26.11.1945
Neðri deild: 39. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í C-deild Alþingistíðinda. (4621)

84. mál, mjólkurflutningar

Helgi Jónasson:

Herra forseti. Ég þarf ekki að þessu sinni að hafa mörg orð um þetta frv. Því hafa verið gerð svo rækileg skil af hv. 1. þm. Árn., að ég held, að ástæðulaust sé að fara þar nánar út í einstök atriði, því að hann er búinn að rekja það svo rækilega sundur og gera svo röggsamlega grein fyrir, hvað mikil fjarstæða er hér á ferðum. Satt að segja kom mér á óvart, að hv. flm., 2. þm. Rang., skyldi nú fara að ganga í lið með þeim alþm. hér á þingi, sem hafa undanfarin ár reynt að níða niður bændastéttina. Ég bjóst ekki við honum í þeirri fylkingu, og var mér því vonbrigði, að hann skyldi lenda þar, eftir þeim ummælum, sem hann áður viðhafði við mig og ýmsa aðra um þessi mál.

Ég held, að engum blandist hugur um, sem frv. sér, að þar er verið að setja löggjöf um, hvernig bændur eigi að flytja afurðir sínar til sinna eigin búa. Mér þætti ekki ólíklegt, að ýmsum framleiðendum til sjávar þætti dálítið undarlegt, ef Alþ. færi að setja l. um, hvernig þeir flyttu fisk sinn til viðskiptamanna sinna við hafnir landsins, eða annað slíkt þessu svipað. En þetta er ekki nema einn þátturinn í þeirri herferð, sem nú er hafin gegn íslenzkum bændum. Mér voru það því vonbrigði, að þessi hv. þm. skyldi fara í þann hóp. En það kom fram í ræðu hans hér, að aðalorsökin er sú, að eftir því sem hann heldur fram, hafi austan fjalls tíðkazt allmikið einræði í þessum sökum af hálfu stjórnar Mjólkurbús Flóamanna. Ég skal víkja síðar að því, hvernig það einræði er, en þó er það dálítið hart, enda þótt einræði væri beitt af þessu búi, að fara að setja löggjöf um það fyrir allt landið, að bændur séu skyldir til að fara eftir sérstökum ákveðnum reglum með mjólkurflutninga sína, megi ekki ráða því sjálfir, heldur skuli þing og stjórn hafa þar hönd í bagga. Ég hefði vel getað skilið, að þetta hefði komið fram hjá vissum flokki manna á Alþ., því að það er ekki langt síðan einn stjórnmálaflokkur hélt landsþing sitt í Reykjavík, og þar var eitt aðalumræðuefnið, hvernig ætti að fara að því að leggja bændur landsins að velli, en það kom þó fram hjá þessum flokki, að ennþá væri ekki kominn tími til að flæma alla bændur af jörðum sínum, því að ekki væri enn til húspláss fyrir þá við sjóinn, fyrst yrði þó að byggja yfir þá, sem komnir væru til bæjanna, áður en farið væri að flæma bændur landsins burt. Ég sé, að hv. 1. landsk. er farinn að óróast, það var m. a. hann, sem tók mjög mikinn þátt í þessum umr., og það kann vel að vera, að þetta verði ein leiðin, en ég bjóst ekki við, að slíkar till. kæmu frá fulltrúum bændanna sjálfra, enda sagði sessunautur minn til hægri handar (EOl) : „Þetta er gott frv., og því mun ég fylgja.“ Hann skildi vel, hvert hér er stefnt. Það er stefnt í þá átt, sem hann taldi nauðsynlegt til þess að reyna að vinna að því, sem þessi flokkur vinnur ósleitilega að, að flæma bændur af jörðum sínum og gera þá að kaupkröfulýð í kaupstöðunum.

Hv. 2. þm. Rang., samþm. mínum, er merkilega snúinn hugur frá því, þegar hann vildi heldur missa kjól og kall en að fylgja þeirri samsteypu, sem þá var hér á ferð um stjórnarmyndun. Ég tók því vel þá, því að ég var ekki heldur hrifinn af þessari samsteypu. En þá hafði þó stj. ekki sýnt bændastéttinni neinn sérstakan fjandskap, þegar hann skarst úr leik, en síðan hefur margt skeð, sem öllum þorra bænda finnst miklu verra en áður. Er þar skemmst á að minnast, að fyrir fáum dögum voru samþ. hér á þingi l. um búnaðarráð, sem ég fullyrði, að allur meginþorri bænda er mjög andstæður. En þá var hv. þm. ekki kominn lengra á brautinni en svo, að hann sat hjá. Það kann vel að vera, að yfirboðurum hans í hans flokki hafi þótt hann nokkuð linur í liðveizlunni og fundizt hann yrði að gera betur, enda er það nokkrum dögum síðar, að hann kemur fram með frv. það, sem hér liggur fyrir. Hefur hann viljað sýna þar, að hann væri alveg kominn yfir til þeirra, það væri ekki um að villast, og að hann vildi ekki lengur sitja hjá, þegar þessi mál væru á döfinni, en nú væri hann kominn í sókn með þeim, enda er það svo, þegar maður fer gegnum þetta frv., að þá kemur í ljós, að þetta er eitt af þeim málum, sem eiga að stuðla að því, að tekinn sé algerlega af bændum umráðaréttur þeirra yfir þeirra eigin málum og skipulag þeirra sett í hendur Alþingis og ríkisvaldsins.

Hv. þm. heldur fram, að mikið einræði ríki um mjólkurflutninga til Flóabúsins. Ég vil leyfa mér að benda á, að þessi félagsskapur er alveg eins byggður upp og samvinnufélögin, sláturfélögin og annar slíkur félagsskapur, á alveg fullkomlega lýðræðislegan hátt. Hvert sveitarfélag kýs sína fulltrúa, einn eða tvo, og þeir mynda síðan fulltrúaráð, sem fer með þessi mál f. h. félagsmanna. Svo var það s. l. vor, er þessi hv. þm. sótti um það f. h. félags síns að fá að flytja mjólk til Flóabúsins. Það hefur sem sé lengi verið sótt um það af ýmsum, þó að hann hafi ekki sótt um það fyrr en í vor, að fá þessa flutninga að einhverju leyti. Bændum er fullkomlega ljóst, að eins og nú er háttað, ríður ákaflega mikið á, að flutningarnir séu öruggir. Nú hafa tvö félög þessa flutninga á hendi, Kaupfélag Árnesinga og Kaupfélag Hallgeirseyjar. Ég held, að óhætt sé að segja, að allur þorri félagsmanna á þessu svæði er mjög ánægður með þetta fyrirkomulag, og ég held, að um það séu engar deilur á svæði Mjólkurbús Flóamanna, að fyrirkomulag flutninganna sé í fyllsta lagi af hálfu þessara félaga.

Þessi till. kom fram á aðalfundi í vor. Það er ekki eingöngu stjórn Mjólkurbús Flóamanna, sem fer með þessi mál, heldur eru þau rædd á aðalfundi, þar sem eiga sæti allir fulltrúar, sem eru kosnir samkvæmt fyllstu lýðræðisreglum, eins og ég sagði áðan. Hér getur því ekki verið um að ræða einræði einhvers einstaks manns, heldur falla öll mál undir úrskurð allra fulltrúanna, en þeir voru um 40 að tölu. Um þetta mál fór eins og önnur mál, að þar var meiri og minnihluti og meiri hlutinn látinn ráða, eins og í öllum lýðræðisreglum hjá okkar þjóð. Þarna voru staddir rúmlega 40 fulltrúar, og þar að auki var boðið formanni stjórnarnefndar Kaupfélagsins Þórs. Hann hélt þar ræðu og lýsti yfir, að hann væri eins og á stæði ánægður með flutningana og óskaði ekki eftir, að þeim yrði breytt. Sjálfur formaður stjórnarnefndar Þórs taldi flutningana í góðu lagi og vildi ekki breyta til.

Það má vara sig á, ef farið er að undirbjóða flutninga á mjólk. Allt veltur á, að flutningarnir séu öruggir og menn geti reiknað með, að þeir séu í fullu lagi. Við, sem þarna búum og framleiðum mjólk, þekkjum frá fyrri reynslu, hvað óendanlega það hefur mikið að segja, að flutningarnir séu í höndum félaga og stofnana, sem hafa til þess kraft og þrótt að leysa flutningana vel af hendi. Það segir sig sjálft, að þeir, sem hafa lítinn bílakost, geta tapað á þessu og síðan sagt upp með litlum fyrirvara, og þá eru ekki aðrir tilbúnir að taka samstundis við, og allt getur lent á ringulreið.

Þá hefur einnig verið séð um það, að þeir, sem hafa búið lengra frá búinu, hafa borgað tiltölulega miklu lægra verð en þeir, sem búa næst búinu. Sú regla var tekin upp strax, að Flóamenn borguðu fyrir flutningana sama verð og við austur í Rangárvallasýslu. (IngJ: Það er ekki satt). Jú, einn eyri. Þeir borga hálfan, sem eru allra næst búinu, en þegar kemur út fyrir hreppinn, þá er það einn eyrir. Það, sem umfram er greitt, sé sameiginlegur sjóður búsins. Þessu vill hann breyta. Ég held, að það sé ekki í hag fyrir hans umbjóðendur, því að ef þetta gengi fram, þá mundi flutningskostnaðurinn stórhækka. Ég býst ekki við, að hægt sé að fá flutningana fyrir lægra verð en nú er, en það er einn eyrir á kg í Mjólkurbú Flóamanna. Ég býst við, að eftir því sem flutningar eru nú, þá þyki það ákaflega lágt í farið. Frá mínu heimili til Flóabúsins eru 50 km. Þó borga ég ekki nema einn eyri, og þannig er það úr Rangárvallasýslu. Ég býst ekki við, að Rangæingar yrðu því neitt þakklátir, ef ætti að reikna flutningskostnaðinn eftir kílómetrafjölda, því að þá verður kostnaðurinn, miklu meiri hjá þeim, sem búa lengra burtu, en nú er. Ég hefði getað skilið, að þessi umkvörtun hefði komið frá þeim, sem búa næst Flóabúinu og hafa fram að þessu greitt tiltölulega miklu hærra gjald en þeir, sem fjær eru, en nú vill hv. 2. þm. Rang. koma því inn, að þeir borgi meira, sem fjær búa. Það kann að vera sanngirniskrafa, en þó höfum við Rangæingar unað því vel fram að þessu, að þeir, sem nær búa, tækju nokkurn þátt í þeim erfiðleikum, sem við eigum við að stríða vegna vegalengdar. Ég býst líka við því, að þeir, sem búa enn þá lengra burtu en ég og hann, verði ekki hrifnir af að borga víst á km. því að þá mundi flutningsgjaldið stórhækka frá því, sem nú er. Við höfum undanfarin ár á þeim fundum, sem haldnir hafa verið, verið Árnesingum mjög þakklátir einmitt fyrir það, að þeir hafa hér sýnt fullkominn skilning og félagsþroska. Það munar að vísu ekki eins mikið um þetta nú og meðan verðið var mjög lágt á mjólkinni, en það hefur þó mikið að segja, að þeir, sem fjær búa, þurfi ekki að borga flutningsgjaldið eftir kílómetrataxta.

Einræðistal hv. þm. er alveg út í bláinn, því að þetta er mál, sem rætt er á aðalfundi, þar sem kjörnir fulltrúar úr hverri sveit á öllu félagssvæðinu, sem er Rangárvallasýsla, Árnessýsla og hluti af Vestur-Skaftafellssýslu, eiga sæti, og þar ræður afl atkv. Á þessum fundi, sem haldinn var í vor, þegar þetta tilboð hv. þm. f. h. síns félags lá fyrir, var það borið upp eins og önnur mál, sem aðalfundur átti um að fjalla. 34 fulltrúar voru með að halda flutningunum eins og þeir væru, vildu ekki breyta til, en 4 voru á móti, vildu breyta eitthvað til. Eins og ég gat um, var formaður stjórnarnefndar Þórs á móti og hélt ræðu, þar sem hann lýsti ánægju sinni yfir, hvernig flutningunum væri nú hagað, og óskaði ekki eftir breytingu. g býst því við, að það sé alveg einstakt eftir þessa afgreiðslu málsins að fara að bera. fram frv. um að setja l. á Alþ. til að koma þessum málum í lag hjá okkur. Þess er engin þörf, þau eru í fullu lagi, og ég fullyrði, að meginþorri þeirra manna, sem á svæðinu búa, eru ánægðir og óska engra breyt. Ég hefði gaman af að sjá hjá hv. samþm. mínum undirskriftir og nöfn þeirra 150 manna, sem hann gat um, að væru óánægðir og vildu fá breyt.

Þá vil ég ekki láta hjá líða að minnast á það, sem hv. þm. sagði, en ég veit, að hann hefur sagt í óaðgæzlu í reiði, þegar hann var að tala um, að hann væri eini maðurinn austan Þjórsár, sem reyndi að standa móti einræðisbrölti Egils Thorarensens. Hann stimplaði þar sína umbjóðendur og Rangæinga sem flokksþý og flokksþræla. Þetta kom mér merkilega spánskt fyrir, og ég fullyrði, að hv. þm. hefur sagt þetta í reiði og ekki vitað, hvað hann var að segja, og ég vil gefa honum kost á að taka þessi orð sín aftur. (IngJ: Ég vona, að þingskrifararnir hafi skrifað það, sem ég sagði). Hann sagði: Ég er eini maðurinn, sem stend á móti þessu brölti Egils Thorarensens, allir aðrir eru flokksþrælar og flokksþý. — Ég býst við, að hann hafi ekki athugað, hvað hann var að segja, og vil ég gefa honum kost á að taka þetta aftur. Nei, ég veit ekki betur en að við Rangæingar höfum byggt upp okkar samvinnufélagsskap og starfað í samvinnufélögum í meira en 20 ár. Við höfum átt þar við ýmsa erfiðleika að stríða, og ég kæri mig ekki um hér á þingi að lýsa afskiptum þessa hv. þm. af þeim málum, ég tel, að Alþ. komi það ekki beinlínis við, og ég held, að það yrði honum ekki til mikils sóma, þó að farið væri að rekja það nánar. Það hefur verið á það bent af hv. 1. þm. Árn., hvernig ráðsmennskan hafi verið við Ölfusbúið hér á árunum, þegar verðið, sem menn fengu fyrir mjólkina, nægði ekki fyrir flutningskostnaði. Ég skil þennan hv. þm., ef það er þetta, sem hann vill nú koma á aftur. Hann vann að þessu í eitt eða tvö ár að halda þessum mönnum í úlfakreppu, þ, e. a. s., þeir vildu fyrir ímyndaða flokkshagsmuni halda tryggð við þetta bú, þó að þeir væru svo langt leiddir, að einn og einn var að slitna af seilinni og voru að laumast með sína brúsa í dimmunni niður á veg til að koma þeim í Flóabúið, þangað til svo var komið, að mjólkurverðið, sem bændur fengu í Ölfusbúinu, varð hvergi nóg fyrir flutningskostnaði. Þessa máls eru bændur austan fjalls enn þá minnugir og óska þess ekki, að upp fari að koma sams konar togstreita og þá milli tveggja búa. Nú hefur verið full eining um þetta, og yfirleitt hafa bændur verið mjög ánægðir, enda hefur verið reynt eftir megni að halda þannig á málunum, að þeir gætu verið það. Ég veit það líka með vissu, að bæði Rangæingum og Árnesingum er vel ljóst, að það verður þeim ekki til neins góðs, ef á nú á ný að koma þar af stað sundurlyndi og sundurþykkju um þessi mál. Við erum búnir að fá nóg af því meðan búin voru tvö og óskum ekki eftir neinni togstreitu eða klofningi hjá þessu eina félagi, þegar þar ríkir full ánægja hjá öllum þorra þeirra manna, sem við það skipta. En mér er ekki grunlaust um, að þetta sé gert í þeim tilgangi að reyna að spilla fyrir, af því að einingin milli bænda sé óþarflega mikil, og það sé þess vegna, sem vissum mönnum og flokkum hér á þ. þyki svo vænt um þetta frv., af því að það sé til þess fallið að sundra þeim, sem saman eiga að standa.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð miklu fleiri, en ég vænti þess, að sú n., sem fær þetta mál til athugunar, athugi vel, hvort það eigi, þótt 4 fulltrúar á öllu svæði Mjólkurbús Flóamanna vilji haga flutningunum eitthvað öðruvísi, að fara að setja löggjöf, sem nær um allt land, um slík mál, án þess að fyrir þ. liggi nokkur rökstudd beiðni eða umkvörtun á nokkurn hátt þessu viðvíkjandi nema frá þessum 4 mönnum á aðalfundi Mjólkurbús Flóamanna, sem létu þó enga óánægju í ljós, en hefðu kannske heldur kosið einhverja aðra leið. Ég lít svo á, að svona mál eigi menn í hvert skipti að útkljá sjálfir sín á milli. Þetta er mál þessa félags, þeirrar félagsheildar, bænda á Flóasvæðinu, en ekki löggjafarvaldsins eða ríkisstj. að svo komnu máli. Þetta er mál, sem á að útkljá heima í félaginu, en ekki á Alþ. Ég held, að það sé alveg nóg að taka af bændum allt vald yfir verðlagningu á framleiðslu þeirra, eins og nú er verið að gera, þó að ekki sé bætt gráu ofan á svart með því að setja l. um, hvernig þeir eigi að flytja mjólkina og kjötið og hvað sem er í mjólkurbú eða á sölustað. Þessu hafa þeir ráðið sjálfir og geta eins gert það framvegis, og þeir gera kröfu til að ráða því áfram án þess að fá l. um það frá þinginu.

Ég hef svo ekki um þetta fleiri orð. Ég vænti þess, að n., sem fær þetta mál til meðferðar, athugi það vel, því að þess er sannarlega þörf, áður en farið er að setja um það l. frá Alþingi.