnum, sem fyrir einu ári hafa samþ. að sætta sig við, að ekki yrði nein hækkun frá því, sem var árið 1943. Og því síður hefðu þessir menn átt að geta hugsað sér það, að slíkar kröfur yrðu teknar til greina, vegna þess að þær eru komnar frá mönnum, sem í einu og öllu hafa talið það hlutverk sitt að vinna í andstöðu við núv. ríkisstj. og stuðningsflokka hennar og gera hana sem tortryggilegasta í augum þeirra stétta, sem þeir þykjast vera að vinna fyrir.

Viðvíkjandi þeim rógi, sem haldið hefur verið uppi að nokkru leyti í blöðum og að nokkru leyti í umr. hér í gær af hv. 2. þm. N.-M., um verðlagsn., þá er það að segja, að eftir því, sem mér virðist málið liggja fyrir, þá hefur þessi verðlagsn. unnið störf sín svo vel sem hún hefur frekast haft aðstöðu til. Verðlagsn. hefur ekki neitt vald á því, hvernig hagað er vísitölumálum í þjóðfélagi okkar. Hún hefur ekkert vald á því, hvernig farið er með útborgun úr ríkissjóði, hún hefur fyrir augum það eitt, hvernig er hægt að bjarga hagsmunum bændastéttarinnar, sem er í slæmri aðstöðu eftir það, hvernig farið hefur verið með þessi mál á undanförnum árum, og hvernig hægt væri að bjarga hagsmunum hennar á þann hátt, að sem minnstir árekstrar verði að. Mér er sagt, að ýmsir þeir menn, sem ásaka verðlagsn. mest, segi, að verð á kjöti þurfi að vera 16 kr. kg. í útsölu. Hvaða þýðingu mundi það nú hafa haft fyrir okkur bændur, ef verðlagsn. hefði ákveðið 16 kr. útsöluverð á kjöti í haust? Það hefði haft þau áhrif, að ríkisstj. hefði að verulegu leyti neitað að greiða niður, ef miðað hefði verið við slíka verðlagningu. Í öðru lagi eru miklar líkur til þess, að slík verðlagning hefði stöðvað söluna innanlands að verulegu leyti, svo að það hefði orðið að flytja meira kjöt á erlendan markað, þar sem ekki fæst að líkindum fyrir það nema 1/3 þessa verðs. Þetta var þess vegna, að mínu áliti, hættulegasta sporið, sem hægt var að stíga, ef hagsmunir bændastéttarinnar einnar voru hafðir fyrir augum. Nú er það svo, að þessi verðlagsn. hefur verið alveg frjáls með sitt starf og ekki verið reynt að hafa nein áhrif, mér vitanlega, á það, hvaða verð hún ákveður. Hún hefur þess vegna ekki annað sjónarmið en það, hvernig er hægt að bjarga á heppilegasta hátt þeim hagsmunum bændastéttarinnar, sem nú eru í slæmri aðstöðu. Til marks um það, hvað langt er gengið í ásökunum í þessu efni, skal ég víkja að því, sem ég hef að nokkru leyti getið í blaðagrein áður. Í ársbyrjun 1942 skrifuðu þeir, sem þessar ásakanir hafa borið fram, grein um það, að ég og hv. þm. Dal. hefðum sýnt afskaplega ósvífni með því að fara fram á hækkað verð á kjöti, en það var þá kr. 3,20. Svo langt var gengið í þessari blaðagrein, að skorað var á íbúa höfuðstaðarins að hegna Sjálfstfl. fyrir þetta lýðskrum af hálfu þm. úr flokknum. Þegar þetta gerðist í janúar 1942, var heildsöluverð á dilkakjöti 3,20, en þá var verðlagsvísitalan 183 stig. Nú hefur verðlagsn. landbúnaðarafurða ákveðið heildsöluverð á sama kjöti 9,52, það hefur hér um bil þrefaldazt. Á þessu tímabili hefur vísitalan hækkað upp í 278 stig, eða um 1/3, sem þýðir, að dýrtíðin hefur vaxið hér um bil um helming, en heildsöluverð á kjöti hefur af hálfu verðlagsn. þrefaldazt síðan 1941, þegar við fengum þessa ásökun, ég og hv. þm. Dal. En nú er af hálfu sömu manna rokið upp og kastað skömminni á verðlagsn. landbúnaðarafurða fyrir það, að hún hafi svikið sitt hlutverk og ákveðið smánarlega lágt verð á þessari vöru. Annars er það svo, að ummæli þeirra manna, sem harðastir eru í andstöðunni gegn starfsemi verðlagsn., stangast sitt á hvað, vegna þess að sumir þeirra tala eða skrifa þannig fyrir neytendur í bæjunum, að þeir eggja þá fast á að kaupa sem allra minnst af kjöti. Skal ég leyfa mér að lesa upp nokkrar setningar úr forustugrein framsóknarblaðsins Dags á Akureyri, sem út kom 7. sept. s.l. Þar segir á þessa leið. „Engum vafa er það undirorpið, að útsöluverð það, sem hin nýja, stjórnskipaða verðlagsnefnd landbúnaðarafurða hefur nýskeð ákveðið á mjólk, kjöti og kartöflum, skapar alvarlegan vanda fyrir fjölda neytenda, enda við búið, að margir þeirra telji sig til neydda að draga úr kaupum sínum á nauðsynjavörum þessum eftir fremstu getu.“ — Það er varla hægt í blaðagrein að setja fram meiri eggjun til neytenda í bæjum en hér er gert, um það að draga úr kaupum sínum á þessum vörum, þar sem svo er að orði kveðið, að þeir skuli gera það eftir fremstu getu. Þetta hefur verkað svo á Akureyri, að þar hefur verið keypt sáralítið af dilkakjöti. Það hefur að vísu haft þá þýðingu, sem ég skal út af fyrir sig ekki lasta sem fulltrúi Húnvetninga, sem eiga mikið af hrossum, að Akureyrarbúar hafa keypt miklu ríflegar af hrossakjöti á þessu hausti en venja er til, og það kann að vera fyrir áeggjan þessara manna, sem þarna eru að verki. Að hinu leytinu eru sömu menn að hamast gegn verðlagsn. fyrir það, að hún hafi svikið hlutverk sitt og ákveðið smánarlega lágt verð á þessari vöru. Ég verð að segja það, að ég sem framleiðandi og bændafulltrúi mundi vera þakklátur fyrir það, ef það yrði áhættulaust, en ég hef ekki enn þá séð, að verðlagsn. hafi farið lengra en skynsamlegt var í því að ákveða verðupphæðina. Því að ég geri mér engar vonir um, að það verði haldið áfram að láta ríkissjóð kaupa allar vörur okkar og bera ábyrgð á því, að þær seljist, því að afleiðingin yrði sú, að aðrar stéttir mundu gera kröfur um það sama, t. d. iðnaðarmenn og verkamenn, og þá værum við komnir út á alveg fullkomna þjóðnýtingu í þessu landi.

Mér þykir ástæða til í þessu sambandi að minnast á eitt atriði, vegna þess að deilurnar um þessi mál hafa staðið fyrst og fremst í sambandi við vísitölulögin, sem eru þau l., sem hafa gert það að verkum, að sá víxlgangur á hæð kaupgjaldsins og afurðanna hefur átt sér stað, svo sem raun hefur á orðið undanfarin ár. En þegar svo lítil breyting er gerð á vísitölul. á s. l. sumri, að stjórnarfl. semja um, að það skuli leyfð sumarslátrun og það háa verð á kjöti af dilkum, sem ekki eru búnir að ná fullum vexti, og ófullvöxnum kartöflum skuli ekki hafa áhrif á vísitöluna, þá er svo langt gengið af þeim mönnum, sem þykjast vera fulltrúar bændastéttarinnar, að þeir fara að tala um það í blöðum, að þetta sé að falsa vísitöluna neytendum til óhags. Nú verð ég að segja það, að mér hefur virzt, að hæstv. landbrh. hafi reynt eftir fremstu getu að greiða úr þessu vandamáli, þannig að okkur bændum yrði sem allra minnst tjón að, því að aðstaðan er engan veginn álitleg eins og sakir standa. Honum er það eðlilega ógeðfellt, eins og hann lýsti yfir á Alþ. í fyrra, að halda þessum niðurgreiðslum áfram, en hann hafði þó, þegar út í vandann var komið, gengið inn á að gera það varðandi kjöt og mjólk, og það var svo hægt að hugsa sér, að það væri ríkissjóði fært, þannig að það örvaði sölu á þessum vörum eftir því, sem hægt var að ætlazt til, með því að taka til greina visst magn af þessum vörum, sem inn á vísitöluna gengi. En það mál er raunar ekki til umr. hér, þó að það sé mjög skylt þessu verðlagsmáli og drægist inn í umr. hér í gær. En þetta mál er þannig, að það hefur verið þyrlað upp miklu moldviðri um það síðan þessi bráðabirgðal. voru sett, og væri full ástæða til, að Alþ. léti sem fyrst fara fram útvarpsumr. um þetta mál.

Hv. 2. þm. S.-M., sem talaði hér í gær, sagði eitthvað á þá leið, að þessi l. væru spark í bændastéttina. Ég undraðist mjög, þegar ég heyrði þessi orð frá svo greindum manni sem hv. 2. þm. S.-M. er. Að segja, að það sé spark í bændastéttina að taka verðlagninguna úr höndum 20 manna, fjögurra pólitískra n., og setja þau í hendur n., sem skipuð er bændum einum, — það er því undarlegra að slík ummæli komi frá þessum manni, þar sem hann veit, að hann og flokkur hans hafa stjórnað þessum málum á þá leið, að það hefur verið alveg á valdi þeirrar stj., sem ríkti á tímabilinu frá 1934 til 1942, hvernig með þessi mál hefur verið farið. Og það gefur auga leið, eftir ræðu hv. 2. þm. N.-M. í gær, að hann hefur verið vanur því að láta skipa sér fyrir verkum um það, hvernig hann ákvæði verðið, enda hefur hann gert það þannig á öllu þessu tímabili, að stórkostlegur hallarekstur var á þeim tíma í sveitum landsins.

Þá sagði hv. 2. þm. S.-M. það í gær, að þetta með tilnefningu búnaðarráðs líktist því, að ríkisstj. færi að tilnefna þm. Hér er náttúrlega algerlega ólíku saman að jafna, því að búnaðarráð er ekkert annað en nefnd, sem ríkisstj. kveður sér til aðstoðar til þess að hafa þá aðferð að kjósa verðlagsn., sem hún vill ekki skipa sjálf. Að verðlagsn. sé alveg á valdi ríkisstj., eins og hv. 2. þm. S.-M, var að tala um, er alveg ósæmileg getsök og tilefnislaus á hendur þessum mönnum. Það er ekki hægt að færa nokkrar líkur fyrir því, að þeir hefðu getað unnið starf sitt þannig; að það hefði svarað betur hagsmunum þeirrar stéttar; sem þeir eru að vinna fyrir, enda er það eðlilegt og sjálfsagt; þetta eru allt saman greindir bændur, og þeir vinna meðal annars fyrir sína eigin hagsmuni. Þeim er alveg ljóst, hvernig málin liggja fyrir; þeir vinna fyrir sína eigin hagsmuni, þegar þeir ákveða, hvernig með þessi mál er farið. En þeir hafa ekki það yfirsjónarmið, sem virðist koma allt of mikið fram hjá stjórnarandstöðunni, að nota hagsmunamál bænda til þess að gera ríkisstj. hér á Alþ. óþægindi eða jafnvel gera henni ómögulegt að ráða við málið vegna þess að kröfurnar séu spenntar of hátt, meðal annars með 40 millj. kr. greiðslukröfu úr ríkissjóði. Þetta er yfirsjónarmið, sem snertir alls ekki hagsmuni bænda, vegna þess að það mundi verka öfugt við þá.

Nú skal ég að sinni láta þessi orð nægja varðandi þetta mál, og ég býst ekki við, að ég sjái ástæðu til, þótt hér komi fleiri eða færri ræður á eftir af hálfu stjórnarandstöðunnar, að fara að endurtaka neitt af því, sem ég hef hér sagt, vegna þess að það er alveg víst, að þessi l. verða samþ. hér á Alþ., hvort sem verða haldnar um það fleiri eða færri ræður.