23.04.1946
Sameinað þing: 37. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 422 í D-deild Alþingistíðinda. (4552)

137. mál, kaup á skipinu Pétursey

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Ég skal ekki verða langorður, en ég var frá tafinn og gat því ekki fylgzt með umræðum. Ég hef tekið eftir, að hv. þm. V.-Sk. hefur hlaupið í skarðið fyrir mig sem frsm. Ég ætla ekki að fara að blanda mér í deilur, en nál. á þskj. 906 talar sínu máli. Það skal engan undra það, þótt við þm. V-Sk. viljum varðveita svona skip sem forngrip, en það er aðeins um útúrsnúning að ræða, er hv. þm. Barð. talaði um, að við ætluðum að nota þetta skip til fiskveiða. Svona skip voru notuð í margar aldir hér við suðurströnd landsins og róið á þeim frá Selvogi, Þorlákshöfn, Eyrarbakka, Stokkseyri og Vestmannaeyjum. Okkur hefur því dottið í hug, að það væri einhvers virði að varðveita svona skip. Ég skal taka undir það, að eðlilegt væri að varðveita eitt hákarlaskip, og komandi kynslóðir gætu þá sannfærzt betur um baráttu forfeðra vorra á sjónum.

Ég get sætt mig við afgreiðslu þessa máls samkv. nál. — Það var aðeins þetta, sem ég vildi segja.