05.12.1945
Sameinað þing: 11. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 476 í D-deild Alþingistíðinda. (4637)

48. mál, hlutleysi útvarpsins

Bjarni Benediktsson:

Ég skal nú ekki blanda mér mikið í þær umr., sem um þetta mál hafa verið í kvöld. Sannleikurinn er sá, að sá ævisagnalisti og sú málfærslugreinargerð, sem hefur brotizt út í umr., skiptir ekki ýkja miklu máli fyrir kjarna þess umræðuefnis, sem hér er til íhugunar. Varðandi ævisögurnar er það því miður svo, að flest af því, sem ræðumenn segja hver um annan og misjafnt er, er satt, og er það ekki til slíkrar ánægju, að vert sé að hafa um það fleiri orð. Varðandi málfærsluflutning hv. 2. þm. Reykv., þá kom þar þó fram ein mjög merk viðurkenning, sem stríðir gegn hans kennisetningu yfirleitt og varðar töluvert kjarna þessa máls. Hv. þm. sagði, að flokkaskipting í hverju landi færi mjög eftir þjóðlegum og sögulegum ástæðum þar, og það væri algerlega rangt, villandi og óvinnandi verk að bera saman flokka í mismunandi löndum. Þetta er að meginefni til alveg rétt, en þetta brýtur algerlega í bága við kenningu hinna sósíalistísku flokka. Þeir telja, að höfuðatriði flokkaskiptingar í öllum löndum séu hin sömu og eftir ákveðnum meginreglum, þannig, að náskyldir flokkar séu raunverulega til í öllum löndum þar sem flokksskipting þekkist, og á þessu byggja einmitt hinir sósíalistísku flokkar alþjóðasambönd sín, sem þeir a. m. k. fram að þessu einnig hafa viljað taka þátt í af Íslands hálfu. Nú kemur hv. 2. þm. Reykv. og neitar þessari kenningu og segir, að flokkaskipting í hinum ólíku löndum sé svo ósambærileg. Þetta er rétt, en algerlega ný kenning úr þessum herbúðum, þar sem hún er flutt nú. Hún er einnig þeim mun eftirtektarverðari, þar sem þessi hv. þm. og hans skoðanabræður hafa talið gilda svo fast lögmál um flokkaskiptingu, að þeir segja, að í þjóðfélagi, þar sem viss atvik séu fyrir hendi, þar geti engin flokkaskipting átt sér stað. En samkv. þeirri kenningu, sem hv. 2. þm. Reykv. nú hélt fram um að hin algildu lögmál, sem sósíalistar hafa haldið fram, væru ekki til, þá er auðvitað þessi kenning þeirra einnig úr sögunni. Það er vissulega eftirtektarvert og mikilsvert að fá játningu frá jafnsterkum fræðimanni í þessum efnum og hv. 2. þm. Reykv., um að allar þeirra fyrri kenningar í þessum efnum séu á sandi byggðar.

Ég ætla heldur ekki að fara að deila við hv. 2. þm. Reykv. um það, frá hvaða útvarpsstöðvum eigi að taka fregnir í íslenzka útvarpið. Ég hef aldrei fundið að því, að birtar væru fregnir frá Rússlandi, og tel ég, að að svo miklu leyti sem fregnir frá Moskva eru raunverulegar fregnir frá Rússlandi, að þá sé rétt, að Íslendingar fái vitneskju um þær. Það, sem að hefur verið fundið, og það er ekki að ástæðulausu, er það, að fregnir frá Moskva, sem birtar eru í íslenzka útvarpinu, hvort sem það er forráðamönnum íslenzka útvarpsins að kenna eða þar liggja til aðrar ástæður, þær hafa á sér allt annan svip en fregnir frá öðrum löndum. Fregnir frá Moskva ganga yfirleitt í þá átt að básúna ágæti þess skipulags, sem í Rússlandi gildir, eða eru beinar umsagnir frá rússneskum stjórnaryfirvöldum um ástandið í öðrum löndum, þar sem aftur á móti fregnir frá öðrum útvarpsstöðvum, sem hér er hlustað á, eru frásagnir af staðreyndum. Þessu veit ég, að allir hlustendur hafa tekið eftir, og ég ber það traust til skynsemi íslenzkra útvarpshlustenda, að þeir geri þar upp á milli, þegar þeir hlusta á þessa fyrirlesara. Þessir fyrirlestrar eru að vissu leyti einnig lýsing á mismunandi viðhorfi valdhafanna í hverju landi um sig. Hitt verð ég þó að segja, að óþarft er og ekki til uppbyggingar fyrir neinn þegar útvarpið er að lesa hér upp, eins og komið hefur fyrir, að Moskvaútvarpið hafi sagt, að opinber blöð í Bandaríkjunum hafi farið mörgum orðum um það, hve frjálslegar kosningarnar hafi verið í Búlgaríu og öðrum þeim löndum, þar sem almenningi hér á landi er fullkunnugt af öðrum fregnum eftir heimildum þar, að þessar kosningar voru með öllu áfrjálsar. En þó að það sé út af fyrir sig illa varið tíma að hlusta á þetta, þá skaðar það ekki svo mikið, og íslenzkir hlustendur hafa vissulega dómgreind til þess að skilja þarna á milli og sjá, hvað það er, sem þýðingu hefur, og hvað er einber áróður. Gallinn er bara sá, eins og hv. 2. þm. Reykv. réttilega tók fram, að enn þá hefur umheimurinn fengið allt of lítið að vita um ástandið í Rússlandi, ekki vegna þess, að umheimurinn hafi ekki verið þess fús, heldur hafa valdhafarnir í Rússlandi af einhverjum ástæðum verið ófúsir að láta umheiminum þá þekkingu í té. Og það er vitað af öllum og engum kunnara en hv. 2. þm. Reykv., að frjáls ferðalög fréttaritara erlendra blaða þarlendis eru með öllu óheimil, og þar með er hinni alþjóðlegu fréttaþjónustu gert ómögulegt að starfa. Það er viðurkennt af öllum, að umheimurinn hefur ekki fengið þá vitneskju um Rússland, sem hann þyrfti. Það, sem um er deilt, er það, hvort sú vitneskja, sem hann fær gegnum Moskvaútvarpið, sé tæmandi eða ekki. Þeir hlustendur, sem gera sig ánægða með þá vitneskju, sem þeir fá í íslenzka útvarpinu eftir Moskvaútvarpinu, eru vissulega lítilþægir, og ég tek sannarlega undir það með hv. 2. þm. Reykv., að við þurfum að fá að vita miklu meira en þar hefur komið fram.

Ég verð að segja, að á dauða mínum átti ég von á dögunum, en ekki þeim undirtektum, sem hæstv. menntmrh. veitti þeim ummælum, sem ég lét hér falla á fyrra stigi þessarar umræðu. Ég hafði í einfeldni minni og barnaskap tekið það trúanlegt, að hæstv. ráðh. mælti af heilum hug þegar hann sagðist vilja tryggja hlutleysi útvarpsins. Og þegar hann lýsti því hér yfir, að hann ætlaði að nota samþykkt þessarar till. til þess að gera vissar ráðstafanir til að tryggja þetta hlutleysi, þá tók ég það sem góður og trúr stuðningsmaður hans í þeirri góðu trú, að hann meinti það, sem hann sagði, og benti honum á, hvað væri öruggasta leiðin til þess að tryggja þetta á þann veg, að Alþ. gæti við unað. Ég benti honum á, að eðlilegast væri, að útvarpsráð, sem er skipað fulltrúum allra flokka á Alþ., hefði þessa yfirstjórn, en ekki útvarpsstjóri og sá ráðherra, sem hverju sinni fer með útvarpsmál. Hæstv. ráðh. taldi, að í þessu væri fólgið vantraust á sig. Ég verð nú að segja, að til þess hafði hann ekkert tilefni. Hann hefur ekki enn þá verið ráðherra nema eitt ár, og þær lýsingar, sem hann gaf hér á fyrirrennurum sínum í embættinu og ekki sízt hv. þm. Str. og hv. þm. S.-Þ., þær voru vissulega ekki með þeim hætti, að hvorki hann né ég gætum verið rólegir, ef slíkir menn ættu nú að taka við yfirstjórn útvarpsins á ný. Og það skiptir ekki máli, þó að það sannist því miður undir umr. og enn þá betur við yfirlýsingu útvarpsstjóra í blöðunum skömmu síðar, að öll ræða hæstv. menntmrh. þetta varðandi hvílir á misskilningi og að hann fer að mestu leyti með. staðleysustafi, er hann talar um þessa menn og útvarpið. Þetta skiptir ekki máli í þessu sambandi. Maður eins og hann, sem hefur haldið klukkutíma ræðu til þess að færa þingheimi heim sanninn um, að fyrirrennurum sínum í embættinu væri ekki trúandi til þess að gæta hlutleysis stofnunarinnar, hann ætti manna helzt að skilja, hversu völt trygging það er fyrir hlutleysi útvarpsins í höndum slíkra manna, og þegar stoðin, sem þeir eiga að styðjast við, er ekki öruggari en útvarpsstjóri, sem brást nú hæstv. ráðherra, eftir að hann ætlaði að eiga svo mikið undir honum, sem raun ber nú vitni um. En það er meir en svo, að hæstv. ráðh. hafi sannað með ummælum sínum, að fyrirrennurum hans í embættinu var ekki trúandi, heldur verður að segja eins og er, að hæstv. ráðherra sýndi einnig, að jafnvel honum, sem ég veiti þó fullan stuðning, jafnvel honum getur maður lítið treyst og með þeim hætti, að býsna varhugavert virðist nú vera að láta þetta heyra undir hans yfirstjórn, a. m. k. ef hann ætlar að fara að gera sérstakar ráðstafanir til þess að tryggja það, sem hann kallar hlutleysi útvarpsins.

Hæstv. ráðh. hélt því hér fram, að í erindi starfsmannsins við fréttastofuna, Björns Franzsonar, hefði ekkert komið fram, sem réttlætti þær ádeilur, sem hann hefði orðið fyrir og mig minnir, að hæstv. ráðherra hafi sagt, að hann hefði engan hitt, sem gerði annað en að hlæja að þeim ásökunum, sem útvarpið hefði orðið fyrir af þessu tilefni. Nú vissi þó hæstv. ráðh. um undirtektir fjölmennra funda og um undirtektir þingheims, að allir þessir aðilar töldu, að þarna hefði þessi að öðru leyti mjög mæti fréttamaður gert sig beran að misskilningi á sínu starfi. Þrátt fyrir það er hæstv. ráðh. svo blindur í sinni skoðun, að honum finnst, að allir séu sér sammála um það, að þarna sé allt í bezta lagi, þó að allir aðrir segi, að þeir hafi engan hitt nema æstustu trúbræður ráðh., sem ekki fordæma a. m. k. þennan verknað, og hvað sem þeir álíta um frammistöðu útvarpsins að öðru leyti. Nú fer því fjarri, að ég vilji halda því fram, að hæstv. ráðh. í þessu fari með vísvitandi ósannindi eða vilji skrökva að þingheimi, alveg eins og ég vil taka fram að ég álít, að sá fréttamaður, sem hér braut af sér, hafi ekki vísvitandi brotið af sér, heldur verið í góðri trú, eins og ráðherra. En það viðfangsefni, sem hér er um að ræða, verður enn þá vandasamara vegna þess, að það sýnir, hversu viðhorfin eru gersamlega ólík, eins og einnig kemur fram í þessu útvarpserindi, sem hér hefur verið gert svo mjög að umræðuefni. Þar kemur í ljós, og ræðumaður undirstrikar þann skilning mjög í hinni löngu ræðu á dögunum, að ræðumaður telur, að það, sem hann kallar hið austræna lýðræði, sé í raun og veru fullkomnasta form lýðræðis. Og ég vil vekja athygli á því, að það er ekki rétt, eins og fram hefur verið haldið, að þessi ræðumaður hafi látið sér nægja að vitna eingöngu í erlenda rithöfunda máli sínu til stuðnings, heldur fer hann og með rangan — rökstuðning úr eigin brjósti þessu til sönnunar, sönnunar því, að í Rússlandi ríki allt það frelsi, sem tilheyri hinu borgaralega lýðræði, og auk þess komi það, sem þessi ræðumaður kallaði hið efnahagslega lýðræði, til viðbótar.

Raunar er á þessu einn galli. Þessir menn hafa fundafrelsi, málfrelsi o. s. frv., en eigi að síður er þó á þessu einn galli. Það kemur nefnilega fram í fyrra erindinu, að þeir verða allir að vera kommúnistar. Það mega engir halda fundi nema kommúnistar, engir skrifa nema kommúnistar, engir bjóða sig fram nema kommúnistar. Þetta kemur fram í erindinu. Það væri hlægilegt að halda því fram, að þetta væri fullkomnasta lýðræði, sem til er. Til þess að sýna, að ég fer hér með rétt mál og að Björn Franzson hefur haldið þessu fram, ætla ég að lesa smáklausu upp úr Þjóðviljanum frá 2. okt. 1945, þar sem ræðumaður kemst svo að orði: „Röksemdinni, að í Ráðstjórnarríkjunum sé aðeins um einn stjórnmálaflokk að ræða, svara þeir þannig, að tilvist margra stjórnmálaflokka í tilteknu landi sé í sjálfu sér enginn vitnisburður um lýðræði í því hinu sama landi, heldur um það, að í landinu séu margar stéttir, er hafi ólíkra hagsmuna að gæta, því að stjórnmálaflokkur sé ávallt fulltrúi ákveðinnar stéttar, en í landi þar sem stéttamunur sé útþurrkaður, sé í raun og veru ekki verksvið fyrir fleiri stjórnmálaflokka en einn.“

Felst ekki í þessu örugg viðurkenning á því, að þarna er aðeins einn stjórnmálaflokkur leyfður og að frelsi er aðeins leyft þeim, sem í þeim stjórnmálaflokki eru eða eru hans málstað hliðhollir, og að öðrum er frelsið meinað? Og það er eðlilegt, að þessir menn segi, að þetta sé bezta og fullkomnasta lýðræði, sem til sé, því að einn af þeirra spekingum hér, Jóhannes úr Kötlum, hefur lýst því yfir, að í lýðræðislöndum hafi hinir frjálsu stjórnmálaflokkar gerspillandi áhrif á stjórnmálamennina, og telur hann aðalkostinn á stjórnarfarinu í Rússlandi vera þann, að þar séu menn lausir við hin gerspillandi áhrif frjálsu stjórnmálaflokkanna. Þar er einn flokkur, sem ræður og menn fá að vera frjálsir meðan þeir eru honum sammála, en síðan er frelsið búið. Nei, við skulum ekki vera að ræða frekar um þetta. Hér eru á ferðinni tveir góðir og gegnir menn, hæstv. dómsmrh. og þessi útvarpsfyrirlesari, sem halda því fram í góðri trú og eru sannfærðir um það, að þetta sé bezta lýðræði í heimi. Okkur hinum sýnist þeir sjálfir sanna með ummælum sínum, að hér sé um fullkomið einræði að ræða og ekkert annað. Við höfum síður en svo á móti því, að þessir menn tali sem oftast í útvarp og á mannamótum, en þá verða að vera jafnir möguleikar. Þeir mega ekki lauma sér inn, þar sem þeir hafa einkaréttaraðstöðu. Það er það, sem menn fundu að framkomu Björns Franzsonar. Hann misnotaði trúnaðarstöðu, þar sem aðrir höfðu ekki aðgang en hann. Ég held nú, að þegar jafnvel svo skýrum og velviljuðum manni eins og hæstv. menntmrh., sem ég ber mikið traust til, getur sýnzt, að þetta sé í bezta lagi, þá held ég, að öllum öðrum en honum kunni nú að sýnast, að það sé betra, að fleiri manna ráð komi til. Ég hef ekki haldið öðru fram og vil segja hæstv. ráðh. í allri vinsemd, að ef á að gera ráðstöfun til þess að tryggja betur hlutleysi útvarpsins en gert er, þá verður sú ráðstöfun að vera sú, að láta útvarpsráð fá þessi mál. Og ég get fullvissað hæstv. ráðh. um það, að hvorki ég né margir aðrir góðir stuðningsmenn hans munu samþ. nokkra aðra nýja ráðstöfun í þessu efni.