19.11.1945
Neðri deild: 35. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í C-deild Alþingistíðinda. (4613)

84. mál, mjólkurflutningar

Flm. (Ingólfur Jónsson) :

Hv. 1. þm. Árn. hefur haldið hér langa ræðu og sagt margt og talað eins og málafærslumaður, sem tekið hefur að sér að verja rangt mál. Ég hygg, að hann hefði getað orðið góður málaflutningsmaður, en þó má búast við, að alþm. sjái gegnum vef hans. Hann sagði, að æskilegt hefði verið, að ég hefði ekki farið þessa leið, og sagði, að ég hefði ekki rætt málið við sig. Það er víst rétt, enda hefði það verið til einskis, því að hann ræður engu um stjórn Mjólkurbús Flóamanna. Þeir, sem ráða Mjólkurbúi Flóamanna, vissu um þetta. Frv. þetta er flutt vegna Kaupfélagsins Þór, sem fær ekki að flytja mjólk fyrir viðskiptamenn sína, og svo er einnig um aðra verzlun, sem hefur 40 mjólkurframleiðendur og hefur óskað eftir að fá að flytja mjólkina fyrir sína viðskiptamenn og þykir það hentugra. Kaupfélagið Þór er samvinnufélag og á jafnan rétt á því, að komið sé fram við það eins og hvert annað kaupfélag, því að þótt það sé ekki í Sambandi íslenzkra samvinnufélaga, starfar það samt á samvinnugrundvelli og eftir sambandslögunum. Það er kannske vegna þess, að Kaupfélagið Þór er ekki í Sambandinu, að framsóknarmenn fetta fingur út í starfsemi þess. Egill Thorarensen er kaupfélagsstjóri kaupfélags Árnesinga, formaður í Mjólkurbúi Flóamanna og hann er einnig í stjórn mjólkurbúsins, og ég skal viðurkenna, að Egill er duglegur maður, en ráðríkur, en ég skal segja honum til hróss, að hann er hreinskilinn maður, líklega hreinskilnari maður en flestir aðrir framsóknarmenn. Ég hef talað við Egil og hef viljað semja við hann. En hann hefur sagt mér, að sín leið væri sú að leggja undir sig alla verzlun á Suðurlandsundirlendinu. Þá hef ég sagt honum, að ef hann semdi ekki við mig á friðsamlegum grundvelli, mundi ég leita annarra ráða. Egill mundi samt halda fast við það að koma allri verzlun á Suðurlandsundirlendinu í hendur Kaupfélags Árnesinga, en eini þröskuldurinn í vegi fyrir honum er Kaupfélagið Þór á Hellu. Ef því yrði rutt úr vegi, mundu framsóknarmenn semja við Rangæinga og leggja Kaupfélag Hallgeirseyjar undir Kaupfélag Árnesinga. Egill hefur sagt, — og það er alveg rétt, — að ef K. Á. hefði á hendi mjólkurflutningana, hefði hann tryggt þá aðstöðu, sem þyrfti til að ná markmiði sínu. Þetta er engan veginn sagt Agli til hnjóðs, en ég hef sagt Agli, að ég væri á móti þessu. Og ég ætla að hamla á móti því, að hann verði einráður um verzlun á Suðurlandsundirlendinu, enda held ég, að engin blessun mundi stafa af því, þó að þeir haldi því fram, að einokun mundi gera aðstöðu þeirra betri. Ég held þvert á móti, að þótt menn séu duglegir, hafi þeir gott af því að eiga í samkeppni við hina ýmsu einstaklinga, sem rekur á eftir þeim.

Hv. 1. þm. Árn. sagði, að frv. þetta væri móðgun við íslenzka bændastétt og bændum væri misboðið. En hann gaf engar skýringar á því, að hvaða leyti frv. þetta væri móðgun við íslenzka bændur. En ég vil bara spyrja þennan hv. þm.: Er þá ekki félagsmönnum Kaupfélagsins Þórs, sem eru hátt á þriðja hundrað, misboðið, ef þeir fá ekki að ráða mjólkurflutningum sínum sjálfir? Ég vil einnig benda á það, að bændur eiga mjólkina sjálfir, þar til hún hefur verið vegin og lögð inn, en þá fyrst eiga mjólkurbúin hana. Við, sem unnum lýðræði, getum ekki fallizt á annað en að bændur fái sjálfir að ráða mjólkurflutningum sínum.

Þessi sami hv. þm. var svo seinheppinn að vera að minnast á mjólkurflutninga í Eyjafirði og Skagafirði í þessu sambandi. Þar er engin einokun, þar flytja bifreiðarnar allar vörur til bændanna, hvort sem þær eru frá kaupmönnum eða kaupfélögum. En er nú þessu eins farið á Suðurlandsundirlendinu? Nei, því að þar flytja mjólkurbifreiðarnar aðeins þær vörur, sem eru frá Kaupfélagi Árnesinga, ekki einu sinni eldspýtnastokk frá öðrum verzlunum. Kaupfélag Árnesinga reynir því að ná algerri einokunaraðstöðu. Það má vel vera, að hv. 1. þm. Árn. og Egill í Sigtúnum hafi rætt um það, hvernig þeir eigi að ná þessari aðstöðu. Ég býst við, að þessi hv. þm. sé félagsmaður í Kaupfélagi Árnesinga, en sennilega er hann ekki í stjórn kaupfélagsins, en hann er víst fulltrúi og endurskoðandi, og er því ekki að undra, þótt hann sé kunnugur kaupfélaginu, og ekki lái ég honum þá, þótt hann standi við hlið Egils í Sigtúnum. Það er metnaðarmál frá þeirra sjónarmiði, en ekki að sama skapi hagsmunamál. Hv. 1. þm. Árn. er svo kunnugur málunum, að hann veit vel, að það er um einræði og einokun að ræða hjá Kaupfélagi Árnesinga, en hann vill reyna að telja ykkur, hv. þm., trú um, að það sé ekki einræði, en þetta er einræði, sem minnir á fyrri tíma.

Hv. þm. sagði, að það hefði komið tilboð um mjólkurflutninga frá Kaupfélaginu Þór á s. l. vetri, en því hefði verið hafnað. En hann tók það ekki fram, að tilboðið var rætt á lokuðum fundi og að því var hafnað á röngum forsendum. Form. Mjólkurbús Flóamanna upplýsti, að mjólkurbúið hefði tapað tugþúsundum kr. á mjólkurflutningunum úr Rangárvallasýslu og því væri ekkert vit í því að láta Kaupfélagið Þór tapa. Enn fremur sagði form., að Þór hefði ekki bíla né bílaverkstæði. Á svona forsendum var tilboðinu hafnað. Ég vil þakka hv. þm. og form. mjólkurbúsins fyrir að vilja ekki, að Kaupfélagið Þór gangi í vatnið og taki að sér verk, sem það getur ekki framkvæmt.

Þessi hv. þm. sagði, að það væru 15 verzlanir, sem hefðu rétt til mjólkurflutninga, ef þetta frv. yrði að l., og hann sagði, að þessar 15 verzlanir væru þess ekki megnugar að hafa mjólkurflutningana. Hér fór hv. þm. með vísvitandi rangt mál. Það eru engan veginn 15 verzlanir á Suðurlandsundirlendinu, sem hafa aðalviðskipti sín við bændur. Ég fer þá fram á það, að hv. þm. telji þær upp, þar eð hann hefur nú kvatt sér hljóðs á eftir mér, en ég ætla, að verzlanir þessar séu a. m. k. helmingi færri, því að auðvitað koma ekki kaupmannaverzlanir á Stokkseyri né Eyrarbakka til greina. Ég ætla, að verzlanir þær, sem taka að sér þessa flutninga, leysi þá þannig af hendi, að óaðfinnanlegt sé, og einnig, að þær afli sér þeirra tækja, sem nauðsynleg eru.

Ég mótmæli því fyrir hönd kaupfélagsmeðlima á Hellu, að þeir séu ekki færir um að vinna þau störf, sem þeir takast á hendur. Ég mótmæli því einnig, að Mjólkurbú Flóamanna þurfi að hafa til varabíla til að hjálpa þessum vesalingum. En það má vera, að hv. þm. sjái ekkert nema Kaupfélag Árnesinga. Og það skal þessi hv. þm. vita, að ef 40 bændur óska að flytja mjólkina sína sjálfir, þá gera þeir það ekki nema þeir treysti sér til þess. Þykkvbæingar mundu ekki óska þess, að Friðrik í Miðkoti flytti mjólk þeirra, ef þeir treystu honum ekki til þess, og félagsmenn Þórs mundu ekki óska eftir að flytja mjólkina, ef þeir treystu sér ekki til þess. Það er því ekki ástæða til að geyma bíla á staðnum eftir mjólkurflutningunum. Hv. þm. hlýtur að gera sér ljóst, að það er ekki vandi verzlana að hafa það, sem þær hafa ekki þörf fyrir, og þess vegna er ekki rétt að segja, að Kaupfélagið Þór hafi ekki haft bíla til að flytja mjólkina. Það mun auka bílakost sinn og stækka bílaverkstæði, þegar þörf gerist. Og þannig mun einnig vera um aðrar verzlanir á landinu.

Hv. þm. Árn. fór einnig að tala um Mjólkurbú Ölfusinga. Ég skil ekki, hvers vegna hann fór að minnast á það. Hann segir mig vera kunnugan því. Rétt er það. En aldrei var ég í stjórn þess og veit því ekki svo gerla um stjórnarhagi þess.

Hv. þm. segir, að flutningskostnaður hafi verið kominn upp í 10–15 aura á lítrann, — þetta getur vel verið, — og svo hafi Kaupfélag Árnesinga dregið til sín Mjólkurbú Ölfusinga, þar til það fór á höfuðið, en Mjólkurbú Flóamanna tók að sér mjólkurflutningana. En ástæðan til hins háa flutningskostnaðar hefur verið sú, að það var svo lítið mjólkurmagn, sem var flutt. Það er auðvitað ekki meiningin, að það séu hálffullir bílar, sem annast mjólkurflutninga. Viðkomandi ráðamenn mjólkurflutninganna munu auðvitað sjá um, að farkosturinn nýtist til hins bezta. Það er því talað út í hött hjá hv. þm., er hann segir, að kostnaður mjólkurflutninga muni hækka, ef ekki er höfð einokun.

Ég ætla, að þetta muni sýna glögglega þær veilur og staðleysur, sem voru í fyrri hluta ræðu hv. 1. þm. Árn.

Þá varð hv. þm. tíðrætt um 5. gr. frv., þar sem sagt er, að samningar um mjólkurflutninga skuli falla niður eigi síðar en 6 mánuðum eftir gildistöku þessara l. Nú geri ég ráð fyrir, að mjólkurbú hafi ekki venjulega lengri en 6 mánaða samninga um mjólkurflutninga. Ástæðan fyrir því, að þetta ákvæði er sett inn, er sú, að ég held, að það gæti vel komið á daginn eftir gildistöku þessara l., að það væru samningar milli Mjólkurbús Flóamanna og Kaupfélags Árnesinga kannske til 8 eða 10 ára, og vitanlega væru lög þessi þá gagnslaus. En ég segi ekki, að þetta sé, heldur að það gæti komið á daginn, og því er ákvæði þetta nauðsynlegt. Ég veit, að hv. þm. sér þetta, og þess vegna fannst honum ástæða til að taka þetta til umræðu.

Hvers vegna fór hv. 1. þm. Árn. að tala um það, að það væru 3 menn í stjórn Mjólkurbús Flóamanna og 2 þeirra væru bændur, og því væri engin hætta á, að þeir færu að semja við sjálfa sig? Hver var að tala um þetta? En hv. þm. sá ástæðu til að taka þetta fram. En hvers vegna? Það vill nú svo til, að formaður Mjólkurbús Flóamanna er einnig kaupfélagsstjóri Kaupfélags Árnesinga. Hv. þm. segir, að hann semji ekki við sjálfan sig, en það er eins og hann hafi heyrt þetta utan að sér.

Þá gerir hv. þm. 6. grein einnig að umtalsefni, þar sem sagt er, að ef ágreiningur rísi um rétt, á mjólkurflutningum, heyri hann undir úrskurð landbúnaðarráðuneytisins. Þetta fannst honum óbærilegt, en hann tók ekki fram, hverjir ættu að skera úr hugsanlegum ágreiningi. Mér skildist þó, að hann hefði ekki álit á mér, og virtist mér hann verða fyrir vonbrigðum og að bændur, sem hefðu treyst mér, yrðu yrir meiri vonbrigðum, en hann benti ekki á, hvert skyldi leita. Kannske ætti að leita til Mjólkurbús Flóamanna? Ég býst við, að honum fyndist það réttast. En hvað segið þið, hv. þm.? Mér finnst eðlilegt, að ef ágreiningur kemur upp, skeri landbúnaðarráðuneytið úr. Nú er ekki hér með sagt, að það verði einhver ágreiningur. En einhver ákveðinn og opinber aðili verður að vera, sem sker úr deiluatriðum. Þetta er hv. þm. ljóst, og hann veit, að þetta er nauðsynlegt og sjálfsagt.

Þá ræddi hv. þm. um viðurlögin og býsnaðist yfir því, hvað þau væru há. Ég álít, að það sé aukaatriði, hvort það eru 25 þús., eða 250 þús., því að ég býst við, að lögum þessum verði hlýtt, eins og til er ætlazt um öll lög, er sett eru.

Ekki læt ég mér til hugar koma, að Mjólkurbú Flóamanna færi að brjóta þessi lög.

Hv. 1. þm. Árn. talaði um, að viðurlög frv. snertu aðeins stjórnir mjólkurbúanna, en ekki þá, sem taka flutningana að sér, og því hefðu þeir ekkert aðhald eftir frv., sem tækju flutningana að sér. Það er nú ekki svo eftir þessu frv., að þeir, sem taka flutningana að sér eftir ósk minnst 40 manna, hafi ekkert aðhald. Má vera, að hv. 1. þm. Árn. hafi aldrei verið verzlunarstjóri. En verzlunarstjórar, sem starfa við verzlanir, sem eru hver hjá annarri, hafa alltaf aðhald vegna samkeppninnar. Og þeir, sem taka að sér að flytja mjólk fyrir minnst 40 bændur, hafa aðhald frá þessum bændum, þannig að þeir þurfa að koma svo vel fram í starfi sínu, að hlutaðeigendur vilji láta þá, sem flytja mjólkina, annast það starf áfram. Og ég ætla, að það sé nægilegt aðhald. Það má vel vera, að hv. 1. þm. Árn. sé þetta síður ljóst, vegna þess að hann hafi aldrei fengizt við verzlun. En þeir, sem hafa starfað í verzlun í samkeppni við aðra verzlun, vita, að í því felst mikið aðhald.

Það er nú kannske ýmislegt fleira, sem hv. 1. þm. Árn. sagði og ég ætti að svara. En ég vil nú síður lengja mál mitt, vegna þess að ég hefði viljað koma frv. til n. á þessum fundi. En hvort svo getur orðið, fer eftir því, hve umr. um það verða langar. Hv. 1. þm. Árn. hefur nú aftur kvatt sér hljóðs. Hann ætlar þá sennilega að reyna að sannfæra hv. þm. um það, að á Suðurlandsundirlendinu ríki í flutningamálum fyllsta réttlæti og að það sé engin ástæða til þess að vera nokkuð yfir þeim að kvarta. Hann sagði reyndar áðan, að sér væri ekki vitanlegt, að nokkur ástæða væri til þess. En nú, eftir að ég hef haldið mína ræðu, veit hann, að það eru tvær verzlanir í Rangárvallasýslu, þar sem viðskiptamennirnir kvarta yfir þessu fyrirkomulagi á flutningunum. Önnur er kaupmannaverzlun, sem hefur viðskipti sín eingöngu við bændur, og óskir allra þessara bænda eru um það, að sú verzlun taki að sér flutningana. Hin verzlunin er annað stærsta samvinnufélag á Suðurlandsundirlendinu, sem í eru hátt á þriðja hundrað bændur, sem allir óska eftir, að það félag flytji mjólkina fyrir þá, en hafa ekki fengið því framgengt vegna þess einræðis, sem ríkir nú í stjórn Mjólkurbús Flóamanna. Er ekki hv. þm. nóg að vita þetta? Og hv. 1. þm. Árn. veit nú það, sem hann vissi ekki áðan, að flm. þessa frv. hefur reynt allar leiðir til þess að hrinda þessu einræði og einokun, sem nú ríkir þarna eystra. Flm. þessa frv. hefur reynt að ná samkomulagi við stjórn Kaupfélags Árnesinga og formann Mjólkurbús Flóamanna, en hefur fengið það svar frá formanni mjólkurbúsins, að hann léti enga flutninga af hendi nema þeir væru teknir með valdi. Og þessi form. svarar svona vegna þess að hann telur, að tilgangurinn helgi meðalið. Og tilgangurinn með þessu er svo göfugur frá hans sjónarmiði, að koma allri verzlun á Suðurlandsundirlendinu undir Kaupfélag Árnesinga. Og nú hefur hv. 1. þm. Árn. gengið í lið til að berjast í þessum tilgangi, og hefur hann tekið að sér að verja hér á hæstv. Alþ. þetta miðaldafyrirkomulag. Ég efast um, að bændur þakki honum nokkuð fyrir slíkt. Ég held, að bændastéttin sé alls ekki þannig sinnuð, að hún vilji nú á þessum tíma viðhalda miðaldafyrirkomulagi í verzlun, heldur vilji hún frjálsa verzlun. Það er þess vegna reginmisskilningur, þegar þessi hv. þm. vill halda því fram, að ég sé eitthvað að brjóta af mér við bændur, þegar ég með þeirri aðferð, sem ég nú vil nota hér á Alþ., er að brjóta niður þann einræðisanda, sem nú er að skjóta upp kollinum fyrir austan fjall. Það er ekki mín sök, þó að þessi leið sé farin í málinu. Ég vildi aðra leið. Hv. 1. þm. Arn. verður að vita það, að ég vildi aðra leið. En hv. 1. þm. Árn. og formaður Mjólkurbús Flóamanna hafa kannske ætlazt til þess, að ég gæfist upp, hætti bara, þegar þessir góðu menn vildu ekki láta undan og semja. En það er alls ekki meiningin. Ég hef ekki leyfi til þess að hætta eða gefast upp í miðju kafi. Það er mín sannfæring, að ég sé hér að berjast fyrir góðum málstað. Ég hef erindi og áskorun frá 150 manna bændafundi í Kaupfélaginu Þór um það að ná þessu marki, með samningum eða með valdi. Og ég væri ekki mínu starfi vaxinn sem forstjóri Kaupfélagsins Þórs, ef ég gerði ekki það, sem í mínu valdi stendur í þessu efni. Það má vel vera, að form. Mjólkurbús Flóamanna hafi ekki gert sér grein fyrir því, að það er möguleiki til þess að brjóta þetta vald. Hvernig stendur á því, að þessir menn horfa ekki fram í tímann og fylgjast með því, sem er að gerast úti í heiminum og hér á landi? Hvernig stendur á því, að þeir gera sér ekki grein fyrir því, að einræðið er alls staðar brotið niður á þessum tímum? Dettur þessum mönnum í hug, að hér uppi á Íslandi geti nokkrum manni tekizt að verða einvaldsherra yfir þremur sýslum og undiroka bændur í öllum þessum héruðum? Ef þeir hugsa svo, vita þeir ekki, á hvaða öld við lifum, þessir menn. Þeir hafa ekki gert sér grein fyrir því, að tímarnir eru breyttir, hugsunarháttur fólksins er breyttur og að fólkið er orðið þroskað og lætur ekki bjóða sér það, sem mátti bjóða bændum meðan þeir voru undirokaðir af erlendu valdi. Nú er bændastéttin orðin vel upplýst, sæmilega menntuð og betur stæð efnalega en áður hefur verið. Og þess vegna er hvorki á Suðurlandsundirlendinu né nokkurs staðar annars staðar á þessu landi jarðvegur fyrir þessa stefnu, sem upp hefur verið tekin í stjórn Mjólkurbús Flóamanna. Og ekki verr gefinn maður en hv. 1. þm. Árn. ætti að gera sér þetta fullkomlega ljóst. Hans sæmd hefði verið meiri að taka ekki að sér að halda langa varnarræðu fyrir þessum einræðisanda hér í hv. þd. Það er stutt síðan þessi hv. þm. átti sextugsafmæli, og ég heimsótti hann þá. Og ef við lifum báðir, þegar hann verður sjötugur, þá mun ég heimsækja hann. En ég býst við, ef hann ekki fylgist með tímanum þessi 9 eða 10 ár, sem eftir eru til sjötugsafmælis hans, betur en hann virðist nú hafa gert, að þá verði hans afmælisminni vafalaust dálítið einkennilegt. — Hv. 1. þm. Árn. er nú ekki í eðli sínu svona, eins og halda mætti eftir framkomu hans í þessu máli. Ég held, að auðveldlega mætti sanna það. En það passaði ekki fyrir hann að sýna sinn eðlilega mann, þegar hann var að halda ræðuna áðan um það mál, sem hann tók að sér að verja. Hann varð að skipta um ham og líta öðruvísi út en hann er í eðli sínu. Og þetta er alltaf leiðinlegt, þetta er slæmt, og ég held, að þessi hv. þm. hafi gert þetta nauðugur. Og hvers vegna nauðugur? Hver hafði vald til þess að neyða þennan hv. þm. til að gera þetta? Hann var þó sjálfs sín húsbóndi, og hann er þó sjálfs sín herra, þessi maður. Skyldi hann vera svo undirgefinn formanni Mjólkurbús Flóamanna, að hv. þm. geri það, sem hann segir honum? Það þykir mér alveg ótrúlegt. Þó má vel vera, að svo sé. Nú, en skyldi þetta mál hér í hæstv. Alþ. vera orðið að flokksmáli Framsfl.? Ef svo er, þá hef ég fengið skýringuna á því, hvers vegna hv. 1. þm. Árn. hélt ræðu sína áðan. Það er ljótt orð að segja það, að þessi hv. þm. sé kannske flokksþræll og hlýði, þegar flokkurinn skipar honum. En það liggja fyrir upplýsingar um, að jafnvel góðir og vel metnir menn úr Framsfl. hafa talið sig vera flokksþræla. Góður og vel metinn framsóknarmaður, sem hefur verið þm. fyrir Framsfl., lýsti því á s. l. hausti hér uppi á Kjalarnesi, að hann hefði verið flokksþræll Framsfl. Þessi maður er í mörgu vel metinn og ágætur maður. Og fyrst hann gat verið flokksþræll í Framsfl., þá gæti vel verið, að hv. 1. þm. Árn. væri nú í þeim álagaham að vera flokksþræll, og þá er hann lengur að brjóta af sér flokksklafann og handjárnin, sem flokkur hans hefur sett á hann, heldur en þessi áminnzti fyrrv. þm. Framsfl. En ég held, að það væri tími til kominn fyrir hv. 1. þm. Árn. að brjóta af sér flokkshlekkina. Og það er nauðsynlegt fyrir þann hv. þm. að gera sér ljóst, hvar hann stendur, opna augun fyrir því. Eða kannske hann viti ekki af því, að hann er flokksþræll? Á meðan hann veit það ekki, er ekki nokkur von til þess, að hann losni úr álagahamnum. Og ef hann veit það ekki, að hann er í þessum álagaham, þá er ekkert undarlegt, þó að hann telji allt með felldu með flutninga fyrir austan heiði.

Ég ætla ekki að segja meira að svo stöddu. Ég veit, að hv. 1. þm. Árn. hefur kvatt sér hljóð, og ég ætla að bíða með að segja meira, þangað til hann hefur haldið sína seinni ræðu.