10.10.1945
Neðri deild: 5. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 474 í B-deild Alþingistíðinda. (456)

5. mál, verðlagning landbúnaðarafurða o.fl. (heildarlög)

Eysteinn Jónsson:

Ég vil fyrst víkja nokkrum orðum að hv. 2. þm. Skagf. Hann fann sig knúðan til að benda sumum þm. á, að þeir ræddu þetta mál ekki eins og vera bæri. Hann sagði, að ég hefði úthúðað þeim mönnum, sem valdir hefðu verið í búnaðarráð. Þetta er ekki rétt. En hitt sagði ég, að val þessara manna væri pólitískt, þar ættu sæti þeir menn einir, sem hæstv. ríkisstj. treysti til að gera sinn vilja. Ég sagði líka, að sumir þessara manna hefðu aldrei komizt með öðru móti í búnaðarráð. Við þetta stend ég.

Ég mótmæli því ekki, að sumir þessara manna séu góðir menn og að flestu vel hæfir, en hitt verður fram að koma til að sýna, hve óhæfileg leið það er, að ráðh. skipi þessa nefnd.

Enda þótt hæstv. landbrh. virtist tala hér af mikilli hógværð; verð ég þó að segja það, að ég undrast, að hann skuli leyfa sér að halda því fram, að bændastéttin hafi með setningu búnaðarráðs fengið verðlagsmál landbúnaðarvara í sínar hendur. Málflutningur sem þessi virðist mér nánast ósæmilegur.

Hv. Þm. A.-Húnv. sagði, að umr. um þetta mál hefðu enga þýðingu, þar sem þetta yrði samþ. Ég skildi það svo í gær, að komið gæti til mála, að hér mætti um breyta, en ég geri ráð fyrir, að þessi hv. þm. sé svo kunnugur í herbúðum stj., að hann viti, hvað hann fer með, og er þá gott að vita það nú þegar, þótt illt sé, ef ekki verður um bætt.

Þm. A.-Húnv. sagði, að ekki væri úr háum söðli að detta fyrir bændur að því er snerti vald þeirra um verðlagningu landbúnaðarvara, þar sem þetta vald hefði alls ekki verið í þeirra höndum. Þetta er að nokkru rétt, eða að því leyti, að tveir af fimm fulltrúum, sem höfðu þessi mál til meðferðar, voru frá neytendum, tveir frá samtökum bænda og 5. maðurinn stjórnskipaður. Venjulega fór það svo, að oddamaðurinn laðaðist til samkomulags við fulltrúa bænda, enda var því aldrei haldið fram þá, að verðlagningarvaldið væri í höndum bænda, eins og nú er gert.

Varðandi skipan þessara mála eins og þá var ástatt skal ég fátt eitt segja, en ég held, að hv. þm. A.-Húnv. hefði ekki átt að minnast á, að 2. þm. N.-M. hefði verðlagt kjötið of lágt, þar sem hann (þm. A.-Húnv.) og flokksbræður hans hafa eytt mörgum árum af ævi sinni til að níða þennan hv. þm. fyrir, að hann hafi verðlagt kjötið of hátt, og reyndu á sínum tíma að stofna til neyzluverkfalls til að sýna, að boginn væri of hátt spenntur, en það hefur nú sýnt sig, að þá var ekki troðið á rétti bænda.

Þá kom þessi hv. þm. að atriði, sem í rauninni er aðalatriði varðandi gang þessa máls. Hann segir: „Hvernig gátu menn búizt við, að stjórnarandstæðingar fengju þessi mál í sínar hendur?“ Þessi ummæli sýna ljóslega að þeir, sem skipa búnaðarráð, eru fulltrúar ríkisstj., en ekki bænda. Þýðir nokkuð að berja höfðinu við steininn og halda því fram, að bændum sé fengið verðlagningarvaldið í hendur, eftir að slík ummæli eru fram komin? Ég hygg, að öllum sé hollast að hætta slíkum málflutningi.

En hvað segja fulltrúar verkalýðsins um þetta? Mundu þeir kalla þá menn fulltrúa verkalýðsins, sem ríkisstjórnin skipaði til að ákveða kaup og kjör verkalýðsins? Hafa þeir gert sér grein fyrir, hvaða fordæmi þeir eru að skapa? Það getur komið sá tími, að þeir verði að gjalda þess og minnast rækilega, hvað þeir hafa gert nú.

Hv. þm. A.-Húnv. sagði, að ekki væri von til, að ríkisstj. gæti valið þá menn, sem hefðu það markmið að gera ríkisstj, á allan hátt erfitt fyrir. Þetta munu eiga að vera dylgjur um þá stétt, sem hv. þm. er fulltrúi fyrir. Hann telur, að hún hefði metið meir að gera ríkisstj. erfitt fyrir en vinna að hag alþjóðar. Þetta er harður dómur, sem ég efast um, að þessi hv. þm. geti risið undir, um þá einu stétt, sem gefið hefur fordæmi með því að slá af kröfum sínum. Með þessu vill hann auðvitað sýna fram á, að ríkisstj. þurfi að hafa full tök á öllu, sem varðar fjárhagsafkomu atvinnuveganna. Nú stendur svo á, að háð er deila hér hjá sjómönnum, og þar er ekki deilt um, hvort tekjur þeirra manna skuli vera 14 þús. kr. eða minna, heldur milli 20 og 30 þús. krónur. Hvað skiptir ríkisstj. sér af þessari deilu, sem ekki er þýðingarminni en hin? Hún skiptir sér ekkert af henni, a. m. k. ekki að því er séð verður.

Ég kem þá loks að þeirri rökfærslu hæstv. ráðh. og þm. A.-Húnv., að það væri sök sér að fela stéttarsambandi bænda þessi mál, ef allt væri frjálst og engar niðurgreiðslur ættu sér stað. En þessi viðbára fær með engu móti staðizt, þar sem það eru, eins og öllum er kunnugt, fjölmargir fleiri liðir en verð landbúnaðarvara, sem áhrif hafa á dýrtíðina, liðir, sem ríkisstj. lætur sig engu skipta. Alþýðusambandið ræður í raun og veru öllu kaupgjaldi í landinu, þótt svo eigi að heita, að samið sé um það. Ef því þykir ekki sýnt um framgang síns máls, þá gera þeir þær ráðstafanir, sem duga til að þeir fái vilja sinn. Er þess skemmst að minnast, er það hefur nú nýverið lagt til, að verkfall yrði hafið. Það virðist þannig vera stefna hv. þm. A.-Húnv. og ríkisstj.: Það skal halda niðri öllu hjá bændum, en allir aðrir skulu fá það, sem þeir krefjast.

Þetta er aðalatriði málsins. Og það er eðlileg krafa bænda, að stéttarsamtökin fái verðlagningarvaldið. Það eru engin rök í málinu, að bændur mundu misnota það vald, og munu þeir fyllilega kunna að fara með það. Það eru heldur engin rök að ætla þeim annan rétt en öðrum. Hv. þm. A.-Húnv. segir, að það séu einkum þeir sömu menn, sem í fyrra buðust til þess að slaka til, sem nú fái verðlagningarvaldið. Ég mælti með því í fyrra, að bændur slökuðu til, í fyrsta lagi vegna þess, að ég vissi, að ekki yrði hægt að fá útflutningsuppbætur á viðbótina, og í öðru lagi, þar sem ég taldi, að ef bændur gengju á undan í því að slaka til, mundu aðrar stéttir sýna þann þegnskap að koma á eftir. En þá er þessi tilslökun notuð til þess að kaupa fylgi til stjórnarmyndunar og kommúnistum síðan lofað að hækka kaupið. Afleiðingar þessarar kauphækkunar eru þær, að landbúnaðarvísitalan hækkar nú um 16%. Þess vegna eiga bændur að hafa verðlagsvaldið hjá sér. Þegar jafnrétti er fundið, á að lækka verðbólguna, og til þess þarf sameiginleg úrræði. En málflutningur hv. þm. A.-Húnv. er byggður á minnimáttarkennd. Hann segir, að bændur megi ekki verðleggja afurðir sínar, miðað við aðra, vegna kostnaðar, því að þá verður verðið of hátt. Stjórnin átti um tvær leiðir að velja; önnur var sú, að bændur réðu málunum sjálfir, en hin var leið ofbeldisins, og hana valdi stjórnin. Það mun nú vanta á þriðju kr. pr. kjötkíló til þess, að bændur fái til jafns við aðrar stéttir. Enn fremur er mjólkurverð lægra en réttmætt er, til þess að bændur fái hliðstætt og aðrir. Það eru engir erfiðleikar á því að selja mjólk með því verði, sem bændur megi við una. Ef bændur hefðu ráðið, hefðu þeir breytt á skynsamlegasta hátt og komið til jafns við aðrar stéttir. Ofan á þetta bætist það, að engu er líkara en hæstv. ríkisstj. geri allt, sem hægt er að gera, til þess að draga úr kjötsölunni, því að hálfa sláturtíðina vissi enginn, hvort nokkuð yrði borgað niður eða ekki. Haustmarkaðurinn var því eyðilagður fyrir bændum. Og þessi óvissa hélzt út alla sláturtíðina. Líklega hefur það verið vegna ráðleysis stjórnarvaldanna. Ef vel hefði átt að vera, hefði þurft að vera búið að gera stefnu ríkisstj. í máli þessu ljósa, áður en sláturtíð hófst.

Niðurstaða mín er sú, að í umr. þessum hafi það staðfestst, að þessi skipun málanna hafi verið gerð til þess, að stjórnarliðið gæti fengið pólitíska fulltrúa til að ráða málunum, svo að stjórnin gæti hangið áfram. Hins vegar hefðu bændur aldrei gert það.