05.12.1945
Sameinað þing: 11. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 461 í D-deild Alþingistíðinda. (4635)

48. mál, hlutleysi útvarpsins

Flm. (Jónas Jónsson) :

Herra forseti. Vegna þess að nokkuð er liðið frá síðustu umræðum um þetta mál, vil ég leyfa mér að lesa upp till. þá til þál., sem ég flyt á þskj. 54, með leyfi hæstv. forseta: „Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að tryggja hlutleysi útvarpsins frá því, sem nú er, m. a. með því að láta fara fram fullkomna ritskoðun á öllu útvarpsefni undir yfirumsjón útvarpsráðs og á þess ábyrgð.“

Tilefni þessarar till. er það, að Björn Franzson hafði haldið ræðu í Ríkisútvarpið, þar sem hann var að gera grein fyrir því, að stjórnarfar það, sem nú ríkir í Austur-Evrópu, væri hið fullkomnasta lýðræði. Flestum þótti að vonum þetta vera mikil afglöp, og kom það fram bæði í fundarsamþykktum og öllum blöðum bæjarins nema Þjóðviljanum. En þá hélt þessi maður aftur ræðu í útvarpið og deildi fast á ýmsa menn, m. a. á ritstjóra Alþýðublaðsins. Eftir þetta urðu greinir nokkrar milli útvarpsráðs og ráðuneytis þess, er útvarpið heyrir undir, og skal síðar að því vikið.

Það mun öllum ljóst, að meiri gæzlu þarf við þessa stofnun en verið hefur, og er í þessari till. bent á þá einu leið, sem fær er. Það er að skipa hlutlausa menn til að dæma um það efni, sem flytja skal. Um þetta urðu nokkrar umræður hér á Alþingi, og taldi formaður útvarpsráðs ógerlegt að koma á slíkri endurskoðun. Ég var ekki alls kostar ánægður með röksemdir hans og tel, að ekki sé meiri ófæra að endurskoða þetta en margt annað.

En svo að ég víki aftur að ræðu Björns Franzsonar, þá var hún, eins og áður er sagt, um lýðræðið í Rússlandi. Í þessu sambandi er rétt að geta þess, að Stalin, æðsti maður kommúnista, hefur samkvæmt tilkynningu í Þjóðviljanum tekið sér leyfi, og nokkru síðar er aftur tilkynnt, að hann hafi framlengt leyfi sitt. En það, sem einkennilegt er við þetta, er það, að útsendarar kommúnista hér á landi hafa einnig tekið sér leyfi til eins og annars, og má þar fyrstan til nefna yfirmann útvarpsins, hæstv. menntmrh. Ég geri nú ráð fyrir, að þessar umr. hljóti að snúast um, hversu þessar leyfisveitingar þessa æðsta manns kommúnista og manna hans séu æskilegar fyrir land og þjóð. Þá er þess fyrst að minnast, að þessi hæstv. ráðh. tók sér leyfi til að segja allmikið ósatt viðvíkjandi mér fyrir skömmu. Hann las hér upp bréf, sem ég mun koma að síðar. Þá vildi hann halda því fram, að ég hafi viljað gera útvarpið að tæki míns flokks. Þetta hefur nú verið hrakið af útvarpsstjóra, en ég ætla samt að taka það fram, að ég hef ekki í 15 ár gert tilraun til að hafa áhrif á mannaval við útvarpið. Þetta leyfi hæstv. ráðh. er því allmikið. Það, sem hann fór hér með, voru ekkert annað en tóm ósannindi. Þá hélt hann því fram, að hv. þm. Str. hafi reynt að kúga útvarpsstjóra. En daginn eftir birtir útvarpsstjóri grg. hér í dagblöðunum, sem tætir sundur staðhæfingar hæstv. ráðh. Annars fer ég ekki út í þetta nema að því leyti, sem það varpar ljósi á málið sjálft.

Fyrirsögnin um þessa kúgunartilraun þm. Str. var endurtekin í Þjóðviljanum, en greinargerð útvarpsstjóra kom þar ekki. (Menntmrh.: Hún kom í Þjóðviljanum, og mun flest annað álíka sannleikur hjá hv. þm.). Þá hefði líka átt að fylgja skýrsla um iðrun og yfirbót, en það hefur enginn séð. Útvarpsstjóri segir í þessari greinargerð, að þm. Str. hafi ekki gert neina slíka tilraun, heldur hafi sú breyting, sem til stóð, stafað af sparnaði, en ekki af pólitískum áhrifum, enda er augljóst, að ef hreinsa hefði átt til, þá hefði það verið talsvert dagsverk okkar í fjvn. að koma slíku í kring. En þetta þarf raunar engra skýringa, þar sem greinargerð útvarpsstjóra gerir það fullvel, en sú greinargerð kom víst líka í kommúnistablaðinu.

Þetta var um leyfisveitingar hæstv. ráðh. viðvíkjandi mér. Ósannindi hans hafa verið hrakin af útvarpsstjóra, og skal ég ekki yrkja þann akur frekar.

En svo hefur þessi hæstv. ráðherra tekið sér leyfi viðvíkjandi útvarpsstjóra og sést þar bezt, hver andi ríkir yfir vötnunum hjá kommúnistaráðherranum. Einnig réðst hann hér með offorsi miklu á hv. 6. þm. Reykv. út af hans hógværu ræðu og hótaði að segja af sér ráðherraembættinu og taldi það víst verulega hótun! Þá hefur hæstv. menntmrh. veitt sér leyfi viðvíkjandi manninum Jónasi Þorbergssyni, þar sem hann tekur bréf, einkabréf, sem hann hlýtur að hafa komizt yfir með embættiskúgun, þar sem það er ekki venja fólks að láta slík bréf af hendi, enda sést bezt á mótmælum útvarpsstjóra, að hann hefur misnotað þessi bréf.

Þegar þessari hlið málsins er lokið, kem ég að annarri, sem ekki verður farið fram hjá, en það eru óþarfaleyfisveitingar þessa hæstv. ráðh. við útvarpið sem stofnun. Í þessu sambandi verður ekki komizt hjá að víkja að bréfi útvarpsstjóra til mín, sem hæstv. ráðh. las hér upp úr, og þá um leið að manninum Jónasi Þorbergssyni.

Það er svo um marga menn, að tímaskipti verða í lífi þeirra, og má skipta ævinni í tvo meginhluta. Þannig er það t. d. með Múhameð: Fyrri hluta ævi sinnar er hann venjulegur og lítt merkilegur maður, en eftir flóttann frá Mekka er hann öllu merkilegri persóna, eins og kunnugt er. Á svipaðan hátt má skipta ævi Jónasar Þorbergssonar í tvö tímabil, fyrra tímabilið, meðan hann var framsóknarmaður og allt gekk honum til vegs og sóma, og síðara tímabilið, eftir að hann komst undir áhrif kommúnista. En sá er munur á Jónasi og Múhameð, að síðari hluti ævi Múhameðs er merkur, en síðari hluti ævi Jónasar miklu fremur ómerkur, en að svo fór, mun stafa af áhrifum þeim, sem hann hefur orðið fyrir af kommúnistum. Ég tel rétt, að ég segi frá því, að einu afskiptin, sem ég hef haft af mannaráðningu við útvarpið, eru þau, að ég benti eitt sinn á, að vanda þyrfti betur val á mönnum, og hafði þá einkum í huga að halda óreglu burt frá þessari stofnun. Þessar bendingar hafði útvarpsstjóri að engu. Því miður. Þessar bendingar gaf ég af því að ég sá, hvert stefndi, og vildi beina útvarpsstjóra á rétta braut, ef þess væri nokkur kostur, og fer mönnum löngum svo. Ef ég sæi t. d. hæstv. kennslumálaráðherra vera að hrapa, þá mundi ég reyna að kippa í hann á síðustu stundu, mundi ekki kunna við að láta hann farast þannig. — En það sýndi sig síðar, að betra hefði verið að fara að mínum ráðum í þessu efni. Í fyrstu var útvarpsstjóri heppinn með menn að útvarpinu, en eftir að hin austrænu áhrif byrjuðu, af ástæðum, sem mér eru ekki kunnar, — skal ekki segja um, hvort hæstv. kennslumálaráðh. hefur þar átt hlut að — fór allt miður um mannavalið. Má í því sambandi minnast á einn mann, sem að ýmsu leyti var góður starfsmaður, en fremur óreglugefinn, svo að þegar hann fór frá stofnuninni og farið var að taka til í vistarveru hans, var þar fullur skrifborðsskápur af tómum flöskum. (Menntmrh.: Hvaða maður var þetta?) Hæstv. ráðh. getur aflað sér upplýsinga um það hjá sömu heimildarmönnum og hann fékk bréfin hjá. Hvað segir svo þessi arfur í skrifborðsskápnum? Hann segir það, að þarna hafi verið drukkið. Að vísu hefur plássið í skrifborðsskápnum e. t. v. ráðið nokkru, hve mikið hefur verið drukkið. Það er mest fyrir það, að ég vil hlífa hæstv. ráðh., að ég fer ekki út í að lýsa, hver áhrif slík veizluhöld geta haft fyrir eina stofnun. En ég gæti getið um dæmi, sem er enn þá nær hæstv. ráðherra. En það var þegar skrúfað var fyrir einn ágætan ræðumann og sagt, að það hefði orðið bilun. Að vísu var það rétt, að hér var um eins konar bilun að ræða, eins konar leyfisveitingu. Biðin, sem varð, var auðvitað sú stund meðan útvarpsstjóri var að framkvæma sitt húsbóndaverk og segja fyrir, hver skyldi tala næst. Ég vil benda hæstv. menntmrh. á, að þarna kom það fram, sem ég hafði séð fyrir, þegar farið var að ráða fólk að útvarpinu, sem tekur sitt leyfi sjálft. Menn geta hugsað sér, að þá er langt gengið, þegar útvarpsstjóri hlutast þannig til, og mun þá hlustendum vera nóg boðið.

Loks kem ég að því, þegar nokkuð af þessu lausafólki var farið að ráðast á aðra starfsmenn þessarar stofnunar. Árásin var þannig gerð, að hægara var að bera hana fram en hrinda henni. Dæmi af þessu tagi eru mjög kunn. Það var sem sagt kominn lausingjalýður inn í útvarpið, sem ekki átti að vera þar.

Nú höldum við sögunni áfram, og af hagkvæmum ástæðum, til að lengja ekki mál mitt um of, er ekki vert að nefna fleiri dæmi. Þetta var dæmi um það, að ekki var farið eftir hógværum tillögum mínum um starfsmannaval útvarpsins, og hefur það nú mistekizt hrapallega þegar það kemur á daginn, að manni eins og Birni Franzsyni er hleypt að útvarpinu, sem er gegnsýrður af ofstækistrú á bolsana í austri og trúir og fylgir ofbeldisstefnu þeirra. Nú hefur auðvitað þessi maður álitið sér óhætt að færa sig svona upp á skaftið, úr því að yfirmaður stofnunarinnar, útvarpsstjórinn, var á sömu hillu og hann. Þessi starfsmaður heldur ,,fræðifyrirlestur“ í útvarpið, vafalaust án þess að gera sér grein fyrir, að hann er að brjóta hlutleysi útvarpsins, og hann tekur að lýsa hinni svörtustu kúgun sem lýðræði. Það mætti alveg eins opna tjörukagga og segja: Þetta er hvítt, þetta er skjannahvítt. En þessu vildi þjóðin bara ekki trúa. Fræðimaðurinn var viss um það, að austræna „lýðræðið“ væri það fullkomnasta lýðræði, sem þekkzt hefur á jarðríki. Með svona löguðu er vissulega hægt að misbjóða því fólki, sem hlýðir á útvarp. — Nú vita allir, að þetta var gagnrýnt í blöðunum — nema auðvitað Þjóðviljanum — og meira að segja tvö Sjálfstæðisflokksfélög víttu harðlega þennan erindaflutning Björns Franzsonar. Niðurstaðan varð sú, að hv. 1. þm. Reykv., sem er form. útvarpsráðs og er maður gæddur miklum mildileik og langlundargeði og veit, hvílíkt brekabarn hæstv. menntmrh. er, tekur fyrir á fundi í útvarpsráði tillögu, sem hafði verið borin þar fram, þar sem deilt var harðlega á þessa framkomu Björns Franzsonar í útvarpinu, og var form. falið að ræða við Björn, en árangurinn af því virðist hafa verið sorglega lítill. Næst þegar Björn Franzson flytur erindi, sem líktist einna helzt eldhúsræðu, ræðst hann með afskaplegu offorsi á andstæðinga sína og alveg sérstaklega á hálfbræður sína við Alþýðublaðið. Ég skal játa, að ég heyrði ekki nema seinni hluta þessa erindis, og ég hef heyrt af ræðum manna, að þeim hafi alveg sérstaklega blöskrað æsingurinn og tónninn hjá ræðumanni, sem átti alls ekki heima á þessum stað. — Þegar umræður urðu um þetta í útvarpsráði, mun hæstv. menntmrh. sjálfur hafa lýst víginu á hendur sér til þess að reyna að forða Birni. Ég hygg nú samt, að Björn Franzson hafi sjálfur samið ræðu sína upp á sitt eindæmi. Nú skal ég ekki þræta fyrir það, en hygg þó, að ráðh. hafi gert sig að verra manni en hann þurfti, og var þó sannarlega ekki á það bætandi.

Ég hleyp hér yfir þann þátt, sem er viðvíkjandi útvarpsstjóra, en held áfram viðskiptum, sem átt hafa sér stað innan stjórnarfjölskyldunnar, þar sem hæstv. kennslumálaráðherra var í miklum grimmdarhug, er hann heyrði, að sjálfstæðismenn höfðu leyft sér að hafa þá skoðun, að útvarpið væri ekki rekið í alla staði eins og það ætti að vera. Hv. 1. þm. Reykv. sér þó brátt, að ekki má við svo búið standa og fær samþ., gegn atkvæðum kommúnistans í útvarpsráði, að Birni Franzsyni er ekki leyft að flytja erindi frá útlöndum í útvarpið, en til þess er ráðinn annar maður. Svo höldum við áfram með söguna. Ef hæstv. ráðh. finnst hér vera farið óþarflega nákvæmt út í hlutina, getur hann borið saman mína fyrri ræðu og svo sinn bréfalestur, og hygg ég, að hann geti þá ekki mikið sagt. Næst tekur hæstv. ráðh. sig til og skrifar útvarpsráði hirðisbréf, þar sem hann reynir að kúga það til að hafa Björn Franzson áfram. Þetta sýnir glögglega, að honum er alls ekki ljós verkaskiptingin í útvarpinu. Útvarpsráð er kosið af Alþingi og starfar það samkvæmt þess fyrirsögn, en ekki ráðh. En ráðh. er svo vanur að heyra frá Rússlandi alls konar kúgunaraðferðir, að hann heldur, að hann geti leyft sér að nota hið sama hér, en hér er bara allt annað skipulag en í Rússlandi. En þá skrifar útvarpsráð honum bréf á kurteisan hátt og gefur honum í skyn, að það þurfi ekki á hans ráðleggingum að halda. Hér var einræðishneigð ráðh. í algleymingi, og er hann hafði haldið sína bréflestrarræðu, sneri hann tilfinningum sínum mest upp á hv. 1. þm. Reykv. Og alveg eins og Daði í Snóksdal tók Jón Arason höndum forðum í þoku, þannig hitti ráðh. hv. 1. þm. Reykv. í stofu nokkurri, sem er allskammt í burtu héðan, þar sem hann var staddur sem gestur á nefndarfundi úr Nd. Ráðh. veittist svo að þessum fyrrnefnda þm., að hann neyddist til að biðja fundarstjóra áðurgreindrar nefndar um vernd. Eftir að þessu var lokið flutti hv. 1. þm. Reykv. sig á annan stað hér í þinginu, og fylgdi hæstv. ráðh. honum þegar eftir. Urðu ræður þeirra á milli, og hæstv. ráðh. gefur hv. þm. í skyn, að hann gæti krafizt þess, að Alþ. setti þá löggjöf, sem hann yrði að beygja sig fyrir.

Þetta er ekki svo mikilvægt í sjálfu sér, en það sýnir, að það er ekki alveg hættulaust fyrir landið, að menn með svona hugsunarhætti hafi um of áhrif á stofnanir. En þessi deila hæstv. ráðh. og hv. 1. þm. Reykv. liggur nú í salti.

Síðan ber það við, er hæstv. ráðh. hélt hér ræðu síðast um þetta efni, að hann misnotar bréf útvarpsstjóra. Úr því að ég er farinn að tala um þessi bréf, held ég, að mér sé óhætt að segja, að þar kenni greinilega persónulegrar gremju og kala til mín, eins og oft á sér stað um menn, sem snúa frá sinni fyrri trú og fara villir vegar, en í bréfum þessum kom ekkert fram, sem sannaði skoðun hæstv. ráðh.

Þó að útvarpsstjóri haldi því fram í dularfullum bréfagerðum, að gætt hafi tilhneigingar hjá okkur hv. þm. Str. að leggja undir okkur útvarpið, þá heldur hæstv. ráðh., að við séum eins og hann að reka fólk brott að ástæðulausu, þó að honum sé ákaflega auðvelt að sópa fólki burtu, eins og kemur fram í blaði ráðh., Þjóðviljanum, nú síðustu dagana, er blaðið leyfir sér að halda því fram, að það beri að reka Pálma Loftsson frá starfi sínu, þó að allt það, sem sósíalistar hafa gert, mundi engan veginn vega salt á móti því, sem þessi eini maður hefur komið í framkvæmd, og samt er þetta blað svo svívirðilegt að leyfa sér að birta aðra eins ósvífni og þessa. Ég vil benda þessum mönnum á það, að skip þessi eru gerð eftir beztu fyrirsögn enska sjóliðsforingjaráðsins úr hinu vandaðasta efni, og samt leyfa þessir fáfræðingar sér að halda því fram, að skipin séu ónýt. Ég veit, að framtíðin á eftir að sýna, að íslenzkir sjómenn eru ekki þeir aumingjar að geta ekki siglt á skipum þessum alveg eins og enskir sjómenn. Ég öfunda ekki hæstv. ráðh. þegar hann stendur feiminn og skömmustulegur frammi fyrir dómi íslenzkra sjómanna og á að svara til saka eftir að hafa gefið íslenzkum sjómönnum þennan glæsilega vitnisburð.

Ég hef gert þennan útúrdúr hérna, af því að ég taldi það rétt, þar sem þessi hæstv. ráðh. var að tala um frumhlaup hjá mér, og enn fremur þar sem þessi hæstv. ráðh. hefur ráðizt á íslenzka sjómenn og enska „admiralty-ið“ og auk þess þann mann, sem mest og bezt hefur unnið fyrir íslenzku skipaútgerðina.

Eftir að þetta hafði farið fram og hinn óhöndulegi bréfalestur ráðh. — því að hann hafði ekki nema eina nótt til að búa sig undir og lesa þessi bréf, enda voru þau ekki vel skrifuð, þar sem þau eru frá seinni tíma útvarpsstjóra, og útvarpsstjóri hafði svo lesið kveðju hæstv. ráðh. í blöðunum daginn eftir umræðurnar hér í þinginu, sér útvarpsstjóri, að ekki tjói að sökkva þannig í bát ráðh., því að útvarpsstjóri er greindur maður og sá, að ekki mátti við svo búið standa vegna þessarar hastarlegu framkomu ráðh. Og sýndi útvarpsstjóri þá, að menn búa lengi að góðu uppeldi, og hreinsaði hann sig algerlega undan áburði ráðh. Í yfirlýsingu útvarpsstjóra kemur það greinilega í ljós, þótt hann segi það ekki berum orðum og orði það á kurteisan hátt, að hann treystir alls ekki ráðherra. Er þetta á sinn hátt hliðstætt frásögninni í Grettissögu um Gretti og hryssuna Kengálu. Þá er hinn ungi Grettir var heima á Bjargi og Ásmundur faðir hans fékk honum þann starfa að gæta hrossa sinna, sagði hann við son sinn, að hann skyldi hafa heimfýsi Kengálu til marks, er hrossin vildu ganga í hús. Mælti þá Grettir, eins og frægt er orðið : „Illt þykki mér at treysta merinni, því at þat veit ek engan fyrr gert hafa.“ Þessi orð voru raunar ekki í yfirlýsingu útvarpsstjóra, en hugur útvarpsstjóra var alveg sá sami og hjá Gretti, hann vill ekki treysta ráðherranum.

Ég hef nú minnzt á mest af því, sem fram hefur farið í þessum umræðum, og ég vil ítreka það, að ég held, að þjóðinni finnist nóg um leyfisveitingar hæstv. ráðh. og hans líka. Auðvitað hafa menn ekkert að athuga við það, þótt erlendir hershöfðingjar í Rússlandi eða Stalín taki sér leyfi. Það kemur okkur ekkert við.

Nú hefur komið glöggt fram í síðustu umræðum, hve mjög hæstv. ráðh. stendur einn með að verja Björn Franzson. Með því hefur hann móðgað bæði Alþfl. og Sjálfstfl. og einnig reynt að sverta framsóknarmenn.

Það er nú augljóst, að Sjálfstfl. er farinn að finna nokkuð til eins og útvarpsstjóri, því að hv. 6. þm. Reykv. tók sömu afstöðu og ég, en auðvitað kunni hæstv. kennslumálaráðherra ekki að meta slíkt. Ég vil segja það eins og ég hygg, að sé skoðun hins algenga borgara í landinu, að ég gladdist þegar góðir menn voru ráðnir að útvarpinu, en varð hryggur er miður fór. Á þingi 1939 voru gerðar ráðstafanir til að tryggja það, að ekki réðust nema vandaðir starfsmenn að útvarpinu, og hygg ég, að borgaraflokkunum hafi fundizt, að vel væri fyrir þessu séð. Hvernig ríkisstjórnin notaði heimild þessa, skipti ég mér ekki af. Þingið hafði gert skyldu sína og næst var það ríkisstjórnin, sem átti að framkvæma, og má e. t. v. ásaka hana fyrir að hafa ekki gengið betur fram. Þannig var það alltaf mín hugmynd að reyna að vanda sem bezt starfsmannaval útvarpsins og alla reglusemi til að hindra, að nokkuð gæti hent stofnunina, sem henni væri óvirðing að. Enn fremur að lesið yrði yfir allt efni, sem flutt er í útvarpinu, það er m. ö. o. tilraun til að hafa útvarpið eins og fólkið vill, og ég fullyrði, að þar sem Morgunblaðið, Alþýðublaðið og Vísir heimta, að svo sé, þá er það dómur þjóðarinnar og er það sama og þjóðin sjálf.

Svo kem ég nú að því, sem hæstv. ráðh. féll þyngst, er borgarstjórinn í Reykjavík sagðist álíta, að bezt væri að leggja fréttastofuna undir útvarpsráð, en hafa hana ekki undir umsjón útvarpsstjóra og ráðh. Þá sprakk blaðran. Ráðh. þoldi þetta ekki og tók nú upp þá aðferð, sem hann áleit kröftugasta og að bezt mundi duga, en það var að hóta rofi á stjórnarsamvinnu, ef hreyft yrði eitt hár á höfði hans. En þegar að er gáð, sjá allir óblindir menn, að það, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði, er einmitt það, sem allir skynsamir menn álíta. Þeir treysta betur 5 manna ráði til þess að hafa á hendi stjórn fréttastofunnar en útvarpsstjóra og ráðh. En það, að ráðh. vill ekki missa tökin á fréttastofunni, sýnir ljóslega, að hann ætlar sér að misnota aðstöðu sína sem yfirmaður útvarpsins.

Að síðustu vil ég beina þeirri ósk til þeirrar n., sem mun fjalla um þetta mál, að taka til athugunar útvarpsefni, sem flutt er á Norðurlöndum og gera ráðstafanir til að tryggja betri og hlutlausari fréttaflutning en nú er. Mér er sagt af mönnum, sem þar til þekkja, að á Bretlandi sé allt efni lesið vandlega yfir áður en það er flutt, ekki einungis til að tryggja hlutleysi útvarpsins, heldur til þess að mál og framburður sé eins og bezt verður á kosið. Í þessu felst auðvitað ekkert vantraust á Björn Franzson hvað mál hans og framburð snertir, til þess vantrausts liggja aðrar og dýpri orsakir. Ef hæstv. menntmrh. hefði ekki séð ástæðu til að fara að draga ákveðnar persónur inn í þessar umræður, hefði ég ekki gert það heldur. En nú er um það að ræða að tryggja það sem bezt, að útvarpið verði réttlát og hlutlaus stofnun.

Ég álít, að það út af fyrir sig sé heppilegt, að hæstv. ráðh., sem nú fer í bili með æðstu völd við útvarpið, hefur nú með nokkrum hætti opinberað sig hér eins og orðið er, þannig að þjóðin veit nú glöggt, að hverju hún gengur. Einmitt þessi deila hans við borgarstjórann í Reykjavík hefur orðið til þess að varpa glöggu ljósi yfir það, að hæstv. ráðh. vill hafa útvarpið handbært í ákveðnum tilgangi, hvað sem þjóðin segir.