19.11.1945
Neðri deild: 35. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í C-deild Alþingistíðinda. (4612)

84. mál, mjólkurflutningar

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Mér virðist þetta mál vera þannig vaxið, að ekki sé hægt að láta það fara svo til n., að ekki séu gerðar nokkrar aths. við frv. Ég verð að segja það þegar, að mig undrar stórlega á því, að hv. flm., hv. 2. þm. Rang., skuli flytja þetta mál inn á Alþ., og mig furðar nær enn meir á því, að hann skuli ekki, áður en frv. fer til n., vilja láta fylgja því nokkrar frekari skýringar en koma fram í grg., er því fylgir, því að hún upplýsir lítið, en gefur þó til kynna, að orsakir þess, að þetta mál er hér flutt, séu þess eðlis, að ekki sé hægt frá sjónarmiði hv. flm. annað en að löggjafarvaldið láti þetta mál til sín taka.

Ég mun þá fyrst víkja nokkrum orðum að því, hvernig þessum málum er háttað hjá mjólkurbúunum og þeim. stofnunum bænda, sem þessi mál annast. Það bregður eftir minni meiningu nokkru gleggra ljósi yfir þá tilhögun, sem á þessum málum er hjá bændum sjálfum, og það gefur jafnframt til kynna, hver þörf muni á því vera af hálfu löggjafarvaldsins að grípa fram fyrir hendur bænda sjálfra, að þeir ráði þessum málum sjálfir án íhlutunar löggjafarvaldsins: Ég verð að segja það þegar í upphafi, — og ég hefði getað unnað hv. flm. frv. annars hlutskiptis, að mér finnst bændastéttinni sýnd hrein og bein vanvirða með flutningi þessa máls og það gersamlega að ástæðulausu. Ég hygg, að það sé einsdæmi í þingsögu þessa lands og þótt víðar sé leitað, að þar sé flutt málefni, sem tekur svo fram í fyrir frjálsum félagssamtökum manna, að þau séu svipt umráðarétti yfir sínum eigin málum eins og hér er ætlazt til, og eftir því sem ég þekki til, gersamlega að ástæðulausu. Nú má vel vera, að hv. flm. þessa máls búi yfir einhverju, sem ég þekki ekki til, og kemur það þá í ljós, og væri gott að fá nánari skýringar á málinu frá hans hendi. — Um þetta mál er það að segja, að þessa flutninga annast bændurnir sjálfir í öllum héruðum. Það eru þeirra samtök í héruðunum, sem sumpart annast mjólkurflutningana eða þá bændur semja um þá. Í Skagafirði er þessum málum þannig hagað, að það eru ein eða tvær sveitir, sem hafa félag um flutninga fyrir sig, annast það flutninga á mjólkinni og flytur hana til mjólkurbúsins. Þar er ekki frekar gripið inn í þessi mál. Hvað mjólkurflutninga í Borgarfirði áhrærir, er það Kaupfélag Borgfirðinga, sem annast flutninga á mjólkinni í ofanverðum Borgarfirði og flytur hana til mjólkurbúsins. Utan Skarðsheiðar mun tilhögunin vera þannig, að þar er sérstakt félag, sem stendur að mjólkurflutningunum og bændur hafa stofnað. Á Akranesi munu bændur hafa samið við útsölumann mjólkurinnar þar á staðnum um, að hann sjái um mjólkurflutningana. Hvað áhrærir flutninga á mjólk í Eyjafirði, þá er það Kaupfélag Eyfirðinga á Akureyri, sem flytur mjólkina úr sumum deildum mjólkurbúsins, en í öðrum deildum hafa bændur sjálfir félag um mjólkurflutningana. Hjá Mjólkurbúi Flóamanna er mjólkurflutningum þannig háttað, að Kaupfélag Árnesinga flytur mjólkina á langmestum hluta svæðisins, eins og Kaupfélag Rangæinga mun annast mjólkurflutninga á nokkrum hluta svæðisins þar. Kaupfélag Vestur-Skaftfellinga mun annast mjólkurflutninga í Vestur-Skaftafellssýslu. Stjórn Mjólkurbús Flóamanna hefur staðið að þessum samningum um mjólkurflutningana. Mjólkurflutningar í Rangárvallasýslu voru áður í einhverra fleiri höndum, og ætla ég, að einn maður hafi annazt mjólkurflutninga á nokkru svæði úr Rangárvallasýslu, en því mun nú vera lokið. Stjórn Mjólkurbús Flóamanna, sem hefur samið um þessa flutninga og m. a. við kaupfélagið, hafði það eingöngu í sínum höndum að gera þessa samninga, og hvað áhrærir Kaupfélag Árnesinga, þá voru allt aðrir menn í stjórn mjólkurbúsins en þeir, sem standa fyrir Kaupfélagi. Árnesinga, svo að þeir voru að engu leyti að semja við sjálfa sig. — Ég minnist þess, að á síðasta fundi Mjólkurbús Flóamanna kom tilboð frá Kaupfélaginu Þór í Rangárvallasýslu um að annast mjólkurflutningana, en eins og menn vita, er hv. flm. þessa frv. forstöðumaður fyrir það kaupfélag. Þessu erindi var hins vegar synjað, og mundi þetta ekki eiga eitthvað skylt við það frv., sem hér liggur fyrir? Nú vil ég engan dóm á það leggja, hvort ekki kynni að verða samkomulag um mjólkurflutninga við þennan hv. þm., en það á bara að semja um slík mál, en ekki hlaupa inn á þ. til þess að setja löggjöf um þetta efni og gera bændastéttina — ekki aðeins í þessu byggðarlagi, heldur víðsvegar um land ófrjálsa að ráða þessum málum, ef frv. þetta verður að l., og það er með þessu, sem ég á við, að hv. flm. sýni bændastéttinni vanvirðu. Það hefði verið nóg að láta þetta gilda fyrir þá, sem honum eru næstir og hann ber sérstaklega fyrir brjósti. Það hefði þó verið sönnu nær, þótt ég sé á gagnstæðri skoðun við hv. flm. Hann hefði átt að leita miklu betur fyrir sér, áður en hann greip til þessa örþrifaráðs. Ég minnist t. d. ekki, að hann hafi nokkurn tíma vikið að þessu máli við mig, en ég sem einn úr bændastéttinni mundi hafa talað um það við bændur fyrst, ef ég hefði verið í sporum hv. flm., og lagt fram þær ástæður, sem hefðu komið mér til að flytja málið inn á þ., en ég efast um, að hv. flm. hafi krufið það til mergjar og gert sér grein fyrir því, hver áhrif það kann að hafa. Hv. þm. má vita það, að hann leggur einnig önnur byggðarlög, sem hafa mjólkurframleiðslu með höndum, undir öxina. Hvað áhrærir málið austan Hellisheiðar, þá eru þar 15 verzlanir, og ef 40 mjólkurframleiðendur óska, að tiltekin verzlun annist flutningana, þá er eftir reglunni skylt að taka það til greina. Það varðar engu, hvort þeir framleiða mikið eða lítið, því að það er skylt að láta hverja verzlun hafa vörur til flutninga í samræmi við viðskiptaveltuna. Þetta gæti þýtt, að mjólkurflutningarnir yrðu á margra manna höndum. Ef t. d. verzlun á einn bíl og hann bilar, þá stöðvast mjólkurflutningarnir, og þó að hún reyni að útvega farartæki, þá getur það dregizt, og getur þ, svo farið, að varan verði orðin ónýt, þegar hún kemur á markað. Á vetrum yrði þetta einkum bagalegt. Þetta leiðir til þess, að félagsskapur bænda verður alveg máttlaus. Stofnunin verður alltaf að hafa marga varabíla til taks, og leiddi það af sér mikinn kostnað. En þetta er aðeins hin praktíska hlið þessa máls. Ég hafði engin afskipti af Mjólkurbúi Ölfusinga fyrr en það var komið í kröggur. En þessi hv. þm. hafði fyrr kynni af þessu og hvernig þetta mál getur orkað á hagmuni ýmissa manna. Ég minnist þess, er fyrirtæki þessa hv. þm. annaðist flutningana, hversu vel og mannlega hann tók þá undir óskir manna í þessu sambandi. Ég ætla, að á sumum árstíðum hafi flutningarnir komizt upp í 15 aura pr. lítra, og skipti engu, hvort mjólkin var mikil eða lítil, en hv. flm. segir, að slíkt komi ekki fyrir aftur og fyrir því verði séð með þessu. En það er síður en svo, að hér sé nokkurt öryggi. Og þó að við getum sagt að um okkar hérað, þá eru fleiri héruð, sem við vitum ekki um, hvernig þetta muni verka á. Ég hygg því, að það sé betra að leysa þetta á annan veg og grípa ekki fram fyrir frjáls samtök manna. Hv. flm. segir, að þar sem þannig hagar til, að eldri samningar eru ekki úr gildi numdir, þá verði þeir nú upphafnir. En hingað til hafa menn hliðrað sér hjá því að upphefja frjálsa samninga, en þó hefur það verið gert, ef þeir hafa þótt brjóta í bága við hagsmuni almennings. En ég held, að þetta mál sé ekki svo aðkallandi, en þetta sýnir hugann á bak við. Og ef ágreiningur er milli framleiðenda og verzlana, á að skjóta málinu til ráðh. Það var illa séð á sinni tíð, er utanstefnur tíðkuðust, og gafst illa og engan langar til, að það endurtaki sig. Hér er að vísu ekki líku saman að jafna, en þó er mönnum hér settur ráðamaður og þessari stétt boðið upp á ýmislegt, og sumir telja sér jafnvel skylt að svipta hana mannréttindum, og er undarlegt, að fulltrúi hennar ætlar að skipa sér í þeirra hóp. Hv. flm. getur þess í grg. frv., að það sé flutt gegn því einræði, að þeir, sem standa fyrir mjólkurbúunum vilja ekki láta einstökum mönnum mjólkurflutningana í té. Það eru 3 menn í stjórn Mjólkurbús Flóamanna, og til þeirra mun hann tala, — 2 bændur og forstjórinn, og ef stjórnin er gegn meginþorra þeirra manna, sem að þessum málum standa, þá er hægt að láta hana fara og kjósa nýja. En ég veit ekki annað en þessir menn hafi fullt traust, en það getur verið, að viðskiptamenn kaupfélagsins á Hellu séu ekki alls kostar ánægðir.

Ég vil svo að lokum skjóta því til hv. þm., hvort ekki sé hægt að fara aðra leið í málum þeim, sem hér liggja fyrir.