05.11.1945
Sameinað þing: 5. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 434 í D-deild Alþingistíðinda. (4600)

47. mál, bændaskóli Suðurlands

Eiríkur Einarsson,:

Ég játa það fúslega, að það getur verið álitamál, hvort Skálholt er hentugur staður fyrir bændaskóla, og vitanlega eru þar tvö sjónarmið, sem koma til greina, svo sem fram hefur komið, hvort byggja ætti hann á heimalóðinni eða annars staðar í Skálholtslandi. — Til frumathugunar þessa málefnis var stofnað með ákvörðun hæstv. landbrh., er skipuð var þriggja manna n. til þess að gera till. um skólastæðið og annað, er lyti að undirbúningi skólastofnunarinnar. Þeir menn, sem hæstv. ráðh. valdi í n. þessa, voru: Steingrímur Steinþórsson búnaðarmálastjóri, er var oddamaður, og tveir glöggir og víðsýnir bændur úr Árnes- og Rangárvallasýslum, þeir Sigurður Ágústsson í Birtingaholti og annar bóndi úr Fljótshlíðinni. Þeir tókust ferð á hendur þangað austur til þess að athuga alla staðháttu gaumgæfilega, og veit ég, að þeir athuguðu jöfnum höndum bæði kosti og galla, ef skólinn yrði reistur heima í Skálholti eða annars staðar í landareigninni. Og til þess að fara ekki óþarflega mörgum orðum um þetta, þá er þess að geta, að það varð einróma niðurstaða n., að réttast væri að reisa hann á lítilli hæð, spölkorn vestur frá túngarðinum þar í landareigninni. Ég tel, að það hafi verið nákvæm athugun og rannsókn þessara manna, en engin handahófsákvörðun, sem réð þessari ákvörðun. Að vísu ætla ég, líkt og komið hefur fram hjá hv. flm. þessarar þáltill., að það væri í aðra röndina fullt eins skemmtilegt, að skólinn yrði í Skálholti vegna minninganna, sem við heimalóðina eru bundnar. En ég held, að víðsýni n. hafi orðið þess valdandi, að niðurstaðan varð sú, að hagkvæmara mundi vera að reisa bændaskólann annars staðar en alveg heima í Skálholti, og því hafi þeir valið skólanum stað á hinum fögru hæðadrögum vestan við Skálholt, þar sem í framtíðinni er fyrirhuguð stórfelld ræktun. Það er að vísu rétt, eins og hv. flm. sagði, að heima í Skálholti er fagurt útsýni og að þar er stórt tún og virðulegt að öllu leyti. En þó að þetta sé stórt tún, þá er það nokkrum erfiðleikum bundið að auka við það út frá heimatúninu og þar er ekki eins æskilegt land til ræktunar og vestur á hinum víðlenda hæðaklasa, þar sem hið fyrirhugaða skólastæði er. Þar eru jafnar aflíðandi hæðir og þurrir móar og álítur n., að á þessum stað geti orðið mjög mikil ræktun. Og hvað útsýni þaðan snertir, sérstaklega þegar búið er að rækta þarna í kring, þá nýtur staðurinn hins fegursta útsýnis og er útsýni þaðan víðsýnna en heiman frá Skálholti.

Flm. sagði, að hinn fyrirhugaði skólastaður uppi í þessari eyðihæð væri bæjarleið frá Skálholti. Ja, þær eru nú misjafnar bæjarleiðirnar. Frá túngarðinum í Skálholti og þangað, sem skólinn á að standa, er ekki um að ræða nema 1 km. vegalengd, og þarf ekki mikinn stórhug til þess að láta sér detta í hug, ef reistur verður bændaskóli rétt vestan við Skálholt, að ekki líði á löngu þar til er gamli túngarðurinn í Skálholti verði rofinn, og verður þarna þá alveg samfelld ræktun við túnið í gamla Skálholti. (JJ: Það má byrja á heimastaðnum og teygja ræktunina vestur eftir). N. taldi heppilegri skilyrði til mikillar ræktunar þar, sem skólanum hefur verið hugsaður staður, aðeins 1 km vegalengd frá Skálholti, og mun ræktunin þá vitanlega aukast í allar áttir og þá einnig til gamla Skálholts.

Hvað hitaskilyrði snertir, þá liggur þetta skólastæði nálega miðja vegu milli Þorlákshvers og Skálholtsstaðar, og ef byrja ætti á að dæla vatninu þangað, þá er það nú styttri leið en að Skálholti, þótt það yrði gert síðar. Sérfræðingur í þessum efnum hefur farið þangað austur og athugað þetta nákvæmlega. Taldi hann ekkert því til fyrirstöðu að leiða vatnið að þessum skólastað úr Þorlákshver, þótt það vitanlega hefði kostnað í för með sér, en að reisa skólann við Þorlákshver taldi n. ekki koma til greina. Vatnsmagn í hvernum er mjög mikið. Biskupi og fornminjaverði leizt vel á, að þarna yrði reistur bændaskóli, en kirkjan ætti að hafa varðveizlu einstakra staða þarna eystra.

Það er ekki rétt, sem sumir segja, að skólinn eigi ekki að standa í Skálholti, heldur í eyðiholti, því að þetta er í Skálholti. Og þeir menn, sem hafa ákveðið skólastæðið þarna, hafa þegar látið byrja á vegagerð þangað. — Málið átti á sínum tíma erfitt uppdráttar, og því aðeins til leiðinda að ræða það frekar, en ég tel ekki rétt að gera n. ómerka af valinu af ekki veigameiri ástæðum en hér hafa komið fram. Hv. flm. talaði um möguleikana á því að reisa skólann heima í Skálholti eða við túnið á biskupssetrinu. En ef þetta er skoðað, þá kemur það í ljós, að ekki væri hægt að fá tiltækilegan stað nema nokkurn spöl utan við túnið. Ég treysti því þess vegna, að öllu þessu athuguðu, að ákvarðanir n. verði látnar óbreyttar.

Ég ætla svo ekki að hafa þessi orð fleiri, en af því að ég er þarna kunnugur, vildi ég láta til mín heyra.