06.11.1945
Neðri deild: 22. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 480 í B-deild Alþingistíðinda. (464)

5. mál, verðlagning landbúnaðarafurða o.fl. (heildarlög)

Frsm. 2. minni hl. (Bjarni Ásgeirsson) :

Herra forseti. Það er e. t. v. þýðingarlaust að ræða þetta frekar eftir 1. umr., því að þessu máli mun ætlaður framgangur. Ég vil þó undirstrika fáein atriði.

Í landbn. var meiri hl. á móti frv., en forseti deildarinnar kvaðst ekki geta greitt atkv. á móti því. Við álítum, að ákvæði 6 manna nefndar álitsins hefðu átt að koma fram síðastl. haust, því að við álítum enga breytingu hafa orðið. Það hefur verið deilt um 6 manna nefndar álitið, en ýmsir bændur líta svo á, að þar sé frekar of skammt gengið. Mótmæli hafa líka komið frá neytendum, en ég álít, að dómur 6 manna n. standi. Og það virðist eðlilegast að fela bændastéttinni þessi mál. Allar stéttir virðast hafa vald til að setja verð á vinnu og varning, án tillits til verðlags á þessu erlendis. Það er því ósanngjarnt, að bændur fái ekki sams konar vald.

Það var rætt um það við 1. umr., að með þessu fyrirkomulagi hafi bændur fengið þetta vald í hendur, en þetta hefur skýrzt svo nú, að séð er, að verðlagsvaldið er ekki hjá bændum. Engin stétt mundi láta sér lynda, að vera þannig svipt valdi yfir að ráða verði vinnu sinnar. Við í 2. minni hl. höfum borið fram brtt. um, að í stað búnaðarráðs komi stéttarsamband bænda. Það hafa sumir haldið því fram, að stéttarsamband bænda væri ekki formlega stofnað, en það er ekki rétt. Þetta samband er byggt á svo lýðræðislegum grundvelli sem unnt er, og er því eðlilegast og rétt, að því verði falið verðlagið. Og ég trúi ekki öðru en Alþ. verði vel við þessu. Það má telja eðlilegustu skipan þessara mála, að bændur fái verðlagið í sínar hendur. Það er mikil óánægja meðal bænda, að ríkisstj. ráði ein skipan þessara mála. Þess vegna gerðu þeir ráð fyrir því, að verðið innanlands yrði byggt á þessum grundvelli, hvað sem liði sölu á erlendum markaði. — Á síðasta þingi varð samkomulag um það á milli búnaðarþings og Alþ., getur maður sagt, að sex manna nefndar verðið var ekki látið koma til framkvæmda á innlendum markaði, m. ö. o. sú hækkun, sem bændur áttu heimtingu á að fá lögum samkvæmt, á síðasta hausti, var ekki látin fram koma, en samið var um það, að gegn því skyldi hitt koma, að ríkið tæki ábyrgð á þeim hluta framleiðslunnar, sem selja þyrfti á erlendum markaði, að hann yrði greiddur sama verði og sama vara á innlendum markaði. Nú verða bændur að taka á sig verðfall á útlendum markaði. En um leið var eðlilegt, að þeir gerðu kröfu til þess, að verðið á framleiðsluvörum þeirra á innlendum markaði yrði eins og sex manna nefndar álitið segir til um. En þetta hefur verðlagsnefnd ekki samþ., og afleiðingarnar eru þær, að t. d. verð á kjöti til bænda er stórum lægra nú í haust en í fyrra, þrátt fyrir það, að framleiðslukostnaður bænda hefur hækkað stórkostlega síðan í fyrra. Þetta geta bændur vitanlega ekki sætt sig við. Það er að nokkru bætt upp verðið á kjötinu, sem selt er á útlenda markaðinum, en nokkur hluti þess fjár, sem átti að fara til þess að bæta upp verðið fyrir kjöt á erlenda markaðinum, hefur verið tekinn til þess að lækka verð á saltkjöti innanlands, og þannig hefur verið skertur að stórum hluta sá skerfur, sem átti að fara til þess að bæta upp útlenda verðið. Þeir, sem gerst vita um þetta mál, telja útilokað, að bændur fái til líka eins hátt verð fyrir kjötið nú í haust og á síðasta ári. — Það er bæði þessi stefna og það, að verðlagningin á kjötinu er í höndum stjórnskipaðarar nefndar, sem er ástæðan til þess, að það er almenn óánægja með þetta fyrirkomulag. Hv. frsm. 1. minni hl. landbn. taldi, að með þessu fyrirkomulagi væri fengin stórkostleg réttarbót fyrir bændur. Ég veit ekki, hvað hann á við með því. Ég hef haldið því fram, að þetta sé réttarskerðing gagnvart bændum, en ekki réttarbót, því að þeir hefðu ekki þessi mál í sínum höndum með frjálsu fulltrúavali, heldur væri allt vald af stéttinni tekið um þetta og fengið í hendur ríkisstjórninni.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara um þetta mörgum fleiri orðum að sinni. 2. minni hl. landbn. hefur borið fram á þskj. 89 brtt. í þá átt, sem ég nú hef rætt. Verði þessar brtt. samþ., fylgjum við frv. Að öðrum kosti munum við greiða atkv. á móti því. — Um aðrar brtt., sem hér liggja fyrir, sé ég ekki ástæðu til að fara mörgum orðum.