10.10.1945
Neðri deild: 5. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 478 í B-deild Alþingistíðinda. (458)

5. mál, verðlagning landbúnaðarafurða o.fl. (heildarlög)

Páll Zóphóníasson:

Ég vil vekja athygli á því, að þegar ég benti hv. þm. A.-Húnv. á það, að hann hafði farið með ósannindi, svaraði hann því ekki, en reyndi að snúa sig út úr því. Ég hélt, að hv. þm. hefði vitað, að það var til önnur mjólkurverðlagsnefnd á verðlagssvæði Akureyrar. Og í verðlagsnefnd búnaðarráðs eru nú aðeins fjórir bændur, en ekki fimm, eins og hann taldi. Ég segi 4, en ekki 5, því að einn nefndarmannanna, formaðurinn, er kennari og hefur aldrei búið. Auk þess vil ég benda hv. þm. á, að það hefur aðeins verið tvisvar á árabilinu frá 1934–1942 og 1942–1944, að verðið á landbúnaðarafurðum hafi ekki verið talið of lágt, í öll önnur skipti hafa blöð Sjálfstfl. talið verðið of hátt, og þegar mjólkin lækkaði úr 40 aurum niður í 38 aura, töldu þau lækkunina of litla. En hins vegar hafa þeir sömu menn, er að blöðunum standa, sent vikapilta sína út á landsbyggðina til þess að tjá bændum hið gagnstæða, og til slíkra vika hefur hv. þm. A.-Húnv. látið hafa sig. Hann er vikapiltur heildsalaklíku Morgunblaðsins.